11.3.2009 | 16:21
Útsýni af tveggja metra dýpi?
Í ráði er að 22ja hektara kirkjugarður komi fyrir ofan Bauhaus-bygginguna vestur af Úlfarsfelli. Mér fannst þetta kalla á að fara á staðinn og líta nánar á þetta.
Þetta er frábær útsýnisstaður. Efsta myndin, hér til hliðar, sýnir útsýni til norðausturs, til Úlfarsfells og Esju.
Ástæðan til þessa staðarvals mun vera sú, að upphaflegi staðurinn, við Korputorg, þótti slæmur.
Þeim, sem vilja sjá þetta enn betur, er bent á þann möguleika að stækka myndirnar á tölvuskjánum hjá sér.
Hér til hægri sést útsýnið til norðurs, yfir Korpúlsstaðaland og Geldinganes. Fjær eru Kjalarnes, Esja og Akrafjall.
Til vinstri á myndinni sést skógræktarreitur og er ein röksemdin fyrir staðarvali kirkjugarðsins sú að gróðurinn í honum muni falla vel að skóginum sem þarna er kominn.
Fyrirhugaður garður á að ná upp undir 100 metra hæð yfir sjó.
Það sýnist mér ekki vera tiltökumál.
Byggð í Reykjavík liggur víða hærra en þetta.
Á hæðinni, sem bíllinn stendur við, er vindpokinn við svifdrekaflugvöll sem þarna er núna og hafa margir átt þar góða daga úti við.
Hér til hægri sést svo hluti af hinum frábæra útsýni yfir mestalla Reykjavík með hina dæmalausu risavöxnu Bauhaus-byggingu í forgrunni, en hún er einn af minnisvörðum "gróðærisins."
Hún mun vera 20 þúsund fermetrar að flatarmáli og inni í henni er EKKERT.
Sú spurning vaknar hvort ekki hefði glatt fleiri ef íbúðabyggð hefði risið á þeim stað sem við sjáum hér með einhverju besta útsýni yfir Reykjavík og flóann sem völ er á.
Vitað er að útsýni getur verið virt til fjár eins og til dæmis við Sæbrautina vestanverða þar sem það er virt á marga tugi milljóna.
Í okkar kalda og oft hryssingslega landi er það mikils virði í augum margra að njóta fagurs útsýnis, örvar til góðra verka að morgni og gleður sálina þegar sólin sígur í vestri á björtum sumarkvöldum.
Það er ekki ónýtt að hafa sjálfan Snæfellsjökul fyrir augum á góðviðrisdögum en hann sást raunar betur með berum augum en á myndinni hér til hægri.
Útsýni er alþjóðlegt verðmæti. Þegar ég kom til Chicago var mér ekið um Lake Shore Drive, sem er breiðgata með útsýni sem innfæddir voru að rifna af monti að hafa.
Og hvert var þá þetta mikla útsýni? Jú, út á slétt Michigan vatnið þar sem ekkert sást annað en slétt vatnið. Engin nes, engin sund, engin fjöll, hvað þá eldfjall með jökultindi.
En hvar væri þá hægt að hafa kirkjugarðinn ef ekki þarna?
Hvað um svæðið við Rauðavatn sem fyrir 37 árum var talið óheppilegt til bygginga á íbúðarhverfi.
Þar er útsýni ekkert í líkingu við það sem er í vesturhlíðum Úlfarsfells.
Fordæmi er fyrir svipaðri ráðstöfun hvað varðar kirkjugarðinn í Kópavogi, sem var settur niður þar sem jarðvegur var djúpur og því dýrt að koma þar fyrir íbúðabyggð.
Auðvitað yrði útsýnið fallegt fyrir þá sem ættu leið um kirkjugarð vestan við Úlfarsfell en það er svo margfalt færra fólk sem myndi njóta þess þar ef þar væri kirkjugarður en ef þar væri íbúðabyggð.
Enginn getur með neinni vissu talað fyrir þá látnu sem liggja munu á tveggja metra dýpi.
Athugasemdir
Sæll Ómar
Veistu hvaða kirkjugarðar eru einna vinsælastir á höfuðborgarsvæðinu og hvers vegna? Það eru Hafnarfjarðakirkjugarður og Lágafellskirkjugarður. Ástæðan er sögð vera útsýnið hvernig sem skilja má það!
Fornmenn létu gjarnan husla sér dauðum niður á góðum útsýnisstöðum þar sem þeir afturgengnir eða dauðir gátu haft gott útsýn yfir lönd sín!
Við í Skógræktarfélagi Mosfellsbæjar urðum hvumsa við þegar Íslenskir aðalverktakar höfðu skipulagt íbúðasvæði í Hamrahlíðarskóginum á sínum tíma. Hugmyndin var að ryðja helmingnum af skóginum burt og leggja hraðbraut yfir syðri hluta skógarins. Þetta kostaði mikla baráttu hjá okkur Mosfellingum enda vorum við í góðri trú að verktakarnir hefðu ekki hug á að skaða skóginn einkum vegna ákvæðis í kaupsamningi við þá Blikastaðamenn sem þeir keyptu landið af. Svo leið tíminn og maður gekk undir manns hönd í Mosfellsbæ til að finna leið að afstýra þessu slysi. Um þær mundir voru uppi hugmyndir hjá Reykjavíkurlistanum að finna stað fyrir nýjan kirkjugarð. Þar sem vinstri menn stýrðu báðum sveitarfélögunum með þá hugmynd að fremur ætti að bæta umhverfið og landslagið, þá kom þessi hugmynd að setja niður kirkjugarð þarna í næsta nágrenni við Hamrahlíðarskóginn. Skógur sá hefur verið að vaxa og þroskast í hálfa öld og eru hæstu tré nálægt 20 metrum. Við skógræktarfélagarnir hrósuðum happi enda er varla unnt að finna sér friðsamari granna en þá sem hafa geispað golunni og safnast hafa til feðra sinna. Skógrækt og kirkjugarður á því afar vel saman.
Auðvitað er þetta svæði fagurt og frítt og sjálfsagt eftirsóknarvert af byggingarmönnum að byggja þar. Töluverður umferðaniður stafar frá Vesturlandsveginum, einkum í veslægum áttum, sem veldur ónæði bæði að nóttu sem degi. Fuglalíf var töluvert meira áður en umferðin jókst og skógurinn opnaður. Einkum er bagalegt þegar fólk sleppir hundum sínum lausum meðan fuglar eru enn í varpi eða að sinna ungum sínum.
Mikið hefði verið gaman ef þú hefðir getað komið á fræðslufund Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar í gær og heiðrað okkur með nærveru þinni. Fyrirlestur Ingvars Birgis Friðleifssonar um jarðfræði Esjunnar og Mosfellssveitar var hreint frábær og vakti mikla eftirtekt þeirra sem komu!
Læt hér staðar numið - að sinni.
Kveðja
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 11.3.2009 kl. 16:47
Það á skylda fólk í brennslu. Grafreiturinn er þá mörgum sinnum minni og þetta kostnaðarsama tilstand upp á gamla mátan er úr takti við nútíma hugsunarhátt.... eða á a.m.k. að vera það. Hégómi á alltaf að vera óviðeigandi, líka þegar jarðlífinu líkur.
Gunnar Th. Gunnarsson, 11.3.2009 kl. 17:20
....og það á ekki að brenna fólk í rándýrum viðarkistum. Kistan sem notuð er við kistulagningu og útför á að vera margnota
Gunnar Th. Gunnarsson, 11.3.2009 kl. 17:22
..... eða úr endurunnum pappa
Gunnar Th. Gunnarsson, 11.3.2009 kl. 17:22
Ég hef ekkert á móti Hamrahlíðarskóginum eða þeim skógræktarsvæðum sem þegar eru komin á þessum slóðum. Aldrei myndi mér koma til hugar að setja niður byggingarsvæði í Elliðaárdalnum þar sem yrði verðmætasta byggingarsvæði Reykjavíkur vegna þess að þar liggja mestu krossgötur landins.
Í New York dytti mönnum ekki hug að hrófla við Central Park. Ég varpa fyrst og fremst upp spurningum varðandi komandi kirkjugarð svo að fólk geti myndað sér skoðun eða skipst á skoðunum um það efni.
Ég teldi til dæmis heppilegra ef kirkjugarður kæmi þarna, að hann yrði aflangur svo að fyrir ofan h hann gæti verið íbúðabyggð með útsýni yfir garðinn.
Inn í skipulagið grípa bæjarmörk á höfuðborgarsvæðinu sem eru mjög til trafala og óþæginda og gera lausnir í svona málum oft erfiðar.
Ómar Ragnarsson, 11.3.2009 kl. 17:28
Flottar myndir hjá þér Ómar...já, það er grátlegt hvernig farið er með góða staði..
TARA, 11.3.2009 kl. 19:15
Það er fallegt útsýni yfir París úr Père Lachaise kirkjugarðinum. Enda er hann einn af vinsælustu útivistarsvæðum borgarinnar. Íbúðarhverfi eru leiðinleg, væri ekki einmitt ráð að grafa þau niður einhvers staðar inni í landi? Ég er vitanlega bara að grínast, en samt...
Kristín í París (IP-tala skráð) 11.3.2009 kl. 19:48
Ég er svo innilega sammála Gunnari með það að minnka fyrirferðina í kirkjugörðunum. Hins vegar finnst mér brennsla ekki koma til greina ef tekið er tillit til þess að líkaminn var það eina efnislega sem við fengum að gjöf við fæðingu og verður aftur það eina efnislega sem eftir situr við dauðann.
Þótt þessi kíló séu kannski ekki mörg eru þau afar táknræn. "Af moldu ertu kominn. Að moldu skaltu aftur verða."
Þess vegna minni ég á fyrra blogg mitt um margnota kistur. Inni í þeim verði líkið í poka, sem leysist upp í moldinni. Kistan verði látin síga niður í gröfina, en þegar allir eru farnir, kippi starfsmenn í spotta sem liggur niður í kistuna og opnar botn hennar.
Kistan síðan hífð aftur upp og mokað yfir. Tekur miklu minna pláss og "moldunin" stendur undir nafni. Fleiri en eitt lík geti þar að auki fengið greftrun í sömu gröf eða í mun minni gröfum.
Brennsla kostar orku og eyðingu á efni í gróðurmold.
Ómar Ragnarsson, 11.3.2009 kl. 21:57
Við ættum ekki að þurfa að óttast plássleysis vegna kirkjugarða. Þeir eru nauðsynlegir sem nokkurs konar lungu í stórborginni og þeir eru prýðisgott afdrep fugla og jafnvel annarra dýra.
Varðandi líkbrennslu þá er sitt hvað að athuga:
Í tönnum okkar flestra er kvikasilfursfyllingar. Þó svo massinn sé ekki mikill í hverjum einstakling þá er verra að fá kvikasilfur í loftið sem mengun en að það verði eftir í tanngörðunum, kannski fornleifafræðingum framtíðarinnar til fróðleiks og frekari rannsókna á tannheilsu Íslendinga á 20. og 21. öld.
Úlfarsfellið býður upp á fjölmarga og mikla fjölbreytni. Hefi eg viðrað þá skoðun meðal fulltrúa Mosfellsbæjar og Reykjavíkur að þar verði komið upp útivistarsvæði í eigu beggja sveitarfélaganna. Skipulagsnefndir ættu að hafa samkeppni meðal arkitekta um hvernig þetta fallega útsýnisfjall væri best nýtt í þá veru. Þarna væri kjörið að reka veitingahús eins og Nauthól sem var eitt vinsælasta útiveitingahús í Reykjavík á góðviðrisdögum áður en það varð að þoka fyrir byggingastarfsemi á vegum Háskólans í Reykjavík. Aðgengi að fjallinu þyrfti að breyta þannig að utanvegaakstur verði ekki mögulegur en eins og er er fjallið í skelfilegu ástandi. Þarna mætti skipuleggja göngustíga, planta trjám og runnum en ekkert mál er að ná góðum árangri í þá átt með heppilegum tegundum. Þessir stígar gætu nýst gönguskíðafólki á vetrum.
Eignarhald á fjallinu er þannig að Hamrahlíðarskógur er í landi Blikastaða. Eru mörk milli Mosfellsbæjar og Reykjavíkur eftir gamalli girðingu upp á fjallið austan við skóginn. Suðurhluti fjallsins er Reykjavíkur og allt austur í hæsta og austasta hnúkinn. Þar efst uppi eru leifar af njósnahreiðri frá dögum bresku hersetunnar. Land bæjarins Úlfarsfells suðaustan við háhnúkinn er nú tilheyrandi Reykjavík.
Gaman væri að vinna saman góða grein um þessar hugmyndir með birtingu t.d. í Lesbók Morgunblaðsins í huga.
Bestu kveðjur
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 12.3.2009 kl. 09:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.