Fráleitar ásakanir um sovétsjónvarp.

Það er með ólíkindum að fréttamenn sem unnu við Sjónvarpið á meðan það var eitt á markaðnum skuli ítrekað þurfa að bera af sér ásakanir um að hafa stundað fréttamennsku á borð við það versta sem hægt hefur verið að finna í löndum alræðis, líkt og Sovétríkjunum sálugu.

Nú síðast fullyrðir Sigurður Kári Kristjánsson í útvarpi að ráðherrar hafi samið spurningar fyrir fréttamenn og vegur með því gróflega að starfsheiðri tveggja fréttastjóra og þeirra fréttamanna sem unnu hjá Sjónvarpinu fyrstu tuttugu ár starfsemi þess.

Þetta er sögufölsun af verstu gerð vegna þess að hið gagnstæða átti sér stað með tilkomu fréttastofu Sjónvarpsins þar sem hinn merki fréttastjóri Emil Björnsson gaf þessa dagskipun: "Klappið þeim ekki með kattarrófunni."

Þeir, sem muna þessa tíma, vita vel að Emil BJörnsson réði unga og fríska menn í fréttirnar og innleiddi nýjan og hvassari stíl í viðtöl en hér hafði áður þekkst að breskri og bandarískri fyrirmynd, en þangað fór Emil til að kynna sér stefnur og strauma.

Ég man til dæmis vel þegar flokkarnir þrýstu mjög á um að komast að með sín mál, að Emil stóð þar fastur fyrir. Ég heyrði eitt sinn að hann sagði við fulltrúa eins þeirra í síma: "Það er ég sem ræð því hvenær hverjir minna manna tala við hverja og um hvað. Ég er fréttastjóri hér, ekki þú. Ef þú vilt breyta þessu þarftu að koma mér frá."

"Hver var þetta?"spurði ég. "Framsónarmaður í þetta skiptið," svaraði Emil og í framhaldi af þessu komu þessar hendingar frá honum sem mörg okkar mun enn eftir:

"Við filmum það sem fólkið vill sjá.
Framsóknarmennina geyma má."

Það er í minni þegar Yngvi Hrafn Jónsson sagði svipað og Emil þegar sjálfur Davíð Oddsson ætlaði eitt sinn að skipta sér af því hvaða fréttamaður talaði við hann.

Það er grátlegt að heyra afsprengi þeirra afla sem hafa reynt að bola burtu "óþægum" fréttamönnum fullyrða að fyrirrennarar þeirra í stjórnmálum hafi getað kúgað fréttamenn fyrri tíma.

Í tímabili hafði Geir Hallgrímsson með sér sérstakan aðstoðarmann þegar hann kom í viðtöl til að gefa sér góð ráð og ábendingar um frammstöðu sína. Halda menn virkilega að Geir hefði talið sig þurfa að hafa þetta svona ef hann samdi spurningarnar og svörin sjálfur?

Auk þess að innleiða beinskeyttari og erfiðrari spurningar í sjónvarpsviðtölum og aukna aðgangshörku stóð Emil fyrir því að fá ferska og ákveðna spyrla á borð við Vilmund Gylfason og Ólaf Ragnar Grímsson í spjallþætti.

Fréttamennirnir stjórnuðu líka ótal slíkum þáttum og gerðu fréttaskýringaþætti á borð við Kastljós þar sem ekki var tekið neinum silkihöndum á viðmælendum.

Þegar ég var með þáttinn "Á líðandi stundu" voru það Agnes Bragadóttir og Sigmundur Ernir Rúnarsson sem voru spyrlar með mér. Trúa menn því virkilega að ráðherrar hafi samið spurningarnar fyrir okkur ? Halda menn að ég hafi ráðið Agnesi Bragadóttur á þessum tíma til þess að vera einhverja puntudúkku ?

Þvert á móti. Hún hafði getið sér orð fyrir hvassa og eftirtekarverða blaðamennsku og var ekkert lamb að leika sér við í viðtölum sínum.

Að segja að Sjónvarpið hafi innleitt sovésk yfirráð ráðamanna yfir fréttamönnum er svona álíka eins og að segja
að Vilmundur Gylfason hafi innleitt valdsmannaþjónkun í viðtölum. Öllu er snúið á hvolf.

Það er sérstaklega sárt þegar hinn látni brautryðjandi Emil Björnsson, sem ekki getur borið hönd fyrir höfuð sér, er borinn svona fráleitum og grófum sökum.

Á mínum fréttamannsferli tók ég mörg hundruð viðtöl við ráðherra og embættismenn og hafði ætíð brýningarorð Emils að leiðarljósi. Ég veita að sama gilti um starfsfélaga mína.

Ég vona að Sigurður Kári Kristjánsson hafi sagt þetta í fljótræði eða hugsunarleysi Ef hann biðst afsökunar á því, skal ég fúslega fyrirgefa honum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Offari

Ég lenti einu sinni í sjónvarpsviðtali við þig þá svaraði ég þínum spurningum eftir því sem um var spurt. Þegar ég svo horfði á fréttirnar var búið að klippa viðtalið og ég var látinn svara umælum konu sem var á öndverðu meið við mig.

Ef ég hefði verið að svara hennar ummælum hefðu svör mín verið allt önnur.

Offari, 15.1.2009 kl. 14:57

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Agnes and Ólafur Ragnar have a terrible look,
and with them I wouldn't like to be the crook,
these two guys,
are not so nice,
and poor Davíð Oddsson is now on their hook.

Þorsteinn Briem, 15.1.2009 kl. 15:11

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ef ég vissi hver þú værir, Offari, gæti ég kannski reynt að rifja það upp sem þú segir. Eins og þú lýsir þessu hef ég líklega verið að leita eftir mismunandi sjónarmiðum um sama málið, svipað og Sjónvarpsmenn gera oft þegar þeir fara út á götuna að spyrja fólk.

Ég á ekki von á því að þið hafið verið að svara ummælum hvors annars eins og ég setti þetta upp þótt þú skynjir það kannski þannig.

Tilfelli eins og þú nefnir gerast á hverjum degi í fjölmiðlum.

Þegar rætt er við fleiri en einn, að ég nú ekki tali um þegar rætt er við marga um sama málið, hefðu margir af svarandum kannski svarað öðruvísi ef það hefði vitað hvað hitt fólkið sagði. Allir hefðu kannski svarað eitthvað öðruvísi ef þeir hefðu vitað hvað allir hinir sögðu.

Þegar farið er í viðtal er vitað fyrirfram að tíminn til að túlka sjónarmið hvers og eins eða svör hans er mjög takmarkaður. Þess vegna best að hafa svörin eins stutt og unnt er því að öðrum kosti verður fréttamaðurinn að stytta viðtalið og koma því á framfæri þannig að sjónarmið viðmælandans skili sér sem best.

Fréttamanninum getur ýmist tekist þetta vel eða miður eins og gengur.

Núna er ég hinum megin við myndavélina og sæti því að viðtöl við mig séu stytt og að aðrir séu spurðir sem svari kannski þannig, að ég hefði viljað svara öðruvísi ef ég hefði vitað hvað þeir sögðu.

Ómar Ragnarsson, 15.1.2009 kl. 15:34

4 identicon

Það sem Ómar segir um fréttamenn sjónvarps fyrr á tímum er sannleikanum samkvæmt. Þetta breyttist hinsvegar seinna, einkum eftir að Elín Hirst tók við fréttastjórn og gerði fréttastofu sjónvarps að þeim kvakandi saumaklúbb sem hún ennþá er. Fréttastofa útvarps hefur hinsvegar alltaf borið af, einkum meðan Kári Jónasson réði þar ríkjum og hafði á sínum snærum öflugstu fréttamenn og fréttaritara sem nokkru sinni hafa starfað á íslenskum fjölmiðlum. Nokkrir þeirra eru enn eftir, hamingjunni sé lof.

nonnih (IP-tala skráð) 15.1.2009 kl. 15:56

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það var víst farið um stjórnmálamenn með silkihönskum í árdaga sjónvarpsins, þó ekki hafi stjórnmálamennirnir samið spurningarnar sjálfir. Tíðarandinn var bara þannig, meira að segja tíðkuðust þéringar þá. Það var ekki fyrr en með tilkomu Vilmundar sem þetta breyttist til batnaðar. Ólafur Ragnar var reyndar á undan Vilmundi í sjónvarpi minnir mig og kannski braut hann ísinn, en með Vilmundi breyttist þetta mjög mikið.

Gunnar Th. Gunnarsson, 15.1.2009 kl. 16:04

6 Smámynd: Kristbjörn Árnason

Ég man ekki betur en að Ólafur Ragnar hafi verið látinn fara.

Til þessa hef ég haldið að það hafi verið vegna þess hversu aðgangsharður hann var við vissa stjórnmálamenn og yfirvöld.

Eða var það vegna þess að hann hafi mætt svona illa í vinnuna?

Var hann kanski svona latur kallinn?

Kristbjörn Árnason, 15.1.2009 kl. 17:25

7 Smámynd: Ástþór Magnússon Wium

Ómar, hvaða endemis rugl er þetta í þér maður. Þú hlýtur að hafa verið á flugi eða úti á túnum að gera fréttir um landslag Íslands þegar kom að pólitískum fréttum.

Ég hef VÍÐTÆKA REYNSLU af misnotkun RÚV og Ríkisútvarpsins. Hér fóru t.d. fram forsetakosningar að sovéskri fyrirmynd árið 2004:

Þú getur lesið þig til um það hér:

Verið er að brjóta lög og reglur um Ríkisútvarpið nema öðrum sjónarmiðum sé einnig veittur sambærilegur aðgangur

Ritskoðun og þöggun fjölmiðla

Skrumskæling lýðræðis og þöggun

RÚV standi vörð um lýðræðið

Slæm reynsla af fréttastofu RÚV. Nú er gullið tækifæri að auka gæði og lýðræðislega umfjöllun

Ekki skila - Lesið hér um ritskoðun RÚV

Ástþór Magnússon Wium, 15.1.2009 kl. 18:24

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hvers vegna fékk þá Baldur Ágústsson um sjö sinnum fleiri atkvæði en Ástþór Magnússon í forsetakosningunum 2004?!

Ástþór fékk 2.001 atkvæði í kosningunum en forsetaefni skal hafa meðmæli minnst 1.500 kosningabærra manna og mest 3.000.

Þorsteinn Briem, 15.1.2009 kl. 19:15

9 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ástþór hann er úti á túni,
eftir hann liggur sá brúni,
vetur, sumar, vor og haust,
sá virðist hafa mikið traust.

Þorsteinn Briem, 15.1.2009 kl. 20:13

10 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Undirritaður man eftir því frá æskuárum sínum, upphafsárum sjónvarps á Íslandi, að fréttamenn máttu hafa sig alla við til að fá stjórnmálamenn til að svara spurningum. Mér er það minnistætt að hafa horft á viðtal Eiðs Guðnasonar við Ingólf Jónsson landbúnaðarráðherra, þar sem fréttamaðurinn þurfti að ítreka spurninguna til að stjórnmálamaðurinn svaraði. Hann þurfti náttúrlega að byrja á því að koma með "background information" til að setja spurningu fréttamanns í rétt samhengi og þegar því var lokið var tíminn úti!

Man líka eftir því að hafa séð " out-take" þar sem fjármálaráðherra lýðveldisins, Ólafur Ragnar Grímsson, stöðvar upptöku á viðtali framan við Arnarhvál, vegna þess að hann hafði tafsað eða tvítekið upphaf svars: "Nei! Stopp! Byrjum aftur!" Sá maður vissi um möguleika tækninnar og vissi hvað virkaði og leit vel út. Það var hægt að mynda nokkur svör og senda svo út það besta.

Í hvorugu ofangreindu tilviki er um að ræða þrýsting stjórnmálamanna á fréttamenn, annar þvælir málin með langloku, hinum er umhugað um "kosmetíska" hlið málanna.

Flosi Kristjánsson, 15.1.2009 kl. 21:16

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ástþór minn, málið snýst um tímabilið 1966 - 1986 hjá Sjónvarpinu meðan það hafði einokun á sjónvarpsmarkaðnum.

Kristbjörn Árnason, Ólafur Ragnar var með þátt í útvarpi fyrir daga Sjónvarpsins sem meirihluta útvarpsráðs líkaði ekki við ef ég man rétt.

Ekkert slíkt gerðist svo ég muni hjá Sjónvarpinu. Þvert á móti fól Emil Björnsson Ólafi Ragnari að sjá um þætti í sjónvarpinu þó að hann honum hefði verið vikið til hliðar hjá hljóðvarpinu nokkrum árum fyrr.

Segir það ekki sína sögu um þá stefnu frískleika og aukinnar snerpu sem Emil stóð fyrir ?

Ómar Ragnarsson, 15.1.2009 kl. 23:28

12 Smámynd: Kristbjörn Árnason

Ólafur Ragnar var með þætti í Sjónvarpinu sem voru stöðvaðir mjög fljótt og á því  enginn vafi. Þetta voru þættir með alveg nýju sniði og fjöldi fólks var í sjónvarpssal.

Kristbjörn Árnason, 15.1.2009 kl. 23:38

13 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Ólafur Ragnar Grímsson [fæddur 14. maí 1942] lét snemma að sér kveða á vettvangi íslenskra þjóðmála. Var hann m.a. stjórnandi útvarpsþátta og sjónvarpsþátta á árunum 1966-1971 sem vöktu þjóðarathygli og ruddu nýjar brautir í fjölmiðlun. Hann sat í stjórn Sambands ungra framsóknarmanna 1966-1973 og í framkvæmdastjórn Framsóknarflokksins 1971-1973."

http://www.forseti.is/Forsida/ForsetiIslands/OlafurRagnarGrimsson/

Þorsteinn Briem, 16.1.2009 kl. 00:34

14 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég skal ekkert taka frá brautryðjendastarfi Ólafs Ragnars í sjónvarpi. Þegar ég gerði heimildarþátt í tilefni af 30 ára afmæli Sjónvarpsins skipaði frægur bankaþáttúr Ólafs Ragnars stóran sess, stærri en nokkur annar af sömu gerð.

Ég man enn vel hvernig það var að koma á skemmtanir yfirstéttarinnar í Reykjavík kvöldið eftir þáttinn. Fólkið var titrandi og átti erfitt með að skemmta sér. Það sýndi að þessi þáttur hafði bitið svo um munaði.

Á þessum árum var hins vegar mikil endurnýjun í þáttagerð og ég hygg að það þegar Ólafur Ragnar hætti hafi það ekki verið neitt öðruvísi en þegar ýmsir aðrir verktakar komu tímabundið til að gera þar þætti. Eins og sést hér að ofan var hann við þetta í fimm ár, síst skemur en aðrir utanaðkomandi sem fengust við slíkt.

Í einni athugasemdinni er gefið í skyn að þéringar sem fréttamenn viðhöfðu fyrstu ár sjónvarpsins hefðu verið einhvert sérstakt fyrirbæri í þjóðlífinu En þannig var það alls ekki þessi fyrstu ár.

Þéringar voru almennar á hliðstæðum vettvangi allra fyrstu ár Sjónvarpsins og þær lögðust almennt niður á undraskömmum tíma og ekkert seinna í Sjónvarpi en á öðrum hliðstæðum vettvangi.

Ómar Ragnarsson, 16.1.2009 kl. 01:05

15 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Í bók um Vilmund, nokkurskonar ævisögu hans, sem mig minnir að Jón Ormur Halldórsson hafi skrifað, kom fram að með Vilmundi urðu vatnaskil í framgöngu spyrla hjá sjónvarpinu.

Gunnar Th. Gunnarsson, 16.1.2009 kl. 02:54

16 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Bókin kom út aðeins fáeinum mánuðum eftir dauða Vilmundar

Gunnar Th. Gunnarsson, 16.1.2009 kl. 02:56

17 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Og bókin hét að sjálfsögðu "Löglegt en siðlaust"

Gunnar Th. Gunnarsson, 16.1.2009 kl. 02:56

18 Smámynd: Þorsteinn Briem

Veturinn 1964-65 var Jón Sigurðsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, í fimmta bekk í Menntaskólanum í Reykjavík:

"Ólafur Hansson kenndi okkur sögu og var góður kennari og Vigdís Finnbogadóttir kenndi okkur frönsku. Þá var Gunnar Norland enskukennari einstakur snillingur og sama má segja um Jón Guðmundsson íslenskukennara og Magnús Finnbogason. Þetta voru sterkir persónuleikar og skildu eftir mjög sterk áhrif í okkur og fleiri mætti nefna. Kennarar stunduðu þéringar á þessum árum.

Á þessum árum voru umbrotatímar í þjóðfélaginu. Það bar mikið á Keflavíkursjónvarpinu og undirbúningi fyrir íslenskt sjónvarp. Ég man að þessi sjónvarpsmál höfðu töluverð áhrif á félagslífið í skólanum. Nemendur höfðu allt í einu að nýjum hlutum að hverfa á kvöldin til afþreyingar. Við vorum rétt á undan '68-kynslóðinni. Við vorum mótaðir af öðrum viðhorfum og þegar rætt er um pólitík þá vorum við meira mótaðir af kalda stríðinu svokallaða, Kúbudeilunni og fyrstu og erfiðustu árum Viðreisnarstjórnarinnar."

Sverrir Páll Erlendsson
, íslenskukennari við Menntaskólann á Akureyri, stúdent frá MA árið 1968 og BA í íslensku og sögu frá Háskóla Íslands árið 1974:

"Ég þykist heppinn að hafa að mestu sloppið við að þurfa að þéra. Þéringar voru á hröðu undanhaldi á skólaárum mínum og horfnar úr MA þegar ég kom þangað [árið 1964] og varla nokkur í Háskóla Íslands sem þéraði."

Þorsteinn Briem, 16.1.2009 kl. 03:43

19 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Eftir heimkomuna frá Englandi árið 1973, var Vilmundur [Gylfason] ráðinn sögukennari við Menntaskólann í Reykjavík þar sem hann kenndi til æviloka. Samhliða kennslunni vann hann að fréttaskýringa- og viðtalsþáttum, ásamt því að skrifa greinar í dagblöð. Hann var og ritstjóri Alþýðublaðsins um sumrin á árunum 1976-81.

Síðla árs 1973 var Vilmundi boðið að taka þátt í nýjum fréttaskýringaþætti Sjónvarpsins, Landshorn. Að þáttunum kom ungt fólk og vakti Vilmundur athygli fyrir hispurslausa framkomu. Þannig gerðist það að haft var samband við Vilmund og honum bent á seinagang innan dómskerfisins í málum kaupmanns nokkurs frá Keflavík.

Kaupmaður þessi hafði mörg járn í eldinum og hafði þegar verið sakfelldur fyrir önnur mál. Vilmundur fékk því til sín Baldur Möller, ráðuneytisstjóra dómsmálaráðuneytisins, og gagnrýndi athafnaleysi yfirvalda. Það var nær óþekkt á Íslandi að embættismenn væru gagnrýndir opinberlega og vegið að þeim. Þótt skoðanir væru skiptar um ágæti þessarar aðfarar Vilmundar var í öllu falli víst að hann vakti athygli.

Málið átti þó eftir að draga á eftir sér nokkurn dilk. Á næsta ári var nafni Landshorna breytt í Kastljós og var Vilmundur áfram einn af fréttamönnum þáttarins. Vilmundur fjallaði áfram um mál kaupmannsins frá Keflavík, sem höfðaði meiðyrðamál gegn Vilmundi og lauk þeim málaferlum með sýknudómi fimm árum síðar."

Þorsteinn Briem, 16.1.2009 kl. 04:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband