Man einhver eftir Sighvati ?

Á samdráttarskeiðinu 1991-1995 var Sighvati Björgvinssyni þáverandi heilbrigðisráðherra gert að skera harkalega niður í heilbrigðisþjónustunni. Þetta var stefna þáverandi ríkisstjórnar í viðleitni hennar til niðurskurðar yfir alla línuna og þar var ekkert ráðuneyti undanskilið.

Fyrir þennan niðurskurð mátti Sighvatur þola miklar ákúrur, meðan annars frá þingmönnum sem nú eru ráðherrar og verða að skera niður í enn hraðari samdrætti. Núverandi fjármálaráðherra er þeirra á meðal og má kannski segja að með samanburði á hlutskiptum Ögmundar og Sighvats fá hinn síðarnefndi nokkra uppreisn æru.

Sighvatur var gagnrýndur fyrir að úthugsa ekki nógu vel aðgerðir sínar og ég var einn þeirra svonefndu gárunga sem fannst hann liggja vel við höggi af þessum sökum, einkum eftir að hann beinbrotnaði tvívegis og varð að fá heilbrigðisþjónustu vegna þess. Þá varð til þessi vísa:

Beinbrotin fjölmörg hefur hlotið.
Helvíti er mögnuð veilan.
En eitt hefur Sighvatur aldrei brotið:
Hefur aldrei brotið heilann.

Ingibjörg Pálmadóttir alþingismaður gagnrýndi Sighvat hvað harðast en varð síðan sjálf að beita niðurskurðarhnífnum þegar hún tók við af honum sem heilbrigðisráðherra. Þá snerist dæmið við og Sighvatur gagnrýndi Ingibjörgu.

Góður skagfirskur hagyrðingur, Kristján Stefánsson í Gilhaga, orti um þetta í orðastað Sighvats:

Ingibjörg sem engu réði
um arðrán hinna fyrri þinga
rýir nú með glöðu geði
gamalmenni og vesalinga.

Ég kom Ingibjörgu að sjálfsögðu til hjálpar í þessu andsvari í orðastað Ingibjargar:

Sighvats orð fá ekki staðist.
Aum er röksemdin hjá honum, -
hann, sem áður andskotaðist
allra mest á sjúklingonum.


mbl.is Ögmundur: Viðfangsefnið er tröllaukið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Ef minni mitt er ekki orðið um of valbundið, var það í tíð Matta Bjarna sem Kerfið varð skorið niður umtalsvert en VIÐURGJÖRNINGUR OG ÞJÓNUSTA VIÐ SJÚKLINGA BATNAÐI Á SAMA TÍMA MJÖG.

Svoleiðis á að skera.

Skera burt meinsemdir og ofvöxt og meinvörp.

Eftir stendur þa´sneggri og afkastameiri batterí.

Matt er minn maður.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 19.3.2009 kl. 12:03

2 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Mér finnst merkilegt að í öllu þessu "góðæri" var ekki hægt að sjá að heilbrigðiskerfið batnaði, frekar fór það versnandi undir stjórn íhaldsins og einkavæðingarstefnan var ekki sjúklingunum í hag, allavega ekki þeim sem hafa lítið milli handa.

Úrsúla Jünemann, 19.3.2009 kl. 12:35

3 Smámynd: María Kristjánsdóttir

besti heilbrigðisráðherra okkar hefur verið í minni tíð  Magnús Kjartansson sem hafði ekki síðri manneskju sér við hlið hana  Öddu Báru Sigfúsdóttur. Sighvatur var ákaflega slæmur fyrir margra hluta sakir. Makatekjutengingarnar og að svipta fólk yfirráðum yfir fjárráðum sínum lenti það á öldrunarheimilum kannski eitt það versta.

Svo tek ég undir með Úrsúlu. 

María Kristjánsdóttir, 19.3.2009 kl. 13:00

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Skarfurinn Bjarni skorinn niður,
á skurðdeild íhalds aldrei friður,
og svakaleg orðin hans smæð,
sentímetri komma tveir á hæð.

Þorsteinn Briem, 19.3.2009 kl. 13:01

5 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Á þessum tíma lærði ég tvær vísur um Sighvat og eru þær eitthvað á þessa leið. 

Á Sighvati margan sé ég feil,
en seint mun ég í því botna
að niðurskurðarhendin er heil
en hin er alltaf að brotna.

Segi ég við Sighvat minn:
Svo að bætist skaðinn.
Hættu að brjóta handlegginn
og hálsbrjóttu þig í staðinn.

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 19.3.2009 kl. 15:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband