Upplifunarferðamennska.

imgp0215_795655.jpgimgp0197_795656.jpgimgp0220.jpgimgp0221_795650.jpgFornminjar Kanarí.

"Get your hands dirty and feet wet", gerðu hendurnar skítugar og fæturna vota !

Bandarískur prófessor í ferðamálum sagði þetta í viðtali við mig fyrir tæpum tíu árum og svaraði með því spurningu minni um það hvaða svið ferðamennsku væri í mestum uppgangi.

Á þeim tíma fékk ég að heyra í blaðagreinum að það væri ekkert að marka gamla ameríska kellingu. Kynjafordómarnir láku af greinarhöfundum auk annarra fordóma gagnvart því að hægt væri að lifa af öðru en hráefnisframleiðslu. 

Í gær skoðaði ég uppi í fjöllum Gran Canaría einn af fjölmörgum ferðamannastöðum heimsins þar sem reynt er að láta ferðamenn upplifa horfna tíð og framandi aðstæður. Dæmum um slíkt fer fjölgandi og má nefna ýmislegt af því tagi heima eins og til dæmis hvernig staðið hefur verið að hlutum í Borgarnesi og víðar. 

En út um allt land eru byggðasöfn og torfbæir þar sem þarf að fríska upp á það sem ferðamenn fá að sjá og upplifa. 

Besta dæmið um slíkt sá ég reyndar á Stiklastöðum í Noregi þar sem líkt er eftir orrustunni frægu þar í söngleik utanhúss og hægt að fara inn í þorp og sjá fólk leika hlutskipti þorpsbúa og daglegt líf þeirra fyrir meira en öld. 

Í þorpinu hér á Kanarí eru myndastyttur látnar segja söguna af daglegum verkum, trúarathöfnum, leikjum og jafnvel aftökum. Eru styttan af böðlinum sem reiðir stóran stein til lofts yfir hinum bundna sakamanni eftirminnileg og maður skynjar augnablikið áður en bjargið molar haus hins seka.

Ég hef verið að reyna að tala um upplifunarferðamennsku við Leirhnjúk og Gjástykki sem gæti gefið margfalt meiri tekjur en þau fáu störf í verksmiðju í 70 km fjarlægð gæfu ef þetta umbrotasvæði sköpunar landsins verður gert að virkjanasvæði.

Þess utan mætti setja upp í Gjástykki sýningu á æfingum komandi marsfara á svæði sem tekið var frá fyrir slíkt fyrir nokkrum árum, en þó með þeim fyrirvara að ekki yrði farið lengra í norður með virkjanir en nú er. Marsfarar æfa sig ekki innan um borholur, gufuleiðslur, raflínur og stöðvarhús. 

Ég tala að mestu fyrir daufum eyrum um þetta. Flutningur á hráefni til íslands yfir þveran hnöttinn og útflutningur á hráefni til baka virðist vera stefnan sem ráðamenn þjóðarinnar trúa á.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ný þingsályktunartillaga um Þríhnjúkahelli í Bláfjöllum:

"Alþingi ályktar að skora á menntamálaráðherra að hefja nú þegar skipulagða vinnu til þess að fylgja eftir hugmyndum um að gera Þríhnjúkahelli í Bláfjöllum, stærsta hraunhelli í heimi, aðgengilegan fyrir ferðamenn.":

Þingsályktunartillaga um Þríhnjúkahelli.

Þorsteinn Briem, 18.2.2009 kl. 00:11

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Horfandi á vaxandi atvinnuleysi eykst nú þráhyggja mín hvað varðar uppbyggingu á nítjándu aldar torfbæjamenningunni. Á hinni fjölförnu þjóðleið norður um Holtavörðuheiði sé ég ævinlega fyrir mér svona bæ í Fornahvammi. Þarna væri yfir sumartíma - í það minnsta rekin ferðaþjónusta í þjóðlegum stíl og boðið upp á að skoða myndarlegan torfbæ, útihús, búfénað og forna búhætti s.s, mjaltir, strokkun og skyrgerð, ásamt því að bjóða upp á veitingar þar sem eingöngu væri í boði þjóðlegur matur, snyrtilega matreiddur að sjálfsögðu. þessa hugmynd má skiljanlega útfæra á marga vegu.

 Ég nefni þennan stað líklega fyrstan vegna þess að þarna fer ég oftast um sjálfur. En að sjálfsögðu eru þessi skilyrði ekki mjög staðbundin og þau finnast víðs vegar um landið. Með þessu myndu jafnframt festast í sessi hin fornu vinnubrögð við húsabyggingar úr torfi og hleðslukunnáttunni haldið við. Hleðslumeistarar eru ennþá til og þessari verkkunnáttu er haldið við í Skagafirði með myndarbrag.

Árni Gunnarsson, 18.2.2009 kl. 00:39

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Skemmtileg tilviljun að ég var að skrifa mína athugasemd á sama tíma og Dagný var að ganga frá sinni. Hvorugt vissi af hinu!

Árni Gunnarsson, 18.2.2009 kl. 00:42

4 identicon

Árni, í þinni sveit, heitir það ekki Skagafjrður? er til bær, sem heitir Hofsstaðasel. Ekki veit ég betur en þar sé hægt að fá að gista í "ekta íslenskum torfbæ" og meira að segja hennar konunglega tign Anna prinsessa Englendinga hafi gist þar og látið vel af. Hvað sem því líður, þá er nú gallinn við allar þessar ferðaþjónustuhugmyndir Ómars og fleiri sá, að í fyrsta lagi er ekki hægt að starfrækja þær nema yfir þessa5 eða 6 vikur sem ferðamannatíminn nær yfir hér - vegna veðráttunnar. Það sem Þingeyinga vantar sárast eru heilsársstörf. Það er því miður ekki fyrirsjáanlegt að ferðaþjónusta gefi slík störf af sér í fyrirsjáanlegri framtíð.

Nöldurseggur (IP-tala skráð) 18.2.2009 kl. 06:54

5 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Ferðaþjónustan er meira eða minna óplægður akur hér á íslandi. Óteljandi möguleikar leynist í því. En við þurfum að fara rétt að í þessum málum til að stunda ekki rányrkju. Við þurfum að búa til viðeigandi aðstæður fyrir ferðamenn, t.d. að laga margumræddu salernismálin. Við þurfum líka að vera með skýrar reglur í umgengi um landið, ekki síst fyrir íslenska ferðamenn. Sorglegt dæmi um hvernig við viljum ekki sjá að erlendir ferðamenn verða lokkað hingað var fyrir nokkrum árum. Þar var landið okkar auglýst sem "best off-road land" og tækifæri fyrir óheftan torfæruakstur á hálendinu voru dásömuð. Í fersku minni er einnig "dirty weekend" auglýsingu sem setti ljótan stimpil á íslenska kvenfólkið.

Úrsúla Jünemann, 18.2.2009 kl. 09:41

6 identicon

Gallinn er bara sá Ómar að það er ekki bara gat heldur stór og djúp hola í þessari draumsýn. 

Það er ekki hótinu betra að flytja milljónir ferðamanna „yfir hálfann hnöttinn“ í mest mengandi farartækjum nútímans; flugvélum og hleypa þeim upp á viðkvæm öræfi landisins í jafn mengandi bílum, jeppum, rútum, hjólum eða traðkandi á sínum tveimur.  Svo ekki sé minnst á mannvirkin sem þyrfti að reisa um allt hálendið til að taka á móti þessum milljónum sem þyrftu til að halda uppi þessari ferðamannavæðingu allri. 

Allstaðar rækist maður á raðir farartækja og ferðamanna í æpandi litum, hvergi  ósnert víðerni, kyrrð.  Einmannaleiki öræfanna ALLRA væri rofinn og viðkvæmri náttúrunni þar væri fórnað.

Heldur vildi ég fórna einhverjum ferkílómetrum lands undir afmarkaða starfsemi.

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 18.2.2009 kl. 10:11

7 identicon

Dagný og Árni ekki hlusta of mikið á bölsýnismenn og nöldurseggi. Þetta eru frábærar hugmyndir og góðragjalda verðar, það er oft sem maður er á ferðum erlendis sem maður upplifir hvað Íslendingar eru komnir stutt í þjónustu við ferðamenn. Það er svo gríðarlega margt sem betur má fara og ekki rétt hjá Sigurjóni Pálsyni að bera saman mengun af ferðamennsku og álverum. Ég veit ekki hvort hann gerir sér grein fyrir menguninni og sóuninni sem fer fram áður en hráefnið er komið til álverksmiðjunnar. Ef við gætum mælt mengun í hlutfalli við tekjur og störf sem af því hljótast þá held ég að ferðamennskan hefði vinninginn.

Jón Freyr (IP-tala skráð) 18.2.2009 kl. 11:33

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sigurjón Pálsson. Hvernig ætlarðu að koma í veg fyrir að allir þessir ferðamenn streymi til landsins? Við getum ekki bannað fólki að koma hingað, til dæmis Kínverjum. Þeir eru um 1,3 milljarðar, þannig að ef 1% þeirra kæmi hingað eru það um 13 milljónir manna. Í Kína er ört vaxandi velmegun og Kínverjar ferðast sífellt meira.

Hvað ætlarðu að gera í því máli? Standa með skilti í Leifsstöð: Vinsamlegast komið ekki inn í landið. Ég vil ekki verða náttúrulaus. Sífellt fleiri ferðamenn munu koma til landsins, hvort sem þér líkar það betur eða verr. Og að sjálfsögðu ferðast þeir um allt landið. Flestir þeirra stoppa stutt við í Reykjavík, 1-2 daga,, en ferðast svo í viku um landið, samkvæmt könnunum.

Um hálf milljón erlendra ferðamanna kom til landsins í fyrra og árið 2007 eyddu þeir hér alls um fimmtíu milljörðum króna, um 100 þúsund krónum hver. Eftir fall íslensku krónunnar í fyrrahaust eyddu þeir hins vegar um 200 þúsund krónum hver. Krónan féll um 80% gagnvart Bandaríkjadal og þar að auki keypti hver og einn ferðamaður meiri vörur og þjónustu hér en áður.

Því má gera ráð fyrir að erlendir ferðamenn eyði hér alls um 100 milljörðum króna í ár um allt landið og þeir koma hingað allt árið. Um 123 þúsund erlendir ferðamenn komu í Leifsstöð síðustu fjóra mánuðina í fyrra, um 31 þúsund á mánuði að meðaltali, en í fyrra komu hingað um 42 þúsund ferðamenn á mánuði að meðaltali.

Þar að auki komu hingað í fyrra um sjötíu þúsund ferðamenn með um 80 skemmtiferðaskipum sem geta lagst að bryggju í Reykjavík, Ísafirði, Akureyri og Húsavík. Alls komu því hingað um 570 þúsund erlendir ferðamenn í fyrra og þeim hefur fjölgað mikið undanfarna mánuði miðað við sömu mánuði árið 2007.

Og þúsundir manna um allt landið hafa hér atvinnu af ferðaþjónustu allt árið, til dæmis starfsfólk hótela, veitingastaða, ferðaskrifstofa og flugvalla, ferðaþjónustubændur, flugmenn, flugfreyjur, leigu- og rútubílstjórar, miklu fleira fólk en vinnur hér í álverum, sem eru þar að auki einungis á örfáum stöðum á landinu. Í fyrra fækkaði íbúum á Austurlandi í sjö sveitarfélögum af níu, þrátt fyrir álverið í Reyðarfirði.

Raflínur og heljarinnar raflínustaurar úti um allar koppagrundir eru heldur ekkert augnayndi, þannig að virkjanir eru engan veginn "afmörkuð atvinnustarfsemi".


Og að sjálfsögðu munu bílar ekki ganga hér alltaf fyrir bensíni. Þeir munu ganga fyrir rafmagni og verða hlaðnir með ódýru húsarafmagni á nóttunum, þannig að ekki þarf að reisa hér virkjanir vegna þess.

Þorsteinn Briem, 18.2.2009 kl. 12:35

9 identicon

Steini

Hvar sagði ég að ég ætlaði að koma í veg fyrir það að ferðamenn streymdu til landsins?  Ég geri mér fyllilega grein fyrir að sú þróun er óumflýjanleg ég telæ hins vegar varasamt að ýta undir hana meira en gert er þannig að sprengingar verði ekki eins og menn virðast sjá fyrir sér með glýju í augum sem alsherjar kost í stað nýtingar orkunnar til atvinnuuppbyggingar einkum úti á landsbyggðinni.  

Ég er hins vegar að draga fram þá miklu skinhelgina sem fólgin er í því að böðlast í blindri þráqhyggju gegn einu formi af atvinnuuppbyggingu, sem hefur í för með sér nýtingu ósnortins lands og mengun og mæra í hástert aðra, sem að mínu mati er sýnu verri hvað hvort tveggja þetta snertir  –  amk. alls ekki betri.  Engin hefur enn komið með haldbær rök fyrir því svo ég viti.  Þetta hvort tveggja, ferðamenska og nýting orkunnar til atvkinnuuppbygginar verður að þrífast hvað með öðru og getur það vel. 

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 18.2.2009 kl. 13:02

10 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Sem leiðsögumaður á sumrin með þýskumælandi ferðamenn finnst mér alltaf gaman að lesa um nýjar og ferskar hugmyndir tengdar ferðaþjónustu.

Varðandi aðgengi í hella þá mætti endilega sem góða fyrirmynd líta á hellana austast á Lanzarote: Cueva de los Verdes (Grænihellir) og Jameous del Agua.

Slá má þessu upp t.d. á Google.

Því miður er enginn hellir aðgengilegur fyrir ferðmenn á Íslandi þó svo fá lönd í Evrópu geta státað sig eins vel og við af hellum, einkum hraunhellum. Víða eru auk þess manngerðir hellar, t.d. í Rangárvallasýslu. Þetta væri tilvalið samstarfsverkefni við Íra að gera einn slíkan aðgengilegan sem lítið safn.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 18.2.2009 kl. 13:31

11 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sigurjón Pálsson. Við Íslendingar eigum sjálfir rétt á að ferðast um okkar eigið land án þess að sjá raflínur og raflínustaura úti um allar koppagrundir. Og enda þótt einungis þriðjungur Íslendinga hefði áhuga á því, þarf að sjálfsögðu að taka tillit til þeirra sjónarmiða í málinu.

Lýðræði snýst ekki bara um að meirihlutinn, til dæmis 51%, ráði í öllum málum án þess að taka nokkurt tillit til minnihlutans eða ófæddra einstaklinga.

Mun fleiri hafa hér atvinnu af ferðaþjónustu en stóriðju og störfum við ferðaþjónustu fjölgar hér mikið á hverju ári. Hins vegar væri ekki hægt að fjölga hér endalaust störfum í stóriðju, auk þess sem hvert starf í stóriðju kostar íslenska ríkið miklar fjárhæðir, sem það þarf að taka að láni í útlöndum. Landsvirkjun þarf að greiða árlega 30-40 milljarða króna í vexti af erlendum lánum, auk afborgana.

Þar að auki hefur fólk í öllum sjávarþorpum landsins tekjur af ferðamennsku og sjávarútvegi en þannig er það engan veginn í stóriðjunni. Tekjur okkar af rafmagnssölu til álvera minnkuðu um meira en helming í Bandaríkjadölum fyrir hverja kílóvattstund síðasta misseri vegna verðhruns á áli, á sama tíma og tekjur okkar af sölu sjávarafurða drógust einungis saman um 5-10% í dollurum talið.

Og nú eyða erlendir ferðamenn hér meiru hver og einn í erlendri mynt en þeir gerðu árið 2007 vegna gengisfalls krónunnar.

Ég hef engra beinna hagsmuna að gæta í málinu og get því litið hlutlaust á það. Einnig hrefnuveiðar. Þær skila engu í þjóðarbúið, því hrefnukjöt kemur einungis í stað kjöts frá íslenskum bændum, sem starfa þar að auki allt árið. Hrefnuveiðar voru stundaðar hér í fyrrasumar af litlum bát frá Kópavogi og kjötið var unnið af fyrirtæki í Reykjavík.

Og íslenskir bændur flytja út mikið af landbúnaðarafurðum, því hálf milljón erlendra ferðamanna kaupir hér íslensk matvæli í stórum stíl í verslunum og veitingahúsum, auk þess að ryksjúga hér upp íslenskar lopapeysur.

Þorsteinn Briem, 18.2.2009 kl. 14:16

12 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég er búinn að koma í nógu marga erlenda þjóðgarða (25) til að sjá að martröðin um bensínsjoppur, hótel, hamborgarastaði og örtröð er ástæðulaus, jafnvel þótt um sé að ræða þjóðgarða þar sem milljónir manna eru á ferð.

Þjóðgörðunum er skipt í svæði eftir því hve margir skuli vera þar á ferð í einu. Þannig er margra ára biðlisti eftir því að fá að fara niður Kólóradófljótið um Miklugljúfur. 

Einnig biðlistar eftir því að ganga eftir 1600 km löngum göngustígum Yellowstone þjóðgarðsins svo tryggt sé að menn geti notið þar einveru og öræfakyrrðar. 

Ég fullyrði að Kárahnjúkavirkjun ein hefur valdið meiri óafturkræfum umhverfisspjöllum en tugir milljóna ferðamanna munu nokkurn tíma geta valdið í þeim þjóðgörðum sem ég hef séð. 

Ég er ekkert sérlega ginkeyptur fyrir að eldfjallagarður á Reykjanesskaga keppi við 3ja milljóna ferðamanna eldfjallagarð á Hawai. 

En þeir sem vilja gera alla náttúru Íslands að iðnaðarsvæðum virðast ekki megnugir að leggja neitt nema mælistiku peninga á allt og alla og ef þeir endilega krefjast þess að sú aðferð sé notuð þá er vel hægt að mæta þeim í rökræðunni með bandaríska orðtakinu: Let´s beat them at their own game." 

Ómar Ragnarsson, 19.2.2009 kl. 01:08

13 identicon

„Ég á rétt á hinu og ég á rétt á þessu“!  Það er auðvitað gott að þekkja rétt sinn, Steini Briem, svo langt sem það nær en réttur er ekki bara einhliða eins og þú virðist gefa þér  því réttur eins getur stangast á við rétt annars og þegar svo er þá er það ekki alveg sjálfgefið að það sé ávalt hinn, sem á að gefa sinn rétt frá sér, Steini Briem og víkja fyrir þínum rétti.

En það er ef til vill lýðræði sem þú ert að kalla eftir, Steini Briem, og villt að komið verði á. 

Hvaðan heldur þú nú að rafmagnið komi sem tölvan þín gengur fyrir meðan þú ert að semja þessa lýðræðis hugvekju þína og krefjast réttar þíns á að hafa ekki raflínur fyrir augunum, þegar þér dettur nú í hug að láta svo lítið að heiðra landslýð, með nærveru þinni Steini Briem? 

Heldurðu kannski að það komi úr Elliðaánum?  Nei aldeilis ekki.  Svo þú getir setið við tölvuna og sett þínar kröfur um raflínulaust Ísland þá þarf að koma til þín rafmagni, úr öðrum landshluta, Steini Briem, eða um 200 kílómetra leið, ofan úr Búrfelli eða í besta falli yfir Hellisheiðina úr Soginu.   Og til þess þarf raflínur, Steini Briem.

Fáfræðin fer að minna á Ameríkanana sem vilja banna að dýrum sé slátrað „fókið á bara fara í supermarkaðina og ná í kjötið í frystinum  þar“!

Ég er ekki að meta allt til fjár Ómar, um það sér Steini Briem. Ég er hins vegar að mótmæla þeim öfgum þegar haldið er fram að ekki megi nýta orkuna okkar vegna þeirra galla sem því fylgir og benda á að ferðamennskan er heldur ekki gallalaus.  Að fara fram með geislabaug og helgislepju í nafni náttúruverndar í einu orði og benda svo á ferðamennsku í öðru orðinu er tvískinnungur og hræsni.

Ég bið þig Ómar, eins og margoft hefur verið gert af öðrum, að tala nú ekki í fullyrðingum og alhæfingum eins og hér;

 „En þeir sem vilja gera alla náttúru Íslands að iðnaðarsvæðum virðast ekki megnugir að leggja neitt nema mælistiku peninga á allt og alla ....“   svona alhæfing hæfir ekki  manni af þínum kaliber Ómar, Hvaða íslendingur vill „gera alla náttúru Íslands að iðnaðarsvæðum“?

Þetta tvennt á hins vegar rétt á sér, hvort tveggja, hvað með öðru, og skynsemi skal auðvitað gætt.

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 19.2.2009 kl. 14:16

14 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sigurjón Pálsson. Ég vona að þú sért ekki á eiturlyfjum, elsku kallinn minn. Ég veit ekki til að nokkur maður sé á móti rafmagni og hér hafa verið rafstöðvar í heila öld. En það er eitt að leggja raflínu eða margar raflínur þvers og kruss og úti um allar koppagrundir vegna stóriðju, sem við höfum akkúrat ekkert með að gera.

Að öðru leyti vísa ég í innlegg mitt hér fyrir ofan í Dæmi um "eitthvað annað".

Þorsteinn Briem, 19.2.2009 kl. 16:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband