Hagmælska, tónlist ljóðanna.

Allt frá dögum Sigurðar Breiðfjörðs hafa þeir menn, sem löngum hafa verið kallaðir hagyrðingar, átt undir högg að sækja hjá menningarfrömuðum þjóðarinnar. Þeim hefur verið lagt til lasts að láta erfitt og krefjandi ljóðaform skemma fyrir ljóðrænni hugsun.

Oft hefur þessi gagnrýni átt rétt á sér eins og gengur en sú alhæfing, að algerlega órímuð ljóð séu hin eina sanna ljóðlist, hygg ég að sé ekki sanngjörn og mig grunar jafnvel að oft sé hún notuð til að breiða yfir getuleysi viðkomandi til að fella hugsun sína inn í þá tónlist og hljóðfall ljóðanna sem bundið mál er.

Að sönnu hefur ógrynni vísna og kvæða verið hnoð og leirburður, rétt er það, en mörg af bestu skáldum Íslands voru góðir hagyrðingar og höfðu það ljóðaform fullkomlega á valdi sínu þótt þeir veldu við önnur tækifæri að leysa hugsun sína og túlkun undan böndum ríms og ljóðstafa.

Tónlist er oftast túlkun sem bundin er í takt og tóna sem hlíta ákveðnum lögmálum og sem betur fer tíðkast það ekki að tala niður til slíkrar tónlistar á þeim nótum að hún sé óþarft og skaðlegt haft á túlkun og list.

Hákon Aðalsteinsson var einn minn besti vinur, glaðvær og gefandi höfðingi og að honum er mikill missir. Ég gerði eitt sinn um hann þátt á Stöð tvö í þáttaröðinni "Draumalandið." Hans draumaland var hálendið inn af Hrafnkelsdal og átti hug hans allan. Hákon fór því eins og skáldin yfir þúsund árum á fund Noregskonungs og flutti honum drápu um þetta mikla hugðarefni sitt.

Því miður er hinn séríslenski taktur ljóðanna, ljóðstafirnir, aftur á undanhaldi eftir að meistari Megas og fleiri höfðu spyrnt við fótum. Þess vegna er sá missir tvöfaldur fyrir að horfa á eftir Hákoni Aðalsteinssyni, góðum manni og góðu skáldi.


mbl.is Hákon Aðalsteinsson látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Já auðvita er eftirsjá að Hákoni gengnum þó er sú huggun að hann skilur meira líf eftir en aðrir menn.

Það mikill misskilningur þetta með óbundið mál. Ljóðið er hér um bil alltaf bundið. Það kemur mér meira og meira á óvart hve Steinn Steinarr er rígbundinn í sínum kveðskap.

Á meðan Galtalækjarbræður eru uppi er íslenskum kveðskap borgið.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 9.3.2009 kl. 10:28

2 Smámynd: Offari

Ég var svo heppinn að fá að kynnast þessum höfðingja. Hann hafð þann sjaldgæfa kost að láta ekki deilur eða skoðanaágreining spiila vináttu og virðingu gagnvart náunganum.

Offari, 9.3.2009 kl. 11:53

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hákon stóð undir nafni.

Þorsteinn Briem, 9.3.2009 kl. 13:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband