Svínvirkar: Að kópera vopn andstæðinganna.

Það er eitt af lögmálum hernaðar að þegar annar aðilinn ræður yfir vopni, sem getur reynst skætt, reynir hinn að gera eftirlíkingu af því fyrir sig. Bretar beittu til dæmis skriðdrekum í fyrri heimsstyrjöldinni og Þjóðverjar tóku þá tækni upp sem lið í nýrri hernaðartækni leifturstríðs, sem varð skæðasta vopni þeirra þar til andstæðingarnir lærðu sína lexíu.

Frægð Pattons fólst í notkun habns á þeirri tækni sem Þjóðverjar höfðu fullkomnað.

Þessi aðferð hefur svínvirkað í íslenskri pólitík.

1953 fékk Þjóðvarnarflokkurinn 6% fylgi í alþingiskosningum og síðan 10,5% í bæjarstjórnarkosningum 1954.

Vinstri flokkarnir tóku baráttumálið um brottför hersins upp í mars 1956 og það innsiglaði örlög Þjóðvarnar í kosningunum í júní. Um haustið var loforðið síðan svikið en Þjóðvörn bar aldrei sitt barr eftir þetta.

Tregða í landhelgismálinu varð banabiti Viðreisnarstjórnarinnar en 1971 var mynduð vinstri stjórn sem færði landhelgina úr 12 mílum í 50. En í kjölfarið bætti Sjálfstæðisflokkurinn um betur og tók 200 mílna landhelgi upp á arma sína.

Eftir Jökulsárgönguna 2006 setti Samfylkingin fram Fagra Ísland og lofaði stóriðjustoppi í kosningunum 2007. Hvort tveggja var síðan svikið.

Um og eftir áramótin fengu samtök um hagsmuni aldraðra og öryrkja mikið fylgi en Samfylkingin og VG, einkum Samfylkingin gerðu málefni þessara samtaka að sínum og allt fylgið reyttist af hinum nýstofnuðu samtökum sem tókst ekki að skila inn gögnum fyrir framboð sitt.

Nú skynja Framsóknarmenn lýðræðisölduna í þjóðfélaginu og lofa öllu fögru um stjórnlagaþing. Spurningin er hvort hægt er að treysta þeim í því máli fremur en öðrum "lánsmálum."

Því verður þó ekki neitað að það er árangur út af fyrir sig að hafa áhrif á stefnu andstæðinganna, svo framarlega sem hún er ekki svikin.


mbl.is Kosið í vor og í haust?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

hvað er habn??

Ég er alveg á því að þetta "múf" hjá Framsókn er náttúrulega bara tækifærismennska. Hvað þýðir þetta stjórnlagaþing? Hvað halda menn að komi út úr því?

Íslendingar eru sérfræðingar í því að forðast að ræða kjarna málsins, eins og Laxness benti á. Nú þarf að takast á við vanda heimilanna, reyna að halda fyrirtækjunum gangandi, og reyna að halda velferðarferfinu gangandi þrátt fyrir niðurskurð í ríkisrekstri. Er þetta ekki kjarni málsins og það sem menn ættu að vera að ræða um?

Stjórnlagaþing og innganga í ESB getum við rætt seinna, en eigum núna að verja öllum okkar kröftum í það sem skiptir máli í dag.

Jonni (IP-tala skráð) 29.1.2009 kl. 18:20

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Nú bætir Framsókn því við sem skilyrði að skattar verði ekki hækkaðir og ekki hróflað við hvalveiðireglugerð Einars G.

Enn og aftur kemur í ljós hve sterk oddaaðstaða Framsóknar er á þingi.

Ómar Ragnarsson, 29.1.2009 kl. 22:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband