10.2.2009 | 22:50
Ekki skal nefna snöru í hengds manns húsi.
Ummæli Davíðs Oddssonar í Kastljósinu sem flugu um heiminn um að við borguðum ekki munu lengi loða við okkur Íslendinga og verða okkur erfið í samskiptum við útlendinga um langa hríð. Ummælin fólu í sér að allir hér á landi fengju sitt en útlendingar mættu éta það sem úti frysi.
Ummælin snerust um það að mismuna ætti innistæðueigendum eftir þjóðerni, Íslendingum í hag.
Ummæli forseta Íslands, þótt löguð væru svolítið í hendi í endursögn hins erlenda blaðamanns, snerust ekki um að Íslendingar ætluðu að mismuna eftir þjóðernum sér í hag, heldur að þjóðin væri undrandi á þeim kröfum erlendis að fólki þar yrði að fullu bættur skaðinn á sama tíma og Íslendingar misstu sitt að mestu eða öllu.
Forsetinn vitnaði til þeirrar skoðunar margra hér heima að mismunun eftir þjóðernum sem bitnaði á Íslendingum en ekki öðrun þjóðum gæti varla verið sanngjörn.
Uppistandið vegna þessa viðtals verður fyrst og fremst vegna þess að eftir hin fyrri ummæli um mismunun í hag Íslendingum megum við Íslendingar varla nefna þetta mál á nafn erlendis án þess að það skaði okkur.
Máltækið orðar það svo að forðast skuli að nefna snöru í hengds manns húsi. Í því felst kannski lærdómurinn sem forsetinn segir að hann og Dorrit hafi lært af viðtölum þeirra við fjölmiðla að undanförnu.
Athugasemdir
Það er ekki í okkar verkahring að borga skuldir þessara óreiðumanna. Ég sá ekki þennan margummrædda kastljósþátt en mig langar heldur ekkert að borga þessar skuldir.
Offari, 10.2.2009 kl. 23:16
Ég ætla ekki að borga þær... ég vil líka fá alla mína peninga úr lífeyrissjóðum landsins..
Óskar Þorkelsson, 10.2.2009 kl. 23:55
Hvað er þetta strákar Jón Baldvin sagði að við hefðum fengið allt fyrir ekkert þegar hann var búinn að skrifa undir EES samninginn.
Baldvin Nielsen Reykjanesbæ
B.N (IP-tala skráð) 11.2.2009 kl. 00:06
Og nú heldur Jón Baldvin að enn á ný sé hann sá Móses sem muni leiða sína hrjáðu þjóð út úr eyðmörkinni.
Árni Gunnarsson, 11.2.2009 kl. 01:13
Okkur verður úthýst úr samfélagi þjóðanna ef við tökum ekki einhverja ábyrgð á þessu, það er klárt. Hins vegar hvort við eigum að borga þetta allt. Nei, alls ekki, þjóðirnar sem um ræðir hljóta að geta hlaupið undir bagga, við megum ekki gleyma að þær bera ábyrgð á því að þetta gerðist líka, þær áttu að sjá stöðu bankanna og Íslands jafn vel og íslensk stjórnvöld, stærð/skuldir/lán bankanna miðað við ríkið var ekkert leyndarmál, það þurfti bara að leggja saman 2 &2. Erlend ríki tóku jafn mikla áhættu og íslensk stjórnvöld með því að leyfa það sem gerðist.
Ari (IP-tala skráð) 11.2.2009 kl. 02:35
Asni verður alltaf asni. Það er sama hversu lærður og greindur hann er talinn. Skyldi þetta ekki eiga við jafnt við um hinn mikla og ástsæla seðlabankastjóra og hinn mikla og ástsæla forseta?
Hvað segir það um okkur sjálf að hafa valið þessa snillinga til forystu um langa hríð?
sverrir (IP-tala skráð) 11.2.2009 kl. 05:44
Fyrr má nú baun en heil dós....
DoctorE (IP-tala skráð) 11.2.2009 kl. 08:48
Sameiningartákn þjóðarinnar. Hljómar orðið sem brandari eftir þessi ár með þennan mann í embættinu.
Fyrir utan að þessi maður, í þessu embætti, skuli láta hafa eftir sér eitthvað um jafn viðkvæmt og tæknilegt málefni. (sem var eitt og sér dómgreindarleysi).
Já fyrir utan það, þá er hann algjörlega út á túni í þessu máli. Þetta er (var)sjálfstætt útibú. Ekki íslenskur banki. Þar að auki til fyrir innistæðum sem eru forgangskröfur.
Breytir engu. Skaðinn er skeður. Og yfirklór forsetabatterísins gerði bara illt verra.
P.Valdimar Guðjónsson, 11.2.2009 kl. 11:01
Það er og var aldrei krafan um að borga 'allt', sem erlendir aðilar hafa lánað íslenskum bönkum. Krafan um endurgreiðslu snýst eingöngu um sparifjárinneignir sem eiga að vera tryggðar af ábyrgðarsjóði. Þar sem Kaupthing Edge og Icesave hafa verið erlend dótturfélög hlupu þarlendir ábyrgðarsjóðir í skarð. En þar sem þau voru útibú (m.a. í Þýskalandi) fellur ábyrgðin á íslenska ábyrgðarsjóðinn.
Það eru þær upphæðir sem menn hafa enn ekki fengið og krefjast greiðslu. Allar hinar milljarðar milli bankanna (bréf og lán og veð og hvað veit ég) eru mál sem bankarnir gera upp sín á milli. Þýska ríkisstjórnin bauð Ísland fyrr í vetur 300 mío. EUR lán til að greiða inneignir út. En íslenski ábyrgðarsjóðurinn þáði ekki peningana.
Í Þýskalandi skilja menn ekki, af hverju Kaupþing vill redda máli aleitt, sem gerist kannski eða kannski ekki og menn víta ekki hvenær. Þeir vilja bara fá greitt til baka. Svo gæti Kaupþing í rólegheitum selt eignir og greitt íslenska ábyrgðasjóðnum til baka.
Til að gera sér grein fyrir því af hverju þetta er svo mikið mál fyrir Þjóðverja (og aðra) skal athuga að Þjóðverjar lögðu til hlíðar rúmlega 11% af launum eftir skatta s.l. haust. Margir spara féð sem nokkurs konar viðbótarlífeyri. Ef þessir peningar eru tapaðir er ekki bara trúverðugleika íslenskra banka horfið heldur mundi fólk e.t.v. taka út allar innistæður allsstaðar (sbr. ósk Óskars hér fyrir ofan) og þýska bankakerfið gæti hrunið líka, alla vega borið mikinn skaða.
Jens Ruminy, 11.2.2009 kl. 11:59
Rosalega eru menn viðkvæmir fyrir því hvað öðrum finnst um okkur Íslendinga. Það er okkar helsta vandamál; að vilja gera öllum til geðs og þóknast öllum okkar nágrönnum í þessum málum.
Málið er einfalt Ómar, Samkvæmt lögum Evrópusambandsins, EES samningsins og samkvæmt Íslenskum lögum ber okkur alls ekki að borga þessar skuldir.
Af hverju eigum við þá að gera það? Jú, til að sleikja upp ESB. Það á bara að rifta þessum samningum í hvelli.
sandkassi (IP-tala skráð) 11.2.2009 kl. 12:55
Við borgum ekki! Við borgum ekki! Takið nokkrar mínútur í að skoða eftirfarandi "sketch" frá ITV sjónvarpsstöðinni og var sent út haustið 2007, haustið eftir að subprime vandinn kom upp í Bandaríkjunum.
Gæti hugsast að Davíð hafi haft í huga svona fjárfesta sem ætlast til að ríkissjóður skili þeim til baka þeim fjármunum sem þeir hafa glatað í spekúlasjónum, sem hafa það markmið fyrst og helst að auka ríkidæmi þeirra sálfra?
http://flosi.blog.is/blog/flosi/video/6934/
Flosi Kristjánsson, 11.2.2009 kl. 13:12
Flosi þetta eru snillingar!
sandkassi (IP-tala skráð) 11.2.2009 kl. 14:00
Hann var ekki hengdur,
hálsinn á'onum lengdur,
en rúmfrekur og rengdur,
ræfillinn var þar flengdur.
Þorsteinn Briem, 11.2.2009 kl. 17:14
Þetta er ágæt útlistun á því sem virðist hafa gerst, Ómar. Því miður eru einfaldanir og jafnvel útúrsnúningar þær gryfjur sem einna helst ber að varast.
"The road to Hell is paved with good intentions"...
Hildur Helga Sigurðardóttir, 11.2.2009 kl. 17:28
Ómar - rök um jafnræðisreglu ganga ekki upp og fyrir því eru nokkrar ástæður. Þar að auki eru nýleg fordæmi frá vinum okkar Bretum þar sem innistæðueigendum er mismunað eftir því hvar fjármagnstekjuskattur er greiddur. Fordæmi Breta dugar því eitt og sér til að átta sig á því að við eigum alls ekki að greiða Icesave.
Fjármagnstekjuskattur breskra þegna vegna ávöxtunar í útibúum LÍ í Bretlandi er greiddur til breska ríkisins - ekki til þess íslenska. Af þessum sömu sökum telur t.d. Alister Darling (fjármálaráðherra Breta) eðlilegt að mismuna innistæðueigendum eftir því hvar útibú banka er staðsett (sjá t.d.: http://www.bloomberg.com/apps/news?pid=20601109&sid=axJDLSVx5h34&refer=home).
Ómar - í þeirri bágu stöðu sem Ísland er þá viltu semsagt greiða til viðbótar upphæðir sem íslenska ríkið hefur aldrei tekið á sig eða ábyrgst - þú horfir framhjá fordæmi og viðbrögðum Breta um hvernig þeir mismuna innistæðueigendum og telur að Ísland hefi efni á að haga sér eins og moldrík þjóð sem spreðar peningum svona "af því bara".
Slíkri þjóð er ekki treystandi enda afskaplega óábyrgt að taka ábyrgð á Icesave.
Jón Helgi (IP-tala skráð) 11.2.2009 kl. 19:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.