Hvaða viðbótarvirkjanir eru í sigti ?

Nýlega er búið að stækka fyrirhugað Helguvíkurálver sem svarar því að bæta þurfi minnst tæplega 200 megavöttum af orku við það sem áður var búið að ráðgera að pumpa upp úr jarðvarmasvæðum á Reykjanesskaganum til að anna orkuþörf 240 þúsund tonna álvers.

Ekki þarf mikla samlagningarhæfileika til að finna út að til þess að útvega nægilega orku fyrir 360 þúsund tonna risaálver þurfi alls uppundir 600 megavött af orku fyrir þessa stækkuðu verksmiðju og að það muni þýða virkjanir í Bitru, við Krýsuvík og í Neðri-Þjórsá. Engu verður eirt af "hófsemdarmönnunum" heldur valtað yfir "öfgamennina" sem vilja að einhverju verði þyrmt.

Nú virðist eiga rétt si svona að bæta við 100 megavöttum fyrir sólarkísilverksmiðju á Grundartanga. Á jarðvarmasvæðunum hér syðra byggist þessi orkuöflun á ofnýtingu sem valda mun því að barnabörn okkar muni þurfa að skyggnast um eftir allt að 1000 megavatta viðbótarvirkjunum, - les Torfajökull, Kerlingarfjöll, Þjórsárver, Skaftárveita og Bjallavirkjun.

Ef það verður þá ekki búið að virkja þetta allt áður, því að fíknin eftir stóriðju er óseðjandi. Ef hér væri eitthvert minnsta tillit tekið til möguleika afkomenda okkar, væri nú þegar búið að gera ráð fyrir virkjunarmöguleikum fyrir orku handa bíla- og skipaflotanum.

Hvernig væri nú að blása hið siðlausa Helguvíkurálver af og fara hægar í sakir, reisa sólarkísilverksmiðju á Grundartanga sem gefur svipaðan fjölda starfa og álversframkvæmdin fyrir margfalt minni orkueyðslu ?

Þegar miðað er við núverandi virkjunartækni er raunar þegar komið út yfir endimörk möguleika á sjálfbærri orkuvinnslu á Reykjanesskaga sem við Íslendingar gætum auglýst sem fyrirmynd fyrir heiminn varðandi endurnýjanlega orkuöflun.


mbl.is Hreppir Ísland sólarkísilverksmiðjuna?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Lýst vel á "að blása hið siðlausa Helguvíkurálver af og fara hægar í sakir, reisa sólarkísilverksmiðju á Grundartanga"

Frétt frá REC í Noregi "Renewable Energy Corporation has confirmed that it will build a solar manufacturing plant in Singapore - the largest in the world."

Framþróunin í þessum orkuiðnaði er gríðarlegur og hafa Norðmenn verið leiðandi á þessu sviði með nýrri tækni sem má kynna sér nánar hér:

http://www.recgroup.com/default.asp?V_ITEM_ID=444

Kjartan Pétur Sigurðsson, 23.2.2009 kl. 13:45

2 Smámynd: Offari

Ég er stóriðjufíkill. Ég vill ekki láta láta bráðnun Vatnajökuls renna ónýtta til sjáfar. Þessa orku vill ég nýta áður en hún eyðist það er ekki hægt að geyma hana. Ég vona að Ísland hreppi sólarkísilverksmiðjuna þv´einhæfnin í orkunýtinguni getur verið okkur hættuleg.

Offari, 23.2.2009 kl. 13:46

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"Engu verður eirt af "hófsemdarmönnunum"

Er þetta einlæg trú þín Ómar, eða er þetta bara áróðursbragð þitt til þess að sverta "hófsemdarmennina" ? Meirihluti þjóðarinnar vill skynsama nýtingu á auðlindum okkar en lítill hluti hennar vill helst ekki virkja neitt, heldur hlífa landinu og vernda fyrir ófæddar kynslóðir. Ég vil hins vegar nýta landið og byggja upp öflugt og stöndugt þjóðfélag fyrir ófæddar kynslóðir. Það þýðir ekki að ég vilji virkja allt sem virkjanlegt er. Þeir sem halda því fram um mig og mína skoðanabræður, eru vísvitandi að blekkja almenning. 

Gunnar Th. Gunnarsson, 23.2.2009 kl. 14:01

4 Smámynd: Liberal

Engar áhyggjur, Ómar.  Núverandi ríkisstjórn mun ekki samþykkja neina nýtingu á orkuauðlindum landsins. 

VG hefur það á stefnuskránni að banna alla verðmætasköpun í landinu með boðum og bönnum og landið mun færast aftur um 50-60 ár á næsta kjörtímabili ef VG fær að ráða.  Hér verður ekki búandi og við verðum í raun þróunarríki.

Allt í boði VG. 

Liberal, 23.2.2009 kl. 14:27

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það liggur fyrir að til þess að útvega alla þá orku sem þegar er talað um að þurfi, þar með talið fyrir þessa nýju verksmiðja, þarf að virkja allan Reykjanesskagann sundur og saman og bæta Neðri-Þjórsá og jafnvel meiru við.

Þú talar um að ég vilji helst ekki virkja neitt þótt fyrir liggi að ég fer aðeins fram á að eitt virkjunarsvæði af fimm á Hengils-Hellisheiðarsvæðinu verði látið í friði.

Hvernig getur þú kallað þá menn hófsemdarmenn sem vilja ekki eira neinu ?

Ómar Ragnarsson, 23.2.2009 kl. 15:00

6 identicon

Mig langar að spyrja Gunnar sem hófsemdarmann hvaða svæði á Íslandi hann væri ekki reiðubúinn að leggja undir orkuvinnslu ?

Stefán Már (IP-tala skráð) 23.2.2009 kl. 15:52

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þau eru þó nokkur, en ég tek ekki afstöðu til virkjanakosta fyrr en ég sé hvaða áhrif virkjunin hefur. Ég get þó nefnt Langasjó sem mér sýnist á myndum vera mjög sérstakt svæði. Vatnið er fallega blátt í dag en yrði drullugrátt ef veita á jökulvatni í það.

Gunnar Th. Gunnarsson, 24.2.2009 kl. 00:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband