Vantar marktækt vitni að íkveikjunni sjálfri ?

Þetta mál er dæmi um aðstöðuleysi og þar með máttleysi löggæslunnar. Maður hótar í votta viðurvist að brenna fólk inni og hellir eldsneyti á fyrirhugaðan brunastað en samt er víst ekkert hægt að gera.

Stundum hefur verið sagt að ekki sé hægt að sanna íkveikju nema að koma að hinum grunaða með logandi eldspýtuna og sjá hann kveikja í. Það sé yfirleitt ekki hægt eftir á. Vantar vitni að verknaðinum.

Í þessu tilfelli var maðurinn búinn að gefa yfirlýsingu um að hann ætlaði að kveikja í en samt var það sennilega of dýrt eða ekki mannskapur til þess að vakta staðinn og sjá hann koma með eldinn og leggja hann að eldsmatnum.

Kannski verður Spaugstofan með þá Grana og Geir á laugardaginn þegar Grani segir:" Förum í burtu svo að maðurinn fái frið til að kveikja í því það er ekki hægt að handtaka hann nema en við höfum sönnunargögn um að hann hafi gert það."

Raunar veit ég ekki betur en að lögreglan fjarlægi ölvaða menn og setji í steininn og sömuleiðis varðar það við lög að hafa í hótunum við fólk.

En nú verður væntanlega betra að eiga við málið eftir að maðurinn kveikti í. Og þó, samanber það sem vitnað var í hér að ofan að það verður bókstaflega að koma að brennuvarginum með eldspýturnar eða sígarettuna í höndunum og standa hann að íkveikjunni til þess að hægt sé að sanna á hann verknaðinn.

P.S. Í athugasemd við þetta blogg er bent á að stúlka hafi orðið vitni að íkveikjunni. Ef svo er vaknar samt spurningin um hvort hún sé marktækt vitni. Ljóst er að þeir sem áttu heima þarna eða þekktu til höfðu andúð á manninum og skal svo sem engan undra.

Vonandi verður hægt að halda honum í gæsluvarðhaldi uns hægt verður að ákæra hann því að maður spyr sig að því hvort maður sem gefur yfirlýsingar um að vilja brenna fólk inni eigi að fá að ganga laus, jafnvel þótt enginn skuli teljast sekur fyrrr en sök hann sannast.

En þótt við höfum slökkvilið hefði kannski verið betra að kostað hefði verið til eftirlits með húsinu.


mbl.is Kveikti í húsi eiginkonunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

ég veit ekki betur en að stúlkan sem opnaði hafi orðið vitni að sjálfri íkveikjunni... 

Óskar Þorkelsson, 14.1.2009 kl. 20:17

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Nú bæinn er sjálfsagt að brenna,
búinn að því ef myndi ég nenna,
Villi Vill með sitt villta ding dong,
vaktaði staðinn með King Kong.

Þorsteinn Briem, 14.1.2009 kl. 20:39

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Takk, Óskar, - mikið væri það óskandi. Set spurningarmerki við fyrirsögnina.

Ómar Ragnarsson, 14.1.2009 kl. 21:40

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Búkolla mín. Ég minnist þess þegar Villi Vill, ex Bürgermeister, stóð bísperrtur í miðri Fröken Reykjavík, sem Stebbi, hestasveinn Stjána bláa á Akureyri, kveikti í á síðasta landsfundi Sjalla hér í Reykjavík.

Ég man líka eftir frétt í Ríkisútvarpinu sem var eitthvað á þessa leið:

"Slökkviliðið stóð sig frábærlega vel. [....] Þegar slökkvistarfinu var lokið var allt brunnið sem brunnið gat."

Stebba Þorláks, þá menntaskólakennara á Akureyri, þótti þetta svakalega fyndið.

Og síðast, en ekki síst, var ég mjög hrifinn af "Ding dong, ding dong!", lýsingu einnar af starfsstúlkum veitingastaðarins Krua Thai í Tryggvagötu 14 á framvindu þessara atburða hér í dag. En ég velti því fyrir mér hvort ding dong merki það sama hér og í Tælandi.

Legg hins vegar til að öll hús í miðbæ Reykjavíkur verði brennd til ösku á næstunni til að þau verði í samræmi við brunarústirnar í Austurstræti, bæjarbúum og erlendum ferðamönnum til yndisauka. Einnig sem forvitnilegur vitnisburður um "upprisu holdsins" hér undanfarin ár og yfirvofandi fall Sjálfstæðisflokksins, með Moggahöllina glottandi við svarta tönn: "I told you so."

Sic transit gloria mundi.

(Ítarlegri útskýring birtist síðar í Skírni.)

Þorsteinn Briem, 14.1.2009 kl. 23:16

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Fyrir 30 árum var það líka ein heitasta ósk margra að fúakofarnir í Bernhöftstorfunni brynnu til ösku og kannski ætti að láta elsta húsið í Reykjavík, þann arga "húskofa" ásamt með Grjótaþorpinu fljóta með.

Eða hvað? VIljum við frekar glerturna á borð við Borgartúnsundrið?

Ómar Ragnarsson, 14.1.2009 kl. 23:50

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

Að sjálfsögðu átti ekki, og á ekki enn, að rífa öll elstu húsin í Reykjavík, til dæmis nítjándu aldar húsin við Laugaveginn, og þau hús eru nú ekki svo mörg.

Fólk sem hefur engan áhuga á að halda í sín elstu hús og gera vel við þau vegna kostnaðar á að flengja opinberlega á Austurvelli.

Það hefðu verið mikil mistök að rífa Bernhöftstorfuna og mestu mistökin voru að rífa elsta kvikmyndahús í Evrópu við hliðina á Morgunblaðskumbaldanum í Aðalstræti, þar sem nú stendur forljótt hús Tryggingamiðstöðvarinnar.

En Þorsteinn Bergsson af Briemsætt (við erum þremenningar) hefur nú verið manna duglegastur að bjarga því sem bjargað verður í þessum efnum hér í bæ.

Þorsteinn Briem, 15.1.2009 kl. 00:33

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

Og ég mæli eindregið með þessari ítölsku kvikmynd:

Paradísarbíóið (sem brann) - Cinema Paradiso (1988).

Þorsteinn Briem, 15.1.2009 kl. 02:45

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ein af neyðarlegum mistökum mínum á ferlinum var þegar ég stillti upp í viðtal við kaupmann beint á móti Fjalarkettinum og spurði hann: "Nú ert þú búinn að vera með þessa verslun hérna beint á móti Fjalarkettinum í 50 ár og þekkja þetta umhverfi mjög vel. Hvað finnst þér um að rífa hann?"

Maðurinn svararði: "Áður en ég fer að tala um það vil ég gera það á öðrum forsendum en þú talar um. Ég er nú bara 37 ára !"

Ómar Ragnarsson, 15.1.2009 kl. 09:34

9 identicon

Hvernig getur lögreglan þá handtekið og sektað ölvaðan einstakling, sem situr í farþega sæti bifreiðar með lykinn í svissinum? Það er margt rotið í okkar samfélagi - sérstaklega löggæslumál. Enda andstæðingur réttinda og lýðræðis í forsvari fyrir málaflokknum.

Skorrdal (IP-tala skráð) 15.1.2009 kl. 12:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband