23.12.2008 | 15:32
Aukakostnaður og frestun á hneyksli.
Ég við byrja þennan pistil á bestu jóla-og nýjársóskum til þeirra starfsmanna Landsvirkjunar og verktakafyrirtækja, sem ég hef átt góð samskipti við undanfarin ár. Þetta fólk hefur unnið sín störf af skyldurækni og færni, oft við erfiðar aðstæður, við að framfylgja ákvörðunum sem voru á ábyrgð þáverandi ríkisstjórna og alþingismanna.
Það hefur aðstoðað mig við mín verk af vinsemd og mér er ljúft að þakka það.
Þetta breytir þó engu um eðli þess verks sem þessu fólki er gert að vinna þarna. Mér hefur verið kunnugt um þann aukakostnað sem hlýst af því hve jarðlög eru laus í sér við Kárahnjúka og á eftir að kosta gerð 20 metra hárrar aukastíflu neðan við Kárahnjúkastíflu.
Ég hef ekkert verið að minnast á þetta vegna þess að úr því sem komið er er best að málsaðilar segi frá því sjálfir svo að ekki sé hægt að væna fréttaflytjandann um áróður.
Það breytir því ekki að við kvikmyndagerð mína mun ég í engu slaka á að upplýsa um þau hervirki sem enn sér ekki fyrir endann á eystra. Minni í því sambandi á blogg mitt og grein í Morgunblaðinu fyrr í haust um gersamlega óþarfan gerning, sem nú hefur verið frestað en vofir samt yfir og verða mun okkur öllum til mikillar skammar ef hann verður framkvæmdur.
Þar á ég við það að fylla upp svonefnt Kelduárlón fyrir innan Kelduárstíflu. Engin þörf verður á vatnsmiðlun þar nema að loftslag kólni verulega niður í það sem það var á kuldaskeiðinu milli 1965 og 1995.
Meðan loftslag er álíka hlýtt og nú er raunar engin þörf fyrir Hraunaveitu, sem samanstendur af sjö kílómetra jarðgöngum og fjórum stíflum, og eru tvær þeirra á meðal hinna stærstu á landinu. Kelduárlón á að verða átta ferkílómetrar og þegar hefur verið sökkt fögrum grónum árhólmum Kelduár og skrúfað fyrir einstaklega fallegar fossaraðir.
En lónið í fullri stærð mun sökkva fallega grónu landi við svonefnt Folavatn, þar sem er einstakt lífríki og mikil fegurð.
Mig grunar að sumum af hinum mætu mönnum sem fela á að fremja þetta óþarfa hervirki sé ekki sama.
Ef það kemur kuldaskeið yrði hægt að sökkva þessu öllu ef svo bæri undir. En að gera það fyrr er algerlega ástæðulaust og þjónar ekki nokkrum tilgangi.
Ég á þá nýjársósk til handa því góða fólki sem ég hef kynnst við þessar framkvæmdir að ákveðið verði á nýju ári að hætta við þetta og afstýra því hneyksli sem það yrði að fara þarna fram á þennan hátt.
Ekkert jólahald á Kárahnjúkum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Mér skilst að þessar framkvæmdir séu öryggisatriði vegna afhendingarskilmála á orkunni. Ef það kólnar verulega, þó ekki sé nema í eitt ár, þá kemur það strax fram í rýrari vatnsbúskap. Það er ekki hægt að láta taka okkur í bólinu hvað þetta atriði varðar. Auk þess gæti álverið orðið fyrir verulegu tjóni ef vanhöld eru á orkuafhendingunni.
Gunnar Th. Gunnarsson, 23.12.2008 kl. 15:43
Ekki málið. Eins og Gunnar segir, eyðileggjum hálendið, just in case. Álið er að gefa svo mikið af sér og kom í veg fyrir kreppuna eins og okkur var lofað.
Villi Asgeirsson, 23.12.2008 kl. 15:54
Nú er búið að mála sig út í horn. Það þarf að fara að virkja og eyðileggja enn frekar landið, svo að álver sem aldrei hefði átt að byggja verði ekki fyrir tjóni. Svo verður verinu lokað eftir nokkur ár vegna of lágs verðs á áli og þjóðin situr uppi með enn meiri skuldir og óbætanleg sár á landinu.
Arnþór Guðjón Benediktsson, 23.12.2008 kl. 15:58
Þetta sem Arnþór segir er kannski lýsandi dæmi um illa upplýsta fylgismenn "ofur-náttúruverndarsjónarmiða." Álverinu á Reyðarfirði verður EKKI lokað. En ímyndum okkur að Alcoa ákveði að rifta samningum við Landsvirkjun; þá borgar Alcoa skaðabætur fyrir samningsrofið og í kaupbæti höfum við tilbúna orku fyrir "eitthvað annað", sem náttúruverndarsinnar verða vafalaust fljótir að finna út hvað verður.
Gunnar Th. Gunnarsson, 23.12.2008 kl. 17:03
En það vill svo til, að með réttindum fylgja líka skyldur. Alcoa getur að sama skapi farið fram á skaðabætur ef Landsvirkjun heiðrar ekki sinn enda samningsins. Þess vegna er mikilvægt að fórna einhverjum mýrarflákum "fyrir ekki neitt".
Gunnar Th. Gunnarsson, 23.12.2008 kl. 17:11
Af hverju var ekki hugsað fyrir þessu í upphafi? Eru kárahnjúkar ekki nóg? Þarf kannski að virkja alla asna landsins ef ske kynni að það rigndi ekki og væri kalt og fallvötn dygðu ekki til?
Villi Asgeirsson, 23.12.2008 kl. 18:06
Þarf maður að vera fylgismaður ofur -náttúruverndarsjónarmiða af því að maður efast um gildi þess að eyðileggja landið með virkjanaframkvæmdum? Ég er ekki fylgjandi þess að erlent baráttu fólk sé að koma til Íslands og sé segja okkur hvað eigi að gera við landið, ég er að gagnrýna þetta sem íslendingur sem er efis um að þetta álver og þessar virkjunframkvæmdir eigi rétt á sér, persónulega finnst mér þetta eyðileggja landið og bera vott af skammtíma reddun. En eins og Gunnar segir, er ég illa upplýstur, þannig að þetta er bara mín persónulega skoðun og eins og ég upplifi þetta. Ef Gunnar er svona viðkvæmur fyrir að fólk sé ekki á sömu skoðun og hann ætti hann ekki að taka þátt í bloggi á opinberum bloggvefjum. Og persónulega finnst mér að þeir sem hafa ekkert að athuga við framkvæmdir sem eyðileggja náttúru landsins og sjá bara gróðasjónarmiðin ekki vera ekta íslendingar og lýsandi dæmi um illa upplýstan einstakling er maður sem kallar hálendið, "einhverja mýrarfláka".
Arnþór Guðjón Benediktsson, 23.12.2008 kl. 18:26
Jamm, það fer ekki mikið fyrir virðingu á landinu á þeim bænum.
Villi Asgeirsson, 23.12.2008 kl. 18:37
Þessi fullyrðing "að eyðileggja landið" er kannski smekksatriði. Ég hef ekki heyrt neinn segja að ekki hafi verið fórnað einhverju fyrir álverið á Reyðarfirði og vissulega endar sú fórn að ákveðnum hluta sem peningar í vasa eigenda Alcoa. En að vel íhuguðu máli, þá fannst afgerandi meirihluta kjörinna fulltrúa fólksins á Alþingi, að sú fórn væri réttlætanleg á grundvelli hagsmuna þjóðarinnar.
Gunnar Th. Gunnarsson, 23.12.2008 kl. 18:41
Eigum við nokkuð að fara út í það hvað afgerandi meirihluta kjörinna fulltrúa fólksins á Alþingi finnst réttlætanleg á grundvelli hagsmuna þjóðarinnar eða hvað þeir yfirleitt eru að spá og bardúsa.
Villi Asgeirsson, 23.12.2008 kl. 18:46
Dæmigert fyrir landeyðingarsinna að tala um einhverja mýrafláka, sýnir hversu litla eða öllu heldur enga virðingu þeir bera fyrir íslenskri náttúru. Það eru svona viðhorf sem eru hvað sorglegust í allri þessari stóriðuumræðu, virðingarleysið fyrir öllu nema peningum, athugið að það er græðgisvæðingin sem er að fella íslenskt samfélag.
Daus (IP-tala skráð) 23.12.2008 kl. 20:50
Þjórsárver eru "mýrarflákar", líka Eyjabakkar. Eins og það sé ekki nóg að hafa útrýmt 97% af "mýrarflákum" Suðurlands. Endilega að þurrka 3%-in upp líka. Skítt með fuglalífið, skítt með aukningu á útblæstri gróðurhúsalofttegunda.
Á mörgum stöðum á landinu blasa við afleiðingar votlendisfjandskapar landsmanna. Dæmi er Fífustaðadalur við utanverðan Arnarfjörð sem er allur ristur sundur af skurðum löngu eftir að allir ábúendur eru fluttir burtu.
Eða Hólssel langt uppi á heiði suður af Hrútafirði þar sem landið var fyrst rist í sundur eins og hægt var áður en allir fluttu í burt.
Listinn er endalaus um allt land enda skurgröfturinn og uppþurrkunin ríkisstyrkt. En þessi ríkisstyrkti "hernaður gegn landinu" eins og Nóbelsskáldið kallaði hina skefjalausu framkvæmd hans "skapaði störf" skurgröfumanna og Bjartanna í Sumarhúsunum sem hurfu síðan á braut þar eins og á heiðum uppi um allt land fyrr á öldinni.
Reyndar þarf ekki mýrar til. Þegar til stóð að sökkva Eyjabökkum sögðu kunnugir bændur við mig að að það væri landhreinsun að losa þá við þessi mýrarfen sem væri svo erfitt að smala.
Þegar til stóð að sökkva Hálsinum, sem Hálslón heitir eftir, sagði sama fólk við mig að mikil landhreinsun væri af því að sökkva honum, - jarðvegurinn hefði verið svo harður að það hefði ekki verið almennilelgum smölum bjóðandi að smala hann, heldur bara unglingum og skussum.
"Þetta var kallað "Skussastykkið" sagði staðkunnug kona við mig og hnussaði í henni þegar hún bætti við að "það mætti sko sín vegna sökkva því, og þótt fyrr hefði verið.
Sem sagt: Annað gróðurlendið sem átti að fara undir vatn og leir var of blautt, - en hitt of þurrt!
Ómar Ragnarsson, 23.12.2008 kl. 21:15
Gunnar, kólnandi loftslag brestur ekki á á einu ári, heldur á nokkrum árum og því ætti að gefast nægt ráðrúm til að ákveða hvort þurfi að láta renna í Kelduárlón.
Sjá mátti hæga kólnun allt frá því eftir 1940 og fram til 1965 og hlýnunin var líka hæg eftir 1990.
Þar að auki gefur Keludárlón eitt og sér aðeins af sér orkuforða sem myndi endiast aðeins í nokkra daga fyrir álverið ef út í það er farið.
Ef þessu svæði verður sökkt að ástæðulausu er það endanlegt merki þess að virkjanafíklarnir eru komnir á sama stig og ofdrykkjumaðurinn, sem drekkur áfram löngu eftir að hann er orðinn útúrdrukkinn.
Ómar Ragnarsson, 23.12.2008 kl. 21:23
Gleðileg jól Ómar.
Offari, 24.12.2008 kl. 10:24
Gleðileg jól, Ómar minn!
Þorsteinn Briem, 24.12.2008 kl. 12:09
Ómar Ragnarsson afreksmaður Íslands! Fyrir þinn atbeina og góðra liðsmanna hefur vinum íslenskra víðerna og náttúrudjásna fjölgað til muna. Þegar við eyðileggjum umhverfi mannlífsins hnignar siðferðinu í samfélaginu að sama skapi.
Gleðileg jól þér og þínum!
Árni Gunnarsson, 24.12.2008 kl. 12:28
Gleðileg Jól, Ómar!
Villi Asgeirsson, 24.12.2008 kl. 12:58
Gleðileg jól Ómar
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 24.12.2008 kl. 15:00
Tek undir orð Kristins Péturssonar. Gleðileg jól Ómar og skilaðu kærri kveðju til Ninnu og Óskars frá mér.
Gunnar Th. Gunnarsson, 24.12.2008 kl. 16:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.