"Nusan", - "Litli gulur".

250px-NSU_Prinz_cremefarbenprinz44180px-NSU_Ro80_1971_profileDSC00132Vegna athugasemdar við bloggið um Rússajeppanna varðandi NSU-Prinz bíla skelli ég hér inn nokkrum myndum af framleiðslu NSU-verksmiðjanna í Neckarsulm í Vestur-Þýskalandi. Spurt var um happdrættisbíl og líklega var hann af þeirri gerð sem sést hér til hægri. 

Verksmiðjurnar framleiddu frábær vélhjól um miðja síðustu öld sem settu heimsmet í hraðakstri. Vélin í hjólunum hét NSU-Max og var háþróuð á þess tíma mælikvarða, með fjórgengi en ekki tvígengi og yfirliggjandi kambás.

1957 var ákveðið að skella sér í bílaframleiðslu með því að sjóða saman tvær Max-vélar og gera úr tveggja strokka 583cc vél. Hannaður var byltingarkenndur bíll, NSU Prinz, fyrsti örlitli bíllinn sem var með hjólin úti í hornunum og lægri miðað við hæð en aðrir bílar á þeim tíma. 

Myndir af bílum af þessari gerð eru númer 3 og 4 hægra megin, talið ofan frá.  

Hann var á stærð við Mini, en vegna þess að aftursætið var fyrir framan afturhjólin var það svo breitt að oftlega voru fimm fullorðnir í þessum litla bíl hjá mér á sínum tíma.  

Hann var framleiddur frá 1958-62 í rúmlega 100.000 eintökum og var hraðskreiðasti og snarpasti smábíll þess tíma í krafti 30 hestafla vélarinnar, sem var sett þversum aftur í með sambyggðum gírkassa.

wj6095

Bíllinn var einungis 480 kíló, 250 kílóum léttari en Volkswagen, sem líka var með 30 hestafla vél. Tannstangarstýrið hárnkvæmt og fljótt, aðeins 2,4 snúningar borð í borð.

Ég átti gulan bíl af þessari gerð 1959-63, þá minnsta, einfaldasta, sparneytnasta bíl landsins. Ég hef aldrei síðar tekið í bíl með jafnskemmtilega aksturseiginleika, Porsche 911 meðtalinn.

Fjórir menn gátu tekið bílinn upp. Þess vegna var númerið R-10804. Ef það er borið hratt fram og aðeins óskýrt heyrist "einn núll átta núll fjórir" hljóma eins og "einn og loft´onum fjórir!

Aðeins tveir bílar af þessari gerð voru fluttir til Íslands.

1962-73 framleiddu verksmiðjurnar NSU Prinz 4, sem var í grunninn sami bíll en með aðeins stærri yfirbyggingu og rúmaði fimm í sæti, var léttasti og sparneytnasti fimm manna bíllinn á markaðnum.

Rúmlega 100 bílar voru fluttir inn af þessari gerð og ég átti einn slíkan 1963-65. Framleidd voru um hálf milljón eintaka af þessum bíl. Myndir af honum eru efstu myndirnar til hægri. Hann þótti vera vasaútgáfa af Corvair og síðar stældu Sovétmenn hann með bíl af Zaz-gerð. 

1964-73 framleiddu verksmiðjurnar NSU 1000 og 1200. Sá bíll var lengri á milli hjóla og með fjögurra strokka þversum-vél afturí, 43-71 hestafla.

Fáir voru fluttir til Íslands, enda hafði komið í ljós að vegna þess minni bróðir hans, Prinz 4, var með bratta afturrúðu sogaðist ryk inn í vélina. Þetta var aldrei vandamál á elsta Prinzinum sem var með aftursveigðar rúður að aftan.

Við þessu var gert á NSU 1000 með því að loftinntakið á hliðinni en skaðinn var skeður. NSU Prinz TT var geysiskemmtilegur og vinsæll keppnisbíll og Audi TT dregur nafn sitt af honum. (Audi keypti NSU verksmiðjurnar síðar) '

Ég átti NSU 1000 1965-66, feyki skemmtilegan bíl með miklu innanrými miðað við þyngd og stærð.

NSU-Prinz 110 og 120 voru með lengri framenda og framleiddir síðustu ár verksmiðjanna. Örfá eintök komu til Íslands og ég sá einn mjög ryðgaðan á Ystafelli fyrir nokkrum árum.

Merkilegasti bíllinn með NSU-merkinu var NSU Ro 80. Lítil mynd af honum sést hér að ofan til vinstri og ég ætlaði að setja stærri mynd inn hér fyrir neðan en tókst ekki. Bendi á að allar myndir geta menn stækkað með því að tvísmella á þær.

NSU Ro80 þótt svo byltingarkenndur þegar hann kom fram 1967 að hann var valinn bíll ársins í Evrópu. Þetta var bíll í efri milliklassa hinn fyrsti í heiminum með Wankel-vél.

Fram komu barnasjúkdómar í vélinni og bíllinn þótti ljótur að aftan með sinn háa og þvera rass, á skjön við hið langa og lága nef. Hann var hafður þannig til að ná sem minnstri loftmótstöðu.

Í dag þætti hann frábær í útliti, gersamlega "in". Svona er nú "karlmannatískan í stáli" harður húsbóndi. Ro 80 var langt á undan sinni samtíð og verksmiðjurnar fóru á hausinn vegna hans. Fáir njóta eldanna sem fyrstir kveikja þá.

Læt fljóta með mynd af Prinz sem aldrei var fluttur til Íslands, en það var NSU Sport Prinz.

Hann var með sama kram og elsti Prinzinn en aðra yfirbyggingu, hannaða af Bertone. 

180px-NSU_Ro80_1971_profile

 

Nsu_Sport_Prinz_1964

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður G. Tómasson

Sæll Ómar!

Ég held að fyrsti rússinn hafi ekki bara verið stæling á Willys/Ford jeppunum sem Rússarnir fengu frá Ameríku, heldur hafi grindin að hluta byggst á Ford A, sem Rússar fengu í tækniaðstoð  um 1930, eins og fleira. En þetta skiptir auðvitað engu. Lítið vélarafl í litla rússanum gat líka orðið til góðs, hann festi sig síður. Og svo gat maður auðvitað gengið með, í fyrsta í lága!

Sigurður G. Tómasson, 12.4.2009 kl. 15:38

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Samkvæmt mínum heimildum, sem ég var einmitt að lesa í gær, varð Stalín yfir sig hrifinn af Willys-jeppunum, vildi fá sem flesta senda austur á þeim skynsamlegum forsendum að í stríði sem byggðist mest á tækjum myndi sá vinna, sem hefði flest tækin og flesta menn.

Ég rakst á mynd af fyrirrennara GAZ 69 og hann er augljós eftirlíking af Willys, miklu meiri eftirlíking en Land Rover, sem þó er viðurkennt að hafi verið eftirlíking af Willysnum.

Ford verksmiðjurnar tóku þátt í samkeppni um jeppann 1940 og reiknuðu með gírkassa úr Ford A.

Það þótt ótækt og því var hafnað.

Willys hafði auk þess langbestu vélina fyrir þessa stærð af bíl, komna úr Willys Whippet.

Það er hins vegar rétt hjá þér, Sigurður G., að Sovétmenn fengu víðtæka aðstoð frá Ford og tóku miklu ástfóstri við mismunandrifin í A-módelinu sem þeir héldu sig við út eftir allri öldinni.

Ómar Ragnarsson, 12.4.2009 kl. 16:16

3 Smámynd: Sigurður G. Tómasson

Það er alveg rétt, að þeir urðu yfir sig hrifnir af þessum fjórhjóladrifsbílum, sem þeir fengu frá Ameríku. Drifbúnaðurinn, millikassinn etc er eins og í willys og reyndar ford -jeppanum. En grindin, fjöðrunin og dempararnir (armdemparar) eru eins og í ford A.

kk, SGT

Og svo held ég að of mikið sé gert úr áhrifum Jósefs Djúgasvili Stalíns.

Sigurður G. Tómasson, 12.4.2009 kl. 23:03

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þeir voru í því, Hitler og Stalín, að láta vita af því hvað þeir hefðu mikið vit á bílum, rétt er það.

En í öllum fræðibókum er þó staðhæft að það hafi verið Stalín sem heimtaði að Opel Kadettinn, sem hlaut nafnið Moskvitch þegar verksmiðjan hafði verið flutt til Rússlands, yrði með fernum dyrum í Rússlandi en ekki tveimur eins og hafði verið í Þýskalandi.

Þetta var látið eftir karlinum og fyrir bragðið var óhemju erfitt að nota hinar þröngu afturdyr bílsins, og hús bílsins varð svo eftirgefanlegt um miðjuna að þeir urðu óþéttir.

Ómar Ragnarsson, 12.4.2009 kl. 23:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband