13.12.2008 | 22:08
Fleiri bætast á vagninn okkar.
Fyrr í haust hefur það verið fært fram í nokkrum bloggpistlum mínum að taka þurfi ESB-málið út úr farvegi flokkastjórnmála og kjósa sérstakega um hvort sækja eigi um aðild. Rétt er að minna á skýra ályktun stjórnar Íslandshreyfingarinnar í þessa veru og um önnur mikilvæg mál nú um stundir, sem sjá má á heimasíðu flokksins.
Nú bætast sífellt fleiri á þennan vagn hjá okkur, nú síðast VG, Bjarni Benediktsson, Illugi Gunnarsson og Björn Bjarnason.
Áður hafði Björn komið yfir á vagn okkar kosningastefnu, að búa þyrfti til vegvísi að inngöngu með því að hafa aðildarumsókn með samningsmarkmiðum til reiðu þegar og ef til samningaviðræðna kæmi.
Þeir Bjarni og Illugi ræða líka mjög lauslega um breytingar í lýðræðisátt, en í því máli hefur Íslandshreyfingin mjög skýra og ákveðna stefnu, sem sé þá að breyta kosningalögunum strax og kjósa eftir þeim nýju reglum í næstu kosningum, en þess utan þarf að drífa í öðrum breytingum, sem kalla á breytingar á stjórnarskrá.
Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildarumsókn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
"Iceland's prime minister has announced the set-up of a commission to investigate joining the European Union. An initial plan has already been drafted by the country's foreign ministry that would see a membership application made in early 2009, aiming for entry some time in 2011."
http://en.wikipedia.org/wiki/Future_enlargement_of_the_European_Union#Iceland
Þorsteinn Briem, 13.12.2008 kl. 23:06
Þarf að breyta stjórnarskránni til að hefja samræður um hugsanlega aðildarumsókn að ESB?
Hvernig er hægt að taka ESB málið úr farvegi stjórnmálaflokka?
Hversvegna gefurðu okkur ekki netfang Íslandshreyfingarinnar til að spara okkur sporin?
Agla (IP-tala skráð) 13.12.2008 kl. 23:27
Ákveði ríkisstjórnin að sækja um aðild að Evrópusambandinu sendir hún umsóknina til Ráðherraráðs sambandsins sem beinir þá til Framkvæmdastjórnar þess að meta hvort Ísland er hæft til að verða fullgildur meðlimur í sambandinu. Og Framkvæmdastjórnin mælir þá væntanlega strax með því við Ráðherraráðið, þar sem Ísland er á Evrópska efnahagssvæðinu.
Aðildarviðræðurnar gætu því tekið innan við eitt ár og þegar aðildarsamningurinn liggur fyrir þarf að fara hér fram þjóðaratkvæðagreiðsla um samninginn.
Alþingi þarf einnig að breyta 21. grein Stjórnarskrárinnar, rétt fyrir og eftir næstu Alþingiskosningar, til að Ísland geti gengið í Evrópusambandið og venjulega ganga ríki í sambandið næstu áramót eftir að samningar og niðurstöður úr þjóðaratkvæðagreiðslu liggja fyrir.
Þorsteinn Briem, 14.12.2008 kl. 00:26
Leyfi mér að senda hér inn fyrir neðan sem ég fann á Fullveldi.blog.is Ragnar Arnalds er fyrrum ráðherra og þingmaður og finnst mér gott að fylgjast með honum hann hefur mikla yfirsýn í ESB málunum.
Það sem við kjósendur þurfum á að halda hvort við erum með eða á móti ESB aðild og svo í framhaldinu hvort kjósendur vilji taka upp evru í stað krónu er að það verði upplýst umræða um þessi mál.
Það væri góð byrjun að Íslensk yfirvöld (Ingibjörg Sólrún) drifi sig í því að láta þýða nýju stjórnaskrá ESB á okkar tungumál því þá ætti það að vera tryggt að allir geti tekið afstöðu skammlaust með eða á móti þegar og ef kæmi til kosninga um það hvort við viljum inngöngu eða ei í Evrópubandalagið.
Það er líka nauðsynlegt að Maastrich-sáttmálinn sem er aðgangsmiði að evrunni þegar ESB þjóð hefur samþykkt og uppfyllt öll skilyrðinn hans verði líka þýddur á íslensku. Danir felldu Maastrich-sáttmálann 1992 i þjóðaratkvæðagreiðlu.
Baldvin Nielsen Reykjanesbæ
Föstudagur, 26. október 2007
Ragnar Arnalds: Minnkandi áhrif smáríkja í ESB
B.N. (IP-tala skráð) 14.12.2008 kl. 00:39
Ég er hlyntur því að teknar verði upp aðildarviðræður við ESB, það er varla hættulegt. Miðað við þær forsendur sem ég hef í dag, þá kysi ég nei í þjóðaratkvæðagreiðslu, en málið er að ég hef ekki allar þær upplýsingar sem ég vildi hafa, til þess að geta tekið upplýsta ákvörðun um málið. Til þess að fá allar upplýsingar um málið, þá þurfum við að fara í aðildarviðræður.
Þeir sem eru harðir á móti aðild, benda á Norðmenn og segja að þeir séu ríkasta þjóð í heimi og eru ekki í ESB. En þeir hafa líka kosið um málið tvisvar og hafnað aðild í bæði skiptin. Auk þess er það ekkert skrítið að gyðingar norðursins sé ríkir, með allan sinn olíusjóð.
Gunnar Th. Gunnarsson, 14.12.2008 kl. 07:13
Vinstra megin við bloggpistlana mína er kassi með heitinu VEFIR. Þar er hægt að fara inn á Íslandshreyfinguna.
Enn betra er að slá einfaldlega upp islandshreyfingin.is og fara þar inn á "ályktanir."
Ómar Ragnarsson, 14.12.2008 kl. 23:34
Á ferðum mínum um Norðurlönd og í viðtölum við ráðamenn, til dæmis danska ráðherra, hefur komið fram að áhugi þeirra á því að Íslendingar gangi inn í ESB er meðal annars byggður á því að Norðurlönd og Eystrasaltslöndin geti saman myndað blokk sem hefur jafnmikið eða meira atkvæðavægi en til dæmis Þýskaland.
Með því færðist norræn samvinna að mestu inn á sameiginlegt svið hagsmunabaráttu þeirra á vettvangi ESB.
Ómar Ragnarsson, 14.12.2008 kl. 23:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.