Vitundarvakning.

Enginn veit enn hvað hvítu borðarnir eiga að tákna sem einhver eða einhverjir hafa hengt á ljósastaura og umferðarmannvirki í Reykjavík. En það er vitundarvakning í gangi hjá tugþúsundum Íslendinga.

Ég hef orðið þessa var til dæmis í heimsóknum í menntaskólana eftir hrunið.

Fyrir tveimur árum var það enn "in" hjá ungu fólki að verða viðskiptafræðingar og hagfræðingar og sjá fyrir sér spennandi og glæsta framtíð á því sviði.

Mjög almenn var sú skoðun að stjórnmál væru svo óhrein að venjulegt fólk ætti ekki að koma nálægt þeim heldur eftirláta það fólki, sem hefði áhuga á því sviði og ætlaði sér að klifra upp metorðastigana inni í flokkunum og komast í "goggunarröðina".

Þetta fólk þyrfti að vera hæfilega "þægt" og útsjónarsamt til að hljóta velþóknun viðkomandi flokksforystu eða flokkseigendafélags. Þegar það síðan væri komið á þing eða í feitar stjórnunarstöður í gegnum stjórnmálin biði þess glæst og örugg framtíð, sem sérsniðið eftirlaunakerfi og samtryggingarfyrirkomulag flokkanna færði þeim.

Þegar til dæmis Davíð Oddsson sá til þess að þáverandi höfuðandstæðingar hans í pólitík, fyrst Steingrímur Hermannsson og síðan Jón Baldvin Hannibalsson, yrðu annars vegar seðlabankastjóri og hins vegar sendiherra, gaf það þau skilaboð að í staðinn gæti Davíð gengið að seðlabankanum vísum, hver sem yrði þá við völd.

Nú er ég ekki að segja með þessu að Jón Baldvin Hannibalsson hafi ekki haft yfirburða menntun, reynslu og hæfileika til að verða sendiherra. Jón Baldvin hefur til dæmis aldrei verið öflugri og skarpari en nú. En skilaboðin með ótal sams konar stöðuveitingum áratugum saman voru skýr.

Það var ekki "in" fyrir tveimur árum að "óhreinka sig" á þátttöku í pólitík. En nú hefur orðið vitundarvakning. Það sést á andlitum og spurningum unga fólksins í menntaskólunum og þátttöku fólks í öllum þeim grasrótarhreyfingum sem nú spretta upp.

Æ fleiri skynja að ef almenningur vill ekki taka þátt í stjórnmálum til að vinna að siðbót og umbótum er lýðræðið orðin tóm. Ekkert raunverulegt lýðræði þrífst án almennrar þátttöku almennings í stjórnmálum.

Lýðræðið er að vísu gallagripur eins og öll mannanna verk en það hefur enn ekkert skárra fyrirkomulag fundist.

P.S. Eins og sést var þetta bloggað klukkan 9:24. Klukkan 9:58 bloggaði Ólína Þorvarðardóttir um það að hópurinn Nýtt lýðveldi hefði staðið að þessu.

Það er alger samhljómur með sjónarmiðum Nýs lýðveldis og þeim sem ég hef sett fram í blaðagreinum í vetur. Raunar var lýðræðisbylting eitt af stefnumálum Íslandshreyfingarinnar fyrir síðustu kosningar..

Við vildum aðgreiningu framkvæmdavalds og löggjafarvalds, eflingu hins síðarnefnda og afnám ofríkis framkvæmdavaldsins, jöfnun atkvæðavægis og breyttai kjördæmaskipan og kosningalög.

Þáttastjórnendur og aðrir stjórnmálaflokkar virtust ekki hafa áhuga á að ræða þetta og þótt ég reyndi að skjóta því að fékkst það aldrei rætt utan einu sinni í mýflugumynd í formannaumræðunum.


mbl.is Hvítir borðar í borginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hvítborðar vilja Nýtt lýðveldi.

Appelsínugulir vilja ekki ofbeldi.

Þorsteinn Briem, 24.1.2009 kl. 09:54

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

"The white ribbon, a white-colored ribbon or representation of a white-colored ribbon, has several different meanings depending on the context. As with other color ribbons, is sometimes used by political movements to signify or spread their beliefs."

Hvítur borði.

Þorsteinn Briem, 24.1.2009 kl. 10:38

3 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Jú, Ómar - ég veit það. Kíktu á  bloggið mitt.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 24.1.2009 kl. 11:26

4 Smámynd: Brattur

... er ekki komið að því að gamla flokkakerfið riðlist og vanþróað lýðveldið taki skref fram á við og þroskist?... líst vel á hugmyndirnar hjá "´Nýja lýðveldinu"...

Brattur, 24.1.2009 kl. 12:04

5 Smámynd: Jónas Jónasson

Sjálfbært Ísland - já takk.

Jónas Jónasson, 24.1.2009 kl. 12:09

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Jæja, Ólína, það voru þá þið. Gott hjá ykkur.

Ómar Ragnarsson, 24.1.2009 kl. 13:05

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

GLÆPALÝÐUR hefur eyðilagt síðuna www.nyttlydveldi.is.

Þorsteinn Briem, 24.1.2009 kl. 14:16

8 Smámynd: Offari

Nú er tími til að afnema flokkakerfið og láta heyfingarnar og samtökin taka við.

Offari, 24.1.2009 kl. 14:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband