Síðbúið en kannski óþarft samþykki.

Hvað Íslandshreyfinguna - lifandi land snertir er rétt að það komi fram, að ég sé ekki neina ástæðu til annars en að samþykkja með glöðu geði að Framfaraflokkurinn fái listabókstafinn A ef eftir samþykki okkar er leitað, en það hefur ekki verið gert.

Þetta tel ég rétt að komi fram strax því að samkvæmt orðum Sturlu Jónssonar var leitað til allra flokkanna sem fyrir voru til samþykkis. Hvorki var leitað til mín né varaformanns Íslandshreyfingarinnar með samþykki þannig að Sturla telur sig aðeins þurfa að leita til samþykkis flokkanna sem eiga fulltrúa á þingi. 

Að þessu leyti virðist hann ekki meta Íslandshreyfinguna sem flokk vegna þess að hún er utan þings eins og reyndar Framfaraflokkur hans er. Fékk I-listinn þó atkvæðamagn í síðustu kosningum sem skilað hefði öðrum flokkum tveimur þingmönnum og er á skrá yfirvalda sem viðurkenndur stjórnmálaflokkur sem uppfyllir öll skilyrði sem sett eru þar að lútandi. 

Nógu mikið veit ég um þessi mál til að geta upplýst að ekki er nóg að fá samþykki starfandi stjórnmálaflokka, heldur einnig formanna þeirra flokka sem áður hafa átt viðkomandi listabókstaf, nema orðið sé langt síðan þeir voru með bókstafina.

Þetta hefur Sturlu tekist og er ástæða til að óska honum til hamingju með það því að listabókstafurinn A er góður og nýttist Alþýðuflokknum oft vel hvað það snerti að það er alltaf plús að vera efstur á blaði.  


mbl.is Framfaraflokkurinn fær listabókstafinn A
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Aldrei verið efstur á blaði,
og engum þykir það skaði,
ég er nú barasta aumingi,
og ætti því að vera á þingi.

Þorsteinn Briem, 17.12.2008 kl. 14:42

2 identicon

Sæll Ómar,

Ég held að það hafi ekki verið Sturla sjálfur sem þurfti að fá samþykki allra hinna stjórnmálaflokkana heldur er það dómsmálaráðaneytið sem fær umsókn Sturlu til afgreiðslu! Til þeirra sækir maður bókstafinn sem fer svo í ákveðið ferli! Ef engin spurði þig álits þá ættir þú að snúa þér til Björn Bjarnason.

Þröstur (IP-tala skráð) 17.12.2008 kl. 15:23

3 Smámynd: Theódór Norðkvist

Það síðasta sem við þurfum eru fleiri dvergflokkar til að tvístra atkvæðunum og tryggja sama liðinu völdin og hafa haft þau hingað til með skelfilegum afleiðingum.

Ómar þú hefur möguleika til að láta þinn flokk verða trúverðugt afl til að leiða þjóðina úr fjötrum frjálshyggjunnar.

Theódór Norðkvist, 17.12.2008 kl. 15:31

4 Smámynd: Haraldur Hansson

Það er þetta með þröskuldinn.

Með því að setja hann við 5% fylgi á landinu öllu er nýjum samtökum gert mjög erfitt fyrir. Það er auðvitað skandall að kjósendur sem "eiga" tvö þingsæti skuli þurfa að horfa á eftir þeim til einhvers af framsóknarflokkunum fjórum.

Haraldur Hansson, 17.12.2008 kl. 15:57

5 identicon

sæll Ómar

það er rétt hér fyrir ofan að mér var sagt niður í dómsmálaráðuneyti að víð þyrttum að

bíða eftir umsögn annara flokka.

Og hvað varðar Íslandshreyfinguna þá hef ég ekkert út á hana að setja og óska þér

alls hins besta í framtíðinni.

kveðja sturla jónsson

sturla jonsson (IP-tala skráð) 17.12.2008 kl. 16:01

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hvað dómsmálaráðuneytið áhrærir tók ég mark á þeim orðum Sturlu að Framfaraflokkurinn hefði leitað svara hjá hinum flokkunum.

Ég vil minna á það að í síðustu kosningum tókst að fella þáverandi stjórn og það hefði tekist enn betur ef hinir flokkarnir hefðu ekki verið búnir að setja í kosningaög ranglátar takmarkanir á tilskildu fylgi flokka til að koma mönnum á þing.

.

Ómar Ragnarsson, 17.12.2008 kl. 16:02

7 identicon

Íslandshreyfingin er með réttu 2 þingmenn á Alþingi Íslendinga ef atkvæðavægi væri jafnt og virt af Þjóðþinginu. Við sveitarstjórnarkosningar er atkvæðavægi jafnt.

 

Ég vil benda mönnun á heimildir í kosningalögum frá 2000 nr. 24 16. maí á þann möguleika að vera með sama listabókstaf en bjóða fram fleiri en einn lista með sama bókstaf.  Sjá 43 gr.

 

Þetta var gert eftir klofning í Framsóknarflokknum í Blöndudeilunni. Þá kom fram BB-list sem var samþykktur. Þá leggjast atkvæðin saman og nýtast, en hver heldur sinni sérstöðu.

 

Það þarf ekki endilega deilu til að fara svona að, þetta getur verið samvinna tveggja eða fleiri hópa til að ná meiri samlegðarárifum. Þetta virkar svona eins og trailer og dráttarbill með eftirvagn. Er nú ekki bara fyrir Sturlu og Ómar að skreppa á Kaffi París og ræða málin.

 

 

Þorsteinn H. Gunnarsson (IP-tala skráð) 17.12.2008 kl. 16:55

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

Lög um kosningar til Alþingis nr. 24/2000:

38. grein. ...
Hyggist stjórnmálasamtök sem hafa ekki skráðan listabókstaf bjóða fram lista við alþingiskosningar skal það tilkynnt dómsmálaráðuneytinu eigi síðar en þremur sólarhringum áður en framboðsfrestur rennur út. Tilkynningin skal undirrituð af a.m.k. 300 kjósendum. Hún skal dagsett og skal greina nafn kjósanda, kennitölu hans og heimili.

Heiti nýrra stjórnmálasamtaka má ekki vera þannig að ætla megi að villst verði á því og heiti samtaka sem eru á skrá skv. 1. mgr. Dómsmálaráðuneytið skal þegar tilkynna stjórnmálasamtökum, sem eru á skrá, um ný stjórnmálasamtök sem tilkynnt eru og um ósk þeirra um listabókstaf.

Ákveður ráðuneytið bókstaf nýrra samtaka að fengnum óskum þeirra og með hliðsjón af listabókstöfum annarra stjórnmálasamtaka í undangengnum kosningum. Nú óska samtök, sem skráð eru, að breyta heiti sínu og skulu þau þá tilkynna það dómsmálaráðuneytinu innan sama frests."

Þorsteinn Briem, 17.12.2008 kl. 20:15

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er alveg nóg að gera í dómsmálaráðuneytinu og þetta er því útlátalaust af minni hálfu þótt ekki sé verið að flækja það að óþörfu. Björn Bjarnason fylgist sjálfsagt vel með á blogginu og hann getur séð í dag að óþarft er að senda mér bréf.

Ómar Ragnarsson, 17.12.2008 kl. 21:32

10 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ómar. Dómsmálaráðuneytið á að sýna gott fordæmi í þessum efnum sem öðrum og fara að lögum í landinu.

Ráðuneytið getur engan veginn ætlast til að aðrir fari að lögum ef það gerir það ekki sjálft.

Hins vegar reikna nú ég ekki með að dómsmálaráðherrann sé sjálfur með nefið niðri í þessum koppi, enda þótt hann beri ábyrgð á honum sem ráðherra yfir dómsmálaráðuneytinu.

Þorsteinn Briem, 17.12.2008 kl. 22:23

11 Smámynd: Villi Asgeirsson

Það er svo sem gott og blessað að Framfaraflokkurinn sé orðinn til, en ég hef það á tilfinningunni að hann njóti ekki almenns trausts. Þannig var það líka með Íslandshreyfinguna fyrir síðustu kosningar. Ég held að þa séu tvær aðalástæður fyrir því að fylgið hafi verið innan við 5%. Fólk var hrætt við að atkvæðið félli dautt vegna 5% reglunnar og stóriðjan átti marga fylgjendur og fólk var hrætt um að hreyfingin væri samtök græningja og fjallagrasatínslufólks. Hvað sem það er.

Ef Íslandshreyfingin vill komast inn næst, held ég að hún þurfi að vinna að eftirtöldum málum.

1. Sýna fram á að stóriðjan sé ekki sú töfralausn sem haldið var fram. Nú þegar álverð er komið niður fyrir viðmiðunarmörk eru Kárahnjúkar sennilega reknir með tapi. Það væri því betra að setja eggin í fleiri körfur í framtíðinni. Við erum ekki að tala um fjallagrös eða nýaldarfegurð. Það borgar sig í beinhörðum peningum að breyta áherslum.

2. Innganga í ESB getur ekki verið á dagskrá eins og er. Við erum í allt of veikri stöðu til að semja. Það er betra að koma okkur út úr þessari kreppu og tala svo, ef við teljum þörf á. Sumir tala um að með ESB aðild hefðum við meiri völd innan sambandsins. Með 2-3 evrópuþingmenn af 700, efast ég um það.

3. Það verður að fara fram skilyrðislaus og hlutlaus rannsókn á hruninu og aðdraganda þess. Ekki þetta yfirborðsklór sem nú er í gangi. Íslandshreyfingin er í sérstakri aðstöðu hér, því hún átti ekki hlut að máli og getur óhrædd leyft allri spillingunni að koma upp á yfirborðið.

4. Við getum ekki sagt já og amen við kröfum breta og hollendinga í Icesave málinu. Vissulega brást íslenska kerfið, en þarlend yfirvöld vissu meira en íslenskur almenningur. Þar fyrir utan er notkun hryðjuverkalaga óásættanleg og ber okkur að gera athugasemd við það ferli.

5. Skoðuð verður einhliða upptaka erlends gjaldmiðils. Það getur verið evra, dollar, norsk króna eða hvað sem er. Það mál yrði að skoða vel áður en ákvörðun er tekin.

6. Stóreflt samstarf við Norðurlöndin.

7. Ísland verði tekið af lista hinna viljugu þjóða og lýsi sig spillingarlaust og sjálfstætt ríki.

8. Kosningalögum verði breytt. 5% reglan látin fara og kosið verði um fólk, ekki flokka.

9. Heilbrigðisþjónusta og menntakerfi fái þá fjárveitingu sem þörf er á, hugsanlega á kostnað utanríkisþjónustu og annarar yfirbyggingar ríkisins. Þessi þjónusta verði áfram í höndum ríkisins, ekki komi til greina að einkavæða hana.

10. Bankar og önnur ríkisfyrirtæki sem ekki fara beint með almannaheill verði einkavædd að nýju, en það gerist sjálfkrafa með útgáfu hlutabréfa á almennum markaði. Engum einum aðila verði gert kleyft að kaupa meirihluta, nema með því að kaupa bréfin á almennum markaði á þeim kjörum sem markaðurinn ákveður.

Listinn varð lengri en ég ætlaði, en svona u.þ.b. er mitt draumaframboð.

Villi Asgeirsson, 18.12.2008 kl. 08:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband