10.4.2009 | 13:07
Dýrðarlandið milli "leggjanna" beggja.
Ég var á skemmtun á Siglufirði í fyrrakvöld þar sem hagyrðingar létu gamminn geysa. Á leiðinni þaðan austur til Mývatnssveitar veittist sú ánægja að aka um Fljótin og nýopnaða Lágheiðina í frábæru veðri. Þótt Kristján L. Möller slægi í gegn í síðasta hafti Héðinsfjarðarganga gafst ekki tækifæri til að far um þau og stytta sér enn frekari leið.
Á skemmtuninni var talsvert ort um göngin og talað um það hvort þau myndu fá nafnið Stelpugöng úr því að göngin til vesturs frá Siglufirði hétu Strákagöng.
Talað var um tvo "leggi" (ég vil kalla þá áfanga) á göngunum, en á milli þessara tveggja "leggja" er unaðsríkið Héðinsfjörður sem hingað til hefur verið eiin eyðifjörðurinn allt frá Ingólfsfirði á Ströndum austur til Loðmundarfjarðar á Vestfjörðum (afsakið - Austfjörðum, - innsláttarvilla) og því verðmætur sem slíkt fágæti.
Forðum gerði ég þátt um Héðinsfjörð og þess vegna varð til þessi vísa í fyrrakvöld í tilefni af umræðunni um stelpugöngin, leggina og fjörðinn dýrlega.
Ljúfir eru leggir tveir
sem lýsa kvennasnilli
en þó veit Guð ég þrái meir
það sem er á milli.
Hálkublettir víða á vegum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll Ómar. Vísan er góð en ég er ekki viss um að fullyrðing þín um að Héðinsfjörður sé eini eyðifjörðurinn frá Ingólfsfirði til Loðmundarfjarðar standist. Bendi á að Veiðileysufjörður í Árneshreppi er búinn að vera í eyði lengur en Ingólfsfjörður og enn fremur á "Fjörðurnar" milli Eyjafjarðar og Skjálfanda.
Björgvin R. Leifsson, 10.4.2009 kl. 14:27
Möller með sitt skrítna skaft,
skutlast í gegnum meyjarhaft,
er strákurinn fer í stelpugöng,
stelpan má ei vera of þröng.
Þorsteinn Briem, 10.4.2009 kl. 15:35
Það er rétt að halda því til haga varðandi Möller að það er eitursnjallt hjá honum að brúka sama kosningaloforð núna og síðast um "Vaðlaheiðargöng strax". Í þessu felst mikil forspá og djúp viska um sparnaðarleiðir í kreppunni.
Björgvin R. Leifsson, 10.4.2009 kl. 16:28
Síst af öllum hélt ég að Ómar flytti Loðmundarfjörð á Vestfirði.
Þórólfur Árnason (IP-tala skráð) 10.4.2009 kl. 17:03
Omar hvað þetta er gladað :)
jón (IP-tala skráð) 10.4.2009 kl. 21:36
"Fjörðurnar", Þorgeirsfjörður og Hvalvatnsfjörður, eru á mörkum þess að vera víkur en ekki firðir.
Af samhenginu sést að "Vestfirðir" varðandi Loðmundarfjörð var innsláttarvilla, sem ég er búinn að leiðrétta núna.
Ómar Ragnarsson, 10.4.2009 kl. 22:58
Raunar sagði einn gárunginn í fyrrakvöld að hann vildi láta nefna Héðinsfjarðargöngin Vaðlaheiðargöng og þar með yrðu tvær flugur slegnar í einu höggi.
Ómar Ragnarsson, 10.4.2009 kl. 23:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.