24.2.2009 | 13:53
Hlekkirnir sex. Enginn má bresta.
Engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn. Líkja má íslensku þjóðarbúi við keðju með sex hlekkjum, en þeir eru heimilin, fyrirtækin, fjármálastofnanirnar, sveitarfélögin, opinberir sjóðir og ríkissjóður.
Nú er óumflýjanlegt að allir þessir hlekki veikist stórlega en stefna verður að því að sú veiking dreifist jafnt á keðjuna svo að enginn einn hlekkur bresti. Á þann veg einan er von til þess að ekki verði hér stórum verra hrun en þegar er orðið.
Ef heimilin hrynja, slitnar keðjan og hið sama á um hvern hinna sex hlekkja, sem nefndir voru hér að framan. Í stórum dráttum má segja, að koma verði heimilunum og fyrirtækjunum til hjálpar að svo miklu leyti sem það valdi því ekki að hinir hlekkirnir fjórir, einn eða allir, bresti.
Ef fjármálakerfið hrynur aftur fara fyrirtækin og heimilin sömu leið.
Það er reikningsdæmi og ágiskun hve langt sé hægt að ganga til að styrkja heimilin og fyrirtækin. Við verðum að muna að ríkissjóður er bara við sjálf, þjóðin sem leggur í hann fé og á hann. Það eru okkar peningar sem nota verður þegar veitt eru framlög úr honum. Svipað er að segja um sveitarfélögin og opinberu sjóðina.
Þeir flokkar sem standa að núverandi þingmeirihluta verða að láta reikna þetta dæmi sem best og byggja aðgerðirnar á þeirri útkomu. Sé útkoman sú að með því að styrkja einn hlekkinn svo mikið að einhver eða allir hinir hlekkirnir bresti, er allt í uppnámi.
Ég ætla bara rétt að vona að Framsóknarmenn geti sýnt útreikninga sem sýni að tillögur þeirra séu raunhæfar. Reynslan af kosningaloforðum þeirra 2003 hræðir, Þá unnu þeir kosningasigur út á það lofa út og suður.
Húsnæðiskaupendum lofuðu þeir gulli og grænum skógum þvert ofan í rökstuddar aðvaranir um það að allt of langt væri gengið og of mikil áhætta tekin.
Í ljós kom að stefna Framsóknarflokksins setti af stað keðjuverkun sem átti stóran þátt í því hvernig komið er.
Keðjan verður að halda þótt allir hlekkirnir veikist stórlega. Enginn einn þeirra má bresta, - þá er þetta búið.
Kosningar verða 25. apríl | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
http://www.m5.is/?gluggi=frett&id=74336
Af hverju ganga menn ekki svona röggsamlega til verks hér
Kreppukommi (IP-tala skráð) 24.2.2009 kl. 14:30
Stór hluti íslenskra fyrirtækja var byggður á sandi, alltof háu gengi íslensku krónunnar, til dæmis mörg byggingafyrirtæki og verslanir, þannig að eðlilegt er að þau verði gjaldþrota núna í þeim samdrætti sem hlaut að koma að, fyrr eða síðar.
Miklar offjárfestingar hafa verið hér í bæði verslunar- og íbúðarhúsnæði og þeir sem verða ekki gjaldþrota greiða skuldir þeirra sem verða það, bæði einstaklinga og fyrirtækja. Og þannig hefur það alltaf verið. Peningarnir vaxa ekki á trjánum.
Um 70% VR-félaga hafa hvorki misst vinnuna né þurft að minnka við sig vinnu undanfarið og hér var um 7% atvinnuleysi í síðasta mánuði.
Verðbólga hér og stýrivextir eru nú 18% en verðbólgan verður vegna mikils samdráttar í eftirspurn komin niður í verðbólgumarkmið Seðlabankans strax á næsta ári, um 2,5%. Og vextir munu lækka samsvarandi.
Á höfuðborgarsvæðinu er nú loksins nóg framboð af íbúðarhúsnæði til leigu, húsaleiga hefur lækkað töluvert og þeir sem verða gjaldþrota flytja í það húsnæði. Það var hreinlega ekki innistæða fyrir allri þeirri 100% hækkun sem varð á kaupverði og leigu íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu á árunum 2004-2008.
Ef Íslendingar vilja kaupa nýja einkabíla, húsgögn og heimilistæki geta þeir lagt fyrir til að eignast þessa hluti. Og þannig kemur fé inn í bankana sem þeir geta lánað íslenskum fyrirtækjum. Fólk getur tekið strætó og keypt gömul húsgögn.
Hér hafa vextir, bæði innláns- og útlánsvextir, verið mjög háir og ef fólk hefur getað lagt fyrir síðastliðin ár hefur það verið mun skynsamlegra en að taka lán.
En hér tóku undanfarin ár 18 ára unglingar 100% bílalán til sjö ára til að kaupa nýja bíla og rúmlega tvítugt fólk "keypti" stórar nýjar íbúðir á hátt í 100% lánum. Og nú koma aðrir til með að greiða mikið af þessum lánum vegna þess að þetta fólk verður gjaldþrota vegna eigin heimsku.
Öll hagkerfi þenjast út og dragast saman á víxl. Þannig hefur það alltaf verið og þannig mun það alltaf verða. Þess vegna á fólk að leggja fyrir í góðæri til mögru áranna og það eru nú engan veginn ný sannindi:
"Faraó sagði við Jósef: "Mig dreymdi að ég stæði á bakka Nílar þegar upp úr ánni komu sjö vel aldar og fallegar kýr og fóru að bíta sefgresið. Á eftir þeim komu upp sjö aðrar kýr, svo renglulegar, ljótar og horaðar að ég hef engar séð jafnljótar í öllu Egyptalandi."
Þorsteinn Briem, 24.2.2009 kl. 15:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.