Alkul er alltaf algert.

Fyrstu tvö orð fréttarinnar um alkul í bílasölu fela í sér tvítekningu sem er bæði óþörf og merkingarlaus. Annað hvort er alkul alkul eða ekki alkul. Það er ekkert kaldara til en alkul. Að tvítaka orðið "al" er óþarft.

Orðin "algert alkul" eru dæmi um tilhneigingu blaðamanna til að ofgera og nota hástigsorð í slíkum mæli að í lokin verða þau máttlaus.

Nýleg dæmi um þarflausa notkun hástemmdra lýsingarorða er vaxandi notkun orðanna "gríðarlegur" og "hrikalegur." Orðið "mikill" er á undanhaldi, - þykir ekki nógu krassandi.

Um daginn heyrði ég mann tala um að það væri gríðarlega lítil bílasala. Lýsingarorðið "gríðarlegur" táknar eitthvað mjög mikið eða stórt. Þetta minnir á orð ráðherra eins hér í gamla daga þegar hann sagði: "Gengi krónunnar sígur upp á við."  


mbl.is Alkul í bílasölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Blessaður maður, þetta er allt svona.  Og hefur reyndar verið lengi.  Hver kannast til dæmis ekki við menn sem hafa verið hálf-dauðir?

Ásgrímur Hartmannsson, 16.2.2009 kl. 11:21

2 Smámynd: Benedikt Bjarnason

Ómar, það koma alltaf upp einhver tískuorð í fréttaflutningi. Manstu eftir því þegar alltaf var talað um að „kúvenda?“ Þegar fólk skiptir algerlega um skoðun.

Benedikt Bjarnason, 16.2.2009 kl. 11:30

3 Smámynd: Jón Snæbjörnsson

já eða hálfdán - og svo mikil sól eða næstum logn

Jón Snæbjörnsson, 16.2.2009 kl. 11:34

4 identicon

Satt að segja ætlast maður ekki mikils af íslenskum fréttamönnum í dag.

Þór (IP-tala skráð) 16.2.2009 kl. 11:41

5 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Hvernig ætli hálfgert alkul sé?

Haraldur Bjarnason, 16.2.2009 kl. 11:55

6 identicon

... ætli það sé þá ekki -136,58°C

Ég (IP-tala skráð) 16.2.2009 kl. 12:05

7 Smámynd: Benedikt V. Warén

Segir ekki í auglýsingunni um Toyota Yaris "risa smár"??

Benedikt V. Warén, 16.2.2009 kl. 12:15

8 identicon

Já alger tátólógía eða klifun.

Er ekki til slatti af örnefnum á Íslandi sem hefur slíkt? Dæmi: Blautamýri.

Ari (IP-tala skráð) 16.2.2009 kl. 12:37

9 identicon

Já, vitlaust hjá Mogganum.  Alkul = algert kul.

EE

EE (IP-tala skráð) 16.2.2009 kl. 13:09

10 Smámynd: Hallgrímur Egilsson

Blessaður vertu Ómar, ef þú ætlar að fara að elta allar vitleysurnar sem íslenski blaða- og fjölmiðlamenn í dag viðhafa, þá endaru á kleppi!

Eftir að Fréttablaðið tók til starfa þá fjölgaði vitleysunum mjög mikið. Þetta er sérstaklega slæmt á vefmiðlunum í dag. Hraðinn er svo mikill að blaðamenn lesa ekki textann sinn yfir, held ég.

Hallgrímur Egilsson, 16.2.2009 kl. 13:39

11 Smámynd: Þorsteinn Briem

Það sem einum finnst lítið, eða "bara" mikið, finnst öðrum gríðarlegt. Þannig tala loðnusjómennirnir (í einu orði) til dæmis um "gríðarlegar loðnugöngur" þegar þeir verða varir við tvær loðnur.

Eitt sinn kom til mín loðnuskipstjóri á Moggann með grein sem hann hafði skrifað um svakalega mikla loðnugöngu út af Vestfjörðum. Í greininni stóð að gangan væri gríðarlega löng og tveggja sm. (sjómílna) breið.

Ég breytti hins vegar að gamni mínu sm. í sentímetra, þar sem lesendur Moggans hefðu væntanlega gaman af að sjá fyrir sér gríðarlega langa og tveggja sentímetra breiða loðnugöngu hlykkjast um í hafinu.

Og að sjálfsögðu var stelpunum í prófarkalestrinum kennt um þessa vitleysu.

Þorsteinn Briem, 16.2.2009 kl. 16:01

12 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Mýrar geta verið misblautar en alkul er alltaf alkul.

Þetta minnir mig á það þegar þingmenn Frjálslynda flokksins voru sárir út í mig fyrir það að kalla þá stórðjusinna. Þeir sögðust nefnilega vera fylgjandi "hóflegri stóriðju með hæfilega litlum álverum."

Fjölmiðlafulltrúi Alcoa Fjarðaráls atyrti mig fyrir að segja að Alcoa vildi reisa stór álver. 

Rúmlega ári síðar var það síðan gefið út hjá Alcoa að álverið á Bakka yrði að verða minnst 350 þúsund tonn, margfalt stærra en sú stóriðja sem ég og samtímamenn mínir samþykktu á sjöunda áratugnum. 

Ómar Ragnarsson, 16.2.2009 kl. 17:13

13 Smámynd: Bjarni Benedikt Gunnarsson

Í viðbót við þessa umræðu er einnig margt ansi slæmt í málfræði og réttritun sem maður sér. Í nýlegu blaði af tímaritinu Sagan öll er Egyptaland kallað Egiftaland. Maður veltir fyrir sér þegar maður sér svona hvort fólk sem svona skrifar vilji þá kalla Keflavík Keblavík, og svo framvegis. Alveg með ólíkindum.

Bjarni Benedikt Gunnarsson, 16.2.2009 kl. 17:58

14 identicon

En við suðuðum svo mikið um villuna, bæði í þessu bloggi og öðru, að Mogginn lagaði villuna fyrr í dag. 

EE elle

EE (IP-tala skráð) 16.2.2009 kl. 22:32

15 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Raunar hefði orðið alkul eitt og sér verið röng lýsing á bílasölunni, því að í fréttinni kom fram að það hefðu þó selst nokkrir bílar.  

Ómar Ragnarsson, 16.2.2009 kl. 23:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband