15.3.2009 | 23:19
Þegar "arftakarnir" klikka.
"Bumban", Boeing 747, er einhver best heppnaða flugvél allra tíma. Hún var byltingarkennd á sínum tíma en með snjöllum endurbótum nú nýlega heldur hún stöðu sinni í samkeppni stærstu þotnanna.
Velgegni Airbus hefur frá upphafi byggst á því sama og skapaði Chevrolet forskot yfir Ford, að bjóða aðeins betur en en keppinauturinn. Þversnið flestra Boeing-þotna af minni gerðunum er hið sama og fyrir meira en hálfri öld þegar farþegar voru heldur minni en nú og kröfurnar líka minni. Við finnum þetta á langferðum í Boeing 757.
Airbus hafði sína skrokka örlítið breiðari og maður finnur fyrir því í þessum vélum.
ATR 42 var hönnuð á svipaðan hátt í samkeppninni við Fokker F27, en hönnun hennar er hálfrar aldar gömul.
En það er eins og að með A380 hafi Airbus gengið einu skrefi of langt þótt þotan eigi að búa yfir hagkvæmni stærðarinnar.
Boeing B-52 átti að fá arftaka á sjöunda áratug síðustu aldar í Valkyrju-risasprengjuþotunni og aftur síðar í enn öðrum "arftaka" en allt kom fyrir ekki, - þessi "úrelta" sprengjuþota Boeing B52 er enn við líði meira en hálfri öld eftir að hún var innleidd.
Porsche 911 þótti úreltur bíll að öllu leyti á áttunda áratugnum og Porsche 928 og 924 áttu að taka við. Það fór á annan veg og enn er Porsche 911 í fararbroddi sportbíla heimsins þótt samkvæmt flestum lögmálum um þyngdardreifingu eigi að vera ómögulegt að aka þessum bíl með stóra og þunga vél langt fyrir aftan afturhjólin.
Cessna 152 þótti úrelt fyrir þrjátíu árum og Piper Tomahawk og Beech Skipper áttu að taka við, með vænglagi frá NASA og uppfylltar allar óskir flugkennara. Báðar voru samt hægfleygari en Cessna 152 og enn þraukar sú gamla, en "arftakarnir" klikkuðu.
Ný kennsluflugvél, Cessna 162 er þó handan við hornið. Skyldi hún nú klikka líka?
Cessna 172 átti líka að vera orðin úrelt fyrir 30 árum en er samt framleidd enn þann dag í dag sem vinsælasta flugvélargerð allra tíma.
Óánægja með Airbus-þotu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Airbus minnir mig alltaf á gamla Volvoinn minn. Sterkur en hastur og rásar þegar honum sýnist.
Júlíus Valsson, 15.3.2009 kl. 23:26
Sæll Ómar,
Tengdasonur minn var flugmaður á B-52 þar til fyrir tæpum tveimur árum að hann snéri sér að flugkennslu í bandaríska flughernum. http://www.itakefotos.com/showfullimage.php?image=604 - hann er lengst til hægri á myndinni. Þessar myndir voru teknar á flugsýningu á Randolph Airforce Base í San Antonio, Texas meðan við bjuggum þar. B-52 verða í notkun fram til 2040 skv. því síðasta sem ég heyrði. Það eru einfaldlega engar aðrar sprengjuþotur sem eru jafn áreiðanlegar og gamla B-52, sem bara flýgur og flýgur.
Kveðja,
Arnór Baldvinsson, Port Angeles, Washington State
Arnór Baldvinsson (IP-tala skráð) 15.3.2009 kl. 23:31
Ég hef oft heyrt þetta um að Airbus séu ekki eins góðar og Boeing, séu ekki eins vel framleiddar eða eitthvað en ég held nú reyndar að það sé bara rugl.
En með A380 þá er þessi frétt ekki alveg sanngjörn. Þetta var víst þannig að Emirates sendi Airbus lista yfir hluti sem eru til vandræða í flugvélinni. Þetta er varla óvenjulegt enda er Emirates meðal fyrstu notenda A380 og eins og allir nýir hlutir tekur eflaust smá tíma að vinna í gegnum vandamálin.
Ég held nú reyndar að Airbus hafi nokkuð raunsæja framtíðarsýn þegar það kemur að A380 enda er heimurinn gífurlega stór og t.d. bara á milli London og New York eru yfir 30 flug á dag og oftar en ekki á B747 þotum. Heimurinn er að stækka en það sem kannski skiptir meira máli er að "the middle class" er að stækka t.d. í Kína, Indlandi og Austur-Evrópu og þörfin er eflaust raunveruleg.
Egill (IP-tala skráð) 16.3.2009 kl. 00:29
Þar fyrir utan segir í fréttinni að það kvikni í vírum af og til. Þetta er víst misskilningur hjá þýðanda. Átti að vera hitaskemmdir. Getur auðvitað leitt til bruna, en það er ekki eins og farþegum sé boðið upp a varðeld í hverri ferð, eins og skilja má á fréttinni.
Hvað sem segja má um Airbus, er ég feginn að fyrirtækið er starfandi. Það væri skelfilegt ef Boeing ætti markaðinn. Fákeppni er alltaf slæm.
Villi Asgeirsson, 16.3.2009 kl. 09:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.