18.3.2009 | 18:47
Hrörnun er persónubundin.
Hrörnun er persónubundin. Langt fram eftir síðustu öld var það viðurkennt að maðurinn næði hámarki líkamlegrar getu um 25 ára aldur en síðan lægi leiðin niður á við. Þetta var byggt á þeirri íþróttagrein þar sem skeiðklukkan er miskunnarlaus dómari og mælikvarði á snerpu, sprengikraft og viðbragðsflýti, en það eru 60-100 metra spretthlaup.
Smám saman molnaði úr þessari kenningu og fljótasti maður heims á sínum tíma, Linford Christie var á hátindi getu sinnar 35 ára og svo viðbragðsfljótur að hann var eitt sinn dæmdur úr leik fyrir að þjófstarta tvisvar í 100 metra hlaupi.
Myndataka sýndi að þetta var ekki rétt og má því segja að Christie hafi verið dæmdur úr leik fyrir að vera of viðbragðsfljótur !
Í hnefaleikum geta þúsundustu hlutar úr sekúndu ráðið úrslitum um það hvort höggi sé komið á andstæðinginn, og einkum er þetta áberandi hjá svonefndum gagnhöggameisturum, hnefaleikurum sem eru fljótastir allra að víkja sér undan höggi og koma á sama sekúndubroti inn höggi í staðinn.
Bernhard Hopkins virtist aldrei betri í þessu en um fertugt og fleiri meistarar hafa haldið sínu fram yfir fertugt, en þá vegna reynslu og útsjónarsemi.
Kastarar halda getu sinni lengur en hlauparar og höggþungir þungavigtarmenn sömuleiðis. George Foreman varð elstur allra heimsmeistara í hnefaleikum þegar hann rotaði Michael Moorer 46 ára gamall með einu höggi.
Muhammad Ali, fljótasti þungavigtarhnefaleikari allra tíma, fór að missa hraðann fyrir þrítugt en vann það upp með útsjónarsemi, kænsku og hugrekki.
Prinz Naseem Hamed var búinn fyrir þrítugt og Roy Jones jr. fljótlega upp úr þrítugu, en báðir þessir hnefaleikarar gátu brotið reglur um vörn með því að nýta sér ofurmannlegan hraða. Um leið og hann dalaði urðu þeir bara ósköp venjulegir og opnir fyrir árásum.
Það er sama hve mikla hraðagetu tölva hefur ef hana skortir efni, upplýsingar og forrit. Líklega er mannshugurinn svipaður og skýringar þar að leita um menn sem halda sínu langt fram á elliár á sama tíma og aðrir eru útbrunnir á unga aldri.
Dæmi er lýsing Guðmundar Ólafssonar á Jóni Baldvini Hannibalssyni þegar hann líkti honum við sjötugan ungling en öðrum ónefndum manni við þrítugan öldung. Samlíkingin var kannski svolítið ósvífin gagnvart hinum efnilega þrítuga manni en fullkomnlega viðeigandi um Jón Baldvin.
Athugasemdir
Létt er Jóns Baldvins lundin,
líklega persónubundin,
og aldrei er Bryndís afundin,
þótt ekki sé glóran hans fundin.
Þorsteinn Briem, 18.3.2009 kl. 22:27
Menn vinna á með aldrinum. Og þó sumir geti ekki viðurkennt það.
EE elle (IP-tala skráð) 19.3.2009 kl. 00:09
Gleymi því seint (og þó ?) þegar leikfimikennari stúlkna í M.R. -sem lét okkur hlaupa endalausa hringi í kringum Tjörnina, hvernig sem viðraði- tilkynnti átján ára námsmeyjunum að "uppúr þessu færum við að hrörna".
Ég labbaði mig nú bara upp á Holtsgötu til Björns Guðbrandssonar og fékk vottorð í leikfimi.
Eitt er að hlaupa látlaust hringinn í kringum Tjörnina, vetur eftir vetur. En að þurfa á meðan að hlusta á sama fyrirlesturinn um það að nú liggi leiðin bara niður á við, það var bara einum of fyrir sumar.
Sem ekki hafa "hrörnað" um dag síðan þær fengu vottorðið góða...
Hildur Helga Sigurðardóttir, 19.3.2009 kl. 01:13
Ég held eins og þú Ómar hrörnun sé persónubundin og einnig liggi í erfðum. Sumir eldast nú ekki neitt, eins þú til dæmis! Ég held að okkar andlega atgervi skipti þar miklu máli. Þeir sem eru andlega virkir, jákvæðir og hafa alltaf nóg fyrir stafni í starfi og leik, þeir eldast síður, halda andlegu atgervi mun lengur sem og líkamlegu atgervi. Þetta helst allt í hendur. Til er líka fólk sem er gamalt fyrir aldur fram og orðið aldrað mun fyrr en aðrir.
Sigurlaug B. Gröndal, 19.3.2009 kl. 10:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.