Hverjir fleiri ?

Björgvin Sigurðsson sagði af sér. Axlaði ábyrgð þótt hann vissi ekki eins mikið um ástandið og kvartettinn, Davíð, Geir Árni Matt og Ingibjörg ef marka má ummæli Davíðs. En Björgvin var viðskiptaráðherra og Fjármálaeftirltið heyrði undir hann.

Nú hefur Ásta Möller beðist afsökunar. Vissi þó minna en öll framantöld. Er maður að meiri að mínum dómi. Sömuleiðis Árni Johnsen sem baðst afsökunar í DV.

Davíð hefur verið látinn fara, án þess að sjá neitt athugavert við nokkuð það sem hann hefur gert síðustu árin. Forysta Fjármálaeftirlitsins er líka farin. Árni Matt er hættur en hefur ekki talið neitt athugavert við sína frammistöðu.

Geir varð að segja af sér forsætisráðherraembættinu og er að hætta sem formaður flokksins, vegna tímabundinna veikinda en sér ennþá ekki neitt athugavert við sína frammistöðu og afgreiðir niðurstöðu innanflokksnefndar flokks síns sem framtíðarmúsík en ekki uppgjör við fortíðina.

Ingibjörg Sólrún situr enn í ráðherrastóli og stefnir á formannskjör. Verða Ásta Möller, Árni Johnsen og Björgvin Sigurðsson hin einu sem sýna auðmýkt ?


mbl.is Baðst afsökunar á mistökum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég get alveg sagt þér af hverju svo margir virðast vera að "axla ábyrgð" með að gefa ekki kost á sér. Allavega hef ég haldgóða kenningu. Hún er sú að þessir aðilar eru svo innflæktir í spillinguna og beintengdir hruninu að þeir óttast að ofan af þeim verði flett og vilja því spara sér niðurlæginguna. Sennilegast eru þó enn margir sem eru svo miklir sósíópatar að þeir trúa því að þeir séu hvítir eins og dúfur og komist klakklaust til metorða að nýju. Ég vona því að rannsókn verði hraðað, svo bæði þeir og við sleppum við slíkan harmleik.

Jón Steinar Ragnarsson, 2.3.2009 kl. 21:07

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Stjórnin fór á fyllerí,
og ferlega leið yfir því,
sagðist þó ekki sorrí,
og Solla fór bara í frí.

Þorsteinn Briem, 2.3.2009 kl. 22:53

3 identicon

Ingibjörg Sólrún situr ekki enn í ráðherrastóli.

Auður H Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 2.3.2009 kl. 23:29

4 Smámynd: Sigurður Sveinsson

Er ekki öll Íslandshreyfingin gengin á hönd Ingibjargar sem neitar að bera nokkra ábyrgð? Ertu búin að gleyma Fagra Íslandi? SF hefur stjórnað stóriðjuhraðlestinni af fullu afli undanfarna mánuði. Ég efast stórlega um að margir sem kusu Íslandshreyfinguna síðast muni fylgja þér í SF.

Sigurður Sveinsson, 3.3.2009 kl. 06:37

5 Smámynd: Heimir Tómasson

Afsökunarbeiðnir eru góðar og blessaðar. En ég verð að segja að ég myndi ekki trúa Árna Johnsen, hvorki ef hann segði mér hvað klukkan væri né heldur ef hann byði góðan daginn.

Heimir Tómasson, 3.3.2009 kl. 09:01

6 identicon

Mér fannst nú mjög lítið fara fyrir auðmýkt Björgvins G. Sigurðssonar sem sat og sat og sat eftir hrunið og vissi ekki neitt hvaðan á sig stóð veðrið, enda ný búinn að skrifa þvílíka lofgjörðarrullu um Íslenska bankaundrið. Sat algerlega meðvirkur í öllu svínaríinu og hreyfði ekki litla putta.

Málið hreinlega var að á endanum sá hann sitt óvænta þar sem að Ríksstjórnin var að hrökklast frá völdum og hann hefði hvort sem er messt djobbið daginn eftir, þá loks neyddist hann til að segja af sér.

Það var nú lítill manndómur í þessum gerningi hans.

Þetta er eins og ofdrykkjumaðurinn sem er marg búinn að ganga fram af fjölskyldu sinni að hann flytur út og tilkynnir það öllum daginn áður en konan flýr með börnin inní kvennaathvarfið. Þvílíkur hetjuskapur.

Hinnsvegar er Björgvini G. svolítil vorkunn vegna þess að fyrir honum hélt formaður SF Ingibjörg Sólrún mikilvægum upplýsingum algerlega leyndum um herfilega stöðu Íslensku bankanna. Þess vegna er megin ábyrgðin Ingibjargar Sólrúnar. En hún sér sko enga ástæðu til að axla ábyrgð, ja nema síður sé !

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 3.3.2009 kl. 09:13

7 Smámynd: Sigurður Sigurðsson

Sæll Ómar,  ég verð nú að láta þessa mola fylgja hér þar sem þér hefur verið tíðrætt um Davíð í blogginu:

Orð Davíðs 17/11 2007.

Grein í DV 17. nóvember 2007 :

"Bjargbrúnarkenning seðlabankastjóra slegin af

Laugardagur 17. nóvember 2007 kl 14:13

Guðmundur Ólafsson hagfræðingur segir ekki sjá betur en að bandaríski hagfræðingurinn Arthur B Laffer hafi í fyrirlestri hér á landi fyrir helgina slegið af kenningu Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra um að þjóðin væri á bjargbrúninni vega skuldasöfnunar fyrirtækja og einstaklinga erlendis. "Þetta er bara órökstutt bull. Það veit enginn almennilega hvað við er átt með að þenslan sé of mikil og að hagkerfið geti ofhitnað. Laffer blés af bjargbrúnarkenningu Davíðs Oddsonar seðlabankastjóra heyrðist mér. Hún felst í því að bankastjórinn hefur miklar áhyggjur af skuldasöfnun almennings og fyrirtækja í útlöndum og að við séum komin að mörkum þess sem þjóðfélagið þolir í þeim efnum. Það var í fyrsta skipti í veraldarsögunni sem seðlabankastjóri kvartaði yfir því um daginn að almenningur keypti leikföng," segir Guðmundur. Nánar er rætt við Guðmund um þetta í nýju viðtali hér á vefsíðu dv.is.  "

Og nú langar mig að spyrja þig einnar samvizkuspurningar. 

Hefur blaðamannastéttin á Íslandi staðið sig vel undanfarin ár við það sem þeir eiga að gera að upplýsa þjóðina um stöðu mála ? 

Fyrir mér ert þú þar meðtalinn og ég veit að athygli þín hefur mikið beinst að virkjunarmálum og umhverfismálum og málum því tengdu og er það vel. 

En nú ætlar hálf blaðamannastéttin, sýnist mér, í framboð.  Þarf hún ekki líka að biðjast afsökunar á því að hafa ekki staðið sig í starfi síðustu árin og munum við treysta þeim til þingsetu ?  Og þar að auki virðast þeir ætla flestir fram fyrir flokkinn sem þú hefur nú nýlega lagt lag þitt við ??

Sigurður Sigurðsson, 3.3.2009 kl. 10:50

8 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Íslandshreyfingin er saklaus og gengin í Samfylkinguna  athugasemdalaust varðandi ábyrgð á hruninu.

Nú er aðeins einn maður sem getur komið þjóðinni til bargar. Maður sem er þekktur af heiðarleik.

Kjósum Jón Baldvin í formannsembætti Íslandshreyfingar samfylkingarmana

Heimir Lárusson Fjeldsted, 3.3.2009 kl. 11:02

9 Smámynd: Dexter Morgan

Hvaða máli skiptir það þótt Ásta Möller ropi eitthvað. Fyrir hönd hverra er hún að biðjast "afsökunar", kannski þeirra sem eru í afneitun. Nei takk, þvingum þá út úr sínum sterillæsuðu umhverfi og krefjumst þess að þeir segi okkur þetta sjálfir.

Og varðandi þá sem eru þegar búnir að "ákveða" að fara ekki í framboð, þá held ég að það hafi verið sjálfhætt hjá þeim. Þeir eru örugglega þessi pólitíkusar sem Davíð talaði um að hefðu fengið óeðlilegar fyrirgreiðslur hjá bönkunum fyrir hrunið. Enda þegar listinn er skoðaður þá finnst manni það vel geta staðist.

Dexter Morgan, 3.3.2009 kl. 14:12

10 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Blaða- og fréttamannastétt stóð sig illa þessi ár sem það var "in" að vera með stanslausar glansfréttir af græðgis- og bruðlvæðingunni.

Ég gagnrýndi þetta hugarfar harðlega í bókinni "Kárahnjúkar - með og á móti" og spáði þar afleiðingunum sem komu fram fljótar og harkalegar en mig hafði órað fyrir.

Ég gerði það aftur í bæklningnum "Íslands þúsund ár" sem ég bar frá Hlemmi niður í Alþingishús í september 2006. Þar lýsti ég því hvernig stórfréttum á sviði virkjanamála, sem hefðu áhrif um aldir og árþúsund komust ekki að í fréttatímum fyrir glansfréttum úr viðskiptalífinu.

Það var komið fram í september í fyrra þegar Spegillinn greindi fyrstur fréttatengdra þátta frá því að skuldir þjóðarbúsins væru yfir 8000 milljarðar og það komst ekki einu sinni að sem aðalfrétt hjá sjálfum fréttatímanum, hvað þá hjá öðrum fjölmiðlum.

Fjölmiðlar og fjölmiðlamenn eiga að biðja þjóðina afsökunar á dýrkun þeirra að bruðlinu, samanber full tímarit af glansmyndum með upphrópununum "Sjáið flottu kjólana þeirra! " "Gaf henni Hummer í afmælisgjöf!" "Reisir sér sumarhöll!" "Fékk Elton John í afmælisveisluna!" o. s. frv.

Hins vegar er hlálegt þegar Davíð Oddsson skammar fjömiðla fyrir að taka ekki mark á aðvörunum hans, sem hann lét fjölmiðlana aldrei vita um heldur gaf opinberlega bönkunum bestu einkunn síðast í maí í fyrra og sagði fjölmiðlum frá því að þeir stæðust álagspróf og að íslenski samdrátturinn yrði skammvinnari og minni en hjá öðrum þjóðum og að við yrðum fljótari að vinna okkur upp.

Fjölmiðlarnir fengu aldrei aðra mynd hjá honum en þessa og gátu að sjálfsögðu ekki snapað upp trúnaðarviðtöl Davíðs við Geir, Árna og Ingibjörgu, sem þau segjast þar að auki varla muna eftir.

Ómar Ragnarsson, 3.3.2009 kl. 21:26

11 Smámynd: Sigurður Sigurðsson

Sammála þér að flestu leyti Ómar, en þá hef ég enn eina spurningu:

Hvað með þann flokk sem þú nú ætlar að leggja lag þitt við, ég reyndar botna ekkert í því, ber hann enga ábyrgð ??  Er ekki að koma betur og betur í ljós að Ingibjörg Sólrún og hennar lið vissi allan tímann af þessum áhyggjum Davíðs ??

Ég bara trúi því ekki að þú ætlir að þakka Samfylkingunni fyrir það hvað hún stóð vel vaktina í 18 mánuði og draga flokkinn þinn þarna inn. 

Þú talar um að Davíð sé hlálegur, en hvað þá með þessa ákvörðun þína  ??

Sigurður Sigurðsson, 5.3.2009 kl. 12:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband