Vald peninganna.

Það hefði verið "grand" hjá Íslandshreyfingunni - lifandi landi að fara í kosningabaráttu núna og segja við fólk: "Við höfum ekkert að bjóða, engar auglýsingar, kosningaskrifstofur, fundi eða bæklinga, - ekkert að bjóða nema okkur sjálf og hugsjónir okkar."

Af svörum yfirgnæfandi meirihluta félagsmanna við spurningunni um þetta mátti ráða að þetta væri ekki raunhæft, sérstaklega með tilliti til þeirrar áhættu að í kraðaki margra smárra framboða myndi vera meiri hætta en minni á því að gera ógagn að þessu sinni þótt okkur tækist að gera gagn í síðustu kosningum. 

Hreyfingin fór því inn í Samfylkinguna, fann þar eðalgræna samherja og studdi þá til þess að móta mikilvæga þætti í stefnumótum landsfundar, sem sumir marka tímamótl þótt það hafi ekki vakið athygli um sinn. 

Áður hafa menn boðið sig fram án þess að hafa fjármagn. Það hafa þeir gert í þeirri trú að hugsjónir þeirra og heiðarleiki nægðu.

Ég get nefnt nokkra en læt tvo nægja. Ólafur Björnsson prófessor var einstakur heiðusmaður sem ég kynntist sem læriföður í lagadeild Háskólans. 

Hann taldi sig vera talsmann bestu gildanna sem hann vildi að flokkur sinn, Sjálfstæðisflokkurinn, berðist fyrir. Hann andæfði því siðlausa fyrirgreiðslu- og sjálftökukerfi sem tíðkaðist á haftaárunum í spillingu helmingaskiptastjórna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Ólafur þurfti lengi vel ekki að óttast um þingsæti sitt, svo mikill grundvallarhugsuður sem hann var fyrir flokkinn. Þegar hann var varaður við því að keppinautur hans í prófkjöri fengi digran styrk frá Ísal í Straumsvík kvaðst hann treysta dómgreind kjósenda og ekki vilja taka þátt í peningakapphlaupi prófkjörsins.

Ólafur tapaði í prófkjörinu og var sleginn út úr íslenskri pólitík. Síðan kalla margir hann og hans líka vafalaust "lúsera." Þeim hinum sömu væri hollt að hugsa til þess að nú er gengin í garð hátíð sem byggist á því þegar líflátinn var einhver mesti "lúser" allra tíma.

Eða hvað var Kristur annað þegar hann sagði á krossinum: "Faðir, í þínar hendur fel ég anda mínn."

Í mínum huga er Ólafur Björnsson ekki lúser heldur sigurvegari. Svipað er að segja um Guðmund G. Þórarinsson sem tapaði fyrir ofurefli spillts mótframboðs í prófkjöri á sínum tíma. Af því kann ég magnaða sögu sem ég geymi með sjálfum mér.

Aðalatriðið nú er það að ég og skoðanasystkin mín erum í tímakapphlaupi við virkjanasinna sem stefna nú ótrauðir áfram þrátt fyrir kreppu og sækja meðal annars með umhverfisspjöll sín inn á heimsundrið Leirhnúk-Gjástykki, sem ég bloggaði um um daginn.

Ég tyllti mér niður hér á Akureyri til að blogga þetta á leið austur á þennan nærtækasta bardagavöll umhverfismála á Íslandi þar sem búast má við jarðýtum og borum í eyðandi sókn á þessu ári hvernig sem allt annað veltist. 

Ég væri ekki staddur hér í bráðnauðsynlegri ferð ef ég væri á kafi í kosningabaráttu eins og fyrir tveimur árum.  


mbl.is Guðlaugur Þór hafði forgöngu um styrkina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Kvikmyndin Draumalandið hefði nægt Íslandshreyfingunni til auglýsingar á framboðinu. Eiginlega finnst mér það synd að fyrrum liðsmenn þessa framboðs skuli hafa verið settir í þá stöðu að styðja Össur álskeggja Skarphéðinsson. Ég sé fyrir mér að þeir muni hika og í staðinn snúa sér að VG sem er eini flokkurinn sem í dag er treystandi í þessum málum.

Ég er búinn að heyra of oft gömlu klisjuna um að fórna minni hagsmunum fyrir meiri.

Árni Gunnarsson, 9.4.2009 kl. 12:09

2 Smámynd: Sigurður Sveinsson

Þetta er undarlegur pistill. Hverjir eru þessir eðalgrænu samherjar þínir í SF? Hvað er Össur að gera þessa dagana? Hlustaðirðu ekki á Árna Pál Árnason í gærkvöldi? Álver í Helguvíka og einnig á Bakka.Ég er viss um að margir félagar þínir í Íslandshreyfingunni munu kjósa VG. Það er líka margt sem bendir til þess að margir hægri menn geri slíkt hið sama. Það er laukrétt sem Árni Gunnarsson segir. Það eru vinstri grænir einir sem hægt er að treysta í umhverismálum

Sigurður Sveinsson, 9.4.2009 kl. 17:47

3 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sælir

Ég tók upp þáttinn með forystufólki listanna í SV-kjördæmi í gær og get staðfest það að Árni Páll talaði alls ekki um "Álver í Helguvíka og einnig á Bakka" eins og Sigurður Sveinsson færir uppá hann í færslu nr 2 hér að ofan.  Undarleg athugasemd og ósönn.

Ég hef verið á fjölmörgum fundum með Árna Páli undanfarna 2 mánuði og aldrei heyrt hann mæla því bót að setja öll egg þjóðarinnar í eina álverskörfu. 

Kveðja - Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 9.4.2009 kl. 18:59

4 Smámynd: Sigurður Sveinsson

Ásláttarvillur eru hvimleiðar, einkum þegar þær eru komnar innan gæsalappa. Ég viðurkenni fúslega að hafa ruglað Árna Páli og Guðjóni Arnari saman og biðst afsökunar á því. Árni Páll er örugglega góður drengur eins og bróðir hans, Þorbjörn Hlynur, sem ég þekki persónulega.Það breytir þó engu um efni málsins. ISG vildi ekki setja fótinn fyrir Kárahnjúkavirkjun eins og hún orðaði það. Fagra Ísland varð aldrei sjófært. Það var sokkið við bryggju áður en það hélt úr höfn. Ómerkileg kosningabrella SF sem flokkurinn fór létt með að svíkja í samstarfinu við íhaldið. Hann hefur verið meðstjórnandi í stóriðjuhraðlestinni. VG hefur einn flokka staðið vaktina í umhverfismálum og hefur ekki látið atkvæðaveiðar trufla sig í því. Það er staðreynd hvort sem fólk vill viðkenna það eða ekki.

Sigurður Sveinsson, 10.4.2009 kl. 03:49

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Sigurður Sveinsson, því miður eru ekki allir sem geta kosið svona mikið til vinstri, enda kennir hreyfingin sú sig fyrst við vinstri stefnu og síðan kemur grænt framboð á eftir.

Í kosningabaráttunni 2007 hættu bæði VG og Samfylking að tala um umhverfismál hálfum mánuði fyrir kosningar.

Hjá vinstri mönnum er grænum málum samt býsna vel fyrir komið, en samt varð Kolbrún Halldórsdóttir að vægja fyrir ofríki Framsóknarflokksins á dögunum rétt eins og Samfylkingin dró Fagra Ísland til baka í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.

Vegna þess að VG er úti á vinstri kantinum getur sá flokkur aldrei einn komið grænu málunum fram. Hann verður að fá samherja af miðjunni.

Til þess að svo verði verður að berjast fyrir grænu málunum meðal þeirra 2/3 Íslendinga sem eru á miðjunni og fá fleiri flokka en VG til að taka upp græna stefnu.

Grænir samherjar mínir í Samfylkingunni er fólk sem margt hvert verður í baráttusætum í næstu kosningum eða á möguleika á að verða varaþingmennl. Þú þarft ekki annað en að líta á listana í Reykjavík til að sjá það.

Besta dæmið um þetta er Mörður Árnason, sem hefur verið varaþingmaður, en munað hefur svo sannarlega um hann í umræðunni um umhverfismál á Alþingi að undanförnu.

Nefna má Þórunni Sveinbjarnardóttur, Önnu Pálínu Árnadóttur, Dofra Hermannsson og marga fleiri.

Á landsfundinum um daginn fékk þetta fólk og aðrir samherjar liðsauka frá okkur sem varð til þess að árangur þess er vel sýnilegur í stefnuályktunum flokksins eins og ég hef lýst áður hér á síðunni.

Friðun alls hins ósnortna eldvirka svæðis milli Vatnajökuls og Mýrdalsjökuls fellir 5-6 virkjanakosti út af borðinu ef stefna beggja núverandi stjórnarflokka fær að ráða.

Stefna græns hagkerfis, sjálfbærrar þróunar og jafnréttis kynslóðanna myndi gjörbreyta þeirri rányrkjustefnu sem hér hefur ríkt.

Og atkvæði okkar réðu úrslitum um það að nú hafa báðir stjórnarflokarnir þá stefnu að sækja ekki um aukinn mengunarkvóta til þess að geta reist fleiri álver.

Ég skal játa, að 2003 kaus ég Vinstri græna þótt ég sé ekki vinstri maður þótt ég geti skrifað undir einstaka atriði af báðum köntum hægra-vinstra litrófsins.

Í framhaldi af því kviknaði hugmyndin um grænan flokk sem kenndi sig hvorki við hægri né vinstri og væri úti á hvorugum kantinum. Í engu landi í Evrópu er jafn mikil þörf á slíkum flokki.

Ég var persónulega alveg tilbúinn að leggja út í kosningaslag öðru sinni nú í vor með fjárvana framboði og fólki sem væri reiðubúið að fara út í baráttu við ofurefli aðstæðna sem mun meiri líkur voru á að myndu gera ógagn í þetta skiptið.

En máltækið segir: "Kóngur vill sigla en byr verður að ráða." Sá byr var ekki fyrir hendi hvað snerti aðstæður, mannskap eða vilja. Ef við hefðum farið fram núna hefðu fjögur lítil framboð barist inni á miðjunni við 5% múrinn í stað tveggja 2007.

Ákvörðunin um að ná árangri með því að gerast aðili að Samfylkingunni hefur þegar borið árangur og rennt stoðum undir þá ráðleggingu hinnar heimskunnu baráttukonu Louis Crossley að berjast fyrir málstaðnum hvar og hvenær sem því verður við komið en ekki eingöngu með hinum hefðbundnu mótmælum og fundahöldum.

Ómar Ragnarsson, 10.4.2009 kl. 13:33

6 identicon

Ómar.

Mig langar að benda ykkur sem berjist opinberlega fyrir verndun náttúruperlna á tvo punkta sem viðbót við "hefðbundnar" aðferðir.

1. Virkjanir eru hannaðar af fólki. Það að "mennta" verkfræðinga og hönnuði í framsæknari og frumlegri hugsun þegar kemur að verndun náttúru er lykilatriði. Vel hönnuð mannvirki, stífur eða borteigar geta gert vafasaman virkjun að þolanlegu verkefni án mikilla fórna. Flýtir og hugsunarleysi er vandamál sem þarf að taka á.

2. Pólitíkusar eða jafnvel stjórnendur orkufyrirtækja eru oftar en ekki síðasti hlekkurinn í keðju ákvarðana. Sé gripið inn ferlið strax á rannsóknar eða hönnunarstigi verður eftirleikurinn auðveldari. Nú er vinna við rammaáætlun í gangi, þangað ættu menn að beina sjónum sínum í auknu mæli. Það er erfitt að snúa hálfgerðu leyndarferli við þegar búið er að eyða milljörðum í verkhönnun. Eftirá barátta er þung í vöfum á Íslandi.   

Sem sagt, þegar fyrstu tölur eða línur eru komnar á blað um tiltekinn virkjanamöguleika þá er eins og lestin sé komin á skrið og verði ekki stöðvuð. Hefur lítið með flokka eða pólitík að gera, mætti frekar líkja við feita gyltu með fjölda smágrísa á spenum. Allir vilja sinn sopa af framkvæmdamjólkinni.

Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 10.4.2009 kl. 14:23

7 Smámynd: Sigurður Sveinsson

Það er rétt hjá þér Ómar að SF fólkið sem þú nefnir eru góðir bandamenn í baráttu umhverfisverndarsinna. Ég vil líka taka fram að álit mitt á þér sem ötuls baráttumanns umhverfissinna hefur ekkert breyst og ég teysti þér til allra góðra verka þó þú hafir kosið að fara til SF. Ég er aðeins yngri en þú og hafði ekki verið í stjórnmálaflokki fyrr en ég var kominn á sjötugsaldurinn. Gekk í VG 2006 en sagði mig fljótlega úr flokknum aftur. Það var fyrst og fremst vegna bæjarfulltúa VG hér í Árborg. Vildi ekki vera í sama flokki og hann og bað alla Árborgarbúa opinberlega afsökunar á að hafa kosið hann. Ég mun þó sannarlega kjósa Atla Gíslason á þing nú í vor. Þekki hann vel og hann er einn af fáum þingmönnum okkar sunnlendinga sem við þurfum ekki að skammast okkar fyrir. Gott að vera í baráttuliði með ykkur báðum í umhverfismálum. Ég er viss um að margir af stuðningsmönnum Íslandshreyfingarinnar munu kjósa VG í vor. Margir munu líka fylgja þér til SF. Það er hið besta mál og ef SF og VG mynda stjórn að kosningum loknum er vona til þess að það hægi á stóriðjuhraðlestinni. Bestu baráttukveðjur til þín.

Sigurður Sveinsson, 11.4.2009 kl. 08:38

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég hef hitt fólk að undanförnu sem berst hetjulega fyrir umhverfissjónarmiðum í Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki og ég tek ofan fyrir þeim kjarki sem það sýnir með því að fara svona beint inn í höll sjálfs drekans og berjast þar við ofureflið.

Það er búið að tala lengi og mikið um það hve mjög hefur verið reynt að láta virkjanamannvirki á íslandi falla inn í umhverfið.

Ef þetta væri svona auðvelt væri auðvitað komið mikið af virkjunum inn í mesta háhitasvæði sjálfra Bandaríkjanna, Yellowstone, til að afla orku fyrir orkusjúka þjóð.

Þannig er það hinsvegar ekki.

Í Gjástykki tókst með einni jarðýtu fyrir um 20 árum að valda umhverfisspjöllum með því að fara með hana í gegnum nýrunnið apalhraun. Gersamlega vonlaust er á svona svæðum að eiga kökuna og éta hana líka.

Ómar Ragnarsson, 11.4.2009 kl. 15:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband