Við Steingrímur og Volvoinn eldumst.

Mér er minnisstætt símaviðtal sem ég átti fyrir nokkrum árum við Sigrúnu Magnúsdóttur, kaupfélagsstjóra Kaupfélags Bitrufjarðar, sem tíu árum áður hafði verið eina kaupfélag landsins, sem skilaði hagnaði á þeim tíma sem Sambandið og kaupfélögin hrundu. Þá heimsóttti ég hana, gerði um þetta frétt og hafði heyrt að kaupfélagið væri enn rekið með ágóða, tíu árum síðar.

"Hvernig gengur í þessari fámennu sveit ?" spurði ég."Hefur fólkinu haldið áfram að fækka ?" "Nei svaraði hún", við erum ennþá jafn mörg og enginn hefur flutt burtu á þessum tíu árum."

"Þetta eru góðar fréttir", sagði ég.
"Nei, þetta eru slæmar fréttir," svaraði hún.
"Af hverju ?" spurði ég.
"Af þvi að við erum öll orðin tíu árum eldri," svaraði hún.

Þetta verður eitt aðal vandamál Íslendinga næstu árin. Ungt og miðaldra fólk flytur af landi brott og það eldra verður eftir og heldur áfram að eldast og verða meiri byrði á heilbrigðis- og tryggingarkerfinu sem færra ungt fólk verður að standa undir.

Sífellt eru framleiddir sparneytnari og hagkvæmari bílar og af þeim sökum er ekki gott að flotinn verði eldri. En við búum samt óvenju vel til að halda í horfinu og það er hægt að spara og nota sparneytnari og ódýrari bílana meira í daglegt snatt, jafnvel langferðir.

Ég nota til slíks ódýrasta og minnsta bíl landins, og hef meira að segja farið oft á honum um allt land og líka upp á norðausturhálendið.

Vegna þess að börnin mín vissu að svona akstursmáti hafði verið mér kær í hálfa öld gáfu þau mér einkanúmerið "Edrú" þegar ég varð sextugur.

Hermdu upp á mig þau ummæli mín að ég myndi ekki vilja hafa einkanúmer nema það hefði góðan boðskap að færa. Boðskapurinn "Edrú" er algildur, - gilti til dæmis um efnahagsfyllerí okkar Íslendinga.

Víkjum loks að heiti þessa pistils. Mér finnst umræðan um gamla Volvoinnn hans Steingríms J. Sigfússonar hafa verið á villigötum. Talað um það þetta sé eyðslufrekur og mengandi bíll og að Steingrímur sendi vond skilaboð og sé að hræsna með því að koma á honum til Bessastaða. Venjulega aki hann meira að segja um á dýrum Landcruiser-jeppa.

Þótt ég reyni yfirleitt að vera á pínu-Fíatinum mínum við hátíðleg tækifæri og senda með því víðtæk edrú-skilaboð vil ég skjóta skildi fyrir Steingrím. Volvoinn er ekki brúksbíll heldur nokkurs konar mubla, sem gaman er að gera sér dagamun á. Við hann eru tengdar gamlar og góðar minningar. Við Steingrímur eldumst og okkur þykir vænt um það besta úr fortíðinni.

Bílar af Volvo-gerð voru rómaðir fyrir að vera traustir, vandaðir og öruggir. Notkun slíks bíls við örfá tækifæri skiptir litlu í efnahagsreikningi þjóðarinnar. Hin hversdagslegu not mynda liklega vel yfir 95% kostnaðar, eyðslu og mengunar og eitt og eitt viðhafnartækfæri skipta þar nánast engu. Ég held að margir gagnrýnendur Volvo-uppátækisins hafi kastað úr glerhúsum.

Athöfnin og dagurinn voru mikilvæg í lífi Steingríms, líkt og smókingur eða brúðarkjóll við brúðkaup. Volvoinn litaði gráan hversdagsleikann. Boðorðið "halda skaltu hvildardaginn heilagan" þýðir í raun að við notum vel þau tilefni sem gefast til að gera okkur dagamun en verum að öðru leyti iðin, nýtin og sparsöm í önnum hversdagsins.


mbl.is 235 nýir bílar skráðir í janúar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Rétt hjá þér Ómar. Svo eru líka mennigarsöguleg verðmæti falin í því að halda við gömlum bílum og nota þá. Þá er það ótalið að með því að hafa "fóstrað" gamla Volvo bílinn sinn svona vel hefur Steingrímur sýnt að hann hefur heilbrigðara verðmæta mat en margur.

Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 4.2.2009 kl. 11:13

2 Smámynd: ÞJÓÐARSÁLIN

Gaman að heyra að sá litli er enn í notkun, en ég hef ekki séð hann síðan í kringum síðustu kosningar, þegar þú gerðir við hann á skemmtilegan hátt.

Takk fyrir textann um Jóhönnu. Á meðan ég var að hlusta þá rifjaðist upp þegar ég sá þig skemmta fyrst í Hellisgerði í Hafnarfirði, varla hefur þú verið mikið eldri en 17 ára.

ÞJÓÐARSÁLIN, 4.2.2009 kl. 11:16

3 Smámynd: Benedikt Bjarnason

Ómar: Mér fannst þetta ágætt hjá Steingrími að koma á Volvo til Bessastaða. Þó ég sé nú ekki sammála Steingrími í pólitíkinni þá finnst mér svona uppákoma vera til meiri fyrirmyndar en hjá öðrum ráðherrum.

Flestir ráðherrar eru á mjög dýrum bílum til að skutlast á milli staða á höfuðborgarsvæðinu. Til hvers? Það veit ég vel að það hefur ekki mikið að segja í ríkisrekstri hvort ráðherra ekur um á 8 milljóna króna bíl eða 3 milljóna króna bíl. Hér er ég fyrst og fremst að tala um fordæmið gagnvart almenningi. Svo má líka taka fram að það eru fleiri en ráðherrar sem keyra um á bílum í ríkiseign.

En að lokum Ómar ef maður má nú gantans aðeins með þennan pistil þinn. Þá dettur mér í hug að spyrja. Hvort heldur þú að endist (eða eldist) best; þú sjálfur, Fíatinn, Steingrímur eða Volvoinn? Nei þetta var pínulítið ljótt af mér.

Benedikt Bjarnason, 4.2.2009 kl. 12:04

4 identicon

Það þarf að taka árórðri um nýja og umhverfisvæna bíla með varúð. Vissulega eyðir Volvoinn hans Steingríms meira en nýr smábíll, en á móti kemur að það er ekki búið að eyða orku í að kremja hann saman, flytja til útlanda, bræða hann niður og steypa í klump, flytja hann til annars útlands, bræða klumpinn aftur niður, stansa hann í panel o.s.frv. Volvoinn er sjálfsagt orðinn svo gamall að hann er búinn að sleppa við þessi örlög allavega tvisvar. Það er heilmikil orkunotkun og mengun sem getur orðið erfitt að vinna upp með sparneytnari bíl.

Áhugamaður (IP-tala skráð) 4.2.2009 kl. 12:12

5 Smámynd: Ragnar Gunnlaugsson

Var að hlusta á Jóhönnu lagið,bæði lag og texti mjög skemmtilegt,þarna er þú á réttri hillu ,veitir ekki af í volæðinu.Kærar þakkir.

Ragnar Gunnlaugsson, 4.2.2009 kl. 12:12

6 identicon

Sæll Ómar Ragnarsson.

Fróðlegt að lesa um loftbelgsflugið. Ekki allt sem tekst vel í fyrstu tilraun.

Sammála þér um bláa Volvoinn hans Steingríms, þetta er nokkurskonar mubla. Það þekkir þú vel sem bílaáhugamaður. Vissi um Volvoinn hans Steingríms fyrir þó nokkuð löngu síðan. Sá hann einnig inni á verkstæði hjá Þorgeiri og Kjartani fyrir ekki svo löngu í smá yfirhalningu.

Þegar þú minnist á gamla bíla. Ég sá gula Prinsinn þinn fyrir utan Útvarpshúsið í Efstaleiti í gær. Fallegur bíll.  Hef ekki séð hann síðan á 17. júní sl. þegar þú varst með hann við Árbæjarsafn, jú og svo aftur við Bílageymslur Fornbílaklúbbsins við Esjumela, eða var það sl. vor ?

Hálf vorkenndi honum þarna í snjónum. Vantar þig ekki geymslupláss undir hann fram á sumarið? Mætti ræða málið við mig. Ef þú hefur áhuga, þá er tölvupóstfangið mitt meðfylgjandi þessari athugasemd.

Kveðja,

Heimir H. Karlsson.

heimirhkarlsson@yahoo.com.

Heimir H. Karlsson (IP-tala skráð) 4.2.2009 kl. 14:00

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Heill og sæll, Heimir. Guli bíllinn sem þú minnist á er reyndar Fiat 500 en ekki NSU-Prinz. Fyrsti bíllinn minn, NSU Prinz 30, var gulur og fyrir átta árum fann vinur minn í Fornbílaklúbbnum, sem nú er látinn, svartan bíl af þeirri gerð til sölu uppi í sveit miðja vegu milli Stokkhólms og Gautaborgar hjá bæ sem heitir Tibro.

Við Helga fórum þangað og sóttum bílinn og ég ók honum til Gautaborgar en þaðan var hann fluttur til Íslands. Prinzinn hefur fengið að standa eins og lítil mubla innan við súlu í kjallara Útvarpshússins.

Ég hef litið á Fiatinn sem fulltrúa Prinzins, enda með sama viðurnefni hjá okkur hjónum og guli Prinzinn hafði á sínum tíma: "Litli gulur." Fiatinn hefur leikið hlutverk í Gleðigöngunni undanfarin ár.

Prinzinn, hann og tveir bílar af gerðinni Fiat 126 eru ætlaður sem nokkrir af bílunum í framtíðarbílasafni sem gæti fengið nafnið "Örbílasafn Íslands."

Undanfarin ár hefur verið hægt að kaupa svona Fiata í Póllandi eða Bretlandi fyrir ca 50 þúsund krónur.

Fiat 126 bíllinn var ekinn 25 þúsund kílómetra og fjögurra ára gamall þegar ég flutti hann inn með togaranum Bjarti fyrir fimm árum. Hann kostaði á götuna hér heima samtals 110 þúsund krónur og hefur þess vegna verið ódýrasti bíll á Íslandi.

Það er rétt hjá þér að ég er á hrakhólum með Fiat 500 bílinn sem er oft litið á sem tákn Ítalíu.

Nýr bíll með þessu nafni, að vísu miklu stærri, var valinn sem bíll ársins í Evrópu í fyrra og bílar af gömlu, klassísku gerðinni hafa stórhækkað í verði.

Ég var svo heppinn að fá þann gula fyrir slikk fyrir þremur árum.

Ómar Ragnarsson, 4.2.2009 kl. 17:56

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

"The original Lada was a basic car, lacking in most luxuries expected in cars of its time and was patterned after the Fiat 124.

Palmiro Togliatti (1893-1964) was an Italian politician, the leader of the Italian Communist Party from 1927 until his death in 1964. The Russian city of Stavropol-on-Volga, where Togliatti had been instrumental in establishing the AutoVAZ (Lada) automobile manufacturing plant in collaboration with Fiat, was renamed Tolyatti in his honor in 1964, after his death."

Þorsteinn Briem, 4.2.2009 kl. 18:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband