3.12.2008 | 00:26
Fleiri vilja fá botn í málið.
Í útvarpsfréttum í hádeginu í dag var haft eftir Ögmundi Jónassyni, formanni þingflokks VG, að hann teldi rétt að þjóðin fengi að kjósa um aðild að ESB eftir að búið væri að fara í viðræður við ESB og fá út, hvaða kjör Íslendingum byðust þar.
Varla var hægt að skilja þetta öðruvísi en svo að það þyrfti að fara að höggva á þennan hnút og að það væri ekki hægt að taka endanlega ákvörðun í þjóðaratkvæði nema að fyrir lægi samkomulag um aðildina.
Þetta þykja mér nokkur tíðindi úr herbúðum VG.
Ef það er hins vegar hugsun Ögmundar að hægt sé að kanna hjá ESB hvernig samkomulag gæti orðið án aðildarumsóknar held ég ekki að það sé raunhæfur kostur. Embættismennirnir hjá bandalaginu hafa ekkert pólitískt umboð til þess að segja til um þetta í einhvers konar þreifingum.
Engin leið er að vita hver kjörin yrðu nema með alvöru viðræðum þar sem fulltrúar Íslendingar væru með vel ígrunduð samningsmarkmið í höndum.
Ég get því ekki skilið Ögmund öðruvísi en að hann sé meðmæltur aðildarumsókn en að hann geti eftir sem áður verið þeirrar skoðunar að ekki eigi að gerast aðilar, - en sætti sig að sjálfsögðu við úrslit þjóðaratkvæðagreiðslu.
Steingrímur J. Sigfússon sagði hins vegar í Íslandi í dag á Stöð tvö að hugsanleg aðild að ESB gæti ekki orðið á dagskrá fyrr en eftir kosningar.
Myndi jafngilda stjórnarslitum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hver er þín skoðun á þessu máli Ómar ?
kv.gmaria.
Guðrún María Óskarsdóttir., 3.12.2008 kl. 00:58
Mín skoðun er hin sama og í nýjustu ályktun stjórnar Íslandshreyfingarinnar - lifandi lands, og einnig í samræmi við það sem við sögðum fyrir kosningarnar 2007.
Fyrir kosningarnar vildum við að þegar í stað yrði gert klárt fyrir það að geta sótt um aðild án tafar þegar og ef sú staða kæmi upp að það yrði talið nauðsynlegt. Sett yrðu niður skýr samningsmarkmið sem samninganefnd okkar hefði tilbúna og grípa mætti til.
Þetta viljum við enn.
Í yfirlýsingunni núna viljum við að þjóðin kjósi sem allra fyrst um það hvort við eigum að sækja um aðild og rjúfum þar með þá pattstöðu sem hefur falist í því að þetta mál hefur haldið stjórnmálum hér á landi í gíslingu með sundrungu sem hefur riðlað átakalínum í öðrum málum og klofið alla flokka nema Samfylkinguna.
Ef þjóðin felldi það að sótt yrði um þá yrði staða málsins óbreytt frá því sem verið hefur.
Ef þjóðin samþykkti að sótt yrði um yrði þjóðaratkvæðagreiðsla á ný um fyrirliggjandi samning.
Ómar Ragnarsson, 3.12.2008 kl. 13:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.