13.2.2009 | 11:26
Fyrst við, svo fyrirtækið, síðast þjóðin.
Ég átti athyglisvert viðtal austur á Egilsstöðum fyrir nokkrum árum um virkjunina. Þetta var á því tímabili framkvæmda þegar best átti við lýsing lögfræðings Landsvirkjunar um það hve óhemju áhættusöm þessi framkvæmd væri.
Þá lá ljóst fyrir að ekkert einkafyrirtæki, hvers stórt sem það væri, myndi vilja taka þessa áhættu.
Ég hafði þá nýlega komist á snoðir um neyðar-símafund Landsvirkjunar, fjármálaráðherra og tengrar opinberrar stofnunar, sem hófst klukkann níu að morgni með það umræðuefni að redda Landsvirkjun um 7 milljarða króna innan klukkustundar.
Vandamálið fólst ekki aðeins í að ná í lánsfé á svo skömmum tíma heldur líka að leita afbrigða vegna ofurhárra vaxta, sem voru að sjálfsögðu óhjákvæmilegir
Þetta tókst með fyrirgreiðslu innlends banka.
Í samtali mínu við einn af þeim sem þekkti bankann vel og aðstæður hans greindi ég frá hinni gríðarlegu hættu á að virkjunin myndi tefjast meira, en þá stefndi í minnst árs tap og einn risaborinn búinn að hjakka í meira en hálft ár í sprungusvæði sem látið var undir höfuð leggjast að rannsaka fyrirfram með þeirri útskýringu eftir á að "við ætluðum þarna í gegn hvort eð var."
Ég spurði hvort þetta væri ekki áhyggjuefni fyrir banka sem lánaði stórfé í svona framkvæmd og fékk athyglisvert svar:
"Nei, nei, þetta er þveröfugt. Því verr sem framkvæmdir ganga og því verr sem virkjunin á eftir að standa fjárhagslega, því betra fyrir bankann, því að þetta er allt ríkistryggt."
Svona hugarfer gengur í gegnum allt kerfið og ekkert kemur manni á óvart. Mikilvægisröðin er: 1. Ég og vinir mínir. 2. Bankinn eða fyrirtækið. 3. Þjóðin.
Stjórnarmenn í rannsókn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hárétt, og þeir skammast sín ekki fyrir þetta. En í upplausnarástandi nútímans á Íslandi koma þeir í ljós hver af öðrum. Siðleysingjar Sjálfstæðisflokksins:
http://leynithjonustan.com/2009/02/13/rotturnar-skri%C3%B0a-ur-holunum/
Rósa (IP-tala skráð) 13.2.2009 kl. 11:41
Bræðurna þrjá á Bakka,
búið er þá loks að jarða,
það er Lehmans að þakka,
þúsund kostaði milljarða.
Þorsteinn Briem, 13.2.2009 kl. 12:49
Steini. Hvenær kemur út ljóðasafnið þitt með öllum þessum frábæra kveðskap þínum?
Steina-Briem-ur
Benedikt V. Warén, 13.2.2009 kl. 13:32
Svakalega verður vænt,
vissulega einnig grænt,
rafrænt eyðir sorg og sút,
Sogsvirkjun það gefur út.
Þorsteinn Briem, 13.2.2009 kl. 13:46
Þegar jörðu þekur hrím
þykkt sem lím
stórkostlegt hjá Steina Briem
streymir rím.
Ómar Ragnarsson, 13.2.2009 kl. 18:20
Kannski er það dapurlegasti þáttur þessarar frásagnar að svo rótrgróin eru þessi spilltu tengsl milli stjórnsýslunnar og bankanna að við erum orðin nánast ónæm.
Við þekkjum ekki eðlilega stjórnsýslu.
Árni Gunnarsson, 13.2.2009 kl. 20:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.