20.4.2009 | 23:31
Frábært að taka Hart í bak upp.
Í 42ja ára sögu Sjónvarpsins glitrar á nokkrar perlur íslenskrar leiklistar og nú mun góðu heilli ein enn bætast við: Hart í bak. Margföld ástæða er til að taka þetta leikrit upp, - bæði staða leikritsins sem eitt af höfuðverkum Jökuls Jakobssonarar og einnig sá sess sem það hefur í sögu íslenskrar leikritunar.
En efst í huga nú er að með þessu framtaki Sjónvarpsins verður varðveittur snilldarleikur Gunnars Eyjólfssonar, þessa einstaka leikara, sem er enn að brillera kominn á níræðisaldur.
Ég átti þess fyrst kost að vinna með Gunnari og kynnast honum fyrir næstum hálfri öld, og mér er sérstaklega minnisstæð frammistaða hans í hlutverki prestsins í Járnhausnum. Þá komst ég að því að hann var ekki einhamur á sviði.
Gunnar hafði leikið af fumleysi og öryggi atvinnuleikarans á æfingum og afgreitt allt sitt átakalaust og að því leyti til óaðfinnanlega.
En á frumsýningu spratt framm alveg nýr karakter, sem fór á kostum og sópaði svo að, að eftirminnilegt mátti verða.
Enda urðu viðbrögð leikhúsgesta og gagnrýnenda eftir því.
Enn er Gunnar ekki einhamur og því verður upptaka Sjónvarpsins sérstakt fagnaðarefni fyrir mig og aðra velunnara og aðdáenda þessa leikjöfurs.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.