6.12.2008 | 01:53
"Það sem er vont fyrir GM..."
"Það sem er gott fyrir General Motors er gott fyrir Bandaríkin." Þess setning átti við þegar GM framleiddi helminginn af öllum bílum í Bandaríkjunum og Bandaríkin framleiddu 80% af öllum bílum í heiminum.
Nú er hægt að snúa henni við og segja: "Það sem er vont fyrir GM er vont fyrir Bandaríkin."
Og ekki bara það. Ef við Íslendingar gerum einmitt núna, sem margir vilja, að tengja okkur við hinn skjögrandi risa í vestrinu, þá verða örlög hins helsjúka bandaríska bílaiðnaðar líka vond fyrir okkur.
Ég hef áður bloggað um þann sjúkdóm sem hrjáir bandarískan bílaiðnað og tengist versnandi gæðum, röngum ákvörðunum og óraunsæi sem stafar af því að yfirmenn jafnt sem starfsmenn bandaríska bílaiðnaðarins urðu værukærir, ofmátu stöðu sína og vanmátu keppinautana.
Í íþróttum gildir lögmálið: Enginn er betri en andstæðingurinn leyfir. Sömu mennirnir og keyrt hafa bandarískan bílaiðnað í þrot, koma nú og vilja komast á opinbert framfæri.
Bandaríkjamenn horfast í augu við svipað og við Íslendingar: Það eru þrjú orð sem byrja á stafnum e: Tvö fyrstu hugtökin eru endurmat og endurnýjun og þau eru forsenda fyrir þriðja hugtakinu sem öllu varðar: Endurreisn.
Ég á stóra bók um sögu GM og Chevrolet og hef lesið hana mér til mikillar ánægju. Chevrolet og þar með GM sló í gegn á árunum 1927-29 þegar bílarisinn Ford var orðinn værukær og sofnaði á verðinum. Hinn mikli brautryðjandi Ford var orðinn gamall, staðnaður og þrjóskur og skynjaði ekki kall tímans og styrkleika keppinautana.
Sem dæmi má nefna að Ford viðhélt teinahemlum sjö árum lengur en keppinautarnir og heilum öxlum og þverfjörðum í 14 ár eftir að keppinautarnir höfðu tekið upp nútímalega fjöðrun. Það er dapurlegt hvernig risinn GM fellur nú á sama hátt og Ford forðum,
Raunar riða allir bandarísku risarnir til falls eins og risaeðlur, hvers tímaglas er tæmt.
Framtíð bílarisa á bláþræði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það er ljótt til þess að hugsa að flestir bílaframleiðendur vestanhafs eiga núna í alvarlegum erfiðleikum. Samdráttur í bílakaupum og aukin krafa á sparneytnari bíla. Ég horfi oft á þessu "trucks" eða trukka, pallbíla sem líta út eins og fjöll á vegunum og mér verður hugsað til Kyoto samkomulagsins. Hvernig getur ein þjóð staðið utan við veraldarþekjandi samkomulag um minnkun mengunar heimsins. Þetta er eins og þegar allir keppast við að fara hreinir í sundlaugarnar og hreinsa allt umhverfis þær og síðan stendur einn á laugarbakkanum reykjandi, kastandi stubbunum út um allt. Í þokkabót tekur hann fram á sér skömmina og pissar í sundlaugina. Ég sé Amerísku heimsálfurnar smá þannig. Þeir eru að vinna mót því sem restin af hinum vestræna heimi er að reyna að gera til að bjarga jörðinni frá glötun.
Minni og sparneytnari bílar hafa bara ekki átt upp á pallborðið í USA. Fólkinu þar virðist vera sama. Minni og sparneytnari bílar eru ekki hluti af ameríska draumnum.
En aftur að bílaframleiðendunum. Núna var Ford sömuleiðis, ekki bara General Motors (GM) að gefa upp slæmar afkomutölur. Ford á VOLVO. Og núna er verið að tala um að selja VOLVO einhverjum öðrum. Búið er að spara mikið í rekstri VOLVO hér í Svíþjóð og hefur um 11 000 manns verið sagt upp störfum núna sl. 2 mánuði. Þessi bylgja frá USA er greinilega farin að hafa áhrif víðar og teygja sig inn í velferðarríkin, ríki á borð við Svíþjóð.
Baldur Gautur Baldursson, 6.12.2008 kl. 07:45
Nú er það rafbílavæðingin sem gildir og ætlunin er að rafbílavæða Hawaii á næstunni:
"Shai Agassi, stofnandi og forstjóri Better Place, segir rafbílana munu kosta álíka mikið og bensínbíla gera í dag en með tímanum muni þeir verða talsvert ódýrari vegna þess þeir séu með helmingi færri íhluti en bensín- og dísilbílar."
http://www.mbl.is/mm/frettir/taekni/2008/12/04/hawaii_rafbilavaedist/
Og ekki verður nú ánægja Bandaríkjamanna minni þegar gorgeirinn í olíuríkjunum snarminnkar vegna mikils samdráttar í olíusölu, til dæmis Rússum og Venesúelabúum.
Hins vegar er eðlilegt að Volvo rúlli, enda merkir Volvo Ég rúlla, og fyrirtækið ætti jafnvel að heita Revolver, Rúllar aftur. Líftími fyrirtækja er nú yfirleitt mun styttri en manna og sárafá íslensk fyrirtæki eru eldri en fimmtug.
"Yfirgnæfandi meirihluti Svía vill að sænska ríkið komi bílaframleiðandanum Volvo til bjargar ef eigandinn, Ford í Ameríku, getur það ekki. Samkvæmt könnun Dagens Nyheter óttast 60% Svía að Volvo fari á hausinn.
68% segja að ef það gerist beri sænska ríkinu skylda til að hlaupa undir bagga þangað til ástandið lagist. Volvo er sænskara en allt sem sænskt er, sænskara en bæði kjötbollur og IKEA, sagði einn sem spurður var."
Þorsteinn Briem, 6.12.2008 kl. 11:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.