25.1.2009 | 01:50
Skiljanlegt.
Kreppan birtist seinna á landsbyggðinni en í Reykjavík og landsbyggðarfólk er vanara atvinnumissi og lokun fyrirtækja en fólkið á suðvesturhorninu, sem hefur ekki þekkt neitt slíkt í líkum mæli og nú.
Meðan "gróðærið" ríkti með allt of háu gengi krónunnar bitnaði það á sjávarútvegsfyrirtækjum og þar með mun meira á landsbyggðinni en Reykjavík.
Lága gengið nú þýðir betri afkomu fyrir sjávarútveginn, sem að vísu glímir við gríðarlegar skuldir sem hann varð að taka á sig á mögru árum hágengisins þegar lánsfé var jafnaðgengilegt og kalt vatn.
Byggingariðnaður, fjármálastarfsemi og atvinnulífið allt blés út í risastóra blöðru hér syðra með tilheyrandi fjórföldun skuldasöfnunar heimila, þrefaldri skuldasöfnun fyrirtækja og byggingum, mannvirkjum, bíla- og tækjaflota langt umfram þarfir.
Nú hrynur þetta allt saman með brauki og bramli.
Fólkið á landsbyggðinni er vant því að lifa við þá óvissu að togarinn og kvótinn geti farið á morgun og fiskvinnslan lagst niður daginn eftir.
Nú fáum við, sem eigum heima á suðvesturhorninu, að finna fyrir því við hvað landsbyggðarfólkið hefur búið um áratuga skeið.
Meiri biðlund á landsbyggðinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Útgerð seldi fisk á 100 dollara(6500íslenskar krónur) sem dæmi 1. janúar
2008 og á sama tíma skuldar útgerðin vegna kvótabrasksins í erlendum lánum
hjá íslenskum banka vegna kaupa á þessum veiðiheimildium til að geta selt
fiskinn á þessu verði fyrir sem dæmi 500 dollara(32.500 íslenskar krónur).
Gengið á íslensku krónunni var á sama tíma 65 íslenskar krónur fyrir einn
dollar.
Útgerð seldi fisk á 100 dollara(13000 íslenskar krónur)sem dæmi 1.janúar
2009 og á sama tíma skuldar útgerðin vegna kvótabraksins í erlendum lánum
hjá íslenskum banka vegna kaupa á þessum veiðiheimildum til að geta selt
fiskinn á þessu verði fyrir sem dæmi 500dollara(65.000 íslenskar
krónur)Gengið á íslensku krónunni var á sama tíma 130 krónur íslenskar
fyrir einn dollar.
Þessa dæmisaga sýnir okkur hvað útgerðin er í alvarlegri
stöðu vegna kvótabrasksins (er gjaldþrota) er ekki í slæmum málum vegna hversu gengið er lágt á íslensku krónunni í dag enda segir sú kenning með öðrum orðum að best sé fyrir útgerðina á Íslandi að fá sem minnst eða ekkert fyrir fiskinn.
Baldvin Nielsen,Reykjanesbæ
B.N. (IP-tala skráð) 25.1.2009 kl. 02:25
Ómar minn, þegar landsbyggðin tapaði, græddi RRRRReykkkkjavík!!!!!
Þegar RRRReykkkkjavík!!!! tapaði, græddi landsbyggðin....
Viltu vinsamlega koma okkur í skilning um hvað við erum að tala um hér, plís!
Guðni Ólason, 25.1.2009 kl. 05:59
Málið er bara að við á landsbyggðinni fundum ekki nema smá þef af góðærinu. Laun á landsbyggðinni voru svo miklu lægri launum á höfuðborgarsvæðinu (og eru enn).
Ingibjörg (IP-tala skráð) 25.1.2009 kl. 13:33
Allt það svínarí ein er steypa,
hjá öllum vitið búið að gleypa,
og sælan skamma nú sneypa,
en svínin öll um allt land geipa.
Þorsteinn Briem, 25.1.2009 kl. 15:16
Það er rangt að ég segi að landsbyggðin græði á kreppunni. Ég segi aðeins að kreppan komi síðar þangað en hér fyrir sunnan.
Ég er að túlka þá skoðun mína að "gróðæris"spilaborgin hafi þanist mest út hér fyrir sunnan og þess vegna lendi mest af hruninu hér.
Það breytir því ekki að 2002 hófst veislan með Kárahnjúkavirkjun og tilheyrandi þenslu, sem hófst meira að segja ári áður en framkvæmdir byrjuðu, eingöngu vegna væntinga.
2003 var síðan bætt í með efndum ábyrgðarlausra kosningaloforða í húsnæðismálum.
Sérfræðingar Alþjóða gjaldeyrissjóðsins segja þetta í sinni skýrslu.
Áfengissjúklingi nægir að byrja með nokkrum flöskum til að efna til langvarandi og vaxandi ölvunar.
Ómar Ragnarsson, 25.1.2009 kl. 19:46
Pistillinn hér að ofan var skrifaður til þess að benda á þolgæði og æðruleysi fólksins á landsbyggðinni þegar erfiðleikar berja að dyrum. En sumir lesa allt sem ég segi og skrifa eins og skrattinn biblíuna.
Ómar Ragnarsson, 25.1.2009 kl. 19:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.