17.1.2009 | 13:29
Vanhugsuð eða útsmogin aðgerð ?
Ég á erfitt með að sjá að sú aðgerð mótmælasamtaka að hefja mótmælafund inni í miðjum mótmælafundi annarra samtaka geti verið vel ígrunduð. Þvert á móti mun svona uppákoma skaða þá miklu mótmælaöldu sem risið hefur um allt land og færa ráðamönnum algerlega það vopn í hendur að geta sagt að með þessu sýni mótmælendur að þeir séu sundraður og sundurþykkur hópur sem geti ekki komið sér saman um neitt.
Ef fólkið í hópnum Nýjum röddum er gagnrýnið á fundarfyrirkomulag, fundarstjórn og val á ræðumönnum á fundunum á Austurvelli er rétta leiðin til að rökræða það og koma sjónarmiðum varðandi það á framfæri augljóslega ekki sú að reyna í raun að heypa fundinum í dag upp.
Af hverju boða samtökin Nýjar raddir ekki bara til eigin mótmælafundar og flytja sín mál þar ?
Hingað til hafa hin stóru mótmæli verið höfð uppi með vitneskju og samþykki og samráði við lögreglu. Ég á erfitt mað að trúa sögum um það að Nýjar raddir hafi ekki getað haldið sinn fund á þann hátt.
Fyrst hægt er að halda stórkostlegar mótmælaaðgerðir á fyllilega löglegan hátt með samráði við lögreglu, af hverju að gera annað ?
Enn eru tvær stundir þar til Nýjar raddir ætla að efna til aðgerða sem geta skapað úlfúð á Austurvelli og dregið úr afli mótmæla. Af hverju hefur þessi hópur þetta ekki svipað og gert var fyrr í vetur þegar tvenn samtök mótmæltu þannig að önnur hófu sínar aðgerðir á eftir aðgerðum hinna ? Seinkar aðgerðum sínum um hálftíma ?
Annað hvort er þetta vanhugsuð aðgerð eða útsmogin aðferð til að efna til úlfúðar og illinda og veikja afl mótmælafundanna á Austurvelli. Ég trúi því ekki fyrr en ég tak á hið síðara eigi við.
Mótmælafylkingarnar eiga að styðja hver aðra, - ekki efna sérstaklega til óþarfra og skaðlegra sundrungaraðgerða.
P.S. Nú er mótmælafundinum lokið og ekki varð af öðrum fundi innan hans. Tveir menn sem Hörður Torfason nafngreindi og stóðu nálægt ræðupallinum kölluðu eitthvað til hans og fengu tilsvör. Boðað var til næsta fundar klukkan 13:00 á Austurvelli næstkomandi þriðjudag þegar þing kemur saman. Með fjölgun atvinnulausra fjölgar þeim sem geta komið á fundi á þeim tíma dagsins.
Athugasemdir
Þetta er ekkert vanhugsað helur sett upp í þeim tilgangi að sundra
Hólmdís Hjartardóttir, 17.1.2009 kl. 13:32
Hverju hafa mótmælin breytt? Engu. Hvaða nöfnum hafa forustumenn stjórnarinnar kallað mótmælendur? Hver er félagsmálaráðherra?
Það er komin tími til að fólk taki sig saman og brenni Alþingishúsið en gefi þjófunum kost á útgöngu áður. Næst ætti að brenna háskólana hækka þoskkvótan um 200 þ.t. og senda nemendur á sjó.
Kristján Sigurður Kristjánsson, 17.1.2009 kl. 13:42
Ég hallast að seinni tilgátunni, þetta er ekki gert í neinum öðrum tilgangi en að reyna að eyðileggja þá samstöðu sem hefur jafnt og þétt verið að byggjast upp. Það eru einhverjir orðnir hræddir. Hverjir gætu það verið ?
Kveðja
Ari Guðmar Hallgrímsson, 17.1.2009 kl. 13:46
... ég trúi því ekki að það séu margir sem styðja Ástþór ... er hann ekki bara einn?... og þá er það ekki hópur... besta ráðið er að veita honum enga athygli, láta sem hann sé ekki til...
Brattur, 17.1.2009 kl. 13:47
Í útvarpsfréttum var rætt um það að Ástþór Magnússon væri í hópi þeirra sem stæðu að Nýjum röddum. Það á svo sem ekki að skipta máli. Engu skiptir í mínum huga hvað málstaðurinn er háleitur, góður eða lakari, - sú aðferð að hefja hávaðakapphlaup á fundum annarra gerir ekkert nema veikja málstað fylkinginna í heild.
Ómar Ragnarsson, 17.1.2009 kl. 13:51
Mér finnst mikilvægast í þessu öllu að fólk virði rétt annarra. Raddir fólksins hafa haldið úti þessum friðsömu mótmælum á Austurvelli og vilji aðrir halda mótmælafund á sama tíma, þá er nóg annað svæði til þess í Reykjavík og nágrenni. Ef við sem erum að láta rödd okkar heyrast, viljum að við séum tekin alvarlega, þá gerum við það ekki með því að skemma fyrir öðrum. Rödd okkar verður háværari eftir því sem samstaðan og samvinnan er meiri. Það er þetta gamla góða: Einn fyrir alla, allir fyrir einn.
Marinó G. Njálsson, 17.1.2009 kl. 14:05
Sammála þér Ómar, það er bara eitt að gera, ef þeir opna opið á sér.
ÚÚÚÚAAAAAAAAAAA........ Á HANN.
Sigurveig Eysteins, 17.1.2009 kl. 14:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.