Vandræðagangur út af eðlilegum hlut.

Ég hef ekki haft margt gott að segja um málflutning og frammistöðu Sjálfstæðismanna að undanförnu en ég tel þá afstöðu þeirra og Höskuldar Þórhallssonar ekki vera óeðlilega að bíða eftir skýrslu framkvæmdastjórnar ESB um regluverk Seðlabanka áður en frumvarpið um Seðlabankann verði endanlega afgreitt hér.

Mér finnst það meira að segja jákvætt að flokksræðið skyldi þurfa að víkja fyrir sannfæringu þingmanns, sem hann hefur getað stutt gildum rökum. 

Vandræðin eru að mínum dómi fólgin í því að ofurvald flokkkanna er orðið svo inngróið í störf þingsins, að allt fer í baklás ef einn þingmaður vogar sér að fara eftir sannfæringu sinni um það að vanda til verka og tefja þó ekki frumvarpið nema í fáa daga. 

Það ætti að vera keppikefli í þinginu að haga dagskrá þessi þannig að eitt frumvarp um afmarkað mál setji ekki aðra dagskrá og afgreiðslu mála í uppnám. Einn hluti af auknu þingræði og minna ráðherraræði ætti að verða sveigjanleiki sem tekur mið af þeirri skyldu þingmanna að fylgja sannfæringu sinni. 

 

Þegar Jóhanna segir, að skýrslan umrædda snerti ekki Seðlabankafrumvarpið spyr maður sjálfan sig hvort hún sé búin að sjá hana. Síðan var náttúrulega alveg dásamleg framsóknarmennska opin í báða enda þegar Höskuldur sagði að formaður flokksins styddi afstöðu þeirra beggja, hans og Birkis Jóns, - afstöðu þar sem annar sagði nei en hinn sagði já !
mbl.is Lausn ekki fundin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég hef ekki orðið vör við það áratugum saman að framsóknarmenn hafi sannfæringu. Það finnst mér gera ákvörðun Höskuldar afskaplega vafasama.

Lára Hanna Einarsdóttir, 23.2.2009 kl. 20:37

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þumlungs hár sá þröskuldur,
Þrándur í Götu er Höskuldur,
með múður er hann og muldur,
og makalaust Framsóknartuldur.

Þorsteinn Briem, 23.2.2009 kl. 20:42

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Mér skildist á Höskuldi í Kastljósi í kvöld að hann vildi nánast aðeins geta sagt að hann hefði séð þessa skýrslu eða rennt í gegnum hana áður en hann gæfi grænt ljós. Ég get ekki ímyndað mér að það geti tekið meira en einn dag, ekki hvað síst ef það er rétt sem Jóhanna segir að skýrslan komi málinu ekkert við. Höskuldur virðist tilbúinn að skrifa upp á víxilinn þegar hann hefur hann og skjö sem hugsanlega koma honum við, í höndum.

Fáir hafa gagnrýnt Seðlabankastjórnina og Davíð eins miskunnarlaust og ég allt frá þeim dapurlega októberdegi sem hann sturtaði orðstír og heiðri þjóðarinnar niður í klósettið að mér ásjáandi í hópi útlendinga erlendis.

Samstundis var ekkert annað sem kom til greina í mínum huga en að hann axlaði ábyrgð af því og öðru.

Hann átti auðvitað að taka ásamt fleirum pokann sinn fyrir löngu og ábyrgð hans er mikil að gera það ekki.

En fyrst að þessi slóttugi bardagahundur neytir allra sinna klækja og þvermóðsku til að þverskallast við kröfu yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar verðum við að sætta okkur við það að fara að lögum og standa þannig að því að koma honum frá, að við séum ekki sökuð um óvönduð vinnubrögð.

Málstaður okkar er of góður til að taka áhættu af slíku.

Ómar Ragnarsson, 23.2.2009 kl. 20:51

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Jónína Ben er búin að dítoxa allan Framsóknarflokkinn og flokkurinn er enn að jafna sig á því, stólpípum og alles. En það er svona að vera opinn í báða enda. Þá er erfiðara að verjast stólpípunum.

Eva Ásrún, vinkona mín, "þeir sem verða blankir hringi í 12 6 12", var kosningastjóri Framsóknarflokksins í Norðurlandi eystra í síðustu alþingiskosningum og kom þá helmingnum af þingflokki Framsóknar á þing, þar á meðal Höskuldi.

Jónína Ben dítoxaði foreldra Evu Ásrúnar í Mývó um daginn og þeir komu fram í Sjónvarpsfréttunum, alsælir.

Segið svo að ekkert komi í staðinn fyrir stóriðju Framsóknarflokksins.

Þorsteinn Briem, 23.2.2009 kl. 21:21

5 identicon

Hér kemur athugasemd hæer fyrir neðan sem ég setti hérna inn þann 2 feb.sl. Látið ekki fjórflokkanna leika listir sýnar fyrir ykkur kjósendur góðir. Þetta er allt sjónhverfingar þetta seðlabankafrumvarp til að gera ykkur upptekin að fylgjast með leikritinu um ekki neitt meðan Róm brennur.



,,Hvað gerist ef Davíð Oddsson fer úr Seðlabankanum? Fellur gengið þegar og
ef hann fer úr bankanum? Fer verðbólgan algerlega úr böndunum ef hann
yfirgefur seðlabankastólinn? Eitt er víst að þetta er gott mál til að búa
til umræðu í fjölmiðlunum til að dreifa athygli kjósenda frá
lýðræðisumræðunni''

Baldvin Nielsen Reykjanesbæ

B.N. (IP-tala skráð) 23.2.2009 kl. 21:57

6 Smámynd: Flosi Kristjánsson

"þverskallast við kröfu yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar"

Þú og hver annar ...? mætti segja í þessu sambandi. Það er óvarlegt að líta svo á að þeir skríbentar sem mest hafa sig í frammi á þessum vettvangi endurspegli vilja þjóðarinnar.

Ég ætla að leyfa mér að mótmæla þessari fullyrðingu Ómars Ragnarssonar og halda því fram að flestir Íslendingar eru löngu búnir að fá sig fullsadda á því moldroki sem þyrlað hefur verið upp út af núverandi Seðlabankastjóra, fyrrum formanni Sjálfstæðisflokksins, fyrrum borgarstjóra Reykjavíkur og fyrrum forsætisráðherra íslenska lýðveldisins.

Sjaldan eða aldrei hefur pólitískt ofbeldi verið eins grímulaust og í þessu máli. Það er meira að segja búið að tilnefna arftakann úr hópi gamalla Alþýðubandalagsmanna.

Þessi málatibúnaður, drifinn áfram af beiskju og heift, er til háborinnar skammar og það er virðingarvert af Framsóknarmönnum að vilja freista þess að krefjast vitrænna og manneskjulegra vinnubragði við vinnslu lagafrumvarpsins, sem þeir vita engu að síður að er fram borið af annarlegum hvötum.

Flosi Kristjánsson, 23.2.2009 kl. 22:06

7 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Algjörlega sammála þér Ómar varðandi Höskuld Þórhallsson.

Ég átta mig hins vegar ekki á hversvegna sjálfstæðismenn mega ekki opna munninn á þingi þegar þeir eru komnir í stjórnarandstöðu. Kallið þið málefnalega umræðu um lög um Seðlabanka Íslands - banka bankanna - málþóf?

Ég minni á skipulagt málþóf stjórnarandstöðunnar í umræðu um frumvarp til vatnalaga fyrir nokkrum árum. Þar voru Vinstri græn í forystu í málþófinu og Samfylkingin tók einnig þátt í hringavitleysunni.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar héldu nokkurra klukkustunda þar sem minnstur hluti ræðutímans fór í að ræða efnisatriði málsins. Stjórnarandstöðuþingmenn mættu með bókasöfn sín í ræðustól og lásu upp úr þeim. Síðan eyddu þeir tíma í að lesa upp úr umsögnum ummálið, lesa blaðagreinar og endurtaka þvaðrið hvor úr öðrum!

Þetta kölluðuð þið málefnalega umræðu, umræðustjórnmál o.s.frv. Ég fann þessa tilvitnun á veg Ungra Vinstri Grænna (http://www.vinstri.is/default.asp?a_id=1638).

Eruð þið ekki sammála ungliðahreyfingunni ykkar:

Þar var sjónum beint frá mikilvægi þess að skoðanir minnihlutans eigi sem greiðastan aðgang að eyrum meirihlutans. Þess í stað var einblínt á málþóf. En málþóf - sem er afar sjaldgæft - er jafnframt mikilvægt aðhaldstæki minnihlutaflokka í þingstörfum víða um heim. Lýðræði snýst sem sé ekki eingöngu um að framkvæma vilja meirihlutans, heldur líka um að koma í veg fyrir að minnihlutinn sé kúgaður.


Guðbjörn Guðbjörnsson, 23.2.2009 kl. 22:53

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ég vissi ekki að Ómar Ragnarsson væri genginn í ungliðahreyfingu Vinstri grænna, Guðbjörn minn.

Þorsteinn Briem, 23.2.2009 kl. 23:29

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Flosi minn Kristjánsson. Það má vel vera að lítið sé að marka skoðanakannanir oft á tíðum, en tölurnar um andstöðuna gegn stjórn Seðlabankans og vantraust á Davíð Oddssyni eru svo sláandi stórar, aftur og aftur, að engin skekkjumörk nægja til að breyta því.

Ég vona að í skýrslunni sem Höskuldur vill sjá sé ekkert sem getur truflað samvisku hans. Ef þar er eitthvað sem ýtti undir breytingar á frumvarpinu geri ég þá kröfu á hendur Höskuldi og þingheimi að hann verði snöggur að afgreiða málið, annað hvort með því að lagfæra það sem talið er þurfa eða að vísa því frá á málefnalegum forsendum.

Þegar mál er vegið á vogaskálar þarf helst að setja það helsta á báðar skálar sem vegur þyngst. Það er óþægileg óvisssa falin í því að vita ekki nema að eitthvað komi í aðra hvora skálinu svona rétt í þann mund sem þarf að taka af skarið.

En síðan þarf að vinna fljótt og vel og afgreiða málið snaggaralega.

Ómar Ragnarsson, 23.2.2009 kl. 23:50

10 identicon

Ég er ansi hræddur um að þetta útspil Höskuldar sé hluti af málþófsferli sem hann er tilbúinn að taka þátt í með sjálfstæðismönnum.

Svavar Bjarnason (IP-tala skráð) 24.2.2009 kl. 00:16

11 identicon

Guðbjörn talar um málþóf vegna vatnalagana á sínum tíma - það er bara ekki hægt að líkja þessu saman.

Við breytinguna, sem sjálfstæðismenn vildu gera á vatnalögunum hefði sú staða getað komið upp að örfáir hefðu eignast nánast allt grunnvatn í landinu hvorki meira né minna. MÖO - þarna átti á hraðferð, að kýla í gegn breytingar svo þeir gætu nú einkavinavætt kalda vatnið. Þegar það ekki tókst var reynt að einkavinavæða heita vatnið og er nú ekki algerlega séð fyrir endan á því.

Hins vegar er um Seðlabankastjóra að ræða sem hefur verið SVO vanhæfur í starfi að hann bókstaflega átti þátt í því að efnahagur landsins hrundi - með skelfilegum afleiðingum fyrir þjóðina

alla og afnvel afkomendur okkar.

Ekki nóg með það heldur er hann svo forhertur og stoltlaus að hann hefur ekki manndóm í sér að fara að óskum, jú - skv. skoðanakönnunum og það fleiri en einni og fleiri en tveim - 87% þjóðarinnar og víkja!!!

Sér er nú hver durturinn - verði honum að góðu. Hann er rúinn virðingu hér á landi og er í besta falli aðhlátursefni í útlöndum.

Það er glæsilegt fyrir þjóðina að hafa svona Seðlabankastjóra eða hitt þó heldur!

ÞA (IP-tala skráð) 24.2.2009 kl. 08:29

12 Smámynd: Hallur Magnússon

"Mér finnst það meira að segja jákvætt að flokksræðið skyldi þurfa að víkja fyrir sannfæringu þingmanns, sem hann hefur getað stutt gildum rökum. 

Vandræðin eru að mínum dómi fólgin í því að ofurvald flokkkanna er orðið svo inngróið í störf þingsins, að allt fer í baklás ef einn þingmaður vogar sér að fara eftir sannfæringu sinni um það að vanda til verka og tefja þó ekki frumvarpið nema í fáa daga. "

Alveg er ég innilega sammála þér í þessu Ómar!

Mér finnst þingmenn oftar eiga að fara eftir sannfæringu sinni eins og Höskuldur gerir núna. Það á að vera eðlilegur hlutur.

Einnig á það að vera eðlilegur hlutur að framkvæmdavaldið geti ekki kastað frumvörpum inn í þingið og heimtað afgreiðslu 1,2 og 3. 

Það á að vera þingið sjálft sem metur það hvort það sé rétt keyra mál áfram eða ekki. Þingið á að taka þann tíma sem það telur þurfa - og gera þær breytingar sem það telur þurfa.

Við verðum að minnka ráðherraræði undanfarinna ára. Mín skoðun hefur mjög lengi verið sú að ráðherrar eigi ekki að sitja á Alþingi. Ef þeir eru kjörnir Alþingismenn þá eiga þeir að hætta sem þingmenn og kalla inn varamenn í staðinn.  

Á sama tíma verður að auka sjálfstæði Alþingis gagnvart framkvæmdavaldinu. Það á að vera eðlilegt að Alþingi geri breytingar á frumvörpum frá ríkisstjórn - og það á að vera eðlilegt að Alþingi felli stjórnarfrumvörp án þess að allt fari í háaloft.

Það að ríkisstjórnarflokkar kúgi þingmenn eigin flokks á grunni flokksræðis er ekki rétt. Það var skelfilegt að horfa upp á Alþingi í fjárlagagerðinni í haust - þar sem stjórnarþingmenn vissu ekki að morgni hvað þeir "áttu" að samþykkja af kveldi. Ekki að það hafi verið einsdæmi - en aldrei eins augljóst og í haust - þegar ráðherraræðið náði nýjum hæðum.

Hallur Magnússon, 24.2.2009 kl. 09:24

13 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Alþingi er helsjúkt. Það er ljótt að segja svona, en ég tek að nokkru leyti undir orð þín Ómar. Það er sem flokkavaldið hafi gersamlega dregið andann úr sjálfstætt hugsandi þingmönnum. Frumleiki og frjó hugsun er eitthvað sem maður býst ekki við frá sölum Alþingis lengur. Málefnaleg hugsun og framsetning er heldur ekki neitt sem maður hefur mátt búast við frá fallega steinhúsinu við Austurvöll. Þetta er náttúrulega dauðtrist. 

Að einn þingmaður setji sig mót þingflokksheildinni er ekki óvanalegt. Slíkt hefur jú gerst oft. En slíkir þingmenn hafa fengið að kenna á písknum áður en til atkvæðagreiðslu kemur. Þetta útspil nefnds framsóknarþingmanns er að mínu mati málþófskennt. 

Nýir vendir sópa best og því erum við óvön á Íslandi. Nýjum sópum er komið fyrir á Alþingi þar sem þeir slitna í lokuðu rými í lítilli vél sem kallast ýmsum nöfnum en bókstafir eru látnir nægja fyrir hverja vél, en flestar gera þær sama hlut: Slíta til sópanna.  Sumar vélar eru fljótar til og slíta niður sópana hratt og vel. Sú vél kallast "xD-vélin", sú næstbesta er kölluð "xF-vélin".

Ég tel að best sé að koma frumvarpinu um Seðlabanka Íslands í gegnum þingið og til lokaafgreiðslu svo fljótt sem auðið er. Þjóðin sér réttlætið þá í framkvæmd og ríkisvaldinu gengur betur að framkvæma umbótaferlið sem þjóðin og lýðveldið þráir og þarfnast svo mikið.

Baldur Gautur Baldursson, 24.2.2009 kl. 10:18

14 identicon

Hvorki þessi sérfræðinganefnd framkvæmdastjórnar ESB né væntanlega skýrsla hennar fjallar um "regluverk seðlabanka" eins og þú orðar það Ómar. Í því liggur kjarni málsins. Verkefni hópsins var að skoða eflingu á fjármálaeftirliti þvert á landamæri.Þess vegna vita allir að skýrslan mun ekki fjalla um hæfniskröfur við skipan seðlabankastjóra eða hvort vaxtaákvarðanir verða teknar af peningastefnuráði með utanaðkomandi faglegum sérfræðingum eða bankastjórunum einum. Bæði skipunarbréf nefndarinnar til tilkynning ESB um væntanlega skýrslu er aðgengileg á netinu fyrir alla sem vilja sannfærast sjálfir um að þetta er allt annað mál.

Við erum reyndar líka að skoða framkvæmd fjármálaeftirlits hér á landi og allt regluverk um fjármálalífið og til að stýra því verki réðum við Karlo Jannari fyrrv. forstjóra finnska fjármálaeftirlitsins. Líklegt er að efni þessarar skýrslu rati beint inn í þá vinnu enda eðlilegri farvegur. 

Arnar (IP-tala skráð) 24.2.2009 kl. 11:43

15 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Nú virðist ljóst að Höskuldur sé kominn undir hrikalega pressu. Sagt er að skýrslan, sem hann hefur ekki fengið að sjá, komi frumvarpinu ekki við. Sé það rétt getur maður rétt ímyndað sér hver staða hans verður ef þetta reynist rétt.

Hins vegar finnst mér sérkennilegt er að fulltrúi í viðskiptanefnd skuli ekki hafa sömu upplýsingar og ráðherrar. Þegar Jóhanna og Össur fullyrða að skýrslan tengist ekkert Seðlabankafrumvarpinu virðist það vera svo að þau viti eitthvað sem Höskuldur veit ekki eða skilur ekki.

Þetta bendir til sambandsleysis af hálfu ráðherra flokks "samræðustjórnmálanna" við þingmenn.

Er hugsanlegt að svona sambandsleysi og samræðuleysi stafi af því að ráðherraræðið sem ríkir er slíkt að það tíðkast ekki að þurfa að ræða mál við þingmenn nema sem allra minnst?

Ómar Ragnarsson, 24.2.2009 kl. 14:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband