Brunaútsala eða ekki?

Björgólfur Guðmundsson er óvenjulegur maður um flest. Það er ekki hver sem er sem ákveður, eftir að mannorði hans hefur verið rústað á grófan og að flestu leyti ósanngjarnan hátt, að eyða því sem eftir er ævinnar til að endurheimta það sem af honum var tekið. Þess hörmulegra er það hvernig til tókst og í þetta skipti þannig að fréttist um allan heim.

Hundruð milljóna fólks um allan heim veit hver maðurinn á teinóttu fötunum er, sem á West Ham.

Nú hlakkar í ýmsum sem hafa horn í síðu Björgólfs og þykir í góðu lagi að sparka í liggjandi mann og kasta í hann steinum. Ég hygg að margir muni þar kasta úr glerhúsi og ætla ekki að kasta í hann.

Menn geta haft mismunandi skoðanir á Björgólfi en eitt er víst að hann hefur sýnt það alla tíð að honum er umhugað um samfélagið sem hann lifir í og hefur sýnt það í verki í smáu og stóru.

Ég tel í lagi að upplýsa það, að þegar við hittumst eitt sinn fyrir tilviljun í Landsbankanum í vor, kom í ljós að hann hafði fylgst með skrifum mínum um einstætt gildi gamla flugturnsins á Reykjavíkurflugvell. Hann bað mig um að útvega tilskilin leyfi fyrir því að við máluðum turninn saman, - það væri til skammar hvernig hann liti út.

Ég varð hissa og þó ekki. Þetta var Björgólfi líkt. Það er ekki hver sem er sem er tilbúinn til að fara úr sparigallanum og taka til við að mála gamla byggingu á sama tíma sem hann getur verið að vinna við það að græða meiri peninga.

Ég gekk í málið, sem reyndist ótrúlega flókið en þó leysanlegt. En þá dundu ósköpin yfir og nú sé ég ekki hvernig af þessu getur orðið.

Á sama tíma og ég tel nauðsynlegt að allir sem áttu þátt í hruninu mikla axli ábyrgð, hver á sinn hátt, ætla ég ekki að sparka í Björgólf Guðmundsson.

Björgólfur þurfti rúmlega áratug til að reisa líf sitt úr rústum á sinni tíð. Hann þarf líka að fá tíma núna, þótt æviklukkan gangi á hann og óvíst sé um viðbótartíma vegna meiðsla. Ef hann metur það svo að einhverjir þeirra sem hlakka yfir óförum hans ætli sér að hagnast á því að kaupa West Ham á brunaútsölu og að það sé rétt mat hjá honum, eigum við að styðja hann í því að fá sem mest út úr félaginu ef það er hægt, bæði hans vegna og okkar vegna.

Hann hefur sagst ætla að leggja sitt af mörkum til að reisa Ísland úr rústum og ég treysti því að hann standi við það. Þá er öllum fyrir bestu að hann geti komið heim með sem mest af því sem bjargað verður.

Vonandi verður gamli flugturninn málaður og honum fenginn sá sess sem honum ber þótt einhverjir aðrir en við Björgólfur klárum það nauðsynlega verk.


mbl.is Björgólfur hafnar tilboðum í West Ham
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Björgúlfur Guðmundsson á eftir að rísa upp. Það er ég sannfærður um.  Það er rétt hjá þér að Björgúlfur hefur oft sýnt það í verki að honum er umhugað um samfélagið.  Hann á eftir að aðstoða við að reisa Ísland úr rústum. Það kæmi mér ekki á óvart.

Ágúst H Bjarnason, 1.12.2008 kl. 12:58

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Jamm, það heitir að axla ábyrgð.

Eftir það má mála alla heimsins flugturna.

Þorsteinn Briem, 1.12.2008 kl. 13:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband