11.1.2009 | 01:20
Hvenær varð "við borgum ekki" til?
Stefán Jón Hafstein kastaði þeirri tilgátu fram í Vikulokunum í morgun að stefnan "við borgum ekki", sem Davíð Oddsson lýsti á svo afdrifaríkan hátt í frægu viðtali í Kastljósi, hefði orðið til talsvert fyrr þegar Davíð og fleirum töldu ljóst (símtalið fræga við Geir) að íslensku bankarnir ættu enga möguleika til að standast áhlaup.
Sjálfur heyrði ég marga, sem ég hitti eftir að ég kom heim eftir að hafa upplifað áhrif viðtalsins erlendis, sem sögðu mér að Davíð hefði verið svo sannfærandi og öruggur í þessu viðtali að þeir hefðu róast algerlega við að hlusta á það.
Davíð hefur þá væntanlega verið svona öruggur með þetta vegna þess að hann gerði sér enga grein fyrir þeim viðbrögðum erlendis sem þetta hefði og hafði á engan veginn kortlagt vígstöðu okkar til neinnar hlítar.
Hafi fleiri, til dæmis Geir, verið vissir um að "við borgum ekki" gengi ljúflega upp, útskýrir það hringlandaháttinn og hrakninga Davíðs og Geirs úr einu vígi í annað.
Fyrst stóð Davíð gegn því að leita til AGS, og síðan hófust hrakningar Geirs úr einu vígi í annað með því að segja fyrst að AGS tengdi Icesafe reikningana ekki við lánveitingu, síðan að myndum ekki láta kúga okkur, þar næst að við yrðum að vísu að beygja okkur en myndum sækja mál á hendur Bretum vegna hryðjuverkalaganna og loks í það nú í lokin að sérfræðingar teldu slíka málsókn vonlausa.
Varðstöðuna um hagsmuni Íslendinga má líkja við hernað. Þá skiptir öllu að menn hafi yfirsýn yfir vettvang átakanna, styrk aðila og vígstöðuna á hinum ýmsu vígstöðvum. Sá herforingi nær ekki endilega bestum árangri sem gefur út þá dagskipum, eins og Davíð virðist hafa gert, að hopa hvergi heldur standa alls staðar sem fastast á sínu.
En í slíkum átökum getur hinn kaldi veruleiki verið sá að ekki er spurt að vopnaviðskiptum heldur leikslokum.
Dæmi um það úr hernaðarsögunni hvernig svona hernaðarlist getur valdið tjóni er það hvernig Hitler bannaði hvað eftir annað hershöfðingjum að hopa nokkurs staðar og var Stalingrad eitt besta dæmið. Sem betur fer var þessi hroki Hitlers ein höfuðástæðan fyrir tapi Þjóðverja, en það er önnur saga.
Stundum getur endanleg niðurstaða orðið mun skárri ef viðhaldið er ákveðnum sveigjanleika sem byggist á réttu mati á hinni raunverulegu vígstöðu en ekki á óraunsæju vanmati á styrk og veikleika.
Athugasemdir
Sæll Ómar.
Við Stefán Jón Hafstein erum sammála um kjarna málsins - ég setti fram nákvæmlega sömu tilgátu við vin minn Þorvald Gylfason í New York 15. nóvember sl.
Með kveðju,
Gunnar
Gunnar Tómasson (IP-tala skráð) 11.1.2009 kl. 02:23
Þetta er mjög mikilvægt atriði til að læra af og þarf að upplýsa - hvað lá að baki „við borgum ekki“. Hvað hafði það verið rætt og kynnt innan ríkisstjórnarinnar og/eða í embættismannakerfinu og sérfræðingateymum viðkomandi stjórnvalda?
- Var þetta hluti af þeirri áætlun sem neyðalögin höfðu fyrirfram verið samin uppúr í sumar? - Hver bar ábyrgð á þeim pakka öllum?
Helgi Jóhann Hauksson, 11.1.2009 kl. 08:29
Er það ekki að verða full ljóst að fjármálum okkar getum við ekki stjórnað. Ekki vegna þekkingarskorts á fjármálum- heldur vegna þessara nánu tengsla sem þessi örþjóð býr við. Hvernig væri að tengjast Noregi með fjármálapakkann okkar - í alvöru ?
Sævar Helgason, 11.1.2009 kl. 12:15
Íslensk stjórnvöld ætluðu að reyna að bjarga sér fyrir horn í þessu máli með því að vísa til þess hve íslenska þjóðin væri lítil og umkomulaus í hinum stóra heimi, of lítil til að greiða það sem íslensk stjórnvöld ábyrgðust samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
Stjórnvöld hér áttu að sjálfsögðu að sjá til þess með nægilega góðum reglum og eftirliti að íslenska bankakerfið yrði ekki mörgum sinnum stærra en hagkerfið hér.
Það sama var uppi á teningnum þegar Davíð Oddsson var á hnjánum í Hvíta húsinu að grátbiðja Bandaríkjamenn um að hafa hér áfram her á Miðnesheiði, því íslenska þjóðin væri svo lítil, gæti ekki varið sig sjálf og hefði ekki efni á að greiða fyrir varnir hér.
Skömmu síðar sást undir iljarnar á bandaríska hernum við Keflavík og þegar ég ræddi þá við marga hermenn þar var enginn þeirra á leið til Íraks. Og þenslan var svo mikil hér að ráða þurfti fjöldann allan af Pólverjum til að pakka búslóðum hersins, því ekki fengust nógu margir skólastrákar til þess fyrir hálfa milljón króna á mánuði.
Þorsteinn Briem, 11.1.2009 kl. 14:40
Rúnar Hart spyr, hversu saklaus ég sé sjálfur og hve mikið ég hafi grætt á Sjálfstæðisflokknum. Á þá væntanlega við hversu mikinn þátt ég hafi átt í risi og hruni fjármálakerfisins, fjórföldun skulda Íslendinga og græðgisvæðingunni, kaupum á fasteignum og munaðarvöru.
Stjórnmálamenn þurfa að hafa allt uppi á borðinu og fyrst spurt er skal ég svara.
Ég hef eytt öllum fjármunum mínum síðustu tíu ár í gerð heimildarmynda um þá græðgi og tillitsleysi gagnvart afkomendum okkar sem hér hefur ráðið ríkjum og valdið stórfelldri eyðileggingu.
Fyrir bragðið bý ég með konu minni 70 fermetra leiguíbúð í blokk og ek um á ódýrastu og sparneytnustu bíltík landsins. Við eigum hvorki flatskjá né sumarbústað né neitt annað það sem kallast getur bruðl.
Til kvikmyndagerðarinnar hef ég notað eldgamlar nær verðlausar bíldruslur sem ég hef sofið í hálendinu.
Ég á því auðvelt með að samsama mig þeim tugþúsundum Íslendinga sem nú eiga að súpa seyðið af græðgisvæðingu þjóðfélagsins sem þeir, sem bjuggu til leikreglurnar, bera fyrst og fremst ábyrgð á en vilja ekki axla.
Ég hef aldrei verið í Sjálfstæðiflokknum né gefið til kynna fylgi mitt við hann og síðustu tíu árin og þó einkum árin frá 1999 - 2006 hafa ráðamenn þess flokks gert allt sem þeir gátu til þess að koma í veg fyrir þá öflun upplýsinga og miðlun þeirra sem ég hef reynt að halda uppi.
Ómar Ragnarsson, 11.1.2009 kl. 21:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.