16.3.2009 | 22:39
Áhugaverð umræða í Kastljósi.
Afar áhugaverð umræða var um lánamál í Kastljósi í kvöld og það sem meira var: Báðir þátttakendurnir höfðu uppi mjög málefnalegan málflutning. Þau Tryggvi Herbertsson og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir eru bæði nýir talsmenn flokka sinna, ný nöfn sem skutust upp á stjórnmálahimininn í prófkjörunum og stóðu sig bæði mjög vel í erfiðri umræðu um flókið mál.
Af málflutningi þeirra mátti ráða, að þau gætu sæst á miðri leið milli sjónarmiða þeirra, annars vegar hans sjónarmiða um einfaldar byrjunaraðgerðir strax og hins vegar sjónarmiða hennar að vera ekki of fljótfær, að aðstoða ekki dýrum dómum þá sem ekki þyrftu á því að halda en halda heldur meira eftir handa þeim sem verst stæðu.
Ég get í fljótu bragði ímyndað mér að skásta leiðin væri leið sem sætti sjónarmið þeirra beggja. Aðgerðirnar gætu þá orðið í þrepum:
Fyrst einfaldar aðgerðir strax í áttina að því sem hann lagði fram, t.d. 10-15% eftirgjöf yfir heilu línuna eða með þaki sem fljótlegt og einfalt yrði að finna.
Síðar aðgerðir í framhaldinu þar sem meira yrði gert fyrir þá sem mest þurfa á því að halda.
Sem sagt: Einhvers konar blanda, enda virtust þau opin fyrir helstu röksemdum á báða bóga.
Mann datt meira að segja í hug að leggja málið einfaldlega í tveggja manna nefnd!
Lítil heimt af lánum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Einn helsti kosturinn við hugmynd Tryggva er augljóslega hinn stutti tími sem tekur að framkvæmda hugmyndina. Og nú er tíminn dýrmætur sem aldrei fyrr. Verðleggjum hann. Hvað kostar að handvelja fólk inn á pólitíska afskriftarlista í eitt til tvö ár? Og hvað kostar að hafa eftirlit með því? Stjórnvaldsaðgerð Tryggva sem slík kostar ekkert í framkvæmd.
Arnþór (IP-tala skráð) 16.3.2009 kl. 23:01
Takk Ómar fyrir góðan pistil. Sammála þér Arnþór. Tryggvi Þór var afar góður í Kastljósinu. Rökfastur og skýr. Minna kom frá Samfylkingarkonunni nema frysting lána, greiðsluaðlögun og fleiri bráðabrigðaákvæði sem hafa verið á vörum Samfylkingarinnar síðustu mánuði. Engar fullnaðarlausnir fyrir fólkið í landinu. Samfylkingin er grátlega hugmyndasnauð (sem er vel því þá kýs almenningu annað).
Kveðja,
Muggi.
Guðmundur St Ragnarsson, 16.3.2009 kl. 23:58
Vandinn við þessa alsherjarlausn Tryggva Þórs er sá að hún er ekkert einföld eða fljótleg í framkvæmd. Ef allar skuldir íslenskra heimila og fyrirtækja hefðu verið fluttar frá gömlu bönkunum og til þeirra nýju með ríflegri varúðarniðurfærslu og áhættudreifingin hvað varðar líkur á afskriftum væri næstum alveg jöfn í öllum söfnunum þá gengur þetta dæmi hans upp. Veruleikinn er svo bara allur annar og miklu flóknari. Hvað á að gera við skuldir í eigu annarra en gömlu eða nýju bankanna? Á hvaða verði á að meta þau eignasöfn?
Í mati tveggja alþjóðlegra endurskoðunarfyrirtækja á lánasöfnum bankanna sem færð voru frá gömlu til nýju og fór fram í samræmi við samkomulagið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn er þegar gert ráð fyrir að ákveðinn hluti verði afskrifaður vegna vanskila og gjaldþrota. Dreifing vandans er raunar svo ójöfn að meira að segja flöt niðurfærslu er afar ólíkleg til að bjarga þessum vanda svo stór hluti þeirra afskrifta sem búið er að meta munu koma fram óháð niðurfærslunni. Þar ofan á bætist svo veruleg afskrift vegna niðurfærslu lána sem ella myndu heimtast. Kostnaðurinn endar hjá ríkissjóði eða m.ö.o. hjá skattgreiðendum.
Hér gildir raunar gömul og góð reglu: Ef eitthvað hljómar of gott til að geta verið satt þá er það líklega ekki satt. Því miður. En hafa skal það sem betur hljómar fyrir kosningar!
Arnar (IP-tala skráð) 17.3.2009 kl. 01:34
Kaupþing hefur lagt til hliðar 954 milljarða til að afskrifa 67,7% af 1.410 milljarða lánasafni bankans. Mér sýnist nú vera borð fyrir báru hjá bankanum.
Annars lagði ég fram eftirfarandi tillögu í lok september:
- Íbúðalánasjóður yfirtekur lán að fullu hjá banka, sparisjóði eða lífeyrissjóði samkvæmt nánari ákvörðun ríkisstjórnar.
- Fundið er viðmiðunargengi/vísitala, sem láni er stillt í, fyrir lántakanda að greiða.
- Upphæð sem verður afgangs er sett til hliðar og geymd.
- Lántakandi greiðir af sínum hluta lánsins eins og áður og tekur þaðan í frá á sig vísitölu- eða gengishækkanir eða nýtur vísitölu- eða gengislækkana.
- Verði annað hvort mjög mikil styrking á krónunni/verðhjöðnun eða mikil kaupmáttaraukning, þá tekur lántakandi á sig stærri hluta lánsins.
- Stofnaður verði sjóður sem renna í einhverjir X milljarðar á ári, t.d. af fjármagnstekjuskatti eða söluandvirði bankanna þegar þeir verða seldir, og hann notaður til að afskrifa þann hluta lánanna sem er geymdur.
Auðvitað er þetta ekkert annað en niðurfærsla höfuðstóls, en þó með þeim formerkjum að ekki er um endanlega niðurfærslu að ræða. Hugmyndin var fyrst sett fram, þegar talið var að Landsbankinn og Kaupþing myndu standa storminn af sér, þannig að á þeim tímapunkti var gert ráð fyrir að bankar myndu greiða í sjóðinn. Þar sem ekki er einu sinni vitað hverjir standa þennan storm af sér, þá er einfaldara að nota fjármagnstekjuskatt í þetta eða söluandvirði bankanna.Marinó G. Njálsson, 17.3.2009 kl. 19:43
alveg ótrúlegt, nú er þetta orðið tillaga Tryggva Þórs Herbertssonar ekki Framsóknarflokksins.
Þegar fólk fer loksins að skilja þetta þá er það fylgjandi þessari hugmynd!
Einar Freyr (IP-tala skráð) 17.3.2009 kl. 20:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.