17.3.2009 | 16:59
Arfur Bjargar Runólfsdóttur.
Ég var í sveit í fimm sumur hjá Björgu Runólfsdóttur, ömmusystur minni, að Hvammi í Langadal, og líkleg hefur engin manneskja utan foreldra minna gefið mér meira á uppvaxtarárum mínum.
Skömmu eftir að hún hóf þar búskap í miðri kreppunni miklu féll stór aurskriða á jörðina úr fjallinu fyrir ofan bæinn og eyðilagði nýja rafstöð og mikið af túninu. Í kjölfarið kom skilnaður hennar við mann hennar og það varð til þess að hún missti eignarhald á jörðinni.
En hún var ekki hrakin burt ásamt börnum sínum tveimur, heldur fékk hún tækifæri til að eignast jörðina aftur með gríðarlegri baráttu og fórnarlund og eyddi til þess því sem eftir var af starfsævi hennar. Síðasta sumarið sem ég var hjá henni rann upp sú langþráða gleðistund að hún, þá 62ja ára gömul, eignaðist jörðina á ný, hafði loksins keypt hana að fullu til baka.
Í þessari miklu kreppu var kreppulánasjóður notaður tl að gefa fólki kost á að koma á ný undir sig fótum. Það var frændfólki mínu ómetanlegt að þurfa ekki að hrekjast á vergang.
Björg kenndi mér þann boðskap að skila landinu betra til afkomenda sinna en tekið var við því. Það tókst henni svo sannarlega og gæti núlifandi kynslóð Íslendinga lært mikið af þessar fátæku en hugumstóri konu að ana ekki áfram í rányrkju á orkulindum landsins og eyðileggingu mestu verðmæta þess sem bitna mun á komandi kynslóðum.
Húsráð Tryggva Þórs þykja vond | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Nú er Langidalur orðin eitt samfellt kornræktarsvæði eftir að Blanda var virkjuð og hætti að bera jökulaurinn og möl yfir lönd bænda í vorflóðum. Nú rennur hún bara pen í föstum farvegi og gefur væntalega kynslóðunum arð til að borga skuldir þjóðarbúsins.
Þorsteinn H. Gunnarsson, 17.3.2009 kl. 18:45
Það er myndarlegt kúabú í Hvammi. Blanda hefur aldrei brotið meira af túninu í Hvammi heldur en eftir að hún var virkjuð. Hún bar ekki jökulaur og möl yfir lönd bænda í vorflóðum svo ég muni.
Það gerði hins vegar Hvammsá, sem kemur úr gili milli Móbergsfjalls og Hvammfjalls.
Landbrot af völdum Blöndu fer nefnilega mest eftir því hvernig vegurinn var lagður um dalinn eftir að hann var settur í núverandi vegastæði og henni afmarkður farvegur.
Fyrir framan Hvamm út af Móbergi var vegurinn lagður beint eftir hólmum hennar og tekinn af sveigurinn sem hún fór eftir upp að Móbergi.
Fyrir þann tíma lá næsti sveigur Blöndu fyrir utan Móberg upp að bakkanum að vestanverðu fyrir neðan Hamar gegnt Hvammi en þegar vegagerðin breytti sveigum árinnar komu hún af auknu afli að sléttlendinu fyrir neðan Hvamm þar sem var heill íþróttavöllur á unglingsárum mínum en hefur nú verið eyðilagt af ánni.
Mikið af ofaníburði í veginn var tekinn úr skriðunni fyrir framan Hvamm og í stað þess að taka peninga fyrir hann ákvað öðlingurinn frændi minn að semja við vegagerðina um að setja "tennur" við bakkann sem Blanda braut sem ákafast.
Þetta sveik Vegagerðin og olli stórfelldu landbroti með framkvæmdum sínum.
Blönduvirkjun á engan þátt í kornrækt í Langadal, það orsakast af hlýnani veðurfari.
Ég hef farið um þennan dal oft á ári í 58 ár og held að ég viti eitthvað um það sem ég er að segja.
Á sínum tíma vildu Páll Pétursson og fleiri að Blöndulón yrði miklu minna en það varð en fengu ekki rönd við reist, því miður.
Fyrir nokkrum árum var gefin út bók með fróðlegri upprifjun á virkjuninni og loforðunum sem gefin voru en svikin eftir því hægt var.
Ómar Ragnarsson, 17.3.2009 kl. 21:22
Finnst þér Ómar ekki fjallasýn Langadals keimlík þeirri sem við borgarbúar sjáum þegar horfum til Esjunnar gömlu góðu? Ég er fæddur og uppalinn Blönduósingur og finnst notalega fjallasýnin í fjarska. Ég er of ungur til að muna eftir þessari konu en ég man eftir Sumargleðinni í den :) En hvað sem segja má um virkjanaframkvæmdir um landið má þó segja að Blanda er miklu mun fallegri eftir Blönduvikjun. Að vísu miklu jafnari og ekki þessar miklu jökulskruðningar eins og var fyrir virkjun sem var spennandi þegar maður var pjakkur heima á Blönduósi.
Íslenskar konur hafa alltaf verið sterkar. Þær voru það eru og verða alltaf. Þessi kona, Björg Runólfsdóttir, er gott dæmi um það. Takk fyrir söguna.
Kveðja,
Muggi.
Guðmundur St Ragnarsson, 17.3.2009 kl. 23:08
Í Hvammi voru fimm konur þegar ég var þar í sveit og hver annarri merkilegri. Um þær má fræðast betur í bókinni "Manga með svartan vanga" sem kom út 1993 en er illfáanleg.
Ómar Ragnarsson, 17.3.2009 kl. 23:21
"Með miðlun frá Blöndulóni hefur rennsli Blöndu orðið jafnara yfir árið og aurburður minnkað. Við jafnara rennsli verður farvegur árinnar stöðugri sem leiðir til þess að áreyrar og bakkar gróa upp. Ekki liggja fyrir neinar athuganir á þessum þáttum en reiknað er með að áhrifasvæðið meðfram ánni sé 100-500 m breitt og að þessara áhrifa gæti á að minnsta kosti 40 km löngum kafla í Blöndudal og Langadal." Þetta kemur fram í skýrslu eftir Lilju Karlsdóttur, Ólaf A Jónsson og Sigmund Einarsson: "Blönduvirkjun. Úttekt á umhverfisáhrifum.", Landsvirkjun 2004. Hægt er að nálgast skýrsluna í heild á vef Landsvirkjunar: http://www.lv.is/files/2009_3_18_LV-2004-099.pdf
Jafnvel borgarbarn eins og ég hefur tekið eftir því hve gróðurinn í Langadal hefur tekið miklum stakkaskiptum á síðustu árum. Fyrir virkjun Blöndu flæmdist áin um þarna og flæddi reglulega. Ég hef það fyrir satt að enginn sem þarna hefur búið fyrir virkjun mæli því mót að Blanda hafi skilað jökulaur og möl yfir lönd bænda í vorflóðum. Vegagerð í dalnum var ekki valdur að umskiptunum.
Þorsteinn Hilmarsson, 18.3.2009 kl. 16:49
Þakka fyrir málefnalegt innlegg um Blöndu hvað varðar jafnara rennsli en áður var. Ég held þó fast við það að vegagerð hafi ráðið meira um gróðurfar og landbrot í dalnum en Blönduvirkjun.
Við bæina Æsustaði, Auðólfsstaði, Gunnsteinsstaði og Móberg hefur vegurinn verið lagður eftir áreyrum og land því gróið upp í stórum stíl fyrir innan þann varnargarð sem vegurinn er.
Blönduvirkjun breytti engu þar um.
Við Hvamm var vegurinn hins vegar settur nokkurn veginn ofan á gamla veginn og með því var hert á landbroti fyrir neðan Hvamm þar sem bakkarnir voru berskjaldaðir fyrir ágangi árinngar og margir hektarar af frábæru túni hafa orðið ánni að bráð allt fram á þennan dag, þrátt fyrir vatnsjöfnun Blönduvirkjunar.
Ómar Ragnarsson, 18.3.2009 kl. 19:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.