18.12.2008 | 12:46
"Upp skaltu á kjöl klífa."
Til uppbrots á bloggpistlum mínum næstu daga fram að jólum ætla ég að birta texta laganna á diskinum "Birta - styðjum hvert annað" með níu lögum sem fjalla um land og þjóð, æðruleysi, kjark og samstöðu. Allt söluandvirðið rennur til Mæðrastyrksnefndar og diskarnir eru seldir hjá Skífunni, Smekkleysu, Olís og Bónus á Reykjavíkursvæðinu.
Tuttugu þjóðþekktir tónlistarmenn og einn texta- og lagahöfundur standa að tónlistinni með Kristin Sigmundsson í fararbroddi. Bergvík framleiðir þá og Samskipti sjá um prentun. Diskurinn er til sölu á tonlist.is og allir flytjendur, hljóðstúdíó, framleiðendur og seljendur gefa hlut sinn.
STEF-gjöld af diskinum munu fara í gegnum höfundinn til Mæðrastyrksnefndar.
Í dag ætla ég að byrja á textanum við lagið "Upp skaltu á kjöl klífa", en textinn er prjónaður við fræga vísu Þóris Jökuls Steinfinnssonar, sem er að sjálsögðu þungamiðan. Þessa vísu fór hann með áður en hann lagðist á höggstokk til aftöku eftir Örlygsstaðabardaga og vart er hægt að hugsa sér meira æðruleysi en felst í honum.
Lagið er sett upp sem leikrit þar sem böðullinn les texta sinn á meðan laglínan er spiluð en Þórir Jökull syngur vísu sína. Gunnar Þórðarson sá um útsetningu og undirspil.
Lagið var fyrst flutt í þættinum "Hinn hljóði afreksmaður" sem fjallaði um það þegar togarinn Vörður frá Patreksfirði fórst fyrir rúmri hálfri öld og með honum fimm menn, þeirra á meðal tengdafaðir minn, Jóhann Jónsson vélstjóri.
Einn skipverja, Guðmundur Halldórsson, fékk fyrstur manna afreksbikar forseta Íslands, sem jafnan er afhentur á sjómannadaginn, og þátturinn var sýndur á sjómannadaginn 2001, hálfri öld eftir að bikarinn var fyrst afhentur.
Jóhann taldi kjark í skipfélaga sína til hinstu stundar.
Þegar togarinn, sem tókst að bjarga öllum skipverjunum nema fimm, kom að Jóhanni, þar sem hann flaut í sjónum, bað hann um að félaga sínum, sem var yngri, yrði bjargað fyrst. Það var gert en þegar komið var aftur að Jóhanni var hann látinn.
UPP SKALTU Á KJÖL KLÍFA.
(Böðullinn):
Þórir Jökull, komdu hingað karlinn /
og krjúptu á höggstokk, dómurinn er fallinn. /
Ef að þú vilt eitthvað segja að lokum /
er þér heimilt það meðan við dokum. /
(Þórir Jökull):
Upp skaltu á kjöl klífa. /
Köld er sjávardrífa. /
Kostaðu huginn að herða. /
Hér muntu lífið verða. /
Sárt er að sæta hörðu. /
Svona er líf á jörðu. /
Örlögin okkur kenna /
að eigi má sköpum renna. /
Skafl beygjattu skalli /
þótt skúr á þig falli. /
Ást hafðir þú meyja. /
Eitt sinn skal hver deyja. /
(Böðullinn):
Þórir Jökull, þetta sem þú segir, /
það mun lifa áfram þótt þú deyir, - /
kenna okkur með kjarki og skýrum rómi /
að kveðja líf og taka skapadómi. /
(Þórir Jökull):
Skafl beygjattu, skalli, /
þótt skúr á þig falli. /
Ást hafðir þú meyja. /
Eitt sinn skal hver deyja, - /
deyja, - deyja, - /
Eitt sinn skal hver deyja. /
Athugasemdir
Við vitum að hin óskrifuðu lög vestra voru, að hinum yngri bæri að bjarga, svo þeirra líf yrið sem lengst og með von um, að þrekið bilaði ekki.
Við lútum höfði í hljo´ðri bæn um vendun allra okkar áa, sem létust í baráttunni við Höfuðskepnurnar við sína ævilöngu baráttu um,a ð brauðfæða sig og sína, svo framhald mætti verða á byggð í þeirra elskaða landi.
Við biðjum hinn Hæsta Höfuðsmið Himins og Jarðar að blessa þá gengnu og einnig þá hina sem á eftir koma.
Njótum hátíðar Ljóssins, sem er tákn hins eilífa Ljóss Sannleikans og vegarins sem Hann sagðist vera.
ÞAkka þér innilega fyrir hlutdeild í þessari upplifun að Vestan.
Miðbæjaríahldið
fyrrum Vestfjarðaríhald
Bjarni Kjartansson, 18.12.2008 kl. 14:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.