Mistókst í 65 ár.

Í 65 ár hafa íslenskir alþingismenn haft tækifæri til að standa við stóru loforðin, sem gefin voru við lýðveldisstofnunina um að lagfæra stjórnaskrána, sem að stofni til er runnin frá stjórnarskrá Danmerkur 1849.

Sumar stjórnarskrár, eins og sú bandaríska, hafa staðist vel tímans tönn. Það segir þó ekkert um það hvort aðrar stjórnarskrár henti jafn vel öld fram af öld. Sú danska frá 1849 er að talsverðu leyti orðin úrelt og þarfnast skurðaðgerðar.

Ótal stjórnarskrárnefndir hafa verið stofnaðar frá 1944 en nánast engum þeirra hefur tekist að koma með neinar breytingar sem skipta máli. Fækkun kjördæmanna úr átta í sex fyrir áratug var ekki stórfelld breyting.

Einu breytingarnar sem jöfnuðu vægi atkvæða að einhverju marki voru gerðar eftir tvennar kosningar sama árið.

Það var árið 1942 og síðan aftur 1959. Það er athyglisvert að þessar nauðsynlegustu breytingar sem gerðar hafa verið á stjórnarskránni, voru ekki gerðar í margutalaðri sátt, sem sífellt er klifað á að sé forsenda gagnlegra breytinga, heldur barðist Framsóknarflokkurinn hatrammlega á móti.

Það má því leiða að því rök að forsenda þess að koma þessum mikilvægu réttarbótum í framkvæmd hafi einmitt verið að láta ekki minnihlutann taka málið í gíslingu og eyða því.

Sjálfstæðisflokkurinn stóð fyrir breytingum á kjördæmaskipaninni á sínum tíma en vill nú taka málið í gíslingu eins og Framsóknarflokkurinn forðum.

Það er engin furða að við siðrof og efnahagslegt og stjórnmálalegt hrun hafi langlundargeð kjósenda þrotið gagnvart máttleysi alþingis í þessu efni.

Þetta máttleysi stafar fyrst og fremst af því að þegar 63 þingmenn fjalla um breytingar á eigin högum er ekki hægt að búast við að þeir þori að gera umtalsverðgar breytingar, hversu nauðsynlegar og einfaldar sem þær kunna að sýnast.

Alþingi Íslendinga hafði meira en hálfa öld til að gefa þjóðinni nýja og ferska stjórnarskrá. Það hefur klúðrað þessu viðfangsefni sínu og er því fallið á tíma.


mbl.is Krafa um aukið lýðræði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jakob Þór Haraldsson

Löngu tímabært að breyta stjórnarskráni og virkja rödd þjóðarinnar, eitthvað sem RÁNFUGLINN hræðist.  Ég efa ekki að á næstum 2 árum mun okkur sem þjóð takast að standa fyrir góðum & vönduðum breytingum, svo framarlega sem Sjálfstæðisflokkurinn hættir þessu "væli & út úr snúningum á þingi" - þeim til háborinnar skammar eins og flest allt sem komið hefur frá þeim flokki síðustu 20 árin eða svo....

kv. Heilbirgð skynsemi

Jakob Þór Haraldsson, 8.4.2009 kl. 13:40

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Sé einhver vilji hjá minnihlutastjórninni til að taka á málum getur hún komið þeim málum fram sem hún vill.

Hún getur tekið öll þau mál á dagskrá þingsins sem hún óskar. Hið eina sem hún þarf að gera er að BREYTA DAGSKRÁ ÞINGSINS.

Þá getur þingið farið að ræða og taka afstöðu til þeirra mála sem eru knýjandi fyrir þjóðina.

En nei, það gerir meirihlutinn á Alþingi ekki.

Hann lýgur því blákalt að almenningi að Sjálfstæðisflokkurinn standi gegn öllum frumvörpum til laga vegna efnahagsástandsins. Og það gerir Ómar líka.

18.000 manns eru atvinnulausir og stýrivextir eru 15,5%. Er það ekki næg ástæða til að taka efnahagsmálin fyrir?

Hvaða máli skiptir eitt misseri eða nokkur ár til viðbótar með stjórnarskránna í samanburðinum við efnahagsmálin? Engu. Ekkert er mikilvægara en staða efnahagsmála.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 8.4.2009 kl. 14:11

3 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Agjörlega sammála Sigurði hér á undan/Ómar þetta er ekki rétt/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 8.4.2009 kl. 15:06

4 identicon

Framsókn er sá flokkur sem vill þetta í gegn enda frumvarpið í boði allra þingmanna þess flokks.

Sammála athugasemdum hér að ofan. Efnahagsmálin eiga/þurfa að vera á dagskrá !

Guðgeir (IP-tala skráð) 8.4.2009 kl. 16:20

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þið gleymið tímahrakinu fyrir kosningar. Sjálfstæðismenn halda uppi málþófi og neyta allra bragða til að láta þessi mál falla á tíma.

Þeir taka málin líka í gíslingu vegna ákvæða um að 2/3 hluta atkvæða þurfi til að breyta til dæmis kosningalögunum.

Með 25% kjósenda að baki sér samkvæmt skoðanakönnunum samfellt síðustu mánuðina nýta þeir sér það blygðunarlaust að nota 40% þingmanna á þingi.

Með ólíkindum er að fjórðungur þjóðarinnar skuli styðja þennan spillta flokk.

Ómar Ragnarsson, 10.4.2009 kl. 13:40

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þið gleymið því líka að enda þótt stjórnarflokkarnir hafi haft mikinn meirihluta þjóðarinnar að baki sér í skoðanakönnunum eru þeir í minnihluta á Alþingi og verða að hlíta kostum Framsóknarflokksins.

Það að auki hefur það verið ein höfuðkrafan í kringum búsáhaldabyltinguna að hagga við því stjórnkerfi sem skapað hefur spillingu í nær heila öld.

Ómar Ragnarsson, 10.4.2009 kl. 13:42

7 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Ómar. Ég gleymdi engu.

Þú gleymir hins vegar að svara því hvers vegna minnihlutaríkisstjórnin vildi eingöngu ræða breytingar á stjórnarskránni og hafnaði því að fjalla um atvinnu- og efnahagsmál. Hún gat það mjög auðveldlega, þurfti ekki annað en að nýta þingmeirihlutann til að breyta dagskrá fundar Alþingis.

„... láta mál falla á tíma ...“ Þetta er fjarstæða hjá þér Ómar. Eðli mála samkvæmt falla fjöldi mála á tíma, fást hvorki rædd né um þau greidd atkvæði. Sumum er jafnvel vísað frá, önnur fást rædd og eru hafnað. Þetta er lýðræðið. Þetta er ekkert nýtt.

Talaðu varlega um spillingu.

Samfylkingin og Vinstri grænir lugu því blákalt að Sjálfstæðisflokkurinn héldi uppi málþófi og tefðu umfjöllun mála á Alþingi? Hið eina sem þurfti að gera var að breyta röð mála á dagskránni.

Hvers vegna gekk Íslandshreyfingin inn í Samfylkinguna? Var það vegna þess að hún lofaði að greiða upp skuldir Íslandshreyfingarinnar eftir að aðrir flokkar höfnuðu því?

Ef eitthvað má telja mikilvægustu kröfu þjóðarinnar þá eru það aðgerðir í atvinnumálum og efnahagsmálum. Viljandi hafa vinstri flokkarnir haldið þessum málum fyrir utan Alþingi síðustu daga.

18.000 manns á atvinnuleysisskrá og stýrivextirnir eru 15,5%. Hrikalegur vitnisburður um aðgerðaleysi Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknar. Þeim til háborinnar skammar.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 11.4.2009 kl. 01:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband