Fleiri bætast á vagninn okkar.

Fyrr í haust hefur það verið fært fram í nokkrum bloggpistlum mínum að taka þurfi ESB-málið út úr farvegi flokkastjórnmála og kjósa sérstakega um hvort sækja eigi um aðild. Rétt er að minna á skýra ályktun stjórnar Íslandshreyfingarinnar í þessa veru og um önnur mikilvæg mál nú um stundir, sem sjá má á heimasíðu flokksins.

Nú bætast sífellt fleiri á þennan vagn hjá okkur, nú síðast VG, Bjarni Benediktsson, Illugi Gunnarsson og Björn Bjarnason.

Áður hafði Björn komið yfir á vagn okkar kosningastefnu, að búa þyrfti til vegvísi að inngöngu með því að hafa aðildarumsókn með samningsmarkmiðum til reiðu þegar og ef til samningaviðræðna kæmi.

Þeir Bjarni og Illugi ræða líka mjög lauslega um breytingar í lýðræðisátt, en í því máli hefur Íslandshreyfingin mjög skýra og ákveðna stefnu, sem sé þá að breyta kosningalögunum strax og kjósa eftir þeim nýju reglum í næstu kosningum, en þess utan þarf að drífa í öðrum breytingum, sem kalla á breytingar á stjórnarskrá.


mbl.is Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildarumsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Iceland's prime minister has announced the set-up of a commission to investigate joining the European Union. An initial plan has already been drafted by the country's foreign ministry that would see a membership application made in early 2009, aiming for entry some time in 2011."

http://en.wikipedia.org/wiki/Future_enlargement_of_the_European_Union#Iceland

Þorsteinn Briem, 13.12.2008 kl. 23:06

2 identicon

Þarf að breyta stjórnarskránni til að hefja samræður um hugsanlega aðildarumsókn að ESB?

 Hvernig er hægt að taka ESB málið úr farvegi stjórnmálaflokka?

Hversvegna gefurðu okkur ekki netfang Íslandshreyfingarinnar til að spara okkur sporin?

Agla (IP-tala skráð) 13.12.2008 kl. 23:27

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ákveði ríkisstjórnin að sækja um aðild að Evrópusambandinu sendir hún umsóknina til Ráðherraráðs sambandsins sem beinir þá til Framkvæmdastjórnar þess að meta hvort Ísland er hæft til að verða fullgildur meðlimur í sambandinu. Og Framkvæmdastjórnin mælir þá væntanlega strax með því við Ráðherraráðið, þar sem Ísland er á Evrópska efnahagssvæðinu.

Aðildarviðræðurnar gætu því tekið innan við eitt ár og þegar aðildarsamningurinn liggur fyrir þarf að fara hér fram þjóðaratkvæðagreiðsla um samninginn.

Alþingi þarf einnig að breyta 21. grein Stjórnarskrárinnar, rétt fyrir og eftir næstu Alþingiskosningar, til að Ísland geti gengið í Evrópusambandið og venjulega ganga ríki í sambandið næstu áramót eftir að samningar og niðurstöður úr þjóðaratkvæðagreiðslu liggja fyrir.

Þorsteinn Briem, 14.12.2008 kl. 00:26

4 identicon

Leyfi mér að senda hér inn fyrir neðan sem ég fann á Fullveldi.blog.is Ragnar Arnalds er fyrrum ráðherra og þingmaður og finnst mér gott að fylgjast með honum hann hefur mikla yfirsýn í ESB málunum.

Það sem við kjósendur þurfum á að halda hvort við erum með eða á móti ESB aðild og svo í framhaldinu hvort kjósendur vilji taka upp evru í stað krónu er að það verði upplýst umræða um þessi mál.

Það væri góð byrjun að Íslensk yfirvöld (Ingibjörg Sólrún) drifi sig í því að láta þýða nýju stjórnaskrá ESB á okkar tungumál því þá ætti það að vera tryggt að allir geti tekið afstöðu skammlaust með eða á móti þegar og ef kæmi til kosninga um það hvort við viljum inngöngu eða ei í Evrópubandalagið. 

Það er líka nauðsynlegt að Maastrich-sáttmálinn sem er aðgangsmiði að evrunni þegar ESB þjóð hefur samþykkt og uppfyllt öll skilyrðinn hans verði líka þýddur á íslensku. Danir felldu Maastrich-sáttmálann 1992 i þjóðaratkvæðagreiðlu.

Baldvin Nielsen Reykjanesbæ

Föstudagur, 26. október 2007

Ragnar Arnalds: Minnkandi áhrif smáríkja í ESB

,,Sagt hefur verið að þjóðir sem ánetjast samrunaferli ESB lendi strax í þeim vítahring að þær eru látnar kjósa aftur og aftur í þjóðaratkvæðagreiðslum ef niðurstöðurnar falla ekki að áformum forvígismanna ESB. Þetta hafa Norðmenn, Danir og Írar margreynt. En ef niðurstaðan er jákvæð er aldrei kosið aftur. Frakkar og Hollendingar felldu fyrirhugaða stjórnarskrá ESB í þjóðaratkvæði og vitað var með vissu að sama myndi gerast í Bretlandi. Lausn leiðtoga ESB liggur nú fyrir: þeir hafa komið sér saman um nýjan samning með efnislega hliðstæðu innihaldi en í nýjum umbúðum og undir nýju nafni. Í stað þess að láta kjósa upp á nýtt, eins og gamla aðferðin var, þá ætla þeir af ótta við kjósendur að hundsa álit almennings með öllu og sleppa þjóðaratkvæði um nýja samninginn nema hjá því verði alls ekki komist. Stóraukið fullveldisafsal aðildarríkja ESB verður þvingað fram án þess að leita eftir vilja íbúanna.Nú kynni einhver lesandinn að halda að hér sé ekki rétt frá skýrt og nýi samningurinn sé einfaldlega annars eðlis. Ég vil því vitna til ummæla Valery Giscard d’Estaing, fyrrv. forseta Frakka, orðum mínum til staðfestingar, en hann hafði yfirumsjón með gerð stjórnarskrárdraganna. Hann sagði blátt áfram á Evrópuþinginu 17. júlí s.l: “Innihaldið er það sama og í stjórnarskránni sem hafnað var, en forminu hefur verið breytt úr læsilegri stjórnarskrá og yfir í tvö óskiljanleg drög að milliríkjasamningum.“Nú um helgina lék mér forvitni á að fá að vita hvort ákvæðið um úrslitayfirráð ESB yfir lífríki sjávar við strendur aðildarríkja með sameiginlegri yfirstjórn fiskveiðimála væri inni í Lissabon-samningnum. Ekki reyndist auðsótt að fá botn í það mál. Í stað samhangandi texta eru nú settir fram 14 milliríkjasamningar og texti þeirra er ekki samhangandi heldur í formi orðalagsbreytinga á samningum sem áður hafa verið samþykktir. Því þarf að bera saman mörg skjöl til að botn fáist í samhengið.Textinn um úrslitayfirráð ESB yfir 200 mílna lögsögu aðildarríkjanna var áður að finna í gr. I.13 í stjórnarskránni en er nú orðréttur eins og hann var þar í einum af nýju samningnum undir fyrirsögninni B. Specific Amendments 19) Title I Article 3 (d): "The Union shall have exclusive competence to establish competition rules within the internal market, and in the following areas . . . the conservation of marine biological resources under the common fisheries policy. " Þetta er mikilvægt fyrir Íslendinga að vita. Vafalaust munu þeir seint sætta sig við að úrslitaákvarðanir um nýtingu fiskistofnanna innan 200 mílna lögsögunnar verði teknar í ráherraráði ESB á árlegum næturfundum sem meðal innanbúðarmanna þar á bæ nefnast: “nótt hinna löngu hnífa” en þar myndi Ísland hafa innan við 1 % atkvæða.En hver er svo skýringin á því að leiðtogar ESB hafa sent frá sér ígildi stjórnarskrár í formi sundurslitins samsafns af lagatextum sem erfitt er að átta sig á. Skýringin er einföld þótt hún hljómi ótrúlega. Við skulum láta fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, núverandi innanríkisráðherra, gefa okkur skýringuna. Hann sagði 16. júlí s.l. samkvæmt euobserver.com að stjórnarskráin hefði vísvitandi verið gerð ólæsileg fyrir borgarana til þess beinlínis að komast hjá þjóðaratkvæðagreiðslum: “Þeir (ESB-leiðtogar) ákváðu að skjalið ætti að vera ólæsilegt. Ef það er ólæsilegt er það ekki í eðli sínu stjórnarskrá, þetta var viðhorfið. Ef mögulegt hefði verið að skilja textann við fyrstu sýn hefði kannski skapast grundvöllur fyrir þjóðaratkvæði, því að það hefði þýtt, að þar væri eitthvað nýtt að finna.” (Ræða hjá “Center for European Reform” í Lundúnum 12. júlí s.l. Heimild: euobserver.com 16. júlí 2007.)Þetta er óneitanlega makalaus vitnisburður um það virðingarleysi fyrir lýðræðinu sem viðgengst í stofnunum ESB.Breytingarnar frá núverandi skipulagi sem felast í Lissabon-samningnum eru tvímælalaust mjög mikilvægar og fela í sér stórt skref í átt til formlegs stórríkis. ESB fær nú bæði forseta sem ekki gegnir öðru starfi og utanríkisráðherra þótt sá síðarnefndi verði ekki nefndur því nafni eins og stjórnarskráin gerði ráð fyrir heldur “High Representative”. Í stjórnarskránni voru tiltekin fjögur sígild ríkistákn: fáni, mynt, þjóðsöngur og þjóðhátíðardagur en þessi ákvæði eru ekki í nýja samningnum. Þetta eru einmitt ágæt dæmi um feluleikinn og þá sýndarbreytingu sem gerð var á stjórnarskrárdrögunum því að fáninn, myntin, þjóðsöngurinn og þjóðhátíðardagurinn eru þegar til í reynd og verða það áfram. Vafalaust er mikilvægasta breytingin frá núgildandi skipulagi fólgin í því að neitunarvald aðildarríkja er afnumið á rúmlega 60 sviðum og í staðinn koma meirihluta ákvarðanir þar sem krafist er að 55% aðildarríkjanna hafi greitt lagafrumvarpi atkvæði og þeir sem veiti samþykki sitt hafi 65% af íbúum ESB að baki sér. Þetta var nákvæmlega eins í stjórnarskrárdrögunum. Tæpast þarf að taka það fram að þessi tilhögun eykur mjög áhrifamátt stóru ríkjanna en er að sama skapi óhagstæð fyrir smáríkin. Í ríkjabandalögum er oftast reynt að tryggja að stór ríki vaði ekki algjörlega yfir smáríki með sérstökum stofnunum til hliðar við meginþingið. Sem dæmi má nefna öldungadeild bandaríska þingsins þar sem hvert fylki fær tvo þingmenn óháð fólksfjölda. Svipað gildir í sambandsráði Þýskalands. Hins vegar er ekkert slíkt að finna í stofnanakerfi ESB. Þingmannafjöldi á ESB-þinginu verður 750 en Ísland myndi fá 6 þingmenn við aðild og eru það 0,8% áhrif og í ráðherraráðinu fengju Íslendingar 3 atkvæði af 348 eða um 0,86%.Atkvæðavægi smáríkja innan ESB hefur jafnt og þétt farið minnkandi. Sem dæmi má nefna að Þjóðverjar höfðu þrefalt fleiri atkvæði en Danir í ráðherraráðinu, valdamestu stofnun ESB, þegar Danir gengu í bandalagið (þ.e. í EBE fyrir rúmum þremur áratugum). En þeir fá nú fimmtán sinnum fleiri atkvæði en Danir. Mannfjöldi Þýskalands óx um þriðjung við sameiningu þýsku ríkjanna en það skýrir ekki nema að litlu leyti þá breytingu sem orðið hefur á atkvæðavægi þessara tveggja ríkja. Þróunin hefur ótvírætt verið smáríkjum óhagstæð á liðnum áratugum og Lissabons-samningurinn opnar nýjar leiðir fyrir stóru ríkin til að auka áhrif sín enn frekar á kostnað þeirra smærri.''

B.N. (IP-tala skráð) 14.12.2008 kl. 00:39

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég er hlyntur því að teknar verði upp aðildarviðræður við ESB, það er varla hættulegt. Miðað við þær forsendur sem ég hef í dag, þá kysi ég nei í þjóðaratkvæðagreiðslu, en málið er að ég hef ekki allar þær upplýsingar sem ég vildi hafa, til þess að geta tekið upplýsta ákvörðun um málið. Til þess að fá allar upplýsingar um málið, þá þurfum við að fara í aðildarviðræður.

Þeir sem eru harðir á móti aðild, benda á Norðmenn og segja að þeir séu ríkasta þjóð í heimi og eru ekki í ESB. En þeir hafa líka kosið um málið tvisvar og hafnað aðild í bæði skiptin. Auk þess er það ekkert skrítið að gyðingar norðursins sé ríkir, með allan sinn olíusjóð.

Gunnar Th. Gunnarsson, 14.12.2008 kl. 07:13

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Vinstra megin við bloggpistlana mína er kassi með heitinu VEFIR. Þar er hægt að fara inn á Íslandshreyfinguna.

Enn betra er að slá einfaldlega upp islandshreyfingin.is og fara þar inn á "ályktanir." 

Ómar Ragnarsson, 14.12.2008 kl. 23:34

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Á ferðum mínum um Norðurlönd og í viðtölum við ráðamenn, til dæmis danska ráðherra, hefur komið fram að áhugi þeirra á því að Íslendingar gangi inn í ESB er meðal annars byggður á því að Norðurlönd og Eystrasaltslöndin geti saman myndað blokk sem hefur jafnmikið eða meira atkvæðavægi en til dæmis Þýskaland.

Með því færðist norræn samvinna að mestu inn á sameiginlegt svið hagsmunabaráttu þeirra á vettvangi ESB.  

Ómar Ragnarsson, 14.12.2008 kl. 23:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband