6.2.2009 | 10:32
Í átt til grænna gilda í Mosó.
Ef það er rétt að í Mosfellsbæ eigi að rísa "grænn miðbær" eru það góðar fréttir frá bæjarfélagi þar sem sagan undanfarin ár hefur litast af umdeildum framkvæmdum vegna umhverfisspjalla.
Meirihluti afkomenda minna býr í Mosfellsbæ og mér því málið nokkuð skylt auk þess sem vinafólk mitt í Mosfellsbæ hefur haft samband við mig út af deilum vegna framkvæmda.
Mér er í minni moldrokið úr malargryfjunum og lagning vega bæði ofarlega og neðarlega í bænum. Þéttbýlið í Mosfellsbæ var lengi kallað Mosfellssveit og byggðin nýtur vissrar sérstöðu á höfuðborgarsvæðinu fyrir það hve dreifbýlisleg hún hefur verið og vinaleg.
Þegar Edvard bróðir minn, borinn og barnfæddur Reykvíkingur, flutti til Reykjavíkur frá Höfn í Hornafirði, saknaði hann umhverfisins í Hornafirði og fannst hann finna milliveg í Mosfellsbæ.
Ég veit fátt skemmtilegra en góðar góðviðrisstundir í vinahópi á flugvellinum á Tungubökkum. Vonandi verður sátt í Mosfellsbæ um að hlúa að grænum gildum bæjarfélagsins.
Það er hefð fyrir deilum um framkvæmdum þarna. Þegar félagsheimilið Hlégarður var reist fyrir meira en hálfri öld voru menn ekki sammála um það hvernig til tókst.
Sagan segir að þrír hagyrðingar hafi átt leið fram hjá húsinu, þegar það var í byggingu. Ekki man ég nöfn tveggja þeirra en sá þriðji var Kolbeinn í Kollafirði.
Einn þeirrabyrjaði: Hús er byggt við héraðsbraut.
Annar bætti við: Hreppur Mosfells á það.
Kolbinn botnaði: Það ætti að standa oní laut
svo enginn þyrfti að sjá það.
Vonandi verða ekki ortar svona vísur um nýja miðbæinn.
Nýr miðbær í Mosfellsbæ | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll Ómar og takk fyrir þína athugasemd. Landslag í Mosfellsbæ er einstaklega fallegt og því mikils virði að varðveita það. Góðærið svokallaða fór mjög illa með Mosfellsbæ. Það var eins og að hagsmunir athafnamanna væru öllum öðrum gildum æðri. Skoðanir og réttur íbúa til að hafa áhrif á skipulagsáætlanir máttu sín lítils og þannig skapaðist jarðvegur fyrir deilur.
Á bloggi Varmársamtakanna (www.varmarsamtokin.blog.is) , sem ég er í forsvari fyrir, segi ég frá því að eina ferðina enn sé verið að gera samninga um framkvæmdir áður en skipulagstillögur hafa svo mikið sem verið kynntar fyrir íbúum. Skv. fréttinni á nú að kynna tillögur að nýjum miðbæ en þar sem úrvinnsla á einstöku þáttum skipulagsins, s.s. hönnun kirkju og menningarhúss, er þegar hafin er ljóst að áhrif íbúa á skipulagið verða nánast engin. Svona vinnubrögð eru ólýðræðisleg og til þess fallin að valda deilum. Þau eru reyndar forsenda hefðarinnar sem þú minnist á í blogginu þínu.
Ég vona að sem flestir mæti á fundinn á þriðjudag kl. 5 og mótmæli þessum vinnubrögðum.
Sigrún Pálsdóttir (IP-tala skráð) 6.2.2009 kl. 16:39
Já ég man eftir Mosfellssveit sem krakki. Einstaklega sérstakur staður sem núna er orðinn að úthverfi Reykjavíkur þrátt fyrir að vera eitthvað annað á pappír. Þangað var fjölskylda mín að skoða að flytja uppúr 1980 og faðir minn var með kartöflugarð þarna rétt fyrir austan.
Ég held að Ísland sé búið að missa ansi miklar manneskjulegar smágerðar hlýlegar byggðir, sem gerðar voru utan við "skipulagið". Það er eins og með annað að stofnanavæðingin er ekki alltaf til að hjálpa við og stórkarlalegar framkvæmdir alltaf rangar í smágerðum bæjarfélögum. Þó er jú margt gott inn á milli.
Kvosin mun lengi vera í mínu uppáhaldi, sérstakur staður á landinu. Man þegar ég var í arkitektaskóla í Bandaríkjunum 1983-1985 var lagt fyrir mig á einhverju verkefni að lýsa "stað" með texta og þá einmitt lýsti ég kvosinni í Mosfellssveit.
Ólafur Þórðarson, 7.2.2009 kl. 01:39
Nýr miðbær?! En það er enginn "eldri" miðbær þarna. Það ER ENGINN miðbær þarna. Þverholtið er ekki miðbær.
ari (IP-tala skráð) 7.2.2009 kl. 05:03
Hvet ykkur til að mæta á "kynningarfundinn" á morgun kl. 17 í Listasalnum.
Þá er hægt að spyrja spurninga - t.d. hvort það sé eðlilegt að setja menningarhús og kirkju saman? Og hvort ekki sé eðlilegt að gera aðalskipulag áður en deiliskipulag sé kynnt (búið að ákveða fyrirfram). Eða hvort bæjarstjórnin vilji ekki halda sig við fyrri plön og láta KFC og Krónuna ásamt nokkrum benzínstöðvum vera tákn og stolt bæjarins. Hef varla komið inn í "miðbæ" (ef hægt er að kalla miðbæ) sem er minni grænn.
Freyja Lárusdóttir (IP-tala skráð) 10.2.2009 kl. 20:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.