Ábyrgðarleysi á hæsta stigi.

Sjálfstæðisflokkurinn lofar kjósendum 6000 störfum ef farið verði í álversframkvæmdir. Hann fær þessa háu tölu út með því gamla trixi stóriðjusinna að búa til fáránlega mörg "afleidd störf."

En þetta er bara hluti af dæminu. Sjálfstæðisflokkurinn greinir ekki frá því að þegar framkvæmdunum lýkur, verði 6000 manns atvinnulausir.

Sjálfstæðisflokkurinn greinir ekki frá því hvar eigi að taka alla orkuna fyrir þessi álver.

Sjálfstæðisflokkurinn lætur eins og auðvelt verði að fá lánsfjármagn fyrir þessi verkefni á sama tíma og álverum er lokað erlendis vegna þess að þar er orkan miklu dýrari en hér.

Sjálfstæðisflokkurinn lætur eins og mikill áhugi og uppgangur sé í kringum ný álver á sama tíma og álverð hrynur niður úr öllu valdi, birgðir hlaðast upp og orkufyrirtækin og álfyrirtækin sjálf stórtapa og eru á hvínandi kúpunni.

Sjálfstæðisflokkurinn getur þess ekki að hvert starf í álveri kostar 150 milljónir króna og er langdýrasta starf sem hægt er að skapa.

Sjálfstæðisflokkurinn getur þess ekki að álframleiðsla er mesta orkubruðl sem hugsanlegt er.

Sjálfstæðisflokkurinn lofar því að álver muni leysa atvinnuvanda Íslendinga þótt í sex risaálverum sem krefðust allrar orku íslands og eyðileggingu allra helstu náttúruverðmæta landsins myndu aðeins vinna 2% af vinnuafli landsins.

Sjálfstæðisflokkurinn getur þess ekki hvar bíla- og skipaflotinn eigi að fá orku þegar álverin verða búin að sópa henni allri til sín.

Sjálfstæðisflokkurinn getur þess ekki að þrefalt meira er pumpað upp úr háhitasvæðunum en þau afkasta til langframa og að þau muni aðeins endast að meðaltali í nokkra áratugi.

Kynslóðir framtíðarinnar munu undrast að þetta fyrirbæri, stóriðjuflokkar, skuli hafa verið til árið 2009.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Og þú skorar enn á kjósendur Íslandshreyfingarinnar að kjósa Samfylkinguna?

Baldur Guðmundsson (IP-tala skráð) 22.4.2009 kl. 01:25

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Eruð það ekki þið, sem ætlið að búa til 5–6000 götusóparastörf?

Einhver vinstrihreyfingin ætlar reyndar að búa til 20.000 störf, svo að hún getur nú senn farið að flytja inn erlenda verkamenn á ný, 2.000 manns, af því að atvinnulausir eru ekki "nema" 18.000.

Jón Valur Jensson, 22.4.2009 kl. 02:26

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar réði Sjálfstæðisflokkurinn ferðinni í stóriðjumálum vegna þess að hann gat alltaf notað meirihluta sinn á þingi með Framsóknarflokki í þeim málum ef á þurfti að halda.

Í minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna sem hefur átt líf sitt undir Framsóknarflokknum hefur Framsóknarflokkurinn ráðið ferðinni í stóriðjumálum vegna þess að hann hefur getað hvenær sem hann hefur viljað notað meirihluta sinn á þingi með Sjálfstæðisflokki í þeim málum ef á hefur þurft að halda.

Þegar Kolbrún Halldórsdóttir gaf út yfirlýsingu um stóriðjustopp á fyrsta starfsdegi stjórnarinnar setti formaður Framsóknarflokksins þegar ofan í við hana og lét heyra hver réði ferðinni þar.

Önnur staða verður uppi ef Samfylking og Vg ná hreinum meirihluta. Svo er grænu fylkingunni í Samfylkingunni og liðsauka fólks úr Íslandshreyfingu og Framtíðarlandi fyrir að þakka að stefnuskrár beggja þessara vonandi meirihlutaflokka eru samhljóða í umhverfismálum.

Það breytir stöðunni algerlega frá því sem hún hefur verið.

Ómar Ragnarsson, 22.4.2009 kl. 03:37

4 identicon

En Ómar.....

Ef þú ætlar að gera þig gildan í íslensk stjórnmál verður þú að:

- Hugsa til skamms tíma, ekki langs tíma. Þ.e. koma með kanínur upp úr hattinum til að kjósandinn hafi það gott á morgun en líði mun verr daginn eftir það. En þá kemur þú með enn annað loforð til skamms tíma.

- Nefna óábyrga hluti til að seðja hrædda almúgann svo þeir þori ekki annað en að kjósa þig til að bjarga þeim úr því ástandi sem þú kemur þeim í.

- Vera óhræddur að ganga á auðlindirnar (fiskinn og orkuna) vegna þess að ófæddir Íslendingar hafa ekki kosningarétt og því heimskulegt að höfða til þeirra. Mundu Íslendingar hugsa eingöngu um að grilla og græða - halda veislunni gangandi !!

- Skilja samviskuna og það siðgæði sem foreldrar þínir kenndu þér eftir heima, helst vel læst einhversstaðar niðri í kjallara. Þetta eru tveir hlutir sem eiga eingöngu eftir að þvælast fyrir þér og skila þér færri atkvæðum frá hræddum, skuldsettum almúganum.

- Reyna að hagnast eitthvað á þessu veseni fyrst þú ert að eyða tíma þínum í þetta. Fullt af mönnum þarna úti sem eru tilbúnir að borga þér vel fyrir hermdarverkin og þú gætir e.t.v. keypt þér villu á Spáni þar sem fjölskyldan þín getur slappað af frá hrædda, örvæntingafulla skrílnum á fróni. Enda er nöldrandi, skuldsett fólk hundleiðinlegt og best að skilja það af með Atlantshafinu af og til.

Guðgeir (IP-tala skráð) 22.4.2009 kl. 05:20

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Mér hugnast ekki eftirmæli Frakkakonungsins sem sagði: "Það lafir meðan ég lifi."

Heldur ekki eftirmæli hins íslenska ráðamanns sem sagði við mig fyrir meira en tíu árum að það yrði að halda uppi virkjana- og stóriðjuframkvæmdum stanslaust, - annars kæmi kreppa og atvinnuleysi og svaraði síðan spurningu minni um það, hvað ætti að gera þegar búið væri að virkja allt: "Það verður bara viðfangsefni þeirrar kynslóðar sem þá verður uppi."

Vegna þess að um einkaviðtal var að ræða nefni ég ekki nafn ráðamannsins, enda þarf þess ekki. Hann stefnir þegar í slæm eftirmæli hvort eð er.

Ómar Ragnarsson, 22.4.2009 kl. 09:25

6 identicon

Sjálfstæðisflokkurinn fjarlægist þjóðina á leifturhraða og fyrrum kjósendur Sjálfstæðisflokksins fjarlægjast flokkinn á hraða ljóssins. Aðeins hægfara og íhaldssamir gamlingjar munu kjósa Sjálfstæðisflokkinn í komandi kosningum. Unga fólkið hefur skömm á Sjálfstæðisflokknum sem í augum þeirra er hvort tveggja hlægilegur og hættilegur. Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksin eru örvæntingarfullir og sumir þeirra virðast vera í felum t.d. Frjálshyggju Birgir Ármanns. Guðlaugur FL Group Þór og Illugi Sjóður 9 Gunnars. Einhverjir stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins fara í nafnlausa rógsauglýsinaherferð í örvæntingu sinni. Slík vinnubrögð eru Sjálfstæðisflokknum eingöngu til mikillar minnkunnar. Þarna fer flokkur í tætlum.   

Stefán (IP-tala skráð) 22.4.2009 kl. 10:31

7 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Man ekki betur en nú séu skráðir um 2000 atvinnulausir á landinu. Margir þeirra forsmá þau störf sem eru í boði.

Hverjir eiga að fara í þau nýju störf sem framboðin eru að lofa? Nýir innflytjendur?

Sigurður Hreiðar, 22.4.2009 kl. 11:28

8 Smámynd: Jón Valur Jensson

Mikið er misminni þitt, Sigurður Hreiðar. Atvinnulausir eru yfir 18.000.

Jón Valur Jensson, 22.4.2009 kl. 11:46

9 Smámynd: Jón Sævar Jónsson

Það vita það allir sem vilja vita að ásandið í landinu í dag má að stórum hluta rekja til ónýtrar hagstjórnar samhliða byggingu Kárahnjúkavirkjunar og álversframkvæmdum fyrir austan.

Ætlar Sjálfstæðisflokkurinnað að vera með samskonar hagstjórn ( les óstjórn ) við næstu álversframkvæmdir? Þeir tala ekki um það. Það er ansi skondið að sjá þá vera búna að dusta rykið af vinstrigrýlunni og þeirri meintu óstjórn á fjármálu.

Munurinn er bara sá að sjálfstæðisflkkurinn er búinn að sýna og sanna að hann getur klúðrað fjármálastjórninni. Hinir hafi ekki ennþá fengið tækifæri til þess að sanna það nema í auglýsingun sjálfstæðismanna!

Jón Sævar Jónsson, 22.4.2009 kl. 13:35

10 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég ætla ekki að verja Sjálfstæðisflokkinn.

Jón Valur Jensson, 22.4.2009 kl. 13:44

11 identicon

"Heldur ekki eftirmæli hins íslenska ráðamanns sem sagði við mig fyrir meira en tíu árum að það yrði að halda uppi virkjana- og stóriðjuframkvæmdum stanslaust, - annars kæmi kreppa og atvinnuleysi og svaraði síðan spurningu minni um það, hvað ætti að gera þegar búið væri að virkja allt: "Það verður bara viðfangsefni þeirrar kynslóðar sem þá verður uppi." "

Þetta var einnig stefna flestra ráðstjórnarríkja mið- og austur Evrópu á seinni hluta síðustu aldar. Markmiðið var að hraða allri 'framþróun' til að setja þau lönd á par við lönd vestur Evrópu og BNA. - Halda úti miklum hagvexti.

Allir sem hafa ekið um þessi svæði og talað við innfædda vita afleiðingarnar af þessari stefnu. Það var gengið svo hart gegn náttúrunni og jarðveginum að frábær landsvæði voru skilin eftir í algeri rúst. Enda er þetta óbyggilegasta svæði Evrópu í dag.

Sorglegt.

Guðgeir (IP-tala skráð) 22.4.2009 kl. 15:25

12 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þetta er nú meiri upptalningin í pistlinum hjá þér Ómar minn. Oft er það þannig að í svona upptalningum þarf e.t.v. ekki nema eitt til tvö atriði til að kollvarpa allri heildinni. Í þessari upptalningu hjá þér núna, er hvert einasta atriði rakalaust bull. 

Sorglegt að sjá svona málflutning. 

Gunnar Th. Gunnarsson, 22.4.2009 kl. 15:58

13 Smámynd: corvus corax

Það skiptir engu máli hvort upptalning Ómars sé rétt eða röng, aðalatriðið er að sjálfstæðisflokkurinn er glæpaflokkur, mafía sem hefur unnið leynt og ljóst gegn hagsmunum almennings í landinu í þágu fárra útvalinna flokksdindla og spillingarbjána sem ekkert gott eiga skilið ...ekki einu sinni góð eftirmæli!

corvus corax, 22.4.2009 kl. 18:23

14 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Ómar, það er ekkert trix að tala um afleidd störf. Með því er átt við allskonar þjónustu sem verður til samfara rekstri iðjuvera. Þau glatast ekki, heldur lifa með verinu. Og í þeim sjálfum verða störf fyrir einhver hundruð manns.

Þú ættir að skreppa austur á firði og flytja boðskap sem þennan þar! Og kanna ástandið með tilkomu álversins í Reyðarfirði. Þar ríkir mikil ánægja núna, fullt af fólki í vel launuðum störfum og mórallinn miklu betri en fyrir áratug eða svo. Uppbygging og allskyns gróska.

Ágúst Ásgeirsson, 22.4.2009 kl. 19:38

16 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í samanburði á milli atvinnugreina gengur það ekki að tala bara um afleidd störf hjá einni atvinnugrein en ekki hinum. Öllum störfum fylgja afleidd störf og eigi að bera atvinnugreinar saman verður útkoman bull ef afleiddum störfum er bætt við hverja þeirra.

Gefum okkur dæmi um ímyndað land.

:Þar vinna 2% vinnuaflsins í álverum. Afleidd störf eru 6% vinnuaflsins: Samanlagt: 8%

Í landbúnaði vinna 10% vinnuaflsins. Afleidd störf eru 30% vinnuaflsins. Samanlagt: 40%

Í sjávarútvegi vinna 10% vinnuaflsins. Afleidd störf eru 30% vinnuaflsins. Samanlagt: 40%

Í verslun vinna 10% vinnuaflsins. Afleidd störf eru 30% vinnuaflsins. Samanlagt: 40%

Í heilbrigðisþjónustu vinna 8%. Afleidd störf eru 24%. Samanlagt: 32%

Í menntakerfinu vinna 15%. Afleidd störf eru 45%. Samanlagt: 60%.

Við samgöngur vinna 10%. Afleidd störf eru 30% Samanlagt: 40%

Í ferðaþjónustu vinna 15%. Afleidd störf eru 45% Samanlagt: 60%.

Í opinberri þjónustur vinna 20% Afleidd störf eru 60%. Samanlegt: 80%.

Í ofangreindum greinum vinna 100%. AFleidd störf eru 300%. Samanlagt 400%.

Ómar Ragnarsson, 23.4.2009 kl. 00:41

17 Smámynd: Lárus Vilhjálmsson

Gott innlegg hjá þér Ómar og til viðbótar þessum 6000 störfum í áliðnaðinum ætla sjálfstæðismenn að búa til önnur 14.000. Það eru líklega götusóparastörfin sem Jón Valur talar um.

Þessi blekkingarleikur með 6000 störf í uppbyggingu áliðnaðarins er líka forkastanlegur. Norðurál fær ekki neina lánafyrirgreiðslu á næstunni fyrir Helguvík og ALCOA hefur sett allt í frost á Bakka. Áframhaldandi lækkun álverðs er fyrirsjáanleg fram til 2010 eða 2011 og stór spurning hvað Alcoa og Century Aluminum þola lengi við. Svo væri fróðlegt að sjá Gunnar rök fyrir bulli þínu um upptalningu Ómars.     

Lárus Vilhjálmsson, 23.4.2009 kl. 12:57

18 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"En þetta er bara hluti af dæminu. Sjálfstæðisflokkurinn greinir ekki frá því að þegar framkvæmdunum lýkur, verði 6000 manns atvinnulausir".  Þetta er villandi fullyrðing. Það er verið að tala um þetta sem kærkomin störf í vandræðaástandi. Þegar framkvæmdunum líkur verður ástandið væntanlega annað. Það er mikill munur á því að hafa 6000 manns á atvinnuleyssisbótum eða hafa þá í fullri vinnu sem skapar þjóðfélaginu tekjur en ekki gjöld.

"Sjálfstæðisflokkurinn lætur eins og auðvelt verði að fá lánsfjármagn fyrir þessi verkefni á sama tíma og álverum er lokað erlendis vegna þess að þar er orkan miklu dýrari en hér". Alrangt. Sjálfstæðisflokkurinn hefur hvergi talað um að auðvelt sé að fá fjármagn. Ástæðan fyrir lokunum erlendis er að mörg álveranna eru orðin úrelt og álfyrirtækin byggja ekki ný álver nema gera langtíma orkukaupasamninga sem ekki liggja á lausu víðast hvar á Vesturlöndum. Vissulega er raforkuverð lágt hér (reyndar í meðaltali OECD ríkja) en það er einmitt gæfa okkar að eiga hreina orku og getað boðið hana á vel samkeppnishæfu verði við keppinauta okkar.

"Sjálfstæðisflokkurinn lætur eins og mikill áhugi og uppgangur sé í kringum ný álver á sama tíma og álverð hrynur niður úr öllu valdi, birgðir hlaðast upp og orkufyrirtækin og álfyrirtækin sjálf stórtapa og eru á hvínandi kúpunni". Hreinar ýkjur. Væri fróðlegt að sjá heimildir um þessar fullyrðingar sjálfstæðismanna. Samkvæmt alþjóðlegum spám mun álverð verða komið í viðunandi horf um mitt ár 2011. Álverðið í dag er þó hærra en árin 2001-2004, en samningurinn við Alcoa var undirritaður 15. mars 2003. Álverð hefur þó heldur hækkað sl. 3 mánuði og er nú um 1.400 $ tonnið. Álverð hefur alla tíð sveiflast mikið, sjá HÉR  , en sömu sögu er að segja um alla hrávöru. Í heimskreppunni sem nú er, ( andstæðingar Sjálfstæðisflokksinns reyna að telja fólki trú um að hún sé flokknum að kenna) sætti ekki að koma neinum á óvart að verðfall sé á framleiðsluafurðum.

"Sjálfstæðisflokkurinn getur þess ekki að hvert starf í álveri kostar 150 milljónir króna og er langdýrasta starf sem hægt er að skapa". Hvers vegna ætti Sjálfstæðisflokkurinn að tala um hvað fjárfestingar sem koma ríkissjóði ekki beint við, þar sem um helmingur fjármagnsins (og aðal áhættufjármagnið) kemur úr vösum erlendra aðila og hinn helmingurinn tekur ekki krónu af framkvæmdafé ríkissjóðs? Fjárfestingar orkufyrirtækja miðast við að arður sé af fjárfestingunum. Ekkert nema gott um það að segja og fullyrðingar um annað standast ekki nánari skoðun.

"Sjálfstæðisflokkurinn getur þess ekki að álframleiðsla er mesta orkubruðl sem hugsanlegt er". Rangt. Ál er í raun lang umhverfisvænsti málmurinn. Vissulega er frumvinnslan orkufrek en enginn málmur er endurunninn í eins miklum mæli og ál. Um 90% alls áls sem framleitt hefur verið í heiminum frá upphafi er enn í notkun og ál er 100% endurvinnanlegt án þess að tapa gæðum og með litlum orkukostnaði.Járn og stál er t.d. ekki nema 20-40% endurvinnanlegt og tapar auk þess miklum gæðum við endurvinnslu. Ál í farartækjum minnkar þyngd þeirra og er þar með orkusparandi.

"Sjálfstæðisflokkurinn lofar því að álver muni leysa atvinnuvanda Íslendinga þótt í sex risaálverum sem krefðust allrar orku íslands og eyðileggingu allra helstu náttúruverðmæta landsins myndu aðeins vinna 2% af vinnuafli landsins". Tóm vitleysa. Áhugi t.d. Reyðfirðinga byggðist ekki á því að þar væri atvinnleysi, heldur vantaði fjölbreytt tækifæri fyrir fólk með fjölbreytta menntun, auk þess sem fólksflótta var hrundið með álverinu. Þetta með "...eyðileggingu helstu náttúruverðmæta landsins..." , er skoðun öfga umhverfisverndarsinna, en ekki þjóðarinnar. Hins vegar hefur öfgafólkinu stundum tekist tímabundið að blekkja fólk til fylgilags við skoðanir sínar með ýkjum og bulli sem standast ekki nánar skoðun.

"Sjálfstæðisflokkurinn getur þess ekki hvar bíla- og skipaflotinn eigi að fá orku þegar álverin verða búin að sópa henni allri til sín" Hræðsluáróður og ýkjur.

"Sjálfstæðisflokkurinn getur þess ekki að þrefalt meira er pumpað upp úr háhitasvæðunum en þau afkasta til langframa og að þau muni aðeins endast að meðaltali í nokkra áratugi". Ýkjur. Stöðugt er verið að þróa leiðir til sjálfbærni og mengunarvarna, en það verður ekki gert nema að virkja.

"Kynslóðir framtíðarinnar munu undrast að þetta fyrirbæri, stóriðjuflokkar, skuli hafa verið til árið 2009" Eru til heimildir fyrir þessu?

Gunnar Th. Gunnarsson, 23.4.2009 kl. 14:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband