20.2.2009 | 14:16
Munið þið eftir "fíkniefnalausu Íslandi árið 2000" ?
Ég er mikill áhugamaður um aukið öryggi í umferð og hef barist fyrir notkun bílbelta í meira en 30 ár. Ég er líka bindindismaður og vil ekki sjá fíkniefni, hvorki áfengi né dóp. En þegar lagt var upp með það fyrir rúmum áratug að stefnt yrði að fíkniefnalausu Íslandi árið 2000 (gott ef það var ekki Framsóknarflokkurinn sem gerði það) fannst mér það grátbroslegur barnaskapur.
Það þýðir ekki að það sé ekki hægt að stórfækka banaslysum í umferðinni þannig að þau verði brot af því sem nú er. Þar má ná miklum árangri með forvarnarstarfi, eftirliti og almannavilja. Minna má á, að nú líður hvert árið af öðru án banaslyss í flugvélum hér á landi.
En mér finnst það barnaskapur að halda að hægt sé að útrýma banaslysum frekar en öðrum slysum á sama tíma og nú á að skera niður útgjöld til forvarna við trog vegna kreppunnar. Reynum að setja okkur raunhæf markmið.
Banaslysum í umferðinni verði útrýmt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Að setja óraunhæf markmið er algerlega óraunhæft, það getur bara skemmt fyrir.
Bull bull bull
DoctorE (IP-tala skráð) 20.2.2009 kl. 14:21
Ég man þetta ekki nákvæmlega, en það var einhver Svíi sem reiknaði út að ef gera ætti Svíþjóð að banaslysalausu landi, myndi það kosta uþb 100 mannslíf árlega.
Það er vegna þess að ef ná ætti þessu markmiði yrði að spara svo mikið í öðrum aðgerðum á vegum ríkisins til að koma í veg fyrir ótímabæran dauða, t.d. í heilbrigðiskerfinu að þar færu fleiri líf.
Það er kaldranalegt að segja það, en samfélagið hlýtur að þurfa að forgangsraða sínum takmörkuðu miðlum á þann veg að sem fæst ótímabær andlát verði, sama hvar þau eiga sér stað.
Gestur Guðjónsson, 20.2.2009 kl. 14:25
Í dag myndi ég vilja sjá að ríkiskirkjan verði tekin af fjárlögum... manni svíður að sjá heilbrigðiskerfið leggjast á hliðina... en ríkiskirkjan heldur sínu algerlega.... plottið hlýtur að vera það að jarða "óæskilega" íslendinga.
6000 milljónir árlega í kufla... þessi upphæð ætti að setjast 100% í alvöru verkefni, fyrir alvöru lifandi fólk.
Betra að hafa 100 atvinnulausa presta en lokaðar sjúkradeildir og deyjandi fólk á göngum sjúkrahúsa og eða heima hjá sér.
Þetta er raunhæft markmið, let's do it.
DoctorE (IP-tala skráð) 20.2.2009 kl. 14:30
Ómar að öðru, langar spyrja þig, getur "Færð teppst" eins og moggamenn vilja halda fram?
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/02/20/faerd_gaeti_teppst/
Ari (IP-tala skráð) 20.2.2009 kl. 14:40
Góður og mjög gildur punktur, Gestur.
En núllsýn er eitthvað sem við getum teygt okkur eftir, og ef það er gert af skynsemi getur þetta verið öflugt tæki.
Og það er margt sem við getum gert sem bæði efli umferðaröryggi og sparar peninga, minnkar mengun og efli lýðheilsu. Við ættum að setja svoleiðis aðgerðir í fyrsta sætið.
Ein augljósasta leiðin væri að gera hjólreiðar til samgangna að minnstu kosti jafn hátt undir höfði varðandi skatta og umhverfistengda hvata og bílferða. Auknar hjólreiðar minnka mengun, bæta heilsu og lýðheilsu svo um munar og lengja líf þeirra sem það stunda sem og annarra. Auknar hjólreiðar bæta umferðaröryggi. Mýmörg dæmi eru um það en engin dæmi um hið gagnstæða sem ég þekki til.
Í dag er unnið með umferðaröryggi á forsendum bílaumferðar og helst óheftu flæði bílaumferðar, en um leið lakari aðgengi gangandi og hjólandi miðað við það sem hinir akandi njóta. Undantekningar eru hverfi þar sem bílar mega ekki fara í gegn en opið er fyrir umferð gangandi og hjólandi. Og þegar hámarkshraði verði lækkuð í 30km eða gangbrautir séu í plani fyrir gangandi en upphækkaðar úr augum bílstjóra.
Í dag eru gjaldfrjáls en rándýr bílastæði niðurgreidd á ca 20.000 á mánuði af vinnuveitendum. En notendur eru hvorki rukkuð beint, né í gegnum skattinum fyrir svoleiðis hlunnindi. Ef fyrirtæki borgar strætókort eða sambærilegan upphæð fyrir þá sem hjóla eða ganga eða það strax og umsvifalaust skattlagt. Jafnvel þótt upphæðin á mánuði sé minna en helminginn af hlunnindin sem bílastæðin fela í sér. Þetta er bara eitt af fleiri dæmi. Gjaldfrjals bílastæði við verslanir og stofnanir hafa líka afgerandi áhrif á hversu mikið við ökum í stað þess að nota heilbrigðara og öruggara samgöngumáta.
Morten Lange, 20.2.2009 kl. 14:45
Bendi á þetta
Birgir Þór Bragason, 20.2.2009 kl. 16:45
Hjólum.
Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 20.2.2009 kl. 18:12
Í fyrra eða hitteðfyrra voru 36 banaslys í umferðinni og var mörgum brugðið. En svo komu fram tölur um að á sama tíma voru yfir 70 sjálfsmorð. Tölfræðin segir að fyrir hvert banaslys í umferðinni eru tvö sjálfsmorð. Hvernig væri að sjá herferð um að útrýma sjálfsmorðum? Það þyrfti örugglega ekki að kosta svo mikið, bara bættari þjónustu í geðgeiranum. Ekki það að sjálfsmorðum verður varla útrýmt frekar en banaslysum. Við getum bara gert svo miklu betur en við gerum.
Margrét Birna Auðunsdóttir, 20.2.2009 kl. 18:44
Margrét, ég tek undir með þér varðandi að setja árekstrar og útafkeyrslur ( umferðarslysin í daglegu tali í samhengi við önnur dauðsföll. Ég hef séð því haldið fram að í Bandaríkjunum og á Bretlandi deyja 10 sinnum fleiri fyrir aldur fram vegna hreyfingarleysis en vegna árekstra oþh í umferðinni. Í BNA deyja árlega um 40.000 manns í umferðinni, en um 400.000 vegna hreyfingarleysis. Ég sel ekki þessar tölur dýrari en ég keypti, og kannski geti skeikað 30%. En það litur út fyrir að hreyfingarleysið sé stærri vandamál tölulega en bæði drepnir í umferðinni og sjálfsvig.
Morten Lange, 20.2.2009 kl. 20:19
Fólk hreyfir sig nú ekki mikið við akstur bifreiða.
Nema þá Ómar Ragnarsson, sem er alltaf á iði.
Hann er því svakalega iðinn.
Þorsteinn Briem, 20.2.2009 kl. 20:33
Ómar, hvað eru raunhæf markmið í þessu? Fimm látnir á ári? Einn á hverja 100.000 íbúa? Sjö á hvern milljarð ekinna kílómetra?
Ég fagna því að menn hafi loks haft dug í sér að setja þetta fram sem markmið. Hver eru markmiðin í flugi? Núll eða einhver önnur?
Og þó það örli á gagnrýni hjá þér á fjársvelti í þessi mál þá verð ég að segja að þú veldur mér vonbrigðum núna
Birgir Þór Bragason, 20.2.2009 kl. 22:05
Það er gríðarlega mikill munur á því að fækka banaslysum um helming og jafnvel að fækka þeim niður fyrir fimm á ári eða setja sér það mark að útrýma þeim algerlega.
Það er talan núll sem ég vil gagnrýna. Sú tala sem markmið gerir það aðeins að verkum að menn verða alltaf fyrir vonbrigðum, sama hvað vel gengur á leiðinni niður úr 30 í 5.
Ég fagna því eins og þú að menn setji sér takmark í stað þess að sætta sig við óviðunandi ástand. En ég tel óskynsamlegt að setja sér markmið sem útilokað er að ná, samanber hið fíkniefnalausa Ísland fyrir áratug.
Umferð einkaflugvéla er hins vegar svo örlítið brot af bílaumferðinni að það getur raunhæft markmið að banaslys verði nær óþekkt í einkafluginu. Á því sviði hefur orðið mikil framför í leiðsögutækjum svo sem GPS, en hér áður fyrr urðu mörg flugslys vegna þess að flugmenn villtust eða lentu fyrir slysni í blindflugsskilyrðum án þess að geta ráðið fram úr því.
Ómar Ragnarsson, 20.2.2009 kl. 23:05
alkinn setur sér raunhæf markmið... einn dag í einu... eina klst í einu, að segjast ætla að útrýma banaslysum er að ætla sér of mikils, ekki möguleiki... it's a dead target
DoctorE (IP-tala skráð) 20.2.2009 kl. 23:59
Það er mér vonbrigði þegar einn lætur lífið í umferðinni hvort sem markmið mitt er samkvæmt 0 sýn eða ekki Ómar. Það að setja sér önnur markmið en 0 sýnina er að sætta sig við mannfall í umferðinni. Eigum við að gera það? Ekki ég.
Með sama hætti og í flugi þá eru líkur á að við getum útbúið bílana þannig að þegar fólk lendir í „villu undir stýri“ þá mun tæknin taka í tauminn. Með samþættingu þess, betra umhverfi vega ásamt vakningu meðal ökumanna trúi ég að 0 sýn eig fullan rétt á sér.
Birgir Þór Bragason, 21.2.2009 kl. 08:18
Munurinn á markmiði og hugsjón er sá að markmið er mælanlegt og hægt að skipuleggja leið til að ná því. Við hljótum alltaf að hafa þá hugsjón að allir verði heilbrigðir og hemingjusamir en ef við ætlum að fækka slysum, hvort sem það er um 1%, 100% eða eitthvað þar á milli, þá þurfum við að hafa einhverja áætlun til að vinna eftir.
Hvernig ætla menn að ná þessu markmiði? Með því að leggja bílaumferð á Íslandi niður? Það væri raunhæft. Eða með því að krossa fingur og segja hraðinn drepur?
Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 21.2.2009 kl. 10:27
Það er mergu málsins Eva. Menn verða að setja sér markmið til þess að hafa eitthvað á að stefna. Markmiðið kemur fyrst og svo áætlunin. Án markmiðs - engin áætlun.
Birgir Þór Bragason, 21.2.2009 kl. 16:55
Það er mergur málsins Eva. Menn verða að setja sér markmið til þess að hafa eitthvað á að stefna. Markmiðið kemur fyrst og svo áætlunin. Án markmiðs - engin áætlun.
leiðrétt, 17.56
Birgir Þór Bragason, 21.2.2009 kl. 16:57
Og án áætlunar ekkert markmið. Bara hugsjón, sem er út af fyrir sig gott mál en hefur bara ekkert með markmið að gera.
Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 21.2.2009 kl. 17:12
Við erum sammála um það að setja markmið og setja það hátt. Vel kann að vera að okkur verði færð upp í hendur ný tækni sem tekur af okkur ráðin þegar við stefnum að því að fara okkur að voða.
En meðan slík ráð eru ekki fyrir hendi tel ég að markmiðin eigi ekki að vera svo óframkvæmanleg að það skapi varanlega óánægju og uppgjöf gagnvart verkefninu.
Athugum hvar í heiminum bestur árangur hefur náðst og hvers vegna hann náðist. Berum það svo saman við íslenskar aðstæður og ráðstafanir sem við gætum gripið til.
Þá mætti setja sér það markmið fyrst að hér á landi yrðu slys og dauðsföll í umferðinni hin fæstu í heiminum miðað við umferðina og þess vegna segjum 30% færri en í nokkru öðru landi.
Þegar þeim áfanga yrði náð, yrði hægt að setja enn metaðarfyllri markmið. Það er miklu meira gefandi og ánægjulegra að vinna á þennan hátt heldur en að setja sér markmið, sem engin leið eru að ná miðað við núverandi tækni og aðstæður.
Ómar Ragnarsson, 21.2.2009 kl. 22:07
Bæti við einu dæmi um "útreiknaða áhættu", "calculated risk", en frá því að við fæðumst er ævilengd okkar háð slíkum útreikningi.
Fyrstu árin sem rall var stundað á Íslandi þurfti að glíma við mikla fordóma gagnvart því. Við höfðum miklar áhyggjur af því að yrði alvarlegt slys þessi fyrstu ár, myndi allt verða vitlaust og rall bannað.
Þegar við bræðurnir; Jón og ég, fórum 1981 í Sænska rallið, sem var liður í heimsmeistarakeppninni í ralli, nýtti ég mér þann aðgang sem þar var að finna að bestu gögnum um rall og útreiknaða áhættu í því.
Ég bar þessa útlendu útreikninga saman við umfang og aðstæður á Íslandi og þá kom í ljós að áhættan samsvararaði ca. einu dauðfalli á öld.
Þegar ég kom heim og sagði strákunum frá þessu braust út mikil gleði og einhver hrópaði: "Við hljótum þá að sleppa!"
"Nei", svaraði ég. "Þetta eina dauðsfall getur alveg eins orðið í næsta ralli eins og ralli eftir hundrað ár."
Hugsanavillan fólst nefnilega í því að afskrifa þá áhættu sem þrátt fyrir allt var tekin í næsta ralli.
En bílaíþróttir hafa fært mönnum heim sanninn um það að það er mögulegt að ná ótrúlega góðum árangri á tiltölulega einfaldan og ódýran hátt.
Á tímabili "ofurbílanna" svonefndu í kjölfar 4x4-væðingarinnar upp úr 1980 fór banaslysum í heimsmeistarakeppninni og sterkustu mótum heimsins skyndilega stórfjölgandi.
Í ljós kom að þegar afl bílvélanna var komið um og yfir 500 hestföl fjölgaði þeim aðstæðum, sem jafnvel albestu ökumenn heimsins réðu ekki við.
Það tókst að snúa þessu við með bættum öryggisráðstöfunum, styttum ökuleiðum o.fl. en bestan árangur gaf þó að setja þak á leyfilegt vélarafl og minnka það mjög mikið.
Hér á landi væri hægt að fara svipaða leið varðandi yngstu og óreyndustu ökumennina þannig að þeir fengju ekki í byrjun leyfi til að aka kraftmeiri bílum en sem svaraði 100 hestöflum eða sem svaraði einu hestafli á hver 12 kíló af tómaþyngd bílsins.
Síðan myndi það verða til bóta ef enginn fengi bílpróf nema að hafa staðist verklegt hæfnispróf varðandi það að ná stjórn á bíl sem rennur í hálku.
Enginn flugmaður fær flugréttindi nema hann hafi staðist hæfnispróf varðandi það að ná stjórn á flugvélinni ef hún ofrís eða fer í spuna.
Þetta heitir á góðri íslensku að kenna fólki að bjarga sér.
Ómar Ragnarsson, 21.2.2009 kl. 22:30
Það eru til ráð, já, sem ekki hafa verið nýtt, eins og sjá má hér að ofan.
Íslenska ríkið gæti líka tekið höndum saman með hinum Norðurlöndunum og saman gætu þau sett fram kröfu um búnað í bílum. Sem dæmi: augnskanna sem fylgist með vökuástandi ökumans.
Snallt væri líka ef bílar væru búnir tölvubúnaði sem kann að aka bíl. Við notkun á bíl ætti sú tölva að skrá hjá sér allt sem gert er og læra enn betur á notkun allra stjórntækja bílsins. Þegar að því kæmi að ökumaður reyndi að aka bílnum ölvaður ( þá koma alskyns aukaástig og auka hreyfingar á strýri) þá gæti slíkur búnaður tekið í tauminn og farið fram á flókið ferli til þess að fá staðfestingu á að viðkomandi er ekki undir áhrifum.
Það má halda svona áfram ef viljinn er fyrir hendi. Ég trúi á þá aðferð að vinna út frá 0 lausninni.
Birgir Þór Bragason, 22.2.2009 kl. 10:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.