9.3.2009 | 13:05
Agureyri, Reygjavíg og Reygvígingar.
Myndi Keflvíkingum ekki sárna ef landar þeirra bæru nafn bæjar þeirra fram sem "Kefflavik" í stað hins íslenska framburðar "Kjebblavík"? Að sjálfsögðu, - en sem betur fer eru það aðeins útlendingar sem bera nafn Keflavíkur svona fram af gáleysi.
Það færist í vöxt, að hinn letilegi framburður, sem oftast er kenndur við Suðurland en hefur þó fyrst og fremst blómstrað í Reykjavík, dynji í eyrum í ljósvakamiðlum.
Í stað þess að hægt sé að gleðjast einlæglega með Akureyringum þegar íþróttamanna þeirra er getið í fréttum skyggir það á ánægjuna að heyra sífellt talað um Agureyri og Agureyringa.
Það er alltaf dapurleg að heyra andlátsfregnir og þess vegna er það neyðarlegt að manni skuli létta þegar Anna Sigríður Einarsdóttir byrjar að lesa dánarfregnirnar með sínum skýra og fallega framburði englaraddar eftir að búið er að klæmast á Agureyringum og Reygvígingum í íþróttafréttum.
Athugasemdir
Hægt er að láta ýmislegt fara í taugarnar á sér og geðlæknar landsins hafa af því góðan starfa.
Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti, segir til að mynda alltaf "Ísslendingar", Sunnlendingar tala um að fara yfir "ánna" og að einhver sé búinn að lesa "spánna".
Hér áður voru margir flámæltir en skólapekingar sögðu að ekki væri fallegt að vera flámæltur. Næstum því jafn ljótt og að vera negri.
Flámæltum var því næstum útrýmt eins og gyðingum og eftirlifendur búa allir í sama stigaganginum í Eddufellinu. Þó sá ég Sunnlending skrifa "kurin" en ekki "körin" og velti því dáldið fyrir mér hvað hann væri að meina.
Föðuramma mín ólst upp austur á Héraði og talaði alltaf um "vetrin" en ekki "veturna" og trúlega hafa rektorar og konrektorar landsins ekki verið hrifnir af því, frekar en "traktorum". Svarfdælingar tala hins vegar um "dráttarvélar" til að gleðja rektorana.
Svarfdælingar segja "klybbberi" (klyfberi) og "saggði" en ekki gæti ég nú hugsað mér að sofa hjá stelpu sem talar svona. Frekar ósexí eitthvað. Og þegar Ólafsfirðingar eru vingjarnlegir, sem er fátítt, segja þeir si sona: "Andskothans djöfulsins hálfvithi gethurðu verið!" með ákveðnu hljómfalli, þannig að væntumþykjan fer engan veginn á milli mála.
Trausti Þorsteinsson, þáverandi kennari í Húsabakkaskóla í Svarfaðardal, tók af mér eitt prik fyrir að hafa skrifað "labba" í íslenskuritgerð. Sagði að það væri útlenska. "Labba" er engan veginn útlenska og þar að auki skrifaði ég "lalla", sem mér finnst reyndar miklu fallegra orð en "labba".
Trausti var síðar gerður að fræðslustjóra og ég er nú ekki hissa á því.
Þorsteinn Briem, 9.3.2009 kl. 14:16
Á meðan fólk kann tungumálið íslensku og getur notað hana skammlaust í ræðu og riti, sé ég ekki ástæðu til að amast svona við mismunandi framburði.
Annað gildir hinsvegar um óskýrmæli, sem er óþolandi þegar fagmenn í ljósvakafjölmiðlum eiga í hlut.
Ég bjó lengi í Svíþjóð og tala sænsku, meira að segja Gautaborgarmállýsku þegar vel liggur á mér.
Ekki amast Svíar svona við mállýskum og mismunandi málhefðum í sínu tungumáli og gætu Íslendingar tekið þá sér til fyrirmyndar í þessu efni.
Lana Kolbrún Eddudóttir, 9.3.2009 kl. 14:22
Tek eindregið undir með æðstapresti okkar jassgeggjara að það er ekkert athugavert við mállýskur, síður en svo. Mér leiðist málfarsfasismi, sér í lagi þessi sem þrífst svo vel á Ríkisskylduútvarpinu, þar sem svo virðist sem ekki leyfist annar framburður en öfga svarfdælska.
Letihaugur (IP-tala skráð) 9.3.2009 kl. 14:41
Ég fékk starf sem þulur á Ríkisútvarpinu, enda alinn upp í Svarfaðardalnum frá sex ára aldri vegna þess að ég gleymdist þar þegar foreldrar mínir skildu.
Sama dag fékk ég hins vegar einnig starf sem blaðamaður á Mogganum en sami íslenskufræðingurinn kannaði íslenskukunnáttu mína í báðum tilfellum og hann hafði þar að auki verið íslenskukennari minn í Menntaskólanum við Hamrahlíð.
Þorsteinn Briem, 9.3.2009 kl. 15:02
Þessi norðlenski framburður er nú ekki alltaf fallegur, stundum ljótur....Kal-kúnn, hvaða dýr er nú það? Og ég drekk mjólk en ekki mjól-k, punktera..er það ekki dönsku sletta? Nef york er það borg í usa? Þetta er haft eftir norðlenskum þul hjá rúv.
judas (IP-tala skráð) 9.3.2009 kl. 19:04
Ég legg mig allan fram um að segja Aureyi í stað Akureyri þegar ég er fyrir norðan..
Ég segi helst KeFlavík en ekki kebblavík enda ekkert b í kef..
bara gaman af þessu..
Óskar Þorkelsson, 9.3.2009 kl. 19:16
Svokallaður "málfarsfasismi" lifir góðu lífi hjá útvarps- og sjónvarpsstöðvum í þeim löndum sem ég þekki til, einkum hjá stærstu stöðvunum og þeim ríkisreknu. Gerðar eru lágmarkskröfur til útvarps- og sjónvarpsmann um skýran framburð í samræmi við ákveðin höfuðatriði og gott og rökrétt mál.
Anna Sigríður Einarsdóttir, Broddi Broddason, Adolf Ingi Erlingsson lesa ekki með hinum gamla og harða norðlenska framburði heldur fara þau sjálfsagðan milliveg sem felst í því að lesa skýrt og láta mann heyra að hvort þau kveða að stöfunum p, t og k en ekki b, d og g.
Mér finnst það athyglisvert að vel menntaðir Íslendingar sætta sig margir hverjir við minni kröfur í meðferð eigin móðumáls en í meðferð erlendra tungumála.
Ómar Ragnarsson, 9.3.2009 kl. 19:59
Það er eins og hjá sumum íþróttafréttamönum hafi þróast sérstakur framburður ,sem ekki er til eftirbreytni. Þar komst þú aldrei við sögu meðan þú sinntir þeim störfum.
Þar er t.d. talað um knasspinu, Aggnesíga og Agreiriga. Það er makalaust hvað þetta hefur verið látið viðgangast óátalið. Þessi framburður var reyndar gerður ódauðlegur með "Manst ettir júnæted". Var það ekki Laddi?
Eiður (IP-tala skráð) 9.3.2009 kl. 21:58
Gvaða neigvæðni erðetta kragar mínir. Svona dölum við í Nýja-Íslandi. Hér miðar allt að hinu allrabesta og dúngumálið ðróast. Förum svo bara að ferðast innanlands í sumar til Vígur, Stygishólms, Sauðakrógar, Stogseyri og Gópasgers
Ari (IP-tala skráð) 10.3.2009 kl. 14:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.