Íslenskar konur örlagavaldar.

Ísland hefur fyrr en nú skipt sköpum fyrir fjölskyldur, hjónabönd og lífshlaup erlends fólks. Þegar ég heimsótti sendiherrahjónin Jón Baldvin og Bryndísi í Washington árið 2000 sögðu þau mér magnaða sögu af níræðri konu í næsta húsi við þau sem fór með manni sínum á vegum tímaritsins National Geographic til Íslands upp úr 1930.

Þau gistu á Hótel Borg og þá bar Gyllti salurinn þar af öðrum samkomustöðum landsins. Var þar úrval íslenskra glæsikvenna og gleðiskapur mikill. Kom í ljós að eiginmaðurinn var veikur fyrir bæði víni og konum og klúðraði svo verkefni sínu fyrir tímaritið að hann var rekinn úr starfinu með skömm.

Úr varð skilnaður þeirra hjóna en hin svikna kona var þá ráðin til að ljúka verkefni fyrrverandi eiginmanns síns og bjarga því sem bjargað yrði. Það gerði hún svo vel að ferðir á vegum National Geographic urðu að ævistarfi hennar og efnaðist hún vel.

Þess vegna átti hún heima í glæsilegu húsi í nágrenni við íslenska sendiherrabústaðinn í Washington þegar ég kom þar fyrir níu árum. Á sínum tíma hefði verið upplagt fyrir mig að gera sjónvarpsþátt um þessa stórmerkilegu konu, en stóratburðir í virkjanamálum á Íslandi komu í veg fyrir það.

Sendiherrahjónin sögðu mér að sú gamla bæri mjög sterkar tilfinningar til landsins, sem orðið hafði örlagavaldur í lífi hennar, rænt hana eiginmanninum og fært henni tímabundna óhamingju og vanlíðan en á hinn bóginn gert hana sjálfstæða og ríka og fært henni heiður og virðingu.

Dýpstu tilfinningarnar gömlu konunnar vegna Íslands væru ást og hatur. Annars vegar ást á Íslandi og hins vegar hatur til íslenskra kvenna. Það hefði verið gaman að fá þetta upp úr þeirri gömlu sem lokaorð þáttarins sem aldrei var gerður.


mbl.is Ísland eyðilagði hjónabandið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Eins og Jon Valur Jensson segir er þetta hrein "Albönsk kvenremba"?

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 13.3.2009 kl. 22:52

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég sagði ekki "albönsk" kvenremba, Anna, ég átti við íslenzka félagsmálakvenrembu.

Jón Valur Jensson, 14.3.2009 kl. 01:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband