Að breikka grænu fylkinguna á þingi.

Þegar Íslandshreyfingin - lifandi land var stofnuð fyrir tveimur árum var það yfirlýst stefna hennar að breikka hina grænu fylkingu þingmanna á Alþingi og gera það á miðjunni og við hana. 5% atkvæðaþröskuldurinn kom í veg fyrir að 2-3 grænir þingmenn Íslandshreyfingarinnar settust á þing í samræmi við kjörfylgi.

Íslandshreyfingin átti þátt í því að stóriðjustjórnin vék en Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur héldu samt meirihluta, illu heilli. Framhjá þeim meirihluta komst fyrri stjórn ekki og heldur ekki núverandi stjórn þegar um stóriðjuna er að ræða.

Verkefni Íslandshreyfingarinnar er það sama nú og 2007, að breikka fylkingu grænna þingmanna og koma í veg fyrir að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur fái meirihluta á þingi.

Það þýðir að berjast þarf fyrir að hin framboðin fái hreinan meirihluta á þingi og myndi stjórn.Í síðasta mánuði kom fram hjá yfirgnæfandi meirihluta félaga í flokknum að með sérstöku framboði nú yrði tekin of mikil áhætta á því að gera ógagn.

Á aðalfundi Íslandshreyfingarinnar sem var að ljúka var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum að óska eftir því við Samfylkinguna að Íslandshreyfingin verði eitt að aðildarfélögum hennar og lögum Íslandshreyfingarinnar var breytt lítillega í samræmi við þetta.

Á vinstri væng íslenskra stjórnmála er VG og þingmenn þar á bæ hafa reynt að standa grænu vaktina eftir föngum. Á miðjunni og hjá henni þarf að fjölga grænum þingmönnum, sem gætu myndað næstu stjórn með VG.

Íslandshreyfingin er fyrsta og eina stjórnmálahreyfingin á Íslandi sem er grænn flokkur númer eitt og skilgreinir sig hvorki til hægri né vinstri. Hún hefur nú ákveðið á aðalfundi sínum að leggjast á miðjunni á sveif með Samfylkingunni og leggja henni og grænu fylkingunni innan hennar lið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Skil ekki rökfærslu þessa "þröskulds"???

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 19.3.2009 kl. 20:24

2 Smámynd: Haraldur Baldursson

Fóruð þið ekki í vitlausa átt Ómar ? Var ekki einmitt pláss fyrir ykkur hægra megin ? Hjá Frjálslyndum, eða í faðmi Framsóknarmanna, sem hvort sem heldur vita ekki alveg í hvað fót á að stíga.

Haraldur Baldursson, 19.3.2009 kl. 20:47

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

SÍS - Samfylkingin og Íslandshreyfingin Saman.

Þorsteinn Briem, 19.3.2009 kl. 22:09

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þröskuldinn sérðu í skoðanakönnunum í dag. Aðeins þau framboð sem fá 5% eða meira á landsvísu fá þingmenn. Það þýðir að annað hvort verður framboðið að fá sem svarar 3 þingmönnum eða engan.

Ef þessi þröskuldur væri ekki fengi Borgarahreyfingin einn þingmann samkvæmt skoðanakönnuninni.

Þröskuldurinn gæti birst þannig að fjögur lítil framboð fengju 4x4% eða 16% atkvæða en samt engan þingmann.

Frjálslyndir og Framsóknarmenn eru ákveðnir stóriðjuflokkar og við myndum ekkert geta ráðið við þá. Hinn nýi formaður Framsóknarmanna krefst þess að hert verði á stóriðju- og virkjanaframkvæmdum. Í þeim efnum vita Framsóknarmenn vel í hvorn fótinn þeir eigi að stíga.

Frjálslyndir mælast þar að auki varla um þessar mundir og stórhætta er á að þeir hafi sig ekki yfir 5% þröskuldinn. Þeir mældust með margfalt meira fylgi um svipað leyti fyrir kosningarnar 2007.

Ómar Ragnarsson, 19.3.2009 kl. 23:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband