Davíð í stuði með sprengjuregn!

Ekki sveik Davíð Oddsson hvað snerti dramatíkina í Kastljósviðtalinu, sem var að ljúka. Hann sprengdi margar bombur og lumar áfram á nokkrum uppi í erminni. Hvað sem manni finnst um ábyrgð Davíðs á hruni "gróðærisins" verður því ekki neitað að vopnfimur getur hann verið og ekkert lamb að leika sér við.

Sum trix hans voru að vísu billeg eins og að snúa spurningunni um vanhæfi upp á spyrilinn, - alveg dæmigerður útúrsnúningastíll Davíðs, en margt sem hann sagði útskýrði betur stöðu hans og gjörðir og var full þörf á því.

Ég bloggaði um það um daginn að ekki yrði komist hjá því að líta á viðfangsefni stjórnvalda eins og boðhlaup þar sem bæði sá sem afhendir keflið og sá sem tekur við því, eru hlaupandi á brautinni á sama tíma. Davíð benti á þetta atriði varðandi skiptinguna á einum degi frá Seðlabankastjóra yfir í bráðabirgðaseðlabankastjóra.

Meðal bombanna var frásögn hans af fundi hans með ríkisstjórninni 30. september. Segi hann rétt frá því hvað hann og aðrir sögðu þar er ríkisstjórnin með allt niður um sig varðandi þann fund en ekki Davíð. Ég hef áður bloggað um það að hugmynd hans um þjóðstjórn hefði verið eðlileg, jafnvel þótt hann seildist þar yfir í pólitíkina.

Óvenjulegar aðstæður kalla á óvenjuleg orð og gjörðir en Davíð var víst skammaður fyrir að vera að "dramatísera."

Hann hefði þess vegna mín vegna mátt orða utanþingsstjórn í ljósi þess að aðalatriði málsins var það sem hann segist hafa sagt að bankakerfinu yrði ekki bjargað og að það myndi hrynja allt innan skammst tíma. Ekkert smámál.

Það er skiljanlegt að hann skyldi verða svekktur yfir því að í fjölmiðla láku aðeins ummæli hans um þjóðstjórn. Þau voru látin leka út af ríkisstjórnarfundi þar sem á að vera hægt að treysta að trúnaður ríki og ein og sér virðast þau ekki hafa gefið rétta mynd af því sem gerðist á þessum fundi.

Davíð hefur snilligáfu dávalds í samtölum og þegar hann ásakaði Sigmar og aðra fjölmiðlamenn fyrir það að hafa ekki tiltekið þau skipti þegar hann varaði við ástandinu, hefði Sigmar getað bent honum á það á móti að á fundum Davíðs með fjölmiðlamönnum, svo sem í maí í fyrra, fullyrti hann að bankarnir stæðu sterkir og fjármálalífið væri í meginatriðum traust. Sigmar sat þá sem dáleiddur.

Eftir því sem Davíð segir núna áttu fjölmiðlamenn ekki að taka mark á honum þegar hann talaði opinberlega í viðurvist fjölmiðla, heldur að vita um einkasamtöl hans við yfirmann sinn, forsætisráðherra. Þarna slapp Davíð mjög billega. En magnaður er hann og makalaus, aldrei verður það af honum skafið.


mbl.is Davíð í Kastljósviðtali
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Var ekki verið að vorkenna manninum sem á við sprengjukast og eggja í garð konunnar sinnar að ósekju?

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 24.2.2009 kl. 20:54

2 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Horfði ekki á nema hluta af Kastljósinu, gat ekki hlustað á allt bullið í einu lagi, kíki kannsi aftur seinna í kvöld.

Ómar.

Ég veit að þú hefur miklar hugsjónir og háleit markmið með Íslandshreyfinga og fyrir það virði ég þig heils hugar.

Ég óttast að framboð, eins og Íslandsheyfingin, Borgarhreyfingin og Frjálslyndi flokkurinn, komi til með að draga úr því fylgi sem Samfylking og Vinstri grænir fengju annars og verði þar með vatn á millu þessara tveggja flokka, sérstaklega Sjálfstæðisflokksins.

Það gæti svo aftur aukið líkur á að helmingaflokkarnir næðu völdum eftir kosningar, sem er skelfilegt. Ég veit að þetta er svokölluð "gömul klisja" en því miður getur verið eitthvað til í henni sem getur valdið ógurlegum skaða fyrir Ísland.

Félagar í Íslandshreyfingunni gætu barist fyrir málefnum sem flokkurinn stendur fyrir, innan núverandi stjórnarflokka. Umhverfismál eru sífellt að fá aukið vægi, sem betur fer.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 24.2.2009 kl. 21:01

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Fagur svanasöngur,
sunginn um ógöngur,
flokksins tjaldið fallið,
fyndið búið spjallið.

Þorsteinn Briem, 24.2.2009 kl. 21:15

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hólmfríður, ég mun leitast við eftir því sem mér er unnt að gera gagn en ekki ógagn í vor og hafa augun opin fyrir hverju sem komið getur að gagni í því efni.

Ómar Ragnarsson, 24.2.2009 kl. 21:21

5 identicon

 Sagan mun ekki dæma Davíð Oddsson hart.  Það er annað flaustur og vandræðagangur sem er verri.  Svo sem eftirlitskerfið , dóms og ákæruvaldið steinsvaf og steinsefur enn líkt og DO minntist á.

Þér er veitt frelsi.  Þú hefur verið í hafti.   Þú ert frelsinu feginn, en sleppir þér algjörlega.  Ferð á flipp.   Að lokum klúðrar þú þínum málum og spilar rassinn gjörsamlega úr buxunum.  Semsagt misnotar frelsið. (Sem bankar og útrásarvíkingar gerðu)

Er sökudólgurinn sá sem hleypti þér út?     Olli hann skaðanum?

Seðlabankinn reyndi að nota þau meðul sem hann hafði.  Hækkandi vexti til að slá á verðbólgu og þenslu.    Þau meðul virkuðu ekki vitund.     Sjódæling erlends fjármagns sem fékkst á spottprís (þá)  sá fyrir því.

Valdimar Guðjónsson (IP-tala skráð) 24.2.2009 kl. 21:41

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Gjörðir okkar allra eru mjög mismunandi. Langdýrustu mistök Davíðs Oddssonar, "við borgum ekki", sem var spilað í ljósvakamiðlum erlendis æ ofan í æ, lungann úr sólarhring vestan hafs, og rústuðu heiðri þjóðarinnar um víða veröld, gerði hann áreiðanlega alveg óvart.

Hann hélt vafalaust að hann væri að tala við þjóð sína og sefa áhyggjur hennar föðurlega í kvöldspjalli á hjara veraldar þegar hann var í raun að gefa yfirlýsingu sem þýdd var umsvifalaust út um allan heim og birtist í Ameríku um miðjan dag og glumdi fram á kvöld. Þrjú feitletruð orð sem fjölmiðlar hraða og yfirborðsfroðu dældu út án þeirra löngu og flóknu útskýringa sem þurft hefði við.

Ég vil ekki dæma ómeðvituð mistök hart, síður en svo.

En siðlaus sjálftökustjórnmálin, helmingaskiptagræðgin með Halldóri og Finni, eftirlaunaósóminn, einkavinavæðing bankanna, Kárahnjúkaþenslan og landsspjöllin þar, húsnæðislánasprengingin, hótanir og kúgun hinna alráðu Davíðs og Halldórs og annað í þeim dúr getur ekki flokkast undir mistök.

Allt var þetta að vísu gert undir þeim formerkjum að það væri löglegt, en siðlaust var það.

Mistök af gáleysi eru ekki refsiverð. Allir geta gert mistök, stór og smá, en verða á móti að axla ábyrgð af þeim, ekki með því að vera dæmdir sem sakamenn heldur með því að víkja af leikvellinum eins og leikmenn sem hafa óvart klúðrað leiknum.

GIldir þá einu hvort ferill leikmannsins var einhver sá glæstasti sem um getur fyrr á árum.

Ómar Ragnarsson, 25.2.2009 kl. 00:36

7 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Var að horfa á Kastljós (hlustaði fyrst) og finn til, þetta er svo sorglegt!  Þessi maður verður að fara í langt, gott frí og konan hans...ekki spurning! 

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 25.2.2009 kl. 01:18

8 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Geturðu bent á eitthvað "concret" Ómar, að orð Davíðs hafi haft áhrif, t.d. á Breta varðandi hryðjuverkalögin?

 Fjölmiðlar vilja fyrirsagnir og "Við borgum ekki", er mjög góð fyrirsögn. Ákvarðanir stjórnmálamanna snúast ekki í kringum fyrirsagnir í blöðum, nema stjórnmálamennirnir séu "populistar". En engin gagnrýnir efnislega það sem Davíð sagði í viðtalinu. Engin!

Gunnar Th. Gunnarsson, 25.2.2009 kl. 02:08

9 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Ég hef hvergi séð þetta kasljósviðtal krufið eins vel og hér hjá þér Ómar. Bæði í þessum pistli, athugasemdinni og þeim pistlum sem koma hér á eftir. Þú hefur líka nef fyrir stöðu fréttamannsins sem var að skylmast þarna, af veikum mætti.

Nákvæmlega svona virkaði þetta viðtal á mig. Ég bara vorkenni karlinum að sitja fastur í sinni eigin súpu alveg uppí eyru, og henda smjörklípum í allar áttir. Þessi mikli stjórnmálaskörungur.

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 25.2.2009 kl. 07:58

10 identicon

Málflutningur Davíðs gekk aðallega út á það að sverta verndara sinn Geir Haarde og svo Sigmar viðmælanda sinn. Mér fannst Sigmar standa sig vel gegn gamla einræðisherranum. Hvernig hefði annars verið fyrir fréttamenn að taka viðtöl við Hitler ? Líklega eitthvað svipað því sem við sáum í gærkvöldi.

Stefán (IP-tala skráð) 25.2.2009 kl. 08:27

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

"Konkret dæmi" voru spilanir bandarískra sjónvarpsstöðva á þessum stutta kafla úr viðtalinu, "...við borgum ekki..." Vegna tímamismunar byrjuðu þessar spilanir á miðjum sama degi.

Það var "konkret dæmi" út af fyrir sig að þessi ummæli voru þýdd í sendiráðum, fyrirtækjum, stofnunum og fjölmiðlum út um allan heim og birt þar að auki.

"Konkret dæmi" var þegar útlendinga og Íslendingar vestra sögðu mér agndofa frá upplifun sinni og það var svo sannarlega "konkret dæmi" þegar ég sat daginn eftir á bóksafni við að blogga og tveir Bandaríkjamenn gengu til mín og spurðu mig út í merkið á húfunni minni, sem er merki Flugmálastjórnar Íslands, íslenska skjaldarmerkið með vængjum.

Þegar ég svaraði því sögðu báðir við mig og bendu á mig ásakandi: "Já, íslendingur, einn af þeim sem borgar ekki!"

Stefán Jón Hafstein sagði mér frá því að jafnvel inni í myrkviðum Afríku segðu verktakar, sem Íslendingar vildu fá í vinnu: "Borgið þið nokkurn tímann?" Konkret dæmi það.

Davíð nefndi "konkret dæmi" um hugsanlega ástæðu Breta fyrir sinni svívirðilegu framkomu og líklega hefur ekki þurft ummæli hans til að herða Breta í þeirri ósvinnu.

Ísland er orðið "international joke" af verstu gerð eins og Skoda verksmiðjurnar voru orðnar á síðustu árum kommúnismans í Tékklandi.

Og Ísland getur, alveg eins og Skoda, endurreist heiður sinn og orðtír með því að viðurkenna vanmátt sinn og mistök og fá aðstoð alþjóðasamfélagins til að fara í meðferð og komast á réttan kjöl.

Ómar Ragnarsson, 25.2.2009 kl. 15:43

12 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Öll þessi "konkret" dæmi þín eru úr fjölmiðlum, Ómar. Fjölmiðlum sem selja fyrirsagnir. Það er ekki skrýtið að almenningur sem fær þessar matreiddu fréttir misskilji þær og verði hissa. Fólk hélt í bókstaflegri merkingu að Íslendingar borguðu ekki neitt, væru óheiðarlegir, en það er auðvitað tóm firra.

Það er hinsvegar staðreynd að Davíð átti sér skoðanabræður úr öllum flokkum varðandi ummæli sín, m.a.s. Steingrímur J. tók undir þessi sjónarmið, þ.e.a.s. að við myndum ekki borga skuldir bankanna nema þær sem lög gerðu ráð fyrir.

Gunnar Th. Gunnarsson, 25.2.2009 kl. 15:55

13 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Hvergi hefur verið bent á "konkret" upplýsingar úr breska stjórnkerfinu að kastljóssviðtalið hefði haft einhver áhrif, enda skilst mér að tímasetningar aðgerða Breta standist ekki við tímasetningu kastljóssins

Gunnar Th. Gunnarsson, 25.2.2009 kl. 15:57

14 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Gunnar...hvað skal segja?...líttu á Ísland sem xD hefur skilið eftir handa barni mínu?...getur þú það?

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 26.2.2009 kl. 21:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband