Flaggskipið að koma úr kafi ?

Það hefur mátt líkja Frjálslynda flokknum við lest sex skipa. Í fyrstu kosningunum 1999 náði flokkurinn ekki 5% markinu, en flaggskip Guðjóns Arnars komst í höfn og dró næstöflugasta skipið í Reykjavík inn á þing með sér. Hin skipin sukku.

2007 var nýr skipstjóri á skipi flokksins í Reykjavík suður og seigur skipstjóri var í Suðurkjördæmi og þessi skip komust inn auk flaggskipsins, sem flutti tvo menn á þing. 

Síðustu mánuði hefur litið út fyrir að skipalest hins fyrrum togaraskipstjóra væri öll sokkin, þótt segja mætti að flaggskipið maraði í hálfu kafi. 

Guðjón Arnar átti ekki annars úrkosti en að taka áhættuna af því að láta Capacent Gallup gera sérstaka skoðanakönnun fyrir sig í stað þess að horfa upp á það ástand sem hefur blasið við í öllum skoðanakönnunum undanfarnar vikur. Þetta var síðasta vonin. 

Hann hafði ekki lengur neinu að tapa með því að láta skeika að sköpuðu núna.   

Guðjón Arnar er ólíkindatól sem enginn skyldi vanmeta. Harka og dugnaður hins fyrrum aflaskipstjóra er gríðarleg. Skipstjórinn í Reykjavík suður stökk frá borði og ætlaði yfir í stærra skip en komst aldrei um borð. Hver höndin upp á móti annarri á flotanum. 

Nú gæti það hins vegar gerst að Guðjóni Arnari takist enn og aftur að toppa á réttum tíma síðustu dagana fyrir kosningar. Það mun varla duga til að ná neinu hinna skipa hans upp úr kafinu en hins vegar verða til þess að enn og aftur nái hörkutólið á flaggskipinu að sigla því í höfn. 

Þetta verða líklega mjög spennandi kosningar í Norðvesturkjördæmi. Svo kann að fara að sagan frá 1999 endurtaki sig og að staðan verði svipuð núna og hún var fyrir tíu árum hvað snertir Frjálslynda flokkinn, sem þá yrði á ný kominn á byrjunarreit.  


mbl.is Frjálslyndir með 9,3% í NV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nokkuð góð lýsing eins og þér er von og vísa. En það sem er kannski sérstakt við þessa dalla er að þeir sökkva allir kvótalausir. Þessi flokkur sem var upphaflega stofnaður um eitt mál (og kannski einhverja reiði bankastjóra sem þurfti að taka pokann sinn) hefur ekki tekist að hagga kvótamálinu. Það verða kannski kaldhæðni örlaganna þegar sagan verður skrifuð að þegar síðasti dallurinn sökk í Frjálslindaflokknum, tóks loks að gera einhverjar breytingar á kvótakerfinu. Nú hafa bæði Samfylking og VG það á stefnuskrá sinni að innkalla kvótann. Það má segja að sjaldan njóta þeir eldanna sem kveikja þá.

Egill Jón Kristjánsson (IP-tala skráð) 19.4.2009 kl. 01:25

2 Smámynd: Alma Jenny Guðmundsdóttir

Ég hef aldrei verið stuðningsmaður Frjálskynda flokksins og fannst mál á Akranesi vera til mkilla vansa sem og ofangrein hlaupakind sem brá sér yfir í Frjálshyggjuprumpið - en Guðjón Arnar Kristjánsson er stjórnmálamaður sem þarf að komast áfram með sínar skoðanir.

Alma Jenny Guðmundsdóttir, 19.4.2009 kl. 01:38

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er alþekkt að stórir flokkar taka oft upp einstök stefnumál lítilla flokka og gera að sínum. Stundum eru það forsvarsmenn flokkanna sem beita sér fyrir slíku af kænsku sinni en hvað snerti Samfylkinguna í vor var það grasrótin sem tók til sinna ráða.

Í fyrstu drögum að stefnuyfirlýsingu í sjávarútvegsmálum var lítið markvert en hins vegar var gríðarlegur áhugi á málunum á fundinum og 70 manns settust í nefndina.

Meðal þeirra var Margrét Sverrisdóttir og einnig mátti sjá þar Eirík Stefánsson. Margrét fann þar marga samherju um þær áherslur sem Íslandsheyfingin hafði haft í málunum og niðurstaðan varð ályktun sem gerir það ljóst að það er vilji fyrir umbótum í þessum málaflokki í Samfylkingunni.

Ómar Ragnarsson, 19.4.2009 kl. 11:26

4 Smámynd: Þóra Guðmundsdóttir

Þegar ég gekk í Frjálslynda flokkinn fyrir tveimur árum hélt ég að þar færi óspilltur flokkur. Þá hafði ég einmitt sagt skilið við Sjálfstæðisflokkinn vegna þess að mér fannst ýmislegt að þar.  Ég hélt að Guðjón Arnar væri maður orða sinna, maður sem hægt væri að treysta.

Því miður er það ekki rétt. Ég komst að því smátt og smátt. Lengi vel átti ég erfitt með að trúa því en....

Ég er mjög fegin að Frjálslyndi flokkurinn skuli ekki hafa völd á landsvísu. Því ef svo væri þá er vinavæðing Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar bara smá sýnishorn af því sem Frjálslyndi flokkurinn stæði fyrir. 

Það er í rauninni mjög sorglegt hvernig Guðjón Arnar hefur haldið á málum. Ef hann hefði haldið rétt á spilunum þá væri spurningin ekki  hvort flokkurinn nái inn manni heldur hvoru megin við 20% hann væri.

Þóra Guðmundsdóttir, 19.4.2009 kl. 22:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband