7.2.2009 | 17:09
Margt verður á lausu.
Blokkin hennar Birnu er ein af mörgum, sem nú standa ýmist hálfkláraðar, kláraðar og mannlausar eða með örfáa íbúa. Á næstu árum og jafnvel meira en áratug sitjum við Íslendingar uppi með gríðarleg áþreifanleg verðmæti sem verða engum að gagni í bráð og frekar byrði en hitt.
Annað hvort mun mikið af þessu skemmast og/eða þurfa viðhalds og rekstrarkostnaðar við, hvort sem það eru ofurbílar eða risastórar villur og sumabústaðir.
Enginn markaður er erlendis fyrir stóru bílana sem mokað var inn í landið og gera ekki annað en að íþyngja landsmönnum með eyðslu sinni og rekstrarkostnaði, ef þeir þá ekki standa og grotna niður.
Það jákvæða sem hægt er að sjá í þessu er að stór hluti af því sem fjárfest var í í gróðærinu nýtist okkur þrátt fyrir allt, svo sem samgöngumannvirki, opinberar byggingar og tækjakostur sem annars hefðu ekki verið fjárfest í fyrr en síðar.
En neikvæða hliðin vegur sterkara, því að niðurskurður næstu ára mun bitna harkalega á þjóðinni, sem hefði ekki átt að margfalda skuldir sínar í gróðærinu, heldur greiða þær upp og verja fjármagninu með hugarfari hófsemi og ráðdeildar.
Birna er ein í blokkinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þetta er mikið rétt hjá þér....það var allt of mikið byggt á síðustu árum og nú stendur meira en helmingurinn ókláraður eða tómur....ég veit um aðra blokk þar sem aðeins er einn íbúi....
TARA, 7.2.2009 kl. 17:19
Sæll, Ómar minn.
Ég sló að gamni mínu inn nokkrar tölur á tölvuna mína. Reiknitölvuna.
!0.000 manns kaupa hús eða íbúðir. Gjaldeyriskostnaður vegna þeirra er varla yfir 10 000 000. Tíu milljónir á hverja íbúð. Samtals 100 milljarðar.
10.000 manns kaupa jeppa. Gjaldeyriskostnaður vegna þeirra kaupa er varla yfir 5 000 000 á hvern bíl. Samtals 50 milljarðar.
Flatskjáir, þvottavélar og fleira, ca. 10 milljarðar.
Ég er að tala um óhófið á hinum almenna borgara, hugsanlega tekið í erlendum lánum.
Mér finnst ósmekklegt þegar menn tala um að Íslendingar almennt, hafi lifað um efni fram. Þegar almennur Íslendingur tekur lán í banka, hefur hann þær forsendur að hann hafi tekjur til að greiða afborganirnar. Þannig er um flest neyslulán.
Fjárglæframenn taka lán til fjárglæfra með það fyrir augum að lán fáist til afborgana á þeim fyrri. Það hafa bankarnir gert. Fyrir eigendur sína.
Púnktur og basta.
Sigurður Rúnar Sæmundsson, 7.2.2009 kl. 17:38
Takk, Sigurður R, S! Tökum svo inn í dæmið Verðtryggð Okurlánin til almennings sem ekki gat átt viðskipti við normal bankakerfi ! Var nema von að 'skuldir heimillanna' hækkuðu! Myntkörfulán á tíma er bankarnir 'ráðlögðu' vitandi af of háu gengi krónunni - eru bara viðbótarglæpir!
Hlédís, 7.2.2009 kl. 18:13
Þetta með tómu blokkina. Ég var að heyra því fleygt, að flestir lífeyrissjóðir á Íslandi væru að tæmast og tímaspursmál hvenær katastrofan ríður yfir lífeyrisþega.
Kannski einhver geti upplýst mig meira um þennan harmleik?
V.Jóhannsson (IP-tala skráð) 7.2.2009 kl. 18:48
Fokkings er það fokk,
fúll er hundur í blokk,
á rúntinum Palli ríkur,
og rosa átt'ann tíkur.
Þorsteinn Briem, 7.2.2009 kl. 19:05
Tugþúsundir Íslendinga tók engan þátt í dansinum kringum gullkálfinn en verða nú að taka á sig byrðar. Þetta hef ég margsagt.
En nógu margir fóru á fullt í að fjármagna kaup og neyslu til þess að skuldir íslenskra heimila fjórfölduðust í góðærinu á fárum árum og urðu hinar hæstu í heimi. Það getur ekki verið eðlilegt.
Konkret dæmi: Maður einn grét í haust á axlir vina sinna vegna þess að hann hafði tapað 20 milljónum króna og allt væri í steik, konan að fara frá honum og allt búið.
Þegar hann var beðinn um að tilgreina nánar allt dæmið kom í ljós að hann átti átta milljónir árið 2000, lagði þær í áhættufjárfestingu, "græddi" 22 milljónir og átti 30 milljónir fyrir hrunið.
Síðan tapaði hann 20 milljónunum fyrrnefndu og á eftir 10 milljónir. Ef hann hefði látið átta milljónirnar nægja árið 2000 og ávaxtað þær á eðlilegan hátt ætti hann nú þessar sömu 10 milljónir.
Ég hef hins vegar margsinnis áður sagt að höfuðábyrgðina á þessu báru þeir sem buðu upp á veisluna með því að láta hátt gengi krónunnar freista fólks til að kaupa hvaðeina með 40% afslætti og fá það meira eða minna að láni.
Ómar Ragnarsson, 7.2.2009 kl. 20:26
Ég held að það sé alveg rétt hjá þér Ómar að það eru margir sem voru í áhættufjárfestingum og gráta hátt núna, þó svo að tap þeirra sé í raun og veru ekkert eins og þú lýsir svo skemmtilega með manninn sem græddi 22 milljónir og tapaði 20. En svo eru náttúrulega hinir sem tóku lán af illri nauðsyn og gerðu raunhæfa áætlum sem er núna gjörsamlega fokin út í veður og vind.
kveðja Rafn.
Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 7.2.2009 kl. 21:14
En Birna í blokkinni er samt ljós húmorpunktur í svartri tilveru okkar Íslendinga.
Axel (IP-tala skráð) 7.2.2009 kl. 21:52
Reyðarfjörður er engin undantekning á byggingabrjálæðinu. Hér er slatti af auðu nýbyggðu húsnæði og það þrátt fyrir að íbúum hér hafi fjölgað um 100% frá því fyrir álver.
Hér á Reyðarfirði er fólk farið að tala um "fyrir og eftir álver", svona svipað og Vestmannaeyingar segja "fyrir og eftir gos".
Gunnar Th. Gunnarsson, 7.2.2009 kl. 22:51
... Nema að hamfarirnar hér eru auðvitað jákvæðar, ólíkt Vestmannaeyjum
Gunnar Th. Gunnarsson, 7.2.2009 kl. 22:52
Ég tel mikilvægt að rugla ekki saman ólíkum hópum. Ég hef ekki áhyggjur af fjárfestum sem hafa tapað. Það er hins vegar hvíðvænlegt að hugsa til unga fólksins með börnin sín sem er að missa allt sitt vegna reiknikúnsta en ekki vegna þess að það offjárfesti.
Bankarnir ráðlögðu fólki að taka myntkörfulán.
Með þessu voru bankarnir og ríkisvaldið að koma gjaldeyrisáhættunni yfir á fjölskyldur en það vantaði gjaldeyri inn í landið.
Þetta byrjaði amk ári fyrir hrun.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 7.2.2009 kl. 23:01
Ragnar, sonur minn, sem er byggingafræðingur með endingu, viðhald og viðgerðir á húsum sem sérgrein segir mér að fokheld óupphituð hús fari verst, ekki þau sem vindurinn getur gnauðað í gegn.
Þjóðleikhúsið var fokhelt en óupphitað í tólf ár og mun aldrei bíða þess bægtur. Hugsanlega hefði verið best, litið til langrar framtíðar, að reisa húsið aftur í upprunalegri mynd á nýjum stað og rífa það gamla niður, enda stendur það aðþrengt á stað þar sem það fær alls ekki njóta sín.
Ómar Ragnarsson, 8.2.2009 kl. 00:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.