Að njóta neysluvöru ókeypis.

Margir þeir sem blása mikið út af ummælum Bubba kjósa að líta á þetta sem einkamál hans en gleyma því að þarna er Bubbi að tala fyrir munn margra kollega sinna og má hafa þökk fyrir hreinskilnina.

Allt frá því að Jón Leifs gerðir brautryðjandi fyrir höfundarrétt hefur sá hugsunarháttur verið landlægur hér á landi að listamenn séu afætur og óþurftarlýður sem nenni ekki að vinna almennilega vinnu eins og annað fólk.

Þótt íslensk tónlist og kvikmyndagerð hafi síðustu árin gefið mikið fé í þjóðarbúið og orðið jafnoki landbúnaðins hvað það varðar virðist þessi hugsunarháttur lifa góðu lífi enn.

Listamenn sjálfir virðast oft á tíðum hafa smitast af þessu. Ég hef undanfarin ár fengið að kynnast kjörum kvikmyndargerðarmanna og sýnist þeir flestir prísa sig sæla ef þeir eiga fyrir kostnaði við kvikmyndagerð sína án þess að reikna sér nein laun sjálfir.

Nú ráðast margir á ómálefnalegan hátt að Bubba fyrir það að þora að segja það sem honum býr í brjósti, og virðast með því telja það alveg sjálfsagt að almenningur geti notað tónlist að vild án þess að borga fyrir vinnuna sem að baki henni býr.

Margir virðast halda að tónlist, kvikmyndir og bókmenntir spretti næstum fyrirhafnarlaust og sjálfkrafa eins og gras.

Ef þetta væri þannig að notkun tónlistar sem framleiðsluvöru minnkaði niður í næstum ekki neitt væri ekkert við því að segja. Ef bílar seljast ekki til notkunar er það bara þannig.

En í þessu tilfelli er ekki um slíkt að ræða. Notkun tónlistarinnar fer ekki minnkandi heldur jafnvel vaxandi en samt vill fólk bara geta notað hana án þess að borga neitt fyrir. Af hverju á annað að gilda um tónlist sem neysluvöru en aðrar neysluvörur ?


mbl.is Bubbi hótar að hætta útgáfu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ég er viss um að hægt væri að finna flöt á þessu sem allir sætta sig við. Til dæmis ef notandi borgaði tíkall fyrir að hlaða niður lagi og nota að vild, myndi fólk ekki hugsa sig tvisvar um og nota slíka þjónustu. Á meðan lag kostar hins vegar kr. 100,- þá er hann líklegri til að hugsa sig tvisvar um.

Þetta þarf einfaldlega að virðast vera nógu ódýrt og venja fólk á að þetta sé rétta leiðin til neyslu tónlistar. Það verða alltaf einhverjir sem vilja skiptast á þessum skrám ókeypis, en útgefendur ættu að einbeita sér fyrst og fremst að þeim sem hafa áhuga á að greiða fyrir þjónustuna - og átta sig á réttu verði og þægilegasta forminu - áður en farið er gegn neytendum.

Það þarf að fá neytendur á band með tónlistarmönnum, og þar vilja neytendur vera. Hins vegar þarf að vera auðvelt fyrir þá að 1) borga 2) hlaða niður og 3) yfirfæra á mp3 eða I-pod.

Ef þetta er í lagi, mun þetta blómstra, rétt eins og iTunes hjá Apple. Þessi leið hefur bara ekki verið reynd á Íslandi, nema á tónlist.is. Þeir eru á réttri leið, en mig grunar að þá vanti herslumuninn til að ná tökum á markaðnum.

Mér sýnist þetta nokkuð augljós leið og skil ekki af hverju hún hefur ekki verið farin á Íslandi, en grunar að markaðurinn hafi verið vanmetinn og hvert lag hafi verið hugsað út frá verði á geisladisk, frekar en sem miklu aðgengilegra rafrænt fyrirbæri.

Þú átt sjálfur heilmikið efni og gætir gegnt forystuhlutverki þarna.

Hrannar Baldursson, 17.3.2009 kl. 22:45

2 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Mikið er ég sammála þér Ómar. Bubbi má ekki opna munninn þessa dagana án þess að einhverjir Bubba-hatarar ryðjist fram.

Bubbi er hreinskiptinn, skjóthuga og skapheitur. Og hvað með það. Hann má hafa sínar skoðanir og mér finnst hann hafa staðið sig vel að standa fyrir sínu máli. Hann má gera mistök eins og við hin. Hann hefur talað um þau opinberlega sem er meira er flestir þeir sem eru að reyna að koma á hann höggi.

Bubbi. Ég elska þig.

Kveðja,

Muggi.

Guðmundur St Ragnarsson, 17.3.2009 kl. 23:04

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

"Þú átt sjálfur heilmikið efni"... er sagt. En ég skal bara játa það að ég hef ekkert gert til að vera þess verðugur að fá borgað fyrir afnotin af því sem ég hef gert, - hef ekki talið mega vera að því.

Ómar Ragnarsson, 17.3.2009 kl. 23:17

4 identicon

Bubbi segir þarna að hann verði af tekjum af 500 til 2000 plötum við hverja útgáfu. Ég velti því fyrir mér á hverju hann byggir þá tölu. Einhverjar staðreyndir fyrir þessar tölu eða úr lausu lofti gripin?

Hann er ekkert eini tónlistarmaðurinn sem segist vera að lenda í því að missa einhverja peninga af niðurhali eða endursölu. Ég hefði sjálfur haldið að meginþorri fjármagnsins sem tónlistarmenn fá kæmu í gegnum notkunargjöld í útvarpi og af tónleikum. Ekki af sölu geisladiska á frekar fámennum markaði. Ekki hjálpar það þegar geisladiskurinn kostar nærri þrjú þúsund krónur. Sem myndi þýða að Bubbi segist vera af 1,000,000 til 6,000,000 krónum miðað við þessar 500-2000 plötur á 2000-3000 krónur. Sjálfum finnst mér efri mörkin frekar hæpin tala. Er ekki besta leiðin til að stemma stigu við þessu að lækka verðið? Maður myndi þá halda að flestir væru þá frekar tilbúnari til að kaupa til dæmis tónlistarverk sem þau vita ekki hvort verði gott eður ei? Þegar verkin eru orðin dýrari þá fólk líklegra til að halda að sér höndum.

Svo má ekki gleyma hinni þögulli uppreisn sem á sér stað í netheimum. Netverjar margir stunda niðurhal af alls kyns tagi og það er hægt að líta á það sem eins konar uppreisn við gamla staðla í þessum höfundaréttarheimi. Sem er einmitt aðal-misskilningurinn í þessu öllu. Grunnhugmyndin með höfundarréttinum er að einn eigni sér ekki verk annars. Það er ekki gert þegar um er að ræða niðurhal á ákveðnum verkum. Það væri frekar að um væri að ræða brot á afritunarrétti og/eða dreifingarrétti. Sem sagt, þeim hluta sem er ætlað að afla tekna af verkinu. Er þá ekki verið að tala um hið ólöglega niðurhal á fölskum forsendum? (Strangt tiltekið þá ætti verið að tala um ólöglega dreifingu en ekki niðurhal þar sem niðurhalið er í sjálfu sér ekki ólöglegt.)

Spekingur (IP-tala skráð) 18.3.2009 kl. 00:39

5 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Skil ekki þá heift út í Bubba sem oft sprettur upp.   Fólk getur haft misjafnar skoðanir á manninum sem einstaklingi eða tónlistarmanni.   En hvers vegna í ósköpunum skyldi skapandi maður á borð við Bubba ekki meiga njóta afrakstrar verka sinna ?

Hefur hann ekki unnið að þeim sjálfur -og skapað þau verðmæti sem í þeim felast ?

Höfundaréttur hugverka á að vera heilagur -og er það reyndar lögum samkvæmt.   Það er t.d. varla hægt að semja hann af sér, þó að vilji væri fyrir hendi.

Það breytir því þó ekki að oft er á þennan rétt gengið og það gróflega.   Hef séð heilu greinarnar eftir sjálfa mig úr Mbl. notaðar sem uppistöðuefni í bókum, án þess að mín væri þar að nokkru getið.  (Það er heldur erfiðara að stela útvarps- og sjónvarpsefni án þess að eftir sé tekið.   Þó kannast þú væntanlega við þetta Ómar).

Nú heyri ég líka frá vinum í skyldum greinum, t.d. þýðendum, að í krafti kreppunnar sé gengið mjög hart að þeim af afsala sér þessum dýrmæta rétti.

Hugverk eru eign þeirra sem þau skapa.  

Það eru grundvallargildi að standa vörð um það.

Hildur Helga Sigurðardóttir, 18.3.2009 kl. 03:13

6 identicon

Sæl

Hér þarf að gæta þess að rugla ekki saman sæmdarrétti og öðrum tegundum eignarréttar. Sæmdarréttur er sá réttur höfundar hugverks að því sé haldið til haga hver hinn rétti höfundur verksins sé. Sá réttur höfundar á að vera óskoraður og um það ættu flestir að vera sammála.

Allt annar hlutur er það hvaða kerfi er notað til að skapa höfundum hugverka tekjur. Miklar tæknibreytingar hafa valdið því að dreifingarkerfi hugverka eru gjörbylt. Það er ekki sjálfgefið að tekjukerfi höfunda standi þær breytingar af sér óhaggað.

Hugmyndir og lög um eignarrétt efnislegra hluta hafa að miklu leyti verið yfirfærð á hugverk sem eru í eðli sínu óefnisleg. Það gengur ekki upp. Það er og misnotkun á tungumálinu að yfirfæra hugtakið þjófnað á óefnislega hluti. Ef einhver stelur snæri þá þýðir það að sá hinn sami hefur meira snæri en hann hafði áður. Sá sem stolið var af hefur að sama skapi minna af snæri en áður. Þetta á ekki við um hugverk.

Hugverk eru hugmyndir. Vísindakenningar er hugmyndir. Hugmyndin um þrískiptingu ríkisvaldsins er hugmynd eins og hver önnur. Hugmyndir þroskast best í gneistaflugi opinnar umræðu. Samskiptatækni nútímans er stórfenglegt tæki til að skiptast á og dreifa hugmyndum. Lög um höfundarrétt skerða þá möguleika sem sú tækni býður upp á.

Við eigum ekki að fallast á röksemdir sérhagsmunahópa sem reyna að telja okkur trú um það að ýmiskonar skapandi starfi sé bráð hætta búin sé núverandi kerfi breytt. Ein afleiðing laga um höfundarrétt er sú að það er búið að loka mikið af vísindastarfsemi inni í einkafyrirtækjum. Aðgengi að vísindaniðurstöðum er því skert sem hefur mikinn langtíma kostnað í för með sér. Vísindarannsóknir hafa verið fluttar út úr hinu opna háskólafamfélagi inn fyrir múra einkafyrirtækja.

Eins er með tónlist og aðrar listgreinar. Verkin verða ekki til í tómi. Það þjónar ekki heildarhagsmunum að hefta aðgang að listverkum. Höfundar geta ekki ætlast til þess að þeir geti stjórnað aðgengi að þeirra hugmyndum eða hugverkum eftir að verkin hafa verið gefin út.

Mörg merkustu verk mannsandans voru sköpuð fyrir tíma höfundarréttar hugverka. Ein afleiðing þeirra breytinga sem eiga sér stað er að dýr drefingarkerfi verða óþörf. Listamenn selja t.d. beint og markaðsfyrirbrigði eins og Britney Spears munu síður dafna.

Listin mun lifa.

Gunnlaugur Fr. (IP-tala skráð) 18.3.2009 kl. 07:07

7 Smámynd: Rebekka

Mér finnst að lagahöfundar og kvikmyndagerðarmenn verði að nýta sér þau tækifæri sem internetið hefur upp á að bjóða, í stað þess að reyna að berjast á móti straumnum.

Þegar ég var ung (eða segjum frekar "yngri" ), notuðum við oft kassettur til að taka upp lög úr útvarpinu, eða af öðrum kassettum eða plötum.  Aðferð nútímans er svipuð, nema nú eru kassetturnar og plöturnar horfnar, og internetið komið í þeirra stað

Frá sjónarhóli neytandans er núna mun þægilegra og fljótlegra (og ókeypis) að hala niður þeim lögum og kvikmyndum sem hann vill í stað þess að kaupa úti í búð.  Ég tel að það sé ómögulegt að koma á refsingum fyrir niðurhal af efni, því þá þyrfti annaðhvort að sekta ALLA sem eiga tölvu eða stinga þeim í steininn - eftir því hve refsiramminn á að vera harður.

Sannleikurinn er sá að allir sem ég þekki, og eru undir fimmtugu, hafa halað niður a.m.k. einu lagi eða kvikmynd af netinu einhvern tímann á ævinni,  flestir mun meiru. Ég er ekki heldur saklaus.  Ég sé ekki fram á að hægt verði að stöðva niðurhal, þannig að listamennirnir verða að snúa þessari þróun sér í hag, t.d. með því að bjóða upp á "vöru" sína í góðum gæðum á netinu gegn vægu gjaldi, afla meiri tekna með tónleikahaldi og merkjavöru (föt, veggmyndir, nælur o.s.frv.) og vinna sjálfstæðar án milliliða.

Þann 17. apríl mun falla niður dómur yfir þekktustu "sjóræningjasíðunni" á netinu, www.piratebay.com.  Hann mun eflaust hafa mikil áhrif á aðrar síður sem bjóða upp á ókeypis niðurhal, en hvort sem eigendur The Pirate Bay verði dæmdir sekir eða saklausir þá mun það ekki stöðva fólk í að nýta sér internetið til að sækja sér dægradvöl.  Ég vona að tónlistar- tölvuleikja- og kvikmyndaiðnaðurinn finni betri lausn heldur en að stimpla milljónir manna sem glæpamenn. 

Rebekka, 18.3.2009 kl. 08:17

8 Smámynd: Rebekka

úps, ég sá að vefsíðan sem ég gaf upp er röng, en e.t.v. er það ekki kurteist að gefa upp hlekk á síðu fyrir ókeypis niðurhal, í þessum umræðum. 

Hafið það sem best.

Rebekka, 18.3.2009 kl. 08:21

9 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Margir af tekjuhæstu listamönnum þjóðarinnar gefa upp vinnukonulaun á sig

Gunnar Th. Gunnarsson, 18.3.2009 kl. 08:35

10 Smámynd: Héðinn Björnsson

Ég vil benda á að það sé ekkert óæskilegt við það að hætt sé stórfeldri plötuútgáfu og að tónlistarmenn nái aftur kontakt við tónlistarunnendur í gegnum beinan flutning. Ég mun allavega ekki telja það neina slæma þróun ef Bubbi fer að halda fleiri tónleika og taka upp færri plötur og sama á við um aðra tónlistamenn.

Ég vil líka benda á að það er ákveðin kapitalístísk fyrring fólgin í því að halda að það sé hægt að selja fólki endalaust magn af tónlist. Ég er búinn að kaupa mörg hundruð geisladiska um ævina og það dugar mér alveg. Geisladiskana hef ég svo gert afrit af inn á tölvuna mína og skemmast þeir því ekki og þarf ég því ekki að kaupa þá aftur reglulega. Þegar að tónlistakaup þannig safnast upp hjá fólki verður minni og minni ástæða til að kaupa nýjar plötur. Tónlistamarkaðurinn er ofmettaður og þú færð ekki endalaust fólk til að kaupa hluti sem það á nóg af fyrir.

Héðinn Björnsson, 18.3.2009 kl. 11:02

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég fellst ekki á það að gera greinarmun á "efnislegum verðmætum" og "óefnislegum" verðmætum eins og gert er í einni af athugasemdunum hér að ofan.

Hugsunarháttur málsháttarins "bókvitið verður ekki í askana látið" virðist lifa góðu lífi. 

Hann þýðir það til dæmis að ef einhver hefur unnið vinnu við að framleiða efnislega vöru á borð við varalit eigi hann kröfu á að fá greitt fyrir þá vinnu, þótt varan geti engan veginn talist nauðsynjavara. 

Ef sá sem, vann við að búa til varalitinn, semur tónlist og ljóð, teljast það hins vegar "óefnisleg" verðmæti sem hann á engan rétt á að fá borgað fyrir að framleiða, heldur megi hann þakka fyrir það ef hann fær eitthvað fyrir þá vinnu.

Ég fellst ekki á þessa röksemdafærslu og finnst hún lýsa þröngsýni. 

Ómar Ragnarsson, 18.3.2009 kl. 12:45

12 identicon

Sæll Ómar og takk fyrir athugasemdina. Ég fylgist reglulega með bloggi þínu og er þér almennt sammála í flestu. Hér held ég þó að okkur greini á.

Það stafar held ég að hluta til af misskilningi. Ég er ekki að segja að höfundar óefnislegra vermæta 'eigi minna skilið' en framleiðendur efnislegra vermæta. Ég bendi bara á að það er ekki hægt að yfirfæra hugtök á borð við þjófnað beint og hrátt yfir á óefnisleg verðmæti. Í sögulegu samhengi hafa átt sér miklar breytingar í þá átt hve margir vinna við að framleiða óefnisleg verðmæti (undirritaður þar með talinn). Þetta er ekki vegna framfara í höfundarréttarlögum eins og sumir myndu halda fram heldur vegna framfara í tækni.

Það tekur tíma að laga sig að þeim breytta heimi sem ný tækni hefur birt okkur. Þegar miklar tækniframfarir eiga sér stað er ávallt orðræðu og hugtökum gömlu tækninnar breitt fyrst. Hægt og rólega lagar samfélagið sig að hinin nýju tækni. Það var eðlilegt og skiljanlegt að fyrstu bílarnir líktust hestvögnum, en það breyttist eftir að skilningur á nýtingarmöguleikum og eðli hinnar nýju tækni jókst.

Ég geri mér grein fyrir því að þessar skoðanir mínar stangast enn á við skoðanir margra enda tel ég að umræðan stýrist nokkuð af því að hér eins og víða eru vörsluaðilar sérhagsmunanna mun sterkari en vörsluaðilar heildarhagsmunanna. 

með kveðju

Gunnlaugur Fr.

Gunnlaugur Fr. (IP-tala skráð) 18.3.2009 kl. 16:06

13 identicon

Með tilkomu internetsins þá hafa höfundar hugverka (s.s. tónlistar) þann möguleika á að fá alla peninga sem koma inn við sölu hugverksins beint í sinn vasa. Enginn þriðji aðili. Dreifingin gerist "strax" og nær þá oftast til allra í heiminum. Þetta er framtíðin fyrir hugverkshöfunda, að þurfa ekki að reiða sig á ákveðna dreifingaraðila. Þetta er eitthvað sem dreifingaraðilar eru ekki sáttir við, ekkert fjármagn fyrir þá.

Það er kannski hægt að bera þetta saman við ræktendur á grænmeti. Þeir ræktendur sem selja vöru sína í verslunum vilja auðvitað tryggja að sem flestir kaupi grænmeti. Þannig að ef þeir gætu fengið í gegn að ræktun einstaklinga til eigin notkunar væri bönnuð þá myndu þeir fá fullt af peningum. Ef hinsvegar allir byrjuðu að rækta sitt eigið grænmeti þá hætta þeir að fá peninga, sem þeir vilja auðvitað ekki.

Eins og einhver komst svo haganlega að orði: "Follow the money."

Spekingur (IP-tala skráð) 18.3.2009 kl. 16:12

14 identicon

Listamenn verða bara að nýta sér Netið til að koma sinni "vöru" á framfæri. Það gerðu t.d. félagarnir í Monty Python með því að setja efni inná YouTube. Það gerði það að verkum að salan á efninu þeirra jókst um........og haldið ykkur nú.......... 23.000%!

http://gizmodo.com/5137827/monty-python-puts-free-videos-online-sells-23000-more-dvds

Jóhann (IP-tala skráð) 18.3.2009 kl. 18:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband