13.3.2009 | 22:22
Stuðning við Þórunni og grænu frambjóðendurna.
Konur komu mjög við sögu á aðdraganda Kárahnjúkavirkjunar. Siv Friðleifsdóttir tók að sér að bera ábyrgð á mati á umhverfisáhrifum sem gaf virkjuninni hið fyrra græna ljós. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gaf seinna græna ljósið og hunsaði áskoranir mesta mótmælendafjölda sem komið hafði á fund borgarstjórnar um að hún stöðvaði málið í borgarstjórn.
En síðan voru nokkrar konur sem sýndu gríðarlegt hugrekki þegar þær greiddu atkvæði á þingi gegn virkjuninni þótt það væri í óþökk forystu flokka þerira. Fyrst skal telja Katrínu Fjeldsted sem reis gegn því flokksvaldi sem hafði hrakið Ólaf F. Magnússon úr ræðustóli á landsfundi Sjálfstæðisflokksins.
Katrín var eini stjórnarþingmaðurinn sem greiddi atkvæði gegn virkjuninni.
Þær Þórunn Sveinbjarnardóttir og Rannveig Guðmundsdóttir risu gegn miklum þrýstingi á Samfylkingarþingmenn um að sýna samstöðu í málinu og samþykkja Kárahnjúkavirkjun til að sanna hvað flokkurinn væri "stjórntækur" og flokkur á landsvísu. Þingmenn flokksins í Norðausturkjördæmi höfðu hótað því að rýja hann fylgi í því kjördæmi ef hann héldi áfram andstöðu sinni við virkjunina.
Ein þessara kvenna stendur nú í baráttu fyrir grænum gildum innan síns flokks, Þórunn Sveinbjarnardóttir. Hún á skilið að henni sé launað fyrir fórnfúsa baráttu hennar með því að veita henni stuðning í prófkjörinu sem nú fer fram.
Ég skora á þá sem vilja veg umhverfismála sem mestan að gera það sem þeir geta til að styðja Fagra Íslands frambjóðendurna í prófkjöri Samfyllkingarinnar. Sömuleiðis að reyna að hafa áhrif innan allra flokka í þessum málum og hafa fordæmi Katrínar Fjeldsted, Ólafs F. Magnússonar og Ólafar Guðnýjar Valdimarsdóttur að leiðarljósi þegar á móti blæs.
Fram að kjördegi er ljóst að Framsóknarflokkurinn setur úrslitakosti í stóriðjumálum í krafti þess að hann og Sjálfstæðisflokkurinn hafa meirihluta á þingi. VG og umhverfisráðherra þeirra fá ekki rönd við reist.
Í stjórninni á undan setti Sjálfstæðisflokkurinn sams konar úrslitakosti og umhverfisráðherra Samfylkingarinnar fékk ekki rönd við reist.
Þetta sýnir skýrar línur í kosningunum nú og verkefnin eru tvö: 1. Það verður að koma í veg fyrir að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafi meirihluta. 2. Það verður að efla grænu fylkinguna í komandi stjórnarmeirihluta eins og mögulegt er.
Sú barátta er hafin í prófkjörum helgarinnar.
Athugasemdir
Þetta er ágætur pistill og flest í honum satt og rétt. Það er við hæfi að rifja upp þátt ISG í Kárahnjúkavirkjun sem orðaði það svo að hún vildi ekki setja fótinn fyrir þetta mál. Ég skil vel að þú sem hægri miðjumaður getir ekki kosið VG. Besta leið umhverfisvina er þó að kjósa VG. Gera flokkinn svo öflugan að erfittt verði að hundsa áherslur hans í umhverfismálum. Vonandi flykkjast fyrrum kjósendur Íslandshreyfingarinnar yfir til eina flokksins sem er ómengaður af virkjunarbrjálæðinu. Flokksins, sem einn hefur staðið vaktina um náttúru landsins. Fagra Ísland varð aldrei sjófært. Það sökk við bryggjuna og það var heldur lítið um efndir hinna fögru loforða SF þegar flokkurinn komst í sæng með íhaldinu. Það eru reyndar margir góðir umhverfisvinir í SF. Þeir hafa bara hingað til orðið undir í flokknum. Stórsigur VG í kosningunum mun hafa góð áhrif á umhverfisstefnu SF.
Sigurður Sveinsson, 14.3.2009 kl. 08:44
Alveg sammala ther Omar. Thorunn er oflug thingkona sem a atkvaedi okkar skilid. Nu fer hver ad verda sidastur ad syna hug sinn i verki og koma henni helst i efsta saeti listans a Kraganum. Koma svo!!
Annadís Gréta Rudolfsdóttir, 14.3.2009 kl. 15:23
Þegar lýðræðisleg niðurstaða liggur fyrir og í ljós kemur að þessi öfgaumhverfissjónarmið eiga ekki upp á pallborðið, nema kannski í einum flokki, VG, þá verðið þið að sætta ykkur við niðurstöðurnar. Sjónarmið ykkar nýtur fylgis mikils minnihluta þjóðarinnar, þó þið getið æpt upp eitt og eitt mál með ýkjum og bulli um stundarsakir. Svo þegar móðursýkin stendur sem hæst, þá látið þið gera skoðanakönnun sem sýnir sveiflu til ykkar og básúnið það svo út sem óskoraðan vilja þjóðarinnar.
Slíkt gengur ekki í almenning til lengdar en ég hef lengi haft áhyggjur af því að svona málflutningur komi óorði á umhverfisvernd. Það þætti mér leitt.
Gunnar Th. Gunnarsson, 14.3.2009 kl. 23:14
"Öfgaumhverfissjónarmiðin" felast í því að reyna að vernda eitt af fimm virkjanasvæðum á Hellisheiði.
"Öfgaumhverfissjónarmiðin" felast í því að reyna að sjá til þess að einhver orka verði eftir á Reykjanesskaganum eftir hálfa öld þegar hún verður uppurin.
"Öfgaumhverfissjónarmiðin" felast í því að reyna að vernda eitt af fjórum virkjasvæðum á háhitasvæðum norðausturlands og sjá til þess að einhver jarðvarmaorka verði þar eftir eftir hálfa öld.
"Hófsemdarumhverfisstefnan" felst í því að virkja alla jarðvarmaorku Reykjanesskagans, skilja ekkert eftir og skeyta ekkert um það þótt hún verði tæmd eftir fimmtíu ár.
"Hófsemdarumhverfisstefnan" felst í því að virkja alla jarðvarmaorku á Norðausturlandi, skilja ekkert eftir og skeyta ekkert um það þótt hún verði tæmd eftir fimmtíu ár.
"Hófsemdarumhverfisstefnan" felst í því að lofa orku fyrir 340 þúsund tonna álver á Bakka þótt það kunni að kosta að virkja þurfi allar jökulár á Norðurlandi vestan Mývatns ef jarðvarmaorkan verður ekki næg.
Ómar Ragnarsson, 15.3.2009 kl. 00:49
Þetta svar þitt Ómar, er akkúrat það sem ég á við þegar ég tala um öfgakenndan málflutning umhverfisverndarsinna. Að allt eigi að virkja sem hægt er að virkja, án þess að afleiðingar þess séu hugleiddar. Að hér fyllist allt af stóriðjuverum og engu verði eirt.
Ég sá þig fyrstan nefna að hætta væri á að jarðvarmaorkan myndi klárast með rányrkju á henni og það vakti mig til umhugsunar. En þegar ég kynnti mér málið aðeins, þá sá ég fljótlega að þeir verkfræðingar sem koma að málum hjá orkufyrirtækjunum eru auðvitað fullkomlega meðvitaðir um þetta. Þeir eru einmitt að leita leiða til að virkja með sjálfbærni í huga enda væri fáránlegt að ofnýta borholur með þeim hætti að orkan úr þeim kláraðist. Við Íslendingar eru framarlega í flokki á þessu vísindasviði en það verðum við ekki lengi ef ekki má virkja. Reynslan er dýrmæt á þessu sviði sem öðrum.
Þú gengur út frá því sem vísu að markmiðið sé að ofnýta þessa orkuauðlind. Hversu trúverðugt er það?
Gunnar Th. Gunnarsson, 15.3.2009 kl. 18:11
Mjög athyglisvert er í stöðu þessara mála að nú dregur Landvirkjun lappirnar við að semja við bændur umbætur fyrir landspjöll. Arðsemisútreikningarnir þola ekki að kostnaður aukist meir en orðið er. Þá hefur ekki farið neinum sögum um af lokareikningi frá Imprégíló. Reikna má með að þar verði vel smurt á sitthvað sem útboðsgögn þögðu eðlilega um. Ítölsk verktakafyrirtæki hafa oft náð að hala inn mjög háum fjárhæðum vegna ónákvæmni í útboðsgögnum.
Kannski að arður af fjallagrasatínsu verði eftir allt saman margfalt meiri en af þessari afglapavirkjun sem aldrei hefði átt að hafa verið byggð.
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 15.3.2009 kl. 18:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.