7.12.2008 | 18:21
VG tekur upp mál Íslandshreyfingarinnar.
Eins og ég hef bent á í bloggpistlum og kemur einnig fram í nýjustu ályktun stjórnar Íslandshreyfingarinnar, hafa íslensk stjórnmál verið í gíslingu ESB-málsins, sem hefur klofið flokka og truflað samskipti flokkanna á öðrum sviðum.
Í ályktun okkar, sem sjá má á heimasíðunni islandshreyfingin.is, lögðum við til, eins og VG, að haldnar yrðu tvennar þjóðaratkvæðagreiðslur, eingöngu um þetta mál. Þær gætu þess vegna verið samstíga alþingiskosningum, sem yrðu á næsta ári.
Íslandshreyfingin hefur líka lagt til aðgerðir umfram aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að forðast fjöldagjaldþrot heimilanna. Þar verður að feta vandrataða leið, því að takmörk eru fyrir því hve mikið ríkissjóður getur tekið á sig vegna þessa. Hitt er ljóst að aðgerðir ríkisstjórnarinnar duga hvergi nærri til og ef ekkert verði að gert verði tjón allra, líka ríkissjóðs, meira en ef aðgerðum verði beitt.
Athyglisvert er hins vegar að sjá, að enginn hinna flokkanna tekur undir kröfu Íslandshreyfingarinnar - lifandi lands, um að lögleiða í kosningalögum þegar í stað reglur um persónukjör í alþingiskosningum og niðurfellingu 5% þröskuldsins í fylgi á landsvísu.
Endurbót á þessu sviði er prófsteinn á raunverulega lýðræðisvilja hinna flokkanna. Ef þeir hafa ekki áhuga á þessu vilja þeir áfram hafa hér sama ástand og verið hefur, að meirihluti þingmanna verði áfram í svonefndum "öruggum sætum", þ.e. að vera The Untouchebles."
Vilja þak á verðtryggð lán og frystingu uppboða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það þarf engan veginn að kjósa um samningsmarkmið Íslendinga.
Þau hafa alltaf verið þau sömu:
Allt fyrir ekkert!
Þorsteinn Briem, 7.12.2008 kl. 19:56
Með allri virðingu er fylgi Íslandshreyfingarinnar frekar lítið, þó stefnuskráin sé góð. VG hafa liðkað til og gefið þar með grænt ljós á samstarfi við aðra flokka sem vilja skoða ESB málin, hafa þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er þá helst Samfylkingin sem kemur til greina í nýju stjórnarsamstarfi og e.t.v. Íslandshreyfingarinnar til að styrkja meirihlutann. Hver veit hvað verður? Allavega held ég að fólk almennt sé orðið þreytt á tuðinu og endurtekningunum í Sjálfstæðisflokknum,þeir segja nei, svo já við sömu spurningunni. allt er svo mikið leyndó. veit ekki hvernig þetta fer, svei mér þá. Mér finnst verst hvernig Samfylkingin fer með einn ráðherra sinna , hann Björgvin. Samfylkingin ætti að bjóða honum námskeið í að urra, hvæsa og vera reiður, hækka röddina og sækja sinn rétt af einurð. Ekki þessari endalausu prúðmennsku.
Nína S (IP-tala skráð) 7.12.2008 kl. 20:49
Ástæða þess Ómar að VG, ekki frekar en aðrir flokkar, er að ræða nú á þessum krísutímum 5% lágmarkið er væntanlega sú að þetta hefur lítið með núverandi ástand að gera, hagsmuni þjóðarinnar eða hagsmuni VG.
Það er fyrst og fremst Íslandshreyfingin sem hefur hagsmuni í því máli í dag.
Skýrar yfirlýsingar um afnám flokkaframboðs, sókn í gott fólk og skýr afstaða MEÐ sjálfstæði þjóðarinnar eru allt mál sem að ég tel að gætu tryggt Íslandshreyfingunni mjög aukið fylgi.
En til þess að það verði, verður að hætta að lýsa yfir og fara að gera. Minna mas og meiri framkvæmd. Væri það ekki áhugavert?
Baldvin Jónsson, 7.12.2008 kl. 22:10
Takk fyrir athugasemdina, Baldvin.
Það er ekki bara Íslandshreyfingin sem getur orðið fyrir barðinu á 5% þröskuldinum. Það gætu orðið 3-4 smáflokkar með allt að 15% atkvæða sem dyttu út.
Ég átta mig ekki á því hvað þú meinar með "afnámi flokkaframboðs." Algert afnám þess held ég að sé ekki leiðin til lýðræðis sem skilar af sér skilvirku stjórnarfari.
Hins vegar má hugsa sér tíu einmenningskjördæmi: Reykjavík, nágrenni Reykjavíkur, Vesturland, Vestfirðir, Norðvesturland, Akureyri-Eyjafjörður, Norðausturland, Austurland, Suðurland og Suðurnes. Síðan yrðu kjörnir ca 40-50 þingmenn af landslistum, sem jöfnuðu þingmannafjölda eftir kjörfylgi, og kjör allra á listunum yrði persónubundið.
Þetta myndi gefa sterkum einstaklingum utan flokka tækifæri til að komast á þing. Með afnámi 5% reglunnar ykust líkur á framboði lista sem gæfu einstaklingum færi á þáttöku.
Eins og nú er hliðrar fólk sér við að taka sæti á flokkslistum.
Íslandshreyfingin gæti barist fyrir tvennu: Annars vegar sem forgangsmál að breyta því sem hægt er að breyta strax í kosningalögunum í lýðræðisátt, og hins vegar að breyta því sem er stjórnarskrárbundið.
Í þeim efnum mætti hugsa sér að kjósa forsætisráðherra/forseta sérstaklega og leggja forsetaembættið í núverandi mynd niður. Þjóðhöfðingja þurfum við að hafa. Þjóðhöfðingjum opnast dyr erlendis sem geta verið dýrmætar fyrir þjóðina.
Lítum bara á Bandaríkin til samanburðar: Ef einn maður getur verið þjóðhöfðingi þar og gegnt hlutverki forsætisráðherra jafnframt hjá þúsund sinnum stærri þjóð, hlýtur það að vera hægt hér.
Ómar Ragnarsson, 7.12.2008 kl. 23:45
Frjálslyndir og Framsókn eiga við sama vanda að glíma núna en trúlega vilja þessir flokkar ekki viðurkenna að þessi 5%-regla verði vandi fyrir þá í næstu Alþingiskosningum.
Margir munu ekki kjósa þessa tvo flokka og Íslandshreyfinguna af ótta við að þeir komi ekki mönnum á þing vegna 5%-reglunnar.
Því gæti vel farið svo að einungis þrír flokkar kæmu mönnum á þing í næstu Alþingiskosningum.
Þorsteinn Briem, 8.12.2008 kl. 00:17
Kosningarkerfi Ísland virkar svona:
Flokkur A fær 100 atkvæði
flokkur B fær 40 atkvæði.
A fær fyrsta þingmann út á 100 atkvæði deilt með númeri þingsætisins sem flokkurinn er að fá. 100/1.
næsta þingsæti rennur einni til A vegna þess að þeir eru með 50 útaf 100/ 2 (þingamður A nr. 2)
sæti nr. 3 fer svo til B vegna þess að þeir eru með 40/1.
sæti nr 4 fer svo til A vegna þess að 100/3 er meira en 40/2. og svo koll af kolli.
Til að fella fyrsta annan mann VG (síðasta kjördæmakjörna þingmann í Reykjavík norður) hefði Íslandshreyfingin þurft 1259 fleiri atkvæði.
Eina leiðinn til þess að auka vægi hvers atkvæðis eins og þú hefur lagt til væri að auka fjölda þingmanna.
Fannar frá Rifi, 8.12.2008 kl. 02:06
til að halda því til haga þá voru í RVK norður 6108 atkvæði sem greidd voru til flokka sem ekki fengu mann á þing.
Fannar frá Rifi, 8.12.2008 kl. 02:08
Lög um kosningar til Alþingis nr. 24/2000:
108. grein. Þau stjórnmálasamtök koma ein til álita við úthlutun jöfnunarsæta sem hlotið hafa a.m.k. fimm af hundraði af gildum atkvæðum á landinu öllu."
Ef landið hefði verið eitt kjördæmi, sem það á að sjálfsögðu að vera, og engin lágmarksregla verið um atkvæðafjölda, hefði Íslandshreyfingin fengið tvo þingmenn með sín 5.953 atkvæði í síðustu Alþingiskosningum.
Ísland er hins vegar örríki, hefur því ekkert með 63 þingmenn að gera, og 50 þingmenn er nóg fyrir þjóðina. Miðað við 50 þingmenn, 5.953 atkvæði og landið sem eitt kjördæmi hefði Íslandshreyfingin aftur á móti einnig fengið tvo þingmenn í síðustu Alþingiskosningum.
Sjálfstæðisflokkurinn hefði fengið 18 þingmenn í stað 25, Samfylkingin 13 í stað 18, Vinstri grænir sjö en ekki níu, Framsókn sex þingmenn í staðinn fyrir sjö og Frjálslyndir fjóra þingmenn, jafn marga og þeir fengu í kosningunum.
Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar hefði því fallið með 24 þingmenn, eins og hún átti að sjálfsögðu að gera. Og miðað við 63 þingmenn hefði ríkisstjórnin einnig fallið með 23 þingmönnum Sjálfstæðisflokks og sjö þingmönnum Framsóknar. Samfylkingin hefði fengið 17 þingmenn, Vinstri grænir níu og Frjálslyndir fimm þingmenn.
Í báðum tilfellum hefði Íslandshreyfingin því fellt ríkisstjórnina með tveimur þingmönnum.
Og einstaklingur, sem hefði boðið sig fram í kosningunum samkvæmt þessum reglum, hefði einungis þurft 2.892 atkvæði til að komast á þing, miðað við 63 þingmenn, en 3.644 atkvæði miðað við 50 þingmenn.
Þetta er kallað lýðræði. Núverandi fyrirkomulag heitir hins vegar flokksræði.
Þorsteinn Briem, 8.12.2008 kl. 07:04
Ómar, það sem að ég á við með flokksframboð er núverandi kerfi.
Kerfi þar sem að fólk kýs flokk en ekki fólk í kjörklefanum. Í minni flokkum er líklegra að geti ríkt lýðræði sé farin leið prófkjörs. Í stærri flokkunum hins vegar veldur langvarandi barátta upp valdastigann þar því að enginn hefur aðrar skoðanir en yfirlýstar skoðanir flokksins loksins þegar að þeir/þær komast í góð sæti.
Það verður því bara áfram þetta sama spillingarfen á Íslandi um ókomin ár trúi ég, verði ekki samþykkt að kjósa fólk í stað flokka.
Baldvin Jónsson, 8.12.2008 kl. 10:17
miðað við stjórnarskránna, þá er auðveldara að afnema lýðræðið í landinu en að breyta kjördæmunum og skipan þeirra. 50% atkvæða tveggja þinga þarf til að breyta öllum greinum stjórnarskrárinar nema þeim sem fjalla um kjördæmaskipan landsins. til þess að breyta þeim þarf 75% atkvæða tveggja þinga. þannig að umræðan um þetta er á mjög hæppnum nótum.
Fannar frá Rifi, 8.12.2008 kl. 10:18
Fannar. Breyta þarf Stjórnarskránni rétt fyrir og eftir næstu Alþingiskosningar til að Ísland geti gengið í Evrópusambandið, þannig að þá er alveg eins hægt að segja að umræðan um það mál sé "á mjög hæpnum nótum" vegna þess að breyta þurfi Stjórnarskránni.
En það er nú engan veginn flókið mál að breyta henni og það var til dæmis gert við Alþingiskosningarnar 1991 og 1995.
Stjórnarskrá Íslands:
79. grein. Tillögur, hvort sem eru til breytinga eða viðauka á stjórnarskrá þessari, má bera upp bæði á reglulegu Alþingi og auka-Alþingi. Nái tillagan samþykki skal rjúfa Alþingi þá þegar og stofna til almennra kosninga að nýju. Samþykki Alþingi ályktunina óbreytta skal hún staðfest af forseta lýðveldisins og er hún þá gild stjórnskipunarlög."
Þorsteinn Briem, 8.12.2008 kl. 12:05
Steini. Nei ég sagði ekki að sú umræða væri hæppin að hægt væri að breyta stjórnarskránni. mér finnst mjög ólíklegt að stjórnarskránni verði breytt eða tillögur um breytingu verði lagðar fyrir lok þessa kjörtímabils. sérstaklega ef kosið verður fyrr.
Ég sagði að breytingar á núverandi kjördæmaskipan sem rituðer í stjórnarskránna þarf 75% þingmeirihluta. allar aðrar greinar þurfa einungis meirihluta atkvæða, 51%.
Steini. ESB er að falla. Sambandið getur ekkert gert fyrir aðildarríkinn. Ungverjaland fóru bón leiðina til IMF og ESB gat ekki hjálpað. Lettar eru að fara sömuleið og þó eru þeir EMR II gjaldmiðlatenginguna sem Danir hafa og í ESB.
ESB er gagnslaust samband. Ef það getur ekki hjálpað aðildarríkjunum í kreppu hvaða gagn er þá að því?
Fannar frá Rifi, 8.12.2008 kl. 12:32
Fannar. Að sjálfsögðu hangir hundurinn á roðinu eins lengi og hann getur í þessum kosningamálum, enda þótt augljóst sé að núverandi kosningakerfi er engum til góðs, nema stærstu flokkunum og því ólýðræðislegt.
Um 70% af verðmæti útflutnings okkar Íslendinga fóru til Evrópusambandsríkjanna árið 2006 og þá voru tæp 60% af verðmæti innflutnings okkar frá þeim ríkjum.
Austur-Evrópuríkin, sem nú eru í Evrópusambandinu, voru fátæk kommúnistaríki fyrir tiltölulega fáum árum og enginn getur búist við að þau verði á nokkrum árum með ríkustu löndum í heiminum, eins og Vestur-Evrópuríkin eru. Hvað þá að þau ættu ekki að vera núna mjög viðkvæm fyrir áföllum eins og þau sem nú dynja yfir heimsbyggðina.
Því er það engan veginn einkennilegt að Lettland og Ungverjaland þurfi nú á aðstoð Alþjóða gjaldeyrissjóðsins að halda. Úkraína og Georgía munu trúlega einnig ganga í Evrópusambandið og þau lönd eru enn verr stödd fjárhagslega en Lettland og Ungverjaland.
Töluvert fé hefur því verið flutt undanfarið frá Vestur-Evrópu til Austur-Evrópu til að byggja upp efnahag þeirrar síðarnefndu og gera hana að mun betri og arðvænlegri markaði fyrir Vestur-Evrópu en hún hefur verið undanfarið. Einnig fyrir okkur Íslendinga.
Ég sé ekkert að því að Evrópusambandsþjóðirnar geti keypt hér aflakvóta til að veiða upp í innan hvers árs, því þær fengju ekki rétt til þess nema við fengjum sama rétt til kaupa á veiðiheimildum þeirra. Við höfum lengi átt útgerðir og fiskvinnslufyrirtæki til dæmis í Þýskalandi, Bretlandi og Frakklandi, og selt út um alla Evrópu fisk sem bæði við og aðrir höfum veitt.
Ekki veitir nú mörgum útgerðum og fiskvinnslufyrirtækjum hér af erlendu fjármagni til að styrkja sinn rekstur og að sjálfsögðu má það vera hlutafé, rétt eins og við eigum nú þegar í sambærilegum fyrirtækjum í Evrópusambandslöndunum. Þannig keypti til dæmis Samherji útgerðarfyrirtæki í Þýskalandi og sú útgerð hefur veitt upp í aflakvóta Evrópusambandsríkjanna.
http://www.samherji.is/
Íslenskur landbúnaður framleiðir um helming þess matar sem við neytum hér og ólíklegt er að við minnkuðum neyslu á innlendum mjólkurafurðum, svo einhverju næmi. Auk þess myndi mjólkurframleiðsla hér að öllum líkindum njóta verulegra styrkja frá Evrópusambandinu, sem myndi skilgreina íslenskan landbúnað sem heimskautalandbúnað.
Þá er vel hugsanlegt að við fengjum undanþágu hvað snertir innflutning á ákveðnum kjötvörum vegna hættu á sjúkdómum í dýrum sem hér hafa lengi verið einangruð.
Og engin hætta er á öðru en að við höldum áfram að kaupa hér lambaket dýru verði, enda er það villibráð sem lifir á timíankryddi (blóðbergi).
Í byrjun þessa árs var reiknað með að ef hér yrði tekin upp evra myndu vaxtagreiðslur af 20 milljóna króna láni til húsnæðiskaupa lækka um 700 þúsund krónur á ári, verð á neysluvarningi lækkaði að meðaltali um 15% og viðskipti okkar við aðildarlönd Efnahags-og myntbandalags Evrópu (EMU) ykjust um allt að 60%.
Einnig var reiknað með að árlega myndi sparast um tólf milljarða króna viðskiptakostnaður en talið er að viðskipti á evrusvæðinu séu nú allt að 80% meiri en þau væru án evrunnar.
Á evrusvæðinu er rekin sameiginleg peningamálastefna og vextirnir eru þeir sömu á svæðinu. Seðlabanki Evrópu fer með yfirstjórn peningamála, ákveður vextina og hefur að leiðarljósi að halda niðri verðbólgu.
http://www.esb.is/policies/emu.htm
Ég held að við ættum að láta þessar gagnstæðu skoðanir okkar duga hér, enda er þetta mál ekki umfjöllunarefnið í þessari færslu Ómars.
Þorsteinn Briem, 8.12.2008 kl. 15:59
Þú komst nú á undan með kommúnismann og bjargaðir með honum öllum heiminum, Sveinn Elías.
Þorsteinn Briem, 8.12.2008 kl. 22:04
Hver kjósandi á að mínu mati að hafa þann rétt að fá að kjósa hvort sem hann vill flokk eða einstaklinga. Fljótlegasta breytingin í lýðræðisátt er sú, sem ekki þarfnast breytingar á stjórnarskrá. Slíka breytingu er hægt að framkalla strax í næstu kosningum.
Flokkarnir fái að raða fólki á lista sína í núverandi kjördæmum til að auðvelda þeim kjósendum sem vilja bara kjósa flokkinn en hafa engan áhuga á að hrófla við röð manna á honum. Þetta fólk setur x við listann og lætur það duga og lætur þá kjósendur ráða sem vilja raða á listann með því að skrifa tölustafi fyrir framan nöfnin.
Kjósendurnir sem vilja hafa áhrif á röð manna á listanum, setja fyrst x við listann og raða síðan fólkinu á listanum að vild sinni frá einum upp í þingmannatölu kjördæmisins, ekki færri en 6 og ekki fleiri en 12.
Á þennan hátt er girt fyrir það að nokkur sá komist á þing sem ekki hefur persónulega fengið til þess umboð hjá þeim sem notfæra sér persónukjörið.
Fái einhverjir á listanum ekkert persónulegt atkvæði gildir röð flokksins, annars hefur hún ekkert gildi.
Ómar Ragnarsson, 9.12.2008 kl. 01:28
Ómar. þessi lög eru í gildi. þú getur endurraðað á listann og eða strokað út. málið er að þar til í síðustu kosningum þá var það aldrei notað. að tveir menn hafi lækkað um sæti (Árni og Björn) er í fyrsta skipti svo ég viti til.
það sem fordæmið er komið er mjög líklegt og nánast öruggt að í næstu kosningum muni listar og staða frambjóðenda á þeim falla eða rísa.
Fannar frá Rifi, 9.12.2008 kl. 13:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.