Fífill fegri. Draumur Héðins.

Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur mega muna sinn fífil fegri. Í kosningunum 1927 fengu Íhaldsflokkur og Frjálslyndi flokkurinn rúmlega 50% atkvæða en Framsóknarflokkur og Alþýðuflokkur fengu þó meirihluta þingmanna og í kjölfarið kom fyrsta vinstri stjórnin á Íslandi, því að Framsóknarflokkurinn var þá vinstra megin við miðju miðað við það litróf vinstri/hægri sem þá ríkti.

Sjálfstæðisflokkurinn hlaut tæplega 50% atkvæða 1933 og Framsóknarflokkurinn var allar götur frá þessum tímum og fram eftir öldinni með meira en 20% atkvæða og komst í 28% 1967. 

Hvað eftir annað fengu þessir tveir flokkar samanlagt um tvo þriðju atkvæða en samkvæmt skoðanakönnunum gætu þessir tveir flokkar fengið um 34-37% samanlagt núna en það er aðeins helmingur af því fylgi sem þeir fengu lengst af síðustu öld. 

Talað var um afhroð þessara flokka í kosningunum 1978 en þó fengu þeir um 55% atkvæða þá og fjögurra þingmanna meirihluta. 

Þeir tveir flokkar sem nú geta staðið fyrir straumhvörfum í íslenskum stjórnmálum, Samfylking og Vinstri grænir vísa báðir til hins "skandinavíska módels" sem Jafnaðarmannaflokkarnir á Norðurlöndum innleiddu snemma á síðustu öld. 

Meirihluti Sf og Vg myndi þýða að það sem gerðist hjá norrænu frændþjóðunum fyrir meira en 80 árum er fyrst að gerast hér núna. 

Þetta er að vísu dálítil einföldun. Sem dæmi má nefna að í ríkisstjórnunum 1944-47 og 1959-71 stóð Sjálfstæðisflokkurinn að stjórnarsamstarfi sem innleiddi baráttumál jafnaðarmanna, almannatryggingar í Nýsköpunarstjórninni og félagslegar íbúðir og öfluga lífeyrissjóðir í samvinnu við verkalýðshreyfinguna á síðara tímabilinu. 

Framsóknarflokkurinn stóð að vinstri stjórnum 1934-39, 1956-58, 1971-74, 1978-79 og 1988-1991 sem mátti líkja við jafnaðarmannastjórnirnar á Norðurlöndum.

En verði meirihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna að veruleika eftir þessar kosningar hefur 70 ára gamall draumur Héðins Valdimarssonar orðið að veruleika. 


mbl.is Bjarni Ben kaus fyrstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Smá söguskoðun Ómar: Í mínum ranni var Héðinn ekki sameiningarmaður. Skoðum söguna, menn deildu um leiðir:

Hérðinn Valdimarsson var formaður Verkamannafélagsins Dagsbrúnar í fjögur skipti, þingmaður fyrir Alþýðuflokkinn frá 1926 en átti síðan þátt í stofnun Sameiningarflokks alþýðu - Sósíalistaflokksins 1938 ásamt Kommúnistaflokknum.

Jón Baldvinsson var forseti Alþýðusambands
Íslands og formaður Alþýðuflokksins árin 1916 – 1938.

Klofningur

Margoft í sögu Alþýðuflokksins varð klofningur, bæði til vinstri eða í kjölfar sameiningartilrauna flokka á vinstri vængnum og eins í tengslum við tiltekin málefni. Kommúnistaflokkur Íslands klofnaði út úr honum árið 1930. Árið 1937 var Héðinn Valdimarsson rekinn úr flokknum fyrir að reyna að stofna til samfylkingar með Kommúnistum í trássi við samþykktir flokksins. Það ár stofnuðu Héðinn og Kommúnistar Sameiningarflokk Alþýðu - Sósíalistaflokkinn. (Wikipetia)

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 25.4.2009 kl. 13:44

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þú segir sjálfur: "...Héðinn...rekinn úr flokknum til að reyna að stofna til samfylkingar með Kommúnistum..."

Héðinn gekk seinna úr Sósíalistaflokknum vegna ósættis um afstöðuna við innrás Sovétmanna í Finnland og átti ekki afturkvæmt í stjórnmál eftir að tilraunir hans til samfylkingar höfðu mistekist.

Tæknileg atriði varðandi samþykktir á fundum skipta ekki höfuðmáli heldur það, hvað menn vildu.

Hvað Héðin snerti var það morgunljóst: Hann vildi samfylkja sósíalísku flokkunum og var að því leyti til ekki með ólíka hugsun og var að baki stofnun Samfylkingarinnar.

Þá klofnaði hins vegar Alþýðubandalagið en ekki Alþýðuflokkurinn, aldrei þessu vant.

Nú stefnir í að Samfylking og Vinstrigrænir myndi meirihlutastjórn. Það hefði verið óhugsandi fyrir tíu árum, ekki aðeins vegna þess að þessir tveir flokkar hefðu ekki haft meirihluta, heldur líka vegna sárinda út af klofningnum.

1944 voru liðin sjö ár frá klofningi Alþýðuflokksins og þá mynduðu sósíalisku flokkarnir tveir ríkisstjórn, en vegna þess að þeir voru langt frá því að hafa hreinan meirihluta, þurftu þeir Sjálfstæðisflokkinn með sér.

Héðinn sá að sundraðir gætu jafnaðarmenn / sósíalistar (Alþýðuflokkurinn var sósíaldemókratiskur f flokkur) aldrei náð nægu fylgi og myndað meirihlutastjórn nema að samstaða skapaðist í breiðfylkingu.

Afi minn Þorfinnur var Héðinsmaður og einlægur sameiningarmaður eins og Héðinn, - það verður ekki af þeim skafið. Það hef ég frá fyrstu hendi og fer ekki ofan af því.

En tilraunin mistókst því þeir voru of bláeygir gagnvart algerri Moskuþjónkun kommanna, sem höfðu fengið um það boð frá Moskvuvaldinu að lokka krata til samstarfs hvar sem því yrði við komið til að hamla gegn uppgangi fasismans.

Stjórnmál eru nefnilega tvennt:

1. Hugsjónir og barátta fyrir þeim. Hvort tveggja hafði Héðinn í ríkum mæli.

2. List hins mögulega. Héðinn og afi minn klikkuðu illilega á því síðara.

Ómar Ragnarsson, 25.4.2009 kl. 15:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband