Hálfri öld á eftir öðrum landshlutum.

Vestfirðir eru hálfri öld á eftir öðrum landshlutum varðandi samgöngur. Þetta er eini fjórðungurinn sem ekki hefur aðalflugvöll sem getur verið opinn allan sólarhringinn. Eini fjórðungurinn með engan alþjóðlegan flugvöll.

Afleiðingin er sú að í skammdeginu er aðeins fært til að fljúga nokkra klukkutíma á dag til Ísafjarðar og oft falla niður nokkrir dagar í röð sem ekkert er hægt að fljúga.

Vestfirðir eru eini fjórðungurinn þar sem ófært er landleið mikinnn tíma árs á milli helstu byggðarkjarna.

Það voru mistök á sínum tíma að leggja heilsársleiðina um Steingrímsfjarðarheiði í stað þess að fara vestar og láta aðalleiðina til Ísafjarðar liggja um innri hluta Breiðafjarðar.

Það hefði kallað á meiri áherslu á endurbætur á leiðinni um Barðaströnd vestur.

Það hefur líka að mínum dómi verið röng forgangsröðun að hafa ekki lokið við að gera jarðgöng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar mun fyrr sem og heilsársleið um Dynjandisheiði.

Ef heilsársleið væri milli Patreksfjarðar og Ísafjarðar gæti Patreksfjarðarflugvöllur boðið upp á eina flugvallarstæðið á Vestfjörðum sem hægt væri að nota að næturlagi. Vegabætur myndu tryggja Innan við tveggja tíma akstur þaðan til Ísafjarðar

Af ástæðum, sem mér eru óskiljanlegar, hefur flugbrautin á Patreksfirði verið stytt verulega svo að hún er ekki nothæf fyrir jafnstórar flugvélar og áður var. Hrein afturför.

Allt er á sömu bókina lært. Það er skiljanlegt en jafnframt dapurlegt að grípa eigi til þess örþrifaráðs að hlamma niður risa olíuhreinsistöð á einum af fallegustu stöðum Vestfjarða. Engar slíkar stöðvar hafa verið reistar á Vesturlöndum á síðustu 20 árum vegna þess að enginn vill hafa slík ferlíki nálægt sér.

Ef olíuhreinsistöðina rekur upp á sker má allt eins búast við því að boðið verði upp á stæði vestra fyrir kjarnorkuúrgang með svipuðum rökum og nú eru notuð um nauðsyn olíuhreinsistöðvarinnar.


mbl.is Búið að opna Hrafnseyrar- og Dynjandisheiði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Þetta er allt rétt kæri Ómar - eins og ég og fleiri höfum marg bent á.

Verst er þó að Vestfirðingar eru svo helv... harðir af sér að þeir nenna ekki að tala um þetta endalaust. Og af því þeir eru ekki sjálfir að tala um þetta, virðast menn halda að þeir séu bara sáttir - og af því þeir séu sáttir, þá sér þetta bara allt í lagi. Sem það ekki er.

Það er ekki hægt að sætta sig við þetta.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 15.4.2009 kl. 23:59

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Minnir að einhverjir fagni þessari olíuhreinsistöð, hún skapar atvinnu sem er svo lífsnauðsynleg þeim sem þarna vilja búa.   Það eru jú að renna á mig 2 grímur varðandi stóryðju sem útheimtir fleiri virkjanir. Hef ekki hugmynd um hvernig olíuhreinsistöð lítur út,get ýmyndað mér tröllvaxið ferlíki. Þær göptu við mér leifaranar af hvalstöð sem Norðmenn  ráku á Höfða gengt Þingeyri  'i hvert sinn sem ég leit út um gluggann á uppvaxtarárum mínum.´Mér fannst þær ljótar. þÁ var lífið saltfiskur þurrkaður á reitum. Mættum við byrja aftur,með leyfi ráðamanna,fiska, og nýta sjávarfangið, trúi að unga fólkið fagnaði því  og finndi hagkvæmari leiðir til vinnslu.

Helga Kristjánsdóttir, 16.4.2009 kl. 01:34

3 identicon

Kunningi minn lagði það til í október sl. að við myndum skera vestfjarðarkjálkann frá (þ.e. búa til skipaskurð yfir "hálsinn") og leigja hann hæstbjóðendum.

Voru Rússar ekki að auglýsa eftir plássi fyrir flotastöðvar? Ég er alveg viss um að Nató og ESB hefðu líka áhuga á að vera með bryggjur þarna.

Fyrir kjálkann fengist örugglega skrilljón milljarðar af krónum og köllum sem nægðu til að borga allar skuldir Íslands og Íslendinga og gott betur.

Í stað þess að afkomendurnir þyrftu að borga skuldirnar þyrftu þeir bara að bíða í sirka 30 ár, þ.e. þangað til leigutíminn rynni út.

Og þá væri aftur kominn grundvöllur fyrir vörudreifingu með skipum ...

Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 16.4.2009 kl. 09:09

4 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Nú er minnst atvinnuleysi á Vestfjörðum, af öllum landshlutum.  

Vonandi halda Vestfirðingar þeirri sérstöðu um aldur og ævi að vera stóriðjulaust svæði.

Hildur Helga Sigurðardóttir, 16.4.2009 kl. 13:48

5 identicon

Nú er ekki langt síðan að Þingeyrarflugvöllur var endurbyggður og ég veit ekki betur en það sé nóg pláss til að lengja hann enn frekar til að stórar vélar geti lent þar. Þetta er reyndar bara ein braut þannig að það er spurning um hversu oft hún myndi nýtast.

Ég skil alveg að fólk á Vestfjörðum þyrsti í góðæri eins og hefur verið á mestöllu landinu, þó mest hérna suðvestanlands. Ég skil engan veginn afhverju fólkið fyrir vestan vill fá olíuhreinsistöð. Man einhver eftir t.d. Exxon Valdez? Hvað gerist þegar eitthvað kemur fyrir í þessari blessuðu hreinsistöð eða þegar eitthvert olíuskipið strandar? Þá getum við kysst sjávarútvegs störf fyrir vestan bless.

 Mig svíður hvað við íslendingar erum að tapa okkur í græðgi, spillingu og bara almennum sóðaskap. Áður en langt um líður verð ég líka væntanlega að flýja af þessu skeri, þessari djöflaeyju vegna þess að mér er hér ekki vært.

Ég hef til dæmis mikinn áhuga á að stunda sauðfjárbúskap en nýliðun í þeirri grein er bara gjörsamlega ófær ef maður á ekki jörð. Til þess að kaupa skikkanlega jörð í dag þarf svona um það bil 100 milljónir lágmark og þá er eftir athuga með húsnæði og kvóta. Ekki fyrir löngu síðan sá ég þokkalega jörð, með bærilegu húsnæði og ca. 200 ærgildum og ásett verð fyrir dótið var 300 milljónir. Hvernig á þetta dæmi að ganga upp öðruvísi en að spila reglulega í víkingalottó?

Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 16.4.2009 kl. 14:47

6 Smámynd: Sigurður Jón Hreinsson

Já Ómar, þetta er alveg makalaust að þessi landshluti skuli búa við samgöngur frá árinu 1950. 

Núna í sumar verða 50 ár frá því að Dynjandisheiði var opnuð og 60 ár frá því að Hrafnseyrarheiði opnaði.  Þessar heiðar hafa frá þeim tíma ekkert verið uppfærðar og snjómokstur og önnu þjónusta á þeim er enn áratugum á eftir.  Það sem sjaldan er svo minnst á í þessu samhengi er samt sú staðreynd að í reynd hafa samgöngur milli svæða á Vestfjörðum ekki bara staðið í stað heldur versnað verulega frá því árið 1980, svo dæmi séu tekin, því að póstflug var lengi vel milli allra þéttbýlisstaða og skipasiglingar líka.

Ég hef bent á leiðir til úrbóta í vegamálum sjá hér og mögulega úrbætur í flugmálum sjá hér.

Úr því að minnst er á atvinnumál í þessari færslu líka þá hafa Vestfirðingar í gegnum aldirnar verið sjálfum sér nógir og bjargað sér vel enda með einhver gjöfulustu fiskimið í heimi við dyragættina hjá sér.  Þegar þeim er bannað að nýta sína auðlind verður fólk að huga að einhverju öðru.  Það er ekki óskastaða að biðja um Olíuhreinsistöð en það er betra en að svelta.  Ef við fengjum að nýta okkar aulind eins og önnur landsvæði fá að nýta td. sitt heita vatn, þurfum við ekkert svona stóriðju.  M.a. þess vegna hef ég lagt það til að sóknarmark verði tekið upp að nýju eins og sjá má hér

Sigurður Jón Hreinsson, 16.4.2009 kl. 16:29

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þingeyrarflugvöllur er með sömu ókosti og Ísafjarðarflugvöllur að þvi leyti að ekki er hægt að fljúga þangað í myrkri. Þar að auki má búast við að þegar olíuhreinsistöð hefur risið við Arnarfjörð muni verða heimtuð önnur stöð í Dýrafirði í nábýli við flugvöllinn á sama hátt og krafist er nýs álvers í viðbót við hvert álver sem reist er.

Ómar Ragnarsson, 16.4.2009 kl. 17:51

8 Smámynd: Sigurður Jón Hreinsson

Gat verið, umræðan komin út í vitleysu.  Rétt áðan var verið að tala um að Vestfirðir væru 50 árum á eftir í samgöngum en núna farið að bulla um að olíuhreinsistöð verði í hverjum firði.   Bla, bla bla, skilið okkur fiskinum aftur og leyfið okkur að standa jafnfætis í samgöngum og tengingu við umheiminn, þá skulum við bara gleyma þessari olíuhreinsistöð...

Sigurður Jón Hreinsson, 16.4.2009 kl. 22:40

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Sveitarstjórinn í Vesturbyggð sagði síðast í gær í blaðaviðtali að 99,9% líkur væri á olíuhreinsistöð í Hvestudal.

Fyrir 2000 sögðu margir kunnáttumenn að Kárahnjúkavirkjun væri svo fáránlega tryllingsleg framkvæmd að ekkert yrði af henni. Annað koma á daginn.

Þegar Kárahnjúkavirkjun var ákveðin var því lofað að engar hliðstæðar framkvæmdir yrðu á suðvesturhorninu á meðan. Annað kom á daginn.

1999 var sagt að 120 þúsund tonna álver á Reyðafirði væri nóg. Árið eftir var talan komin í 340 þúsund tonn.

Í upphafi var sagt að álverin í Helguvík og á Bakka yrðu ekki meira en 240-250 þúsund tonn.

Nú eru bæði búin að stækka um 100 þúsund tonn.

Skrattinn og litli fingurinn svínvirka.

Ómar Ragnarsson, 17.4.2009 kl. 03:29

10 identicon

Vegamálin fyrir vestan eru dæmi um það hversu mikil þörf er á stórri hugsun í þessum málum í staðinn fyrir þær smáskammtalækningar sem eru stundaðar. Hingað til hefur kröftunum verið dreift í að byggja upp annarsvegar leiðina um djúpið, Steingrímsfjarðarheiði og bráðum Arnkötludal og hinsvegar leiðina um Barðastrandarsýslur. Svo þegar það er klárt er planið að ráðast í innbyrðis tengingu norður og suður svæðanna. 20 km malbik hér og ein brú þar og restin einhverntíman seinna...

Auðvitað áttu menn að hugsa stórt fyrir 20-30 árum, setja sér markmið um góða heildarlausn fyrir innbyrðis tengingu suður og norðursvæðanna og tengingu beggja svæðanna við afganginn af Íslandi. Sú heildarlausn er, eins og Ómar segir, fólgin í jarðgöngum milli Dýra- og Arnarfjarðar, heilsársveg yfir Dynjandisheiði og boðlegum vegi um Barðastrandarsýslur. Þetta gæti allt verið tilbúið í dag með eðlilegri stefnumótun á sínum tíma.

Bjarki (IP-tala skráð) 20.4.2009 kl. 08:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband