Tákn Bush og glýju-Íslands.

Cadillac ´59 er stundum sagður vera tákn öfgatíma í bandarískri bílahönnun þegar bílaframleiðendur kepptust við að hafa bíla sína sem stærsta og með sem stærsta ugga, helst himinháa. Afturendi Cadillac ´59 stóð lengi út úr Hardrock Café í Kringlunni.

Í framtíðinni verður Hummer svipað tákn Bush-tímans í Bandaríkjunum.

Hummer og bandarískur ofurpallbíll verða tákn glýjutímans eða "gróðærisins" á íslandi.

Hummer H1. varð frægur í Flóastríðinu 1991. Hann var sérsmíðað stríðstól, þrjú tonn að þyngd með 45 sm veghæð, getu til að bera hálfs tonns fallbyssu á pallinum og litlar lóðréttar gluggarifur vegna hættu á grjóthríð frá sprengjuregni og kúlnahríð.

Mjög knappt og þröngt rými fyrir aðeins fjóra menn var í þessum bíl.

Smám saman varð hann tákn karlmennsku og ríkidæmis og veldis Bandaríkjanna þótt hann væri sá bíll á markaðnum sem hentaði verst til venjulegra nota í borg eða venjulegra ferða um vegaslóðir. En menn snöttuðu um í bæjum og borgum til að sýna veldi sitt á þessu tæki.

GM sá sér leik á borði til að gabba kaupendur. Þeir notuðu undirvagn, vélar- og drifbúnað úr Chevrolet Tahoe og settu ofan á grindina eftirlíkingu af yfirbyggingu á Hummer og nefndu fyrirbærið Hummer H2.

Hentu inn driflæsingum, töldu kaupendum trú um að þeir ækju um á gríðarlegum sérsmíðuðum hernaðartorfærutröllum og settu að sjálfsögðu hátt verð á stöðutáknið.

Þessi bíll gerði ekkert meira en lítið breyttur Tahoe, var með helmingi minni veghæð en Hummer H1 og á engan hátt sambærilegur við hann hvað snerti getu í torfærum. Það skipti samt engu máli fyrir flesta kaupendur, sem aldrei fóru á honum í torfærur.

Útsýnið í gegnum gluggarifurnar var afleitt og Chevrolet Tahoe með smábreytingum í drifbúnaði að sjálfsögðu miklu hagkvæmari bíll, enda mun léttari, því Hummer H2 var næstum þrjú tonn á þyngd.

Hér á landi er ameríski ofurpallbíllinn algengara stöðutákn, meira en þriggja tonna þungur rúmlega sex metra langur bíll með allt að 400 hestafla vél sem eyðir upp undir 30 lítrum á hundraðið þegar skroppið er á honum til að versla í Bónusi !

Auðvitað eru til þeir sem hafa raunveruleg not fyrir slíkan bíl til að draga hestakerrur eða hliðstæð tæki eða til komast á þeim mikið breyttum um verstu ófærurnar í jöklaferðum. En þeir eru aðeins lítið brot af kaupendunum.

En ég þekki ótrúlega marga eigendur þessara bíla sem sögðust hafa grætt tvær til þrjár milljónir króna á að kaupa bíl sem kostaði samt nokkrum milljónum meira en bíll sem hefði alveg nægt fyrir þá.

Þeir tóku myntkörfulán fyrir bílnum sem fékkst á 40% afslætti vegna hás gengis krónunnar og sérstaks afsláttar á innflutningsgjöldum vegna þess að þessir bílar eru skilgreindir sem verktakabílar.

Það var og er enn hægt að kaupa lúxus-verktakabíl af gerðinni Cadillac Escalade !

Þessi hegðun var sama fyrirbærið og fyrstu árin í sólarlandaferðum Íslendinga þegar margir voru augafullir allan tímann til að græða sem mest á því hvað vínið var ódýrt !

Auk þess að vera tákn um glýju-Ísland er ofurpallbíllinn tákn um veldi og áhrif verktakanna á Íslandimeð öll sín ítök hjá stjórnmálamönnum þeim er telja umturnun íslenskrar náttúru og hernaðinn gegn landinu sitt göfugasta hlutverk.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: S. Lúther Gestsson

Hér á landi þykir ekkert tiltökumál að velja sé bíl til breytinga sem viktar um og yfir 3 tonn  eftir breytingu.

Hér á landi er til einn Hummer sem er á 49" dekkjum og þykir einn öflugasti fjallabíll á Íslandi. Málið snýst fyrst og fremst um dekkjarstærð miða við þyngd. Ég er til að mynda nokkuð viss um að gamla súkkan þín eða Hiluxinn hafi ekki verið með driflæsingar framan og aftan.

S. Lúther Gestsson, 24.1.2009 kl. 01:50

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ansi lítið var undir honum,
en innundir var hjá konum,
því Hummer átti hann Two,
en himnesk var Ómars Frú.

Þorsteinn Briem, 24.1.2009 kl. 01:53

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

24 ára gamall Suzuki Fox sem ég á er minnsti jöklabíll landsins og kostaði aðeins 350 þúsund krónur þegar ég keypti hann fyrir sex árum. Hann vegur aðeins 940 kíló og kemst á 32ja tommu dekkjum jafn mikið og næstum þrefalt þyngri jeppar fara á 38 tommu dekkjum.

Hann er með enga brettakanta og með því að sjóða mismunadrifið fast að aftan fullkomnast geta hans.

Vélin er 101 hestafls Suzuki Swift GTI-vél og fer úr 0 í 100 km hraða á rúmlega 10 sekúndum en eyðir vel innan við 10 lítrum á hundraðið.

Hann er þar að auki á mjög einfaldri loftpúðafjöðrun.

Hann fór í rannsóknarferð um Vatnajökul með Jöklarannsóknarfélaginu, sannaði getu sína og vakti undrun.

Til að draga Örkina hef ég notað minnsta Toyota-jöklabíl landsins, 20 ára gamlan tveggja manna Hilux. Keypti hann á 150 þúsund krónur. Hann er aðeins 1620 kíló og ég splæsti á hann læstum og lækkuðum drifum.

Vegna þess að hann er með ekkert pallhús hvíla aðeins 620 kíló á afturöxli sem tryggir að hann grafi sig ekki niður að aftan í akstri upp brekkur.

Á aðeins 35 tommu dekkjum er hann klár í hvaða jöklaferð sem er.

Ég hef fundið út formúlu fyrir flotgetu og sporflatarmáli á dekkjum sem er svona, til dæmis á 38 tommu dekkjum: Ummál (38) x breidd (15,5) x hæð frá jörðu upp í felgu (11,5) x 0,28 (föst tala til að fá útkomu sem gefur til kynna þá þyngd bíls, þar sem dekkið getur gefið það sem ég nefni 100% flotgetu.

(Hæð frá jörð upp í felgu er ummál dekks mínus ummál felgu deilt með 2, - i dæminu hér á undan 38-15:2=23:2=11,5

100% flotgeta miðast við 1900 kílóa þungan bíl á 38 tommu dekkjum, bíl sem að geta farið nokkurn veginn allt sem krefjast má af jöklabíl. Síðan má reikna út flotgetu hvers bíls sem hlutfall eða prósentutölu af þessari flotgetu dekkjanna á móti þyngd bílsins.

Tökum dæmi um algengan 2400 kílóa jöklabíl á 38 tommu dekkjum. Það gerir 1900 kílóa flotgetu dekkjanna fyrir 2400 kílóa bíl. Flotgetan miðað við þann bíl er 1900 : 2400 x 100 = 79%

Dæmi 2. Súkkan mín. 32ja tommu dekk hafa 896 kílóa flotgetu. Flotgeta Súkkunnar: 896 : 940 x 100 = 95,3% flotgeta !

Ég hef prófað þessa útreikninga með mælingum á bælingu mismunandi dekkja á mismunandi bílum og hún gengur upp.

Síðan koma önnur atriði inn í dæmið svo sem breiddin á felgunum, lengd sporsins miðað við breidd og það hvort dekkin eru radial eða diagonal.

Hin síðarnefndu vöðlast ef mikið er hleypt úr.

Einnig hæð þyngdarpunkts bílsins miðað við lengd og breidd og þungahlutföll milli fram- og afturáss.

Því lægri þyngdarpunktur, því betra, og því minni þyngd að aftan, því betra.

Að lokum, flotgeta nokkurra algengra jeppadekkja eftir reikniformúlunni minni:

30 x 9,5 x 15 = 599 kíló

31 x 10,5 x 15 = 729 "

32 x 11,5 x 15 = 875 "

33 x 12,5 x 15 = 1040 "

35 x 12,5 x 15 = 1225 "

36 x 14,5 x 15 = 1463 "

38 x 15,5 x 15 = 1897 " (rúnnað af: 1900 til hægðarauka)

44 x 18,5 x 15 = 3305 "

Í neðstu tölunum kemur skýringin á því hvers vegna 44 tommu bílar virðast fara jafn mikið á 5 punda þrýstingi í dekkjunum og 38 tommu bílar á 3ja punda þrýstingi og 44 tommu dekkin bælast svo ótrúlega lítið.

En þegar er komið niður fyrir 3ja punda þrýsting fara 44 tommu dekkin að vöðlast og leikarnir jafnast.

Toytan mín var ekki hækkuð á grind og er því með lágan þyngdarpunkt. Flotgeta bílsins er: 1225:1620x100= 76%, sem sagt álíka og hjá 2400 kílóa þungum bíll á 38 tommu dekkjum.

Það er þjóðsaga að það þurfi að eyða meira en sex milljónum króna í jöklabíl eins og dæmin hér að ofan sanna.

Ómar Ragnarsson, 24.1.2009 kl. 02:51

4 Smámynd: S. Lúther Gestsson

Já Björn við Íslendingar erum skrýtnir en ferlega skemmtilegir.

Þessi tafla þín Ómar er góð og ekki mikið frábrugðin töflu sem t.d 4x4 klúbburinn hefur stuðst við í sínum skipulögðum ferðum.

Þó er það þannig að þarna verðum við að miða við að færið á jökli sé með besta móti og einnig leiðin að jökli, þar á ég t.d við vatsmagn í ám og annað.

Einhvern vegin hefur mér fundist í gegnum tíðina að bílar eigi bara að vera á minnst 38" dekkjum þegar lagt er á jökul að vetri til hvort sem þeir eru 2 tonn eða 3 tonn.

Svo má alltaf spyrja sig hvort einmitt meiri þyngd bíls geti ekki hjálpað til í erfiðu færi.

S. Lúther Gestsson, 24.1.2009 kl. 14:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband